Tekist er á um það hver á að greiða fyrir hreinsun á tugum þúsunda tonna af rotnandi síld í einum fallegasta firði landsins.
Fjórflokkurinn; Vg, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, virðist hafa þá sameiginlegu stefnu í sjávarútvegsmálum, sem og reyndar í flestum öðrum málum, að líta á fiskistofnana sem séreign sem hægt er að veðsetja og selja. Eini munurinn er sá að tveir fyrstnefndu flokkarnir vilja beita eitthvað meiri skattlagningu en hinir, en að öðru leyti viðhalda sama ónýta kvótakerfinu.
Ef einhver samfella væri í málflutningi fjórflokksins, þá væri ekki spurning að ráðamenn færu fram á að eigendurnir, LÍÚ, þrifu upp eftir sig á meðan ég og aðrir, sem líta á síldarstofninn sem sameign þjóðarinnar, teljum ekki nokkurn vafa á því að ríkið eigi að sjá um hreinsunina. Það er algerlega óskiljanlegt að ríkið ætli fámennu og fjárvana sveitarfélagi, Grundarfirði, að sjá um hreinsunina – Sérstaklega í ljósi þess að engum íbúa sveitarfélagsins hefur verið heimilt að fénýta fiskinn.
Hefði ekki verið nær, svona í miðri kreppu, að leyfa Snæfellingum að nýta síldina í stað þess að meina þeim að veiða hana? Nú horfa þeir á háhyrninga gæða sér sér á síldinni og sjá jafnvel á eftir henni í tonnatali reka upp á land þar sem hún rotnar engum til gagns.
Fiskveiðistjórnunina þarf að taka til grundvallarendurskoðunar á komandi kjörtímabili. Í Kolgrafarfirði varð þjóðarbúið af að a.m.k. 2.500 milljóna króna gjaldeyristekjum svo ekki sé talað um hina meingölluðu reglugerð, sem meinar sjómönnum að fénýta lúðuna, sem þjóðarbúið hefur nú þegar orðið af 500 milljóna gjaldeyristekjum af – Er kreppa í landinu?
Tjónið, sem þjóðin hefur orðið fyrir af handónýtri fiskveiðistjórnunarstefnu er margfalt meira, ofangreind dæmi eru bara toppurinn á ísjakanum.