Ég velti því stundum fyrir mér þegar ég er að keyra um landið eða þá á sundi – hvort að það sé raunveruleg kreppa í landinu? þetta kunna að hljóma undarlegar vangaveltur á sama tíma og og það berast í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum fréttir af hækkandi lyfjakostnaði, snjóhengjum og ónýtum vegum.
Ástæðan fyrir efasemdum mínum er ekki einungis bygging Hörpu og stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur eða þá áform um tug milljarða spítalabyggingar eða þá tryllingsleg kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins, sem hljóta að slá heimsmet. Ástæðan er ekki síst dellan sem þrífst í kringum stjórn fiskveiða. Við öllu hugsandi fólki blasir dellan og er af mörgu að taka.
Einna verst er árangursleysið og sóunin í kerfinu og ætla ég að nefna hér eitt örlítið dæmi, sem er reglugerð um að andvirði lúðuafla skuli verða gert upptækt. „Árangurinn“ er að magn landaðrar lúðu hefur dregist saman um 90% frá því að reglugerðin var sett. Hver heilvita maður áttar sig á að þær tölur endurspegla ekki breytingar á raunverulegri veiði. Að minnsta kosti er víða hægt að fá herta lúðu og get ég staðfest að hún smakkast afbragðs vel.
Bara þessi eina reglugerð skaðar gjaldeyrisöflun þjóðarinnar um mörghundruð milljónir króna árlega. Mér finnst merkilegt að enginn flokkur, fyrir utan Dögun, opnar á grundvallarendurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hjá fjórflokknum og fylgifiskum hans snýst stefnan meira og minna um hversu mikið á að skattleggja núverandi vitleysiskerfi. Hagsmunaöflin í sjávarútveginum þora lítið að hreyfa við kerfinu af ótta við að missa spón úr sínum sérúthlutunaraski. Það sem meira er: virtasti blaðamaður landsins og lærifaðir þjóðarinnar á sviði mennta, menningar og viðurkenndra skoðana, Egill Helgason, hefur slegið það út af borðinu, eins og hverja aðra fásinnu, að hægt sé að afla meiri verðmæta úr hafinu.
Ef Íslendingar vilja koma sér út úr kreppunni eru svo sannarlega ýmsir vegir færir. Við þurfum að líta okkur nær, nýta það sem við höfum og fara betur með það sem við eigum.