Fimmtudagur 27.11.2014 - 10:15 - 3 ummæli

Spilling bak við leynd í Stjórnarráðinu?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í tveimur greinum síðustu daga (hér og hér) hef ég sagt frá tilraunum mínum til að fá upplýsingar um á hvaða forsendum stjórn Rekstrarfélags stjórnarráðsins tók þá ákvörðun að segja upp sautján ræstingakonum, sem þrifið hafa hin ýmsu ráðuneyti í mörg ár, og bjóða verkið út. Eftir meira en tveggja vikna þref við Sverri Jónsson, stjórnarformann félagsins, þar sem hann hefur borið við ómálefnalegum ástæðum fyrir að afhenda ekki umrædd gögn umyrðalaust, fékk ég það endanlega svar í gær að hann neitaði að afhenda þær upplýsingar sem sagðar eru liggja til grundvallar þessari ákvörðun.

Í ljósi þess hversu loðin svör Sverrir hefur gefið og hversu mikil leynd hvílir yfir þeim gögnum sem staðhæft er að ákvörðunin byggi á virðist full ástæða til að ætla að hér sé ekki allt með felldu.

Í stuttu máli snýst þetta um það skjal sem nefnt er í eftirfarandi broti úr fundargerð stjórnar félagsins frá 9. apríl í ár sem og upplýsingarnar í því sem Sverrir strikaði út áður en hann sendi mér þetta (þar sem [XXX] merkir að útstrikaður hefur verið (mislangur) texti):

„4. Útboð ræstinga
GHK lagði fram skjal er innihélt lýsingu á viðskiptafæri útboðs á ræstingu. Fram kom að ávinningur væri metin 15-20 milljónir árlega og að það væri sennileg vanmat á ávinningnum. [XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXX] Rekstrarfélagið og ANR [Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið] munu fara í heimsókn til [XX] til að fá frekari upplýsingar. Samþykkt var að halda áfram gerð útboðslýsingar og stefnt skuli á útboð í haust.“

Svo virðist sem Guðmundur H. Kjærnested (GHK), framkvæmdastjóri Rekstrarfélagsins, hafi lagt fram skjal sem á að liggja til grundvallar þeirri niðurstöðu að það myndi spara ríkinu 15-20 milljónir á ári að reka ræstingakonurnar og bjóða verkið út. Sverrir fékkst hins vegar ekki til að segja mér hvers konar skjal þetta væri eða hver hefði samið það, en svo virðist af því sem Sverrir sagði að þetta skjal hafi verið samið af utanaðkomandi einkafyrirtæki.

Það lítur því út fyrir að Rekstrarfélagið hafi fengið einkafyrirtæki til að gera fyrir sig áætlun um mögulegan ávinning af því að reka ræstingakonurnar og bjóða verkið út, en að nafn þess fyrirtækis þoli ekki dagsins ljós, né heldur hvað þetta fyrirtæki hafi reiknað út og hvernig. Ekki heldur er hægt að fá að vita hvort þetta er fyrirtæki sem hefur sjálft hagsmuni af því að verkið verði boðið út.

Miðað við undanbrögð Sverris, leyndina varðandi þetta fyrirtæki og útreikninga þess, og það hversu algengt er á Íslandi að stjórnsýslan sé notuð til að hygla einkavinum þeirra sem með völdin fara vaknar hér enn einu sinni sú spurning hvort eðlilega sé að málum staðið. Þeir sem vita svarið við því neita að tala, þótt hlutverk þeirra sé, eða ætti að vera, að starfa fyrir hagsmuni almennings og ekki aðra …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Haukur Kristinsson

    Þetta gengur ekki. Þessi möppudýr stjórnsýslunnar eru ekki embættismenn þjóðarinnar, heldur fulltrúar flokks sem heldur sig ríki í ríkinu.

    Eins og Stasi-Styrmir sem njósnaði um samlanda sína, jafnvel kunningja, en ekki fyrir ríkið, þjóðina, heldur fyrir FLokkinn.

    Við erum tugi ára á eftir þróuðum löndum.

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Vel gert Einar. Nú þarf stéttarfélagið að leggjast á árarnar með þér.

  • Helgi J Hauksson

    Heufr tekist að fá frekari svör um þetta? Hverið verið látið reyna á úrskurðanefnd upplýsingamála?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur