Laugardagur 29.12.2012 - 15:50 - FB ummæli ()

2012 ÁR SVÖRTU LÚÐUNNAR

í lok síðasta árs bannaði fyrrverandi sjávarútvegsráðherra alla lúðuveiði og leiddi það í reglur að andvirði alls lúðuafla yrði gert upptækt í ríkissjóð!  Augljós galli á veiðibanni ráðherra Vg var að megnið af lúðu veiddist sem meðafli og einungis lítið brot af veiðinni var vegna beinna lúðuveiða.

Ef mark má taka af uppgefnum aflatölum lúðu á árinu 2012, þá mætti ætla að Jón Bjarnason hafi náð gríðargóðum árangri í verndun lúðunnar og hafi þannig skákað og mátað sjálfan dýrafriðunarpáfann, Svandísi Svavarsdóttur. Uppgefinn lúðuafli á árinu sem er að renna sitt skeið er einungis 6% af því sem aflinn var árið 2011. Lítið er að marka aflatölurnar þar sem eðlilega taka menn lúðuna frekar með sér heim í soðið, en að fá ekkert nema erfiðið við að afla hennar og jafnvel hafa borist fréttir af því að einstaka heimilskettir séu orðnir hundleiðir á lúðunni.

Mögulega hafa starfsmannasjóðir eitthvað fitnað við skaðræðisreglurnar, a.m.k. hefur ekki verið kvartað hástöfum yfir skorti á lúðu á íslenskum veitingahúsum, en það var löngu fyrirséð hvaða tjón reglurnar myndu valda.

Á Alþingi hefur engin umræða verið um mörg hundruð milljóna tjónið sem „veiðibannið“ olli enda hafa þingmenn verið uppteknari við stærri mál s.s. tilfærslu frídaga, mögulega virkjunarkosti á þarnæsta kjörtímabili, úttekt á útvarpsmessum og skattlagningu á smokkum.

Fyrir andvirði tjónsins hefði mátt girða nokkrum sinnum hringinn í kringum Litla-Hraun eða þá smokkavæða landsmenn frítt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur