Maður spilar of háa tónlist í íbúð sinni um nótt, en angrar að öðru leyti engan mann. Nágranni hringir í lögreglu, kvartar yfir hávaðanum og segir hann (ranglega) koma frá manninum M. Nágranninn segir líka, ranglega, að heyrst hafi skothvellur og telur, einnig ranglega og án nokkurra trúverðugra skýringa, að M hafi skotið sjálfan sig til bana. Þetta verður til þess að lögregla mætir á staðinn og drepur manninn S.
Síðastliðinn föstudag
birti ríkissaksóknari skýrslu um rannsókn sína á því þegar sérsveit ríkislögreglustjóra drap mann í Hraunbæ þann 2. desember í fyrra. (Skýrslan sjálf er
hér.) Því miður hafa fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, lítið fjallað um þetta mál með öðrum hætti en að birta yfirlýsingar yfirvalda, sem hafa verið af afar skornum skammti. Auk þess hefur nú komið í ljós að mikilvægum upplýsingum um atburðarásina var leynt, t.d. þegar lögregla hélt blaðamannafund um málið og fegraði þar framgöngu sína. Þótt skýrsla ríkissaksóknara varpi ljósi á sumar hliðar málsins sem áður voru óljósar sýnir skýrslan að rannsókninni virðist ekki hafa verið ætlað að leiða í ljós allan sannleikann í málinu, og alls ekki að greina ástæður þeirra augljósu mistaka lögreglunnar sem höfðu svo hryllilegar afleiðingar.
[Viðbót kl. 15:08: Það virðist vera misskilningur af minni hálfu sem kemur fram í eftirfarandi málsgrein, að ríkissaksóknari hafi með þessu ákveðið fyrirfram að enginn lögreglumaður gæti verið sekur um refsivert athæfi.]
Í upphafi skýrslunnar er sagt frá því að lögreglumenn ríkislögreglustjóra (sem sérsveitin heyrir beint undir) hafi verið yfirheyrðir sem vitni, og þeim bent á að vitni í slikri stöðu ætti ekki að svara neinum spurningum ef í svarinu gæti „falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni.“ Því virðist ríkissaksóknari hafa ákveðið í upphafi að enginn yrði yfirheyrður sem grunaður um mögulega refsiverðan verknað, en ekki er útskýrt á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin. Auk þess lét ríkissaksóknari lögreglu framkvæma þessa rannsókn á aðgerðum lögreglu að stórum hluta, sem rýrir trúverðugleika hennar verulega.
Upphaf málsins er að nágranni mannsins sem skotinn var til bana hefur samband við lögreglu og kvartar undan tónlistarhávaða. Nágranninn nafngreinir manninn ranglega og lögreglan áttaði sig ekki á þeim mistökum fyrr en löngu síðar, og lögreglumenn á vettvangi vissu ekki af því fyrr en þeir voru að brjótast inn í íbúðina, og jafnvel þá var það ekki lögreglan sjálf sem lét þeim í té þær upplýsingar.
Nágranninn segist hafa heyrt skothvell, sem var rangt, því samkvæmt rannsókn lögreglu var engum skotum hleypt af í íbúðinni áður en hún kom á vettvang. En vegna þessarar röngu staðhæfingar nágrannans er ákveðið að kalla til sérsveitina, sem vopnast og tekur sér stöðu við íbúðardyrnar. Nágranninn (sem af óútskýrðum ástæðum er tilgreint að hafi gegnt herþjónustu) taldi líka að umræddur maður hefði skotið sjálfan sig. Ekki er útskýrt af hverju lögreglan taldi álit nágrannans áreiðanlegt, en svo mikið er víst að hún gekk út frá því sem vísu að hann hefði giskað rétt (þótt síðar hafi komið í ljós að hann hafði rangt fyrir sér, í báðum atriðum). Sú ranga ályktun lögreglu að nágranninn hefði rétt fyrir sér hratt hins vegar af stað atburðarás sem trúlega hefði aldrei þurft að verða, en endaði með því að lögreglan skaut manninn til bana.
Lögregla ákvað sem sagt að brjótast inn í íbúðina, og fékk til þess lásasmið utan úr bæ, en sagði honum ekki frá því að inni í íbúðinni væri maður sem talið væri að væri vopnaður og hefði hleypt af skoti. Lásasmiðurinn var látinn vinna verk sitt algerlega óvarinn, og lögreglan á staðnum var ekki varin að fullu eins og hún hefði átt að vera, því sá lögreglumaður sem stóð næst dyrunum var ekki með skotheldan hjálm. Þegar dyrnar voru svo opnaðar skaut íbúinn á lögreglumann fyrir utan þær, en hann sakaði ekki. Hefði það skot lent á lásasmiðnum en ekki skildi lögreglumannsins er trúlegt að lögreglan hefði nú líf lásasmiðsins einnig á samviskunni.
Augljóst er að lögreglan stofnaði lífi lásasmiðsins í hættu, og að það var gert á fráleitum forsendum, það er að segja getgátum nágrannans einum saman. Samt útskýrir ríkissaksóknari hvergi af hverju hér er ekki um að ræða refsivert gáleysi. Hvergi í skýrslunni er heldur rætt um ábyrgð stjórnenda aðgerðarinnar eða annarra yfirmanna í lögreglunni sem ábyrgð ættu að bera.
Ekki var reynt að hafa samband við ættingja mannsins eða aðra þá sem hugsanlega hefðu getað náð sambandi við hann, til dæmis gegnum síma, enda fjalla verklagsreglur sérsveitar og lögreglu ekki um slíkt, samkvæmt skýrslu ríkissaksóknara, en hann gerir engar athugasemdir við skortinn á slíkum reglum. Lögreglan bar fyrir sig að stuttur tími hefði verið til stefnu þar til „fólk færi til vinnu, börn í skóla og leikskóla o.s.frv.“ Ekki er útskýrt af hverju ekki var til dæmis hægt að senda lögreglumenn í alla stigaganga innan skotfæris við íbúð mannsins, til að koma í veg fyrir að íbúar sýndu sig utandyra.
Ríkissaksóknari segir líka í skýrslunni:
„Ekki verður séð að forsvaranlegt hefði verið að hafa samband við ættingja S og blanda þeim í aðgerðir lögreglu, sem voru hættulegar, auk þess sem ekki er gengið að upplýsingum um ættingja um miðja nótt, hvað þá að lögreglan geti vitað hvernig sambandi á milli fólks/ættingja er háttað og geti þannig metið hvort rétt sé að kalla þá til aðstoðar.“
Það er fáránlegt að halda fram að ekki hefði verið hægt að hafa uppi á ættingjum mannsins, og fráleitt að gefa sér að enginn þeirra hefði getað fengið hann til að svara í síma, því ríkissaksóknari ákveður hér að lögreglan hafi lög að mæla án þess að færa nokkur rök fyrir þessari sérkennilegu afstöðu.
Þegar hér var komið sögu var ákveðið að reyna að svæla manninn út úr íbúðinni með því að skjóta inn í hana gashylkjum, sem ættu að neyða hann til að yfirgefa íbúðina. Rétt er að hafa í huga að þegar það var gert hafði maðurinn engum skotum hleypt af nema þegar brotist var inn í íbúðina. Hann hafði sem sagt engan áreitt og ekki reynt að skaða neinn nema þegar brotist var inn í íbúðina, og ekkert sem bendir til að hann hafi haft slikt í hyggju.
Sú ákvörðun að beita gasi til að svæla manninn út er illskiljanleg, því maðurinn hafði áður brugðist við innrás í íbúðina með því að skjóta, og því varð að telja afar líklegt að hann myndi skjóta á lögreglu fyrir utan íbúðina ef hann léti svælast út úr henni. Ljóst var líka að ef það gerðist myndi lögreglan drepa hann. Lögreglan setti því vísvitandi af stað atburðarás sem yfirgnæfandi líkur voru á að myndi enda með því að manninum yrði banað, þótt hann hefði fram að því engum ógnað eða gert sig líklegan til að skjóta, nema þegar beinlínis var ráðist á hann. Aldrei hefur verið útskýrt með skynsamlegum hætti af hverju lögregla beið ekki átekta, enda ætti hún að þekkja ótal sögur erlendis frá þar sem umsátur af þessu tagi stendur dögum saman.
Aðgerðinni lauk svo með því að lögregla braust inn í íbúðina eftir að gríðarlegum fjölda gashylkja hafði verið skotið inn um glugga og dyr, án þess að íbúinn kæmi út. Þegar þangað var komið skaut maðurinn aftur gegn lögreglu. Lögreglan sagði, samkvæmt ríkissaksóknara, að hún hefði ekki getað hörfað út úr íbúðinni, þótt ekki sé útskýrt af hverju, og því „neyddist“ hún til að skjóta manninn, og bana honum þannig.
Ljóst er að lögreglan hóf vopnaðar aðgerðir sínar á fölskum forsendum, sem hún reyndi ekki að sannreyna með nokkrum hætti.
Ljóst er að lögreglan setti lásasmiðinn í bráða lífshættu, og að fyrir því var engin afsökun.
Ljóst er að lögreglan réðst inn í íbúð manns sem engum hafði ógnað, sem leiddi til þess að hann skaut á lögreglumennina.
Ljóst er að lögreglan setti af stað, í stað þess að bíða átekta meðan maðurinn bærði ekki á sér og ógnaði engum, atburðarás sem nánast öruggt var að myndi leiða til þess að hún banaði honum.
Í stuttu máli er ljóst að lögreglan gerði mörg mistök, að sérsveitin ræður alls ekki við aðstæður af þessu tagi, og að það var hún sem þvingaði fram atburðarás sem leiddi til þess að hún drap mann, sem engum hafði ógnað áður en lögreglan kom til sögunnar. Ljóst er einnig að yfirvöld, þar á meðal ríkissaksóknari, hafa engan áhuga á að upplýsa málið til fulls, og engan áhuga á að læra af mistökunum, bara að breiða yfir þau mistök sem höfðu svo hræðilegar afleiðingar. Ljóst er því að ekkert verður gert til að koma í veg fyrir að harmleikur af þessu tagi endurtaki sig, því mikilvægara virðist vera að hvítþvo yfirvöld en að tryggja öryggi borgaranna.(Í útvarpsþættinum Harmageddon var
fjallað um þetta mál í fyrradag)