Laugardagur 20.04.2013 - 18:40 - FB ummæli ()

Óforsvaranlegt kosningaloforð

Ekki þarf mikinn hugsuð til þess að sjá að kosningaloforð Bjarna Ben og Sjálfstæðisflokksins ganga alls ekki upp.  Í stuttu máli fela þau í sér að ríkissjóður muni verða af megninu af skatttekjum á launatekjur einstaklinga.  Lofað er hundrað milljarða króna skattafslætti með því skilyrði að peningarnir renni inn í bankana til að greiða niður stökkbreyttu lánin.  Auk þess lofar Sjálfstæðisflokkurinn að lækka alla skatta og sömuleiðis að stórauka ríkisútgjöld.  Leið Sjálfstæðisflokksins er leið til gjaldþrots ríkissjóðs á mettíma.

Mér finnst Bjarni Ben komast furðu létt frá þessum tillögum sínum en í Mogganum í dag segir hann að tillögurnar séu hluti af „heildstæðri efnahagsáætlun“.  Ekki fer mikið fyrir rannsóknarblaðamennsku á Morgunblaðinu frekar en á ýmsum öðrum fjölmiðlum.

Það er helst að það hafi sést glitta í rannsóknarblaðamennsku hjá RÚV, þegar þeir tóku formann flokksins Sturla Jónsson í viðtal og fóru nokkuð rækilega yfir vörubílarekstur formannsins, en ég er nokkuð viss um að fjárfestingar hans og skuldsetning fyrir hrunið verði að teljast varfærnar miðað við tillögur margra stjórnmálaflokka þessa dagana. Sömuleiðis tel ég að afskriftir bankakerfisins á formann flokksins Sturla Jónsson verði að teljast örsmáar í samanburði við þær sem tengdust fyrirtækjarekstri formanns Sjálfstæðisflokksins. Kindugt má telja að spyrlar RÚV töldu ástæðu til þess að velta Sturlu upp úr hans óförum í viðskiptalífinu en engin sá ástæðu til þess að spyrja formann Sjálfstæðissflokksins um ógöngur hans.

Mér finnst tímabært að rannsóknarblaðamenn dragi fram vasareiknana og svari þeirri spurningu hvernig dæmi um tillögur flokkanna koma til með að líta út í raun. Að gefnu tilefni er tillögunni einnig beint til Morgunblaðsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur