Talsvert hefur borið á gagnrýni á hókus pókus leið Framsóknarflokksins út úr skuldafeni heimilanna, sem gengur í stuttu máli út á að erlendir kröfuhafar færi hressilega niður kröfur sínar í því langdregna uppgjöri sem fer nú fram í tengslum við hrunið. Fyrir kröfuhafa getur verið skynsamlegt að gefa eftir skuldir sem augljóslega eru það háar að þær séu ofviða skuldaranum. Það verður sem sagt gert samkomulag um að hætta að innheimta peninga sem ekki eru til. Helsti veikleikinn í töfrunum felst í því að skyndilega verða til mikil verðmæti úr fjármunum sem ekki voru til og síðan hvernig þeim verður síðan veitt sérstaklega inn á heimili landsmanna.
Minna hefur farið fyrir gagnrýni á gjaldþrotaleið Sjálfstæðisflokksins, sem felst í því að nota tekjuskatt einstaklinga til þess að greiða fasteignaskuldir heimilanna við fjármálakerfið, um 20%. Fasteignaskuldir heimilanna eru nú um 1.300 milljarðar, þannig að heildarkostnaður ríkissjóðs verður um 260 milljarðar króna við þessa aðgerð Sjálfstæðisflokksins.
Í ár er áformað að innheimta um 130 milljarða króna í tekjuskatt af einstaklingum, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er í raun að boða að ríkissjóður verði af öllum tekjuskatti í tvö ár! Ekki nóg með það þá boðar flokkurinn stórtækar skattalækkanir, m.a. lækkun tryggingagjalds, virðisaukaskatts og tekjuskatts auk auðlindagjalds. Ofan í kaupið boðar flokkurinn stóraukin ríkisútgjöld, sem varið verður í hin ýmsustu verkefni! Kjósendur ættu að sjá í hendi sér að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að bjóða þeim upp á neitt annað en gjaldþrot ríkisins.
Flokkurinn virðist ekkert hafa lært af hruninu.
Það er ótrúlegt að hvorugur flokkurinn skuli leggja til auðveldustu leiðina til að auka tekjur landsmanna, þ.e. að endurskoða stjórn fiskveiða.
Ég hvet kjósendur til að kynna sér ábyrgari stefnu Dögunar á því að koma á móts við skuldavanda heimilanna.