Föstudagur 5.10.2012 - 12:25 - 8 ummæli

Georg Bjarnfreðarson og OR-skýrslan

to borgarstjori, Kristín

Sæl Kristín

Takk fyrir póstinn.  Ég er svolítið svekktur yfir því að Georg skuli hafa tekist að læsa Jón inni á klósetti og láta svo starfsmann á plani senda mér „svar“ með engum viðbrögðum við því sem ég var að reyna að benda á, heldur bara úrklippu úr afsökunarsafninu sem hann lærði utanað í fimmta meistaranáminu.  Öllum sem hafa fylgst með afstöðu Georgs Bjarnfreðarsonar til lífs og starfs ætti að vera ljóst að það er ekki viðunandi framkoma sem hér er lýst varðandi afhendingu skýrslunnar.Það er alveg sérstaklega nöturlegt að Georg skuli hafa pínt þig til að tala um að niðurstöðurnar verði kynntar „eigendum“ fyrst, en almenningi miklu síðar. Eigendur Orkuveitunnar eru almenningur.  Þessi þarna sami almenningur og hefur þurft, og mun þurfa í mörg ár enn, að borga dýru verði klúðrið og spillinguna sem er rót þess að verið er að skrifa umrædda skýrslu.
Það er óviðunandi að Georg sé að leika eiganda bensínstöðvarinnar og neita hinum raunverulegu eigendum um afgreiðslu, með landsþekktum fruntaskap sínum,  Ekki bætir úr skák að hann skuli reyna að ljúga upp einhverri þvælu um „eigendanefnd“ (er það ekki bara stjórn starfsmannasjóðsins, sem á í raun ekkert í stöðinni?).
Ég vona að þú getir, fyrir lok dagvaktar í dag, laumast til að sleppa Jóni út af klósettinu og læst Georg þar inni í staðinn.  Ég er viss um að þá muni Jón birta skýrsluna okkur sem eigum stöðina, þótt það gleymist yfirleitt nema þegar á að borga fyrir tapið sem einlægt hefur orðið á vöktum Georgs, vegna klikkaðrar framkomu hans gagnvart viðskiptavinum og starfsmönnum.
Ég bið þig svo að votta Jóni samúð mína þegar hann sleppur úr prísundinni, og ég mun ekki áfellast hann fyrir að löðrunga Georg duglega, þótt það sé kannski ekki alveg í samræmi við reglurnar.
Bestu kveðjur,
Einar

2012/10/5 Kristín Vilhjálmsdóttir <kristin.vilhjalmsdottir@reykjavik.is>

Tilvísun í mál: R11040015

Sæll Einar.

Bestu þakkir fyrir erindi þitt til borgarstjóra þar sem farið er fram á að skýrsla um úttekt á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) verði birt almenningi strax. 

Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar eigendum á auka eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur kl. 15.00 miðvikudaginn 10. október nk. og í beinu framhaldi af þeim fundi verður boðað til kynningarfundar með borgar- og bæjarfulltrúum og stjórn OR þar sem úttektarnefndin mun gera grein fyrir niðurstöðum sínum og skýrslan afhent. Strax að loknum þeim fundi verður boðað til blaðamannafundar þar sem fjölmiðlum gefst kostur á að spyrja nefndarmenn og fulltrúa af eigendafundi út í niðurstöðurnar og skýrslan mun liggja frammi. 

Borgarstjóri sendir þér sínar bestu kveðjur með þökk fyrir fyrirspurnina. 

Með góðri kveðju,

Kristín Vilhjálmsdóttir
verkefnastjóri

Skrifstofa borgarstjóra – Mayor’s Office
Ráðhús Reykjavíkur – City Hall
Tjarnargata 11
101 Reykjavík
Sími/Tel. +354 411 4507
Fax. +354 411 4599
Netfang/E-mail: kristin.vilhjalmsdottir@reykjavik.is
Heimasíða/Homepage: http://www.reykjavik.is
__________________________________
Reglur um trúnað í tölvupóstsamskiptum: http://www.reykjavik.is/trunadur
Leiddu hugann að umhverfinu áður en þú prentar út þennan tölvupóst. Ef nauðsynlega þarf að prenta, prentaðu þá báðar hliðar og í svarthvítu.

From: einar.steingrimsson@gmail.com [mailto:einar.steingrimsson@gmail.com] Fyrir hönd Einar Steingrimsson
Sent: 3. október 2012 22:43
To: Borgarstjórinn í Reykjavík
Subject: Skýrslan um úttekt á OR

Til borgarstjóra

Hér með skora ég á þig að birta samstundis skýrsluna sem sagt er frá í þessari frétt:  http://visir.is/titringur-hja-reykjavikurborg-vegna-skyrslu-um-or/article/2012121009576

Orkuveitan er í eigu almennings.  Stjórnir sveitarfélaganna sem hún tilheyrir eiga auðvitað að þjóna hagsmunum almennings, og engum öðrum hagsmunum.  Þeir sem fara með völdin í þessum sveitarfélögum, eins og þú, hafa alls engan siðferðilegan rétt til að fara með þessa skýrslu eins og hún sé þeirra gagn, en ekki almennings.

Ég veit að það hefur verið erfitt að koma inn þeirri hugmynd hjá valdafólki á Íslandi að það eigi ekki að sitja í valdastöðum til að þjóna sjálfu sér og flokkssystkinum sínum, heldur almenningi.  Ég vona að þú brjótir þá vondu hefð, og birtir þessa skýrslu strax.

Bestu kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.10.2012 - 11:32 - 1 ummæli

Á Jón Gnarr Orkuveitu Reykjavíkur?

Það var verið að klára skýrslu um úttekt á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur.  Orkuveitan fór úr því að vera eitt stöndugasta fyrirtæki landsins, með algerlega pottþéttar og fyrirsjáanlegar tekjur, í að verða nánast gjaldþrota.  Orkuveitan er enn stórskuldug, sem meðal annars hefur leitt til gríðarlegra hækkana á orkuverði til almennings.  Í þessari frétt segir um skýrsluna:
„Skýrsla úttektarnefndarinnar verður fyrst kynnt eigendum Orkuveitunnar, þ.e. Reykjavíkurborg, sem á 95 prósent hlut, og síðan Akraneskaupstað og Borgarbyggð. Eftir það verður skýrslan kynnt almenningi.“
Orkuveitan er fyrirtæki í eigu almennings, sem ekki bara stendur straum af öllum kostnaði við rekstur hennar, heldur hefur hann líka þurft að axla skuldirnar gríðarlegu sem virðast stafa af því að forráðamenn fyrirtækisins gerðu tóma vitleysu á nokkurra ára tímabili.  Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð eru stofnanir sem eiga að starfa eingöngu í þágu þess almennings sem býr á þessum stöðum.  Hvernig í ósköpunum stendur á því að umrædd skýrsla er ekki strax kynnt hinum raunverulegu eigendum, þ.e.a.s. almenningi?
Ég er hræddur um að svarið sé hið sama og yfirleitt þegar opinberar upplýsingar eru annars vegar á Íslandi: Fólk í valdastöðum telur að völdin séu þess til að ráðskast með, og að afskipti almennings séu fyrst og fremst truflun í starfi þess.
Loforðin um „opna stjórnsýslu“ og „gegnsæi“ áttu kannski aldrei að verða meira en loforð?  Og, var það kannski alltaf meiningin að almenningur héldi bara áfram að éta það sem úti frýs?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.9.2012 - 11:55 - 15 ummæli

Sigmundur Davíð, elítan og almenningur

Í nýlegu viðtali DV við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, sagði hann meðal annars þetta, um auðæfi sín, sem munu nema ríflega hálfum milljarði króna, eða um það bil tvöhundruð ára nettólaunum meðalíslendingsins:
„Þó verður maður að viðurkenna að það veitir manni ákveðið öryggi. Kosturinn er sá að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því þótt maður segi það sem manni finnst. Ekki að hafa áhyggjur af því að það geti leitt til tekjumissis.“
Sigmundur virðist hins vegar ekkert hafa velt fyrir sér hvort aðrir en hann, og hin ofurríka elíta sem hann tilheyrir, eigi að njóta þessara sjálfsögðu réttinda.  Enda verður ekki séð að hann hafi gert neinar tilraunir til að tryggja öllum borgurum landsins réttindi af þessu tagi, sem hafa lengi verið talin sjálfsögð lýðréttindi í þess konar þjóðfélagi sem Sigmundur þykist væntanlega vilja hafa á Íslandi.
En, þetta eru reyndar lítil tíðindi.  Réttindi almennings hafa aldrei verið „veitt“ af þeirri elítu sem drottnar yfir stjórnmálum og efnahagslífi landsins.  Almenningur hefur alltaf þurft að berjast sjálfur fyrir þessum réttindum, og alltaf þurft að verjast sífelldum árásum á þau.
Fólk af sauðahúsi Sigmundar er ekki líklegt til að taka þátt í þeirri baráttu.  Fyrir almenning á Íslandi væri best ef Sigmundur vildi vera svo tillitssamur að láta sig hverfa af sjónarsviði stjórnmálanna.  Hvort hann eyðir svo tímanum í að ausa yfir sig aurum sínum, eða heldur fjálgar ræður yfir sjálfum sér, ætti helst að vera hans mál, en ekki okkar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.9.2012 - 20:11 - 12 ummæli

Fyrirlitning Ögmundar á mannréttindum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í útvarpi í kvöld, varðandi endursendingu írasks hælisleitanda til Noregs: „Ég hygg að norskir aðilar sendi ekki menn í opinn dauðan eða bráða lífshættu.  Við verðum að treysta því alla vega að svo sé og þá væri það hreinlegra fyrir okkur að ganga út úr þessu Dyflinnarsamkomulagi.“
Hér fer Ögmundur með rangt mál, og sýnir fullkomna fyrirlitningu þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland er að aðili að.  Eins og vandlega hefur verið útskýrt mega íslensk stjórnvöld alls ekki taka svona á málum af þessu tagi, samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu:
Ljóst er að dómur Mannréttindadómstólsins leggur þær skyldur á íslensk stjórnvöld eins og stjórnvöld annarra Evrópuríkja að ganga ekki út frá því sem vísu að annað aðildarríki í samstarfinu, jafnvel þótt bæði séu skuldbundin af Mannréttindasáttmála Evrópu, geti tryggt hælisleitendum viðunandi aðbúnað sem samrýmist kröfum 3. gr. sáttmálans. Sú sjálfvirkni sem almennt er ráðgerð í Dyflinnarreglugerðinni um endursendingu hælisleitanda til annars aðildarríkis, þar sem ríki ákveður aðeins í undantekningartilvikum að taka umsókn til efnislegrar meðferðar, er því ekki ásættanleg.
Ögmundur Jónasson hefur verið mannréttindaráðherra í nokkur ár, og honum er vel kunnugt um þetta allt, auk þess sem aðstoðarmaður hans, Halla Gunnarsdóttir, hefur farið fyrir sérstökum starfshópi sem fjallað hefur um málefni flóttamanna í heilt ár (en virðist reyndar ekki hafa eytt miklum tíma í að tala við flóttamennina sem um er vélað).
Þetta er heldur ekki eina tilfellið af þessu tagi; í fyrra felldi Ögmundur úrskurð sem hefði leitt til, ef viðkomandi hefði ekki farið í felur, að flóttamaður sem alið hafði allan sinn aldur sem þræll í Máritaníu hefði verið sendur tilbaka til Noregs.  Samt hafði Útlendingastofnun undir höndum yfirlýsingu um að hann yrði sendur þaðan tilbaka til Máritaníu, sem hefði verið skýlaust brot á Flóttamannasamningi Sameinuðu Þjóðanna og íslenskum lögum.
Tal Ögmundar um Dyflinarreglugerðina er líka siðlaust.  Dyflinarreglugerðin leggur engar skyldur á herðar íslenskum stjórnvöldum um að senda flóttamenn tilbaka til annars lands.  Að gefa í skyn að Ísland verði að segja sig frá henni til að geta staðið við úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu eru hrein og klár ósannindi.
Ögmundur Jónasson er ekki merkilegur pappír.  Það væri svo sem í lagi ef ekki vildi svo til að ákvarðanir hans geta ráðið úrslitum um velferð, eða jafnvel líf, fólks sem hann tekur ákvarðanir um.  Það er þjóðarskömm að þessi maður skuli bera ábyrgð á mannréttindamálum landsins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.9.2012 - 11:28 - 5 ummæli

Spillingin, fúskið og fjórflokkurinn

Tvær fréttir í gær voru um frekar ógeðfellda hluti: Annars vegar um hundruða milljóna sjálftöku slitastjórna, hins vegar um tvö þúsund og fjögur hundruð prósenta framúrkeyrslu við gerð hugbúnaðarkerfis (sem þar að auki hefur enn ekki verið klárað, þrátt fyrir yfirlýst verklok).  Til að bíta höfuðið af skömminni fylgdu í kjölfarið yfirlýsingar frá embættismönnum um að það gæti stórskaðað almannahagsmuni að almenningur fengi innsýn í þessi hagsmunamál sín. Þetta eru samt engin einsdæmi, því fréttir af þessu tagi hafa dunið á okkur frá hruni.
Nákvæmlega ekkert bendir til að breytingar séu í vændum á þeirri hrikalegu spillingu og fúski sem gegnsýrir íslensku valdakerfin, og sem þetta eru bara tvö dæmi um af mýmörgum.
Hefur einhver heyrt einhvern fjórflokkanna, þessara sem hafa farið með öll völd í landinu í áratugi, tala um að uppræta þessa spillingu og þetta fúsk?  Um einhver plön þessara flokka í þá veru?
Bara datt svona í hug að spyrja, ef ég skyldi hafa fylgst illa með …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.9.2012 - 20:44 - 13 ummæli

Hið ómeðvitaða samsæri heimskunnar

Þótt ég sé með hálfgert ofnæmi fyrir hnyttnum tilvitnunum, vegna þess hve þær eru ofnotaðar (ekki síst ef maður ferðast um á Facebook), þá á ég mér samt uppáhalds „tilvitnun“.  Hún er svona á ensku: „Never attribute to conspiracy what can be adequately explained by stupidity“.  Þessu mætti snara svo á íslensku: „Ekki líta á það sem samsæri sem auðvelt er að útskýra með heimsku“.
Ég er sem sagt lítill aðdáandi samsæriskenninga.  Hins vegar er ég farinn að hallast æ meira að því að Ísland sé, eins og alltaf, alveg einstakt að þessu leyti.  Nefnilega að íslenska valdaklíkukerfið sé afar haganleg samsuða af samsæri og heimsku, þar sem flestir samsæringjanna eru of heimskir til að fatta hvað þeir eru að gera, frekar en að þeir séu hrein fúlmenni.  Dæmin eru enda óteljandi, og sínálæg.  Það nýjasta sem á vegi mínum varð var „frétt“ í ríkissjónvarpinu.  Hún fjallaði, á algerlega gagnrýnislausan hátt, um mikla skýrslu „sérfræðinganefndar“ á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja, um það „hvort verðtrygging sé nauðsynleg á Íslandi.“
Ríkissjónvarpinu finnst sem sagt sjálfsagt að útvarpa sem „frétt“ einhliða áróðri voldugustu hagsmunaaðilanna í málinu.  Til að bíta höfuðið af skömminni er í „fréttinni“ viðtal við Ásgeir Jónsson, hagfræðing, en hann er einn af forsprökkum braskarafyrirtækis sem kallast Gamma, og er annar þeirra tveggja starfsmanna fyrirtækisins sem báru meginábyrgð á ritun skýrslunnar.
Ásgeir þessi var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings (og svo Arion banka) í nokkur ár fyrir og eftir hrun.  (Þetta er sami maðurinn og Landsvirkjun réð til að lofa landsmönnum gulli og grænum skógum, á borð við olíuauð Norðmanna, ef fyrirtækið fengi bara að virkja allt sem hreyfist í landinu.  Og hann er líka einn af „sérfræðingunum“ sem töldu að breytingar sem rætt var um á Rammaáætlun fyrr í ár gætu „kostað íslenskt samfélag“ allt að 270 milljarða á fjórum árum.)
Mér dettur ekki í hug að halda að fréttafólk RÚV sé svo heimskt að það sjái ekkert athugavert við að birta áróðurstilkynningar hagsmunaaðila sem fréttir, og viðtöl um horfur í efnahagsmálum við fólk sem hefur sannað eins vandlega og mögulegt er að það er algerlega ófært um spá fyrir um þróun fjármálakerfisins.  Á hinn bóginn vil ég heldur ekki trúa því að þetta fólk taki viljandi þátt í því viðurstyggilega samsæri sem það er í raun að tala eins og ekkert hafi gerst og láta sama fólkið og rústaði fjármálakerfi landsins, og efnahag fjölda saklauss fólks, valsa um í fjölmiðlum eins og einhverja áreiðanlega spekinga.
Hvað á maður þá að halda?  Er þetta hið ómeðvitaða samsæri heimskunnar sem verður til þegar saman fer grunnhyggið fréttafólk og voldugir, en jafn grunnhyggnir, vandræðamenn sem leika lausum hala þrátt fyrir svarta fortíð?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur