Föstudagur 9.12.2011 - 16:43 - 29 ummæli

Guðmundasti flokkurinn

Besti flokkurinn var frábært framtak sem veitti fjórflokknum ærlega ráðningu í borginni, og sýndi að gömlu valdaklíkurnar höfðu nákvæmlega enga sérstaka þekkingu á því hvernig eigi að reka borg, enda eru þær drifnar áfram af öðrum hagsmunum, nefnilega að sanka að sér sem mestum völdum.

Guðmundasti flokkurinn er hins vegar, því miður, skilgetið afkvæmi fjórflokksins, í marga ættliði.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.12.2011 - 13:31 - 10 ummæli

Áfram spilling í Bankasýslunni?

Samkvæmt þessari frétt hefur stjórn Bankasýslunnar neitað að birta upplýsingar um umsækjendur um stöðu forstjóra, þótt umsóknarfrestur sé löngu liðinn.  Erfitt er að sjá annað en að það fari í bága við 4. tölulið 4. greinar Upplýsingalaga, þar sem stendur:

… þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.

Ég fæ ekki betur séð en að stjórn Bankasýslunnar sé að taka sér vald sem hún hefur ekki, með því að draga að birta þessar upplýsingar.  Þetta er reyndar lenska í íslenskri stjórnsýslu, og sýnir glöggt hvað er að varðandi upplýsingamál á Íslandi, og hversu ósiðlegt viðhorf ríkir til hlutverks þeirra sem sitja í opinberum embættum:

Íslenskt valdafólk virðist ganga út frá því að valdið sé þess til að ráðskast með, en ekki að það eigi að þjóna almenningi í störfum sínum.  Meðan það viðhorf er ríkjandi er því miður lítil von til að upprætt verði sú spilling og það fúsk sem hefur gegnsýrt stjórnsýsluna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2011 - 19:28 - 29 ummæli

Brottrekstrarsök Ríkislögreglustjóra

Vera má að ég hafi misskilið eitthvað í íslensku réttarfari og stjórnsýslu, og vona að einhver leíðrétti mig þá, en svona sýnist mér þetta líta út:

Ríkisstofnunum ber að afhenda Ríkisendurskoðun gögn sem síðarnefnda stofnunin biður um til að geta sinnt hlutverki sínu.  Þetta stendur nefnilega í lögum um Ríkisendurskoðun:

7. gr. Ríkisendurskoðun getur krafist reikningsskila af stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum aðilum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu og ber þeim þá skylda til að afhenda Ríkisendurskoðun umbeðin gögn.

Ríkislögreglustjóri neitar að afhenda gögn sem Ríkisendurskoðun hefur beðið um.

Þótt Ríkisendurskoðandi sjálfur gæti hugsanlega verið vanhæfur til að fjalla um viðkomandi mál þýðir það ekki að Ríkisendurskoðun sé vanhæf, og  útilokað virðist að það geti spillt málinu að Ríkisendurskoðandi fái að sjá umrædd gögn, jafnvel þótt hann yrði úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um málið sjálfur.

Ríkislögreglustjóri er því að brjóta lög með því að neita að afhenda gögnin.

Ríkislögreglustjóra sem brýtur lög, og þrjóskast við þrátt fyrir ítrekanir, ætti að reka umsvifalaust.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2011 - 16:37 - 3 ummæli

Bragarbót

Í bloggpistli fyrr í dag spurði ég spurningar sem nú er búið að svara.  Gott hjá Eyjunni að birta þessa frétt með áberandi hætti, enda er hér á ferðinni skörp og málefnaleg gagnrýni hjá Benedikt.

Ég játa því á mig að hafa vanmetið, eða misreiknað, ritstjórn Eyjunnar  í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2011 - 13:45 - 18 ummæli

Er Eyjan flokkseigendamiðill?

Eyjan birtir á hverjum degi urmul frétta.  Sumar þeirra, væntanlega þær sem þykja áhugaverðastar, lenda í „rúllunni“ efsti til vinstri, þar sem eru fjórar fréttir í einu, og svo flytjast þær yfirleitt aðeins neðar á síðuna vinstra megin, þar sem þeim er enn gert hátt undir höfði.

Um helgina voru meðal annars þessar fréttar álitnar markverðastar af ritstjórn Eyjunnar:

Kínverskum tölvuþrjótum tókst að stela 5 milljónum frá Þjóðleikhúsinu. Sendiráðið bjargaði málum

Ritdómur um Bernskubók Sigurðar Pálssonar

Og svo þessi:

Formaður LFK sagði sig úr Framsóknarflokknum og gagnrýndi forystuna á miðstjórnarfundi í dag

Þessi frétt sást hins vegar hvergi: Benedikt Sigurðar segir sig úr Samfylkingunni

Getur verið að það sé vegna þess að umrædd úrsögn er vandlega rökstudd, að forystu Samfylkingarinnar svíði undan þeim rökstuðningi og að ritstjórn Eyjunnar hafi pólitísk markmið en ekki góða blaðamennsku að leiðarljósi?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.11.2011 - 15:53 - 6 ummæli

Svör útvarpsstjóra RÚV um LÍÚ-málið

Hér fara á eftir svör Páls Magnússonar útvarpsstjóra RÚV við fyrirspurn sem ég sendi honum og birti í þessum bloggpistli.  Þar á eftir kemur svar mitt til Páls.

Í stuttu máli tel ég enn að RÚV hafi gert slæm mistök og brugðist þeim almenningi sem stofnunin ætti að þjóna,  Ég tel að sú ritskoðun sem málið fjallar um stafi af inngrónu viðhorfi sem gerir ráð fyrir að núverandi valdahlutföll í þjóðfélaginu séu eðlileg, þar á meðal að sjálfsagt sé að voldug hagsmunasamtök fái að hafa sig í frammi eins og þeim þóknast, en að ekki sé jafn sjálfsagt að almennir borgarar fái að koma skoðunum sínum á framfæri.  Þetta er þeim mun erfiðara að fyrirgefa sem það ætti að vera öllum ljóst, í kjölfar hrunsins, að á Íslandi hefur þrifist margs konar spilling og valdníðsla, og að stofnanir á borð við RÚV ættu að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart yfirgangi hagsmunaafla.

Í þessu ljósi eru það mikil vonbrigði að forysta RÚV ætli ekki að lýsa því opinberlega yfir að mistök hafi verið gerð, hvað þá að biðjast afsökunar á framferðinu.  Það bendir ekki til að þessi forysta ætli sér að læra af mistökunum og bæta ráð sitt.  Því miður.

—————————————————————————————–

From: Páll Magnússon <pall.magnusson@ruv.is>
Date: 2011/11/22
Subject: RE: Fyrirspurn um meðferð auglýsinga
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll Einar

Að sjálfsögðu muntu fá formlegt svar frá mér við erindi þínu – til viðbótar því sem markaðsstjóri RÚV sendi þér.

Í millitíðinni langar mig persónulega að biðja þig að hugleiða eftirfarandi – ekki síst vegna þess að mér hefur þótt þú hafa margt skynsamlegt til málanna að leggja í íslenskri þjóðfélagsumræðu, m.a. fyrir millgöngu RÚV:

Hér gætu verið uppi nokkur „friðsamleg“ álitamál, m.a. hvort munur sé á „íslenskir útvegsmenn“ og „borgari“ þegar metið er hvort þessi hugtök nægi sem auðkenni eða undirskrift auglýsenda, – hvort „útgerðaraðall“ geti verið hnjóðsyrði o.s.frv.  Á þessum álitaefnum geta menn haft ýmsar gildar skoðanir.

Að nota í þeirri umræðu orðaleppa á borð við „pólitísk ritskoðun á RÚV fyrir LÍÚ“ nú eða „svívirðileg framkoma“ af hálfu RÚV,  finnst mér hinsvegar vera óðaverðbólgin hugtakanotkun – og langt fyrir neðan þína virðingu, sem venjulega styður mál þitt einfaldlega skynsamlegum rökum. Hvað ætlarðu þá að kalla raunverulega „pólitíska ritskoðun“ þegar þú sérð hana? Og hvaða nafn ætlarðu að gefa raunverulega „svívirðilegri framkomu“ þegar þú mætir henni?

Með vinsemd og virðingu,

Páll Magnússon

—————————————————————————————–

From: Páll Magnússon <pall.magnusson@ruv.is>
Date: 2011/11/23
Subject: RE: Fyrirspurn um meðferð auglýsinga
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>, „einar.steingrimsson@gmail.com“ <einar.steingrimsson@gmail.com>

Heill og sæll Einar

Upphaf þessa máls er að almennur starfsmaður á auglýsingadeild RÚV taldi að „íslenskir útvegsmenn“ væri nægjanlega skýrt auðkenni á þeim sem pantaði margumræddar auglýsingar, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, til að uppfylla áratuga langa hefð RÚV þess efnis að auglýsandinn sé auðkennanlegur. Sömuleiðis taldi almennur starfsmaður á auglýsingadeild RÚV að „borgari“ væri ekki nægjanlega skýrt auðkenni á Einari Steingrímssyni.

Um hið fyrra má vafalaust deila en varla hið síðara. Þetta umdeilanlega mat almenns starfsmanns hjá RÚV verður þér síðan m.a. tilefni upphrópana á opinberum vettvangi á borð við „pólitísk ritskoðun á RÚV fyrir LÍÚ“ og „svívirðileg framkoma“ af hálfu RÚV. Þótti sumum hér skorta nokkuð á hófsemd í orðavali af þessu tilefni.

Þessi álitamál urðu hins vegar til þess að yfirmenn á auglýsingadeild tóku umræddar auglýsingar til nánari skoðunar og komust að þeirri niðurstöðu að þær kynnu líka að varða við 3. og 4. tölulið 3. greinar í auglýsingareglum RÚV. Eftir samræður við auglýsandann var birtingum þeirra hætt. Aðdragandi og eðli þessa máls kallar hins vegar að mínu mati hvorki á opinbera yfirlýsingu né afsökunarbeiðni af hálfu RÚV, eins og þú ferð fram á í erindi þínu.

Varðandi lið 1. í erindi þínu er svarið þetta: Auglýsingu þinni er hafnað á grundvelli reglna RÚV um auglýsingar, sbr. 3. gr., 3. og 4. tölulið.

Ég vil að lokum þakka þér fyrir þessar umræður og ábendingar – að því marki sem þær byggja á skynsamlegum rökum en ekki upphrópunum og samsæriskenningum. Þær verða til þess að RÚV mun hraða þeirri endurskoðun á auglýsingareglum, sem þegar var hafin,  m.a. vegna nýrra fjölmiðlalaga. Af ábendingum þínum varð m.a. augljós sá annmarki að regluna um auðkenni á auglýsanda, sem hér innandyra þykir sjálfsögð og byggir á áratuga langri hefð, er hvergi að finna formlega og skriflega. Við munum nú að sjálfsögðu ráða bót á því.

Mér þætti svo vænt um að þetta svar mitt birtist í heilu lagi – ef þú ætlar að birta það á blogginu þínu.

Með vinsemd og virðingu,

Páll Magnússon
útvarpssjóri

—————————————————————————————–

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/11/24
Subject: Re: Fyrirspurn um meðferð auglýsinga
To: Páll Magnússon <pall.magnusson@ruv.is>

Sæll aftur Páll

Takk fyrir svörin.  Ég hef eftirfarandi athugasemdir:

1.  Ég tel, enn sem fyrr, að LÍÚ hafi villt á sér heimildir með því að auglýsa undir nafninu „íslenskir útvegsmenn“.  Annars vegar er LÍÚ alls ekki fulltrúi allra íslenskra útvegsmanna og ætti því að vera óheimilt að auglýsa með slíkri undirskrift, alveg eins og það væri óeðlilegt að Samtök Verslunar og Þjónustu fengju  að auglýsa í nafni „íslenskra verslunarmanna“.  Það segir sína sögu að LÍÚ vísaði í síðari auglýsingum á vefsíðu sem sambandið á, en þar kom ekkert fram um hver stæði á bak við síðuna þegar auglýsingarnar voru lesnar.

2.  Ég tel ekkert rangt við regluna um að auglýsingar séu skýrt merktar auglýsandanum, en því var greinilega ekki framfylgt varðandi LÍÚ.  Í síðasta pósti mínum þar sem ég bað um að auglýsing yrði lesin tók ég sérstaklega fram að ef það væri álitin frágangssök að undirskriftin væri „borgari“, þá mætti setja „Einar Steingrímsson“ í staðinn.  Óljós undirskrift var því ekki ástæða höfnunar hennar.

3.  Þú vísar í 3. og 4. tölulið 4. greinar auglýsingareglna RÚV varðandi höfnun á síðustu auglýsingunni sem ég vildi fá birta.  Það tel ég ekki standast þar sem fullyrt var í henni annars vegar að LÍÚ hefði siglt undir fölsku flaggi í auglýsingum sínum, sem ég tel augljóst, sbr. ofangreint.  Ennfremur að innihald auglýsinga LÍÚ hafi einmitt brotið gegn þessum ákvæðum sem þú nefnir, þar sem þær hafi ekki innihaldið „það eitt sem er satt og rétt“, auk þess sem  fólu í sér „ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum.“  Í auglýsingunni sem ég vildi fá birta var sem sagt engu öðru haldið fram en því sem augljóslega er rétt, og sem RÚV virðist nú hafa viðurkennt, án þess að vilja lýsa því yfir opinberlega, hvað þá að biðjast afsökunar.

4.  Það er ástæða fyrir því að ég kalla upphafleg viðbrögð RÚV í þessu máli pólitíska ritskoðun.  Ég á auðvitað ekki við að RÚV sé með skipulagða og meðvitaða pólitíska ritskoðun.  Hins vegar tel ég þetta vera ljóst dæmi um þá ritskoðun sem verður nánast „sjálfvirk“ þar sem viðtekin viðhorf þeirra sem voldugastir eru verða sjálfsögð og vekja engin viðbrögð, en andstæð viðhorf óbreyttra borgara vekja hins vegar allt önnur viðbrögð.  Þetta er að mínu áliti lúmsk og mjög alvarleg pólitísk ritskoðun.

5.  Í ljósi þess sem á undan er gengið eru það vonbrigði að heyra að RÚV ætli ekki að biðjast afsökunar á að hafa birt fjölda auglýsinga frá LÍÚ sem augljóslega brutu gegn auglýsingareglum RÚV.  Það bendir ekki til að forysta RÚV geri sér grein fyrir því sem ég tel vera alvarlegt eðli þessa máls.  Það er miður, því forystan virðist þar með ekki líta svo á að hlutverk RÚV sé að þjóna almenningi fremur en voldugum hagsmunasamtökum.

Bestu kveðjur,

Einar

PS.  Ég mun birta þessi póstskipti okkar á blogginu mínu.  Hafirðu fleiri athugasemdir sem þú vilt koma á framfæri þar er það sjálfsagt mál.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur