Fimmtudagur 11.07.2013 - 21:13 - 5 ummæli

Misskilningur um norsku aðferðina

Þess misskilnings hefur orðið vart í fjöl- og samfélagsmiðlum að bekkurinn sem lögreglumaður nokkur barði máttlausri konu svolítið utan í, við skyldustörf, hafi ekki átt að vera þarna, eða að það hafi a.m.k. verið óheppilegt að hann skyldi vera að þvælast þarna fyrir.
Þetta er kolrangt. Samkvæmt norsku aðferðinni á einmitt fyrst að slengja svona bjargarlausu fólki á bakið á nærliggjandi stálhandrið, til að mýkja það áður en það er handjárnað.  Þetta liggur reyndar í augum uppi ef maður hugsar málið, því aldrei sést nokkur manneskja sitja á þessum bekkjum, af skiljanlegum ástæðum.  Bekkjunum var komið þarna fyrir eftir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að taka upp hina margreyndu og þaulprófuðu norsku aðferð.  Litlum sögum fer þó af heilsufari þeirra óbreyttu borgara sem notaðir voru í tilraunaskyni áður en þessi frábæra aðferð fékk endanlega gæðavottun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Rangur Misskilningur

 • Viðurstyggileg mannfyrirlitning og hroki sem birtist í þessari handtöku. Konan er vel innan við 60 kíló en samt þarf þessi tuddi að meiða hana af ásettu ráði (skella henni í götuna og leggjast á hnjánum yfir hrygg og háls). Ekki vildi ég vera gift svona rudda.

 • Hjalti Ágústsson

  Það er dálítið fyndið að fylgjast með þessari umræðu. „Norska aðferðin“ ku vera viðurkennd aðferð við handtökur. Gott og vel. Eru engar aðrar viðurkenndar aðferðir til? Er þetta eina aðferðin sem má nota við að koma einstakling í vörslu lögregu? Hvað ef viðkomandi er til í að koma sjálfur, er honum þá sagt að hinkra meðan „norsku aðferðinni“ er beitt, svo allt sé nú eins og það á að vera?
  Þetta hlýtur á endanum að vera spurning um hvaða aðferð er beitt, ekki hvort aðferðin sem beitt var geti á einhvern hátt og í einhverjum aðstæðum talist viðurkennd. Þetta var ekki rétta aðferðin að beita í þessum aðstæðum, einfalt mál.

 • Hlynur Gíslason

  Nú veit ég ekki hvað þessi pistill á að skilja eftir sig annað en hroðalega misheppnað háð á lögregluna og störf hennar. Sýnir miklu fremur biturð og heift þína í garð lögreglunnar en útlistun á störfum hennar. Þvílíkur málflutningur að láta eins og það sé vinnuregla að fólki sé slengt utan í allt sem á vegi þess verður sé það handtekið. Ég stórefa að eftirspurn sé eftir svona dæmalausu rugli hér á Eyjunni.

 • Brynjar Jóhannsson

  Hlynur. Þarna er Einar einfaldlega (með sinni kaldhæðnislegu aðferð þó) að benda á augljósan valdslegann mismun milli tveggja aðila á lífsins vegi. Öðrum ber að sjá til þess að fólki hagi sér innan ákveðins ramma i daglegu lifi í umgengni við eigur annarra og samskipti við fólk. Hinn einfaldlega er í ölvunarástandi sem losar hann frá öllum heimsins hömlum.

  Fólk sem hrækir framan í fólk, mun lenda harkalega á veggjum lífsins. Hvort sem það er Guð eða bara karma sem sér til þess. Þá mun það gerast fyrr eða síðar. Það er staðreynd. En á þetta sama fólk að fá nánast barsmíðar frá lögregluyfirvöldum fyrir svona athæfi?

  Nei.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur