Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur héldu uppi harðri stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, einkum í þeim málum sem snéru að því þegar fyrrverandi ríksstjórnarflokkar móuðust með hangandi hendi við að fara í viðkvæm mál á borð við uppgjör við Hrunið og stjórnkerfisbreytingar. Atgangurinn var mestur í Landsdómsmálinu, stjórnarskrármálinu og jú þegar Jón Bjarnason steig nokkur hænufet til breytinga á kvótakerfinu.
Oft var viðkvæðið að ríkisstjórn Jóhönnu væri föst í liðinni fortíð – það þyrfti að horfa fram á veginn og losna undan hefndarþorsta gagnvart stjórnmálamönnum, sem væru gengnir af hinum pólitíska leikvelli og hætta meintri aðför að atvinnulífinu og heimilum landsins.
Orðalag í nýjum ríkisstjórnarsáttmála um breytt vinnubrögð og nýja nálgun verkefna er ekki beinlínis traustvekjandi, en í sömu andrá og boðað er að efla samhug er olnboginn settur í fráfarandi stjórn.
Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.
Ef frá eru talin ágæt áminningarorð Gísla Marteins um að ný stjórn sýni ákveðna hógværð, þá hafa fleiri stuðningsmenn nýju helmingaskiptastjórnarinnar haldið áfram í þeim gír að gera hróp að þeirri stjórn sem fór frá í síðustu viku m.a. að hún hafi svikið öll loforð og staðið í hernaði gegn almenningi.
Í ljósi stórbrotinna kosningaloforða Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem fólu í sér að stórauka ríkisútgjöld, lækka skatta, afnema verðtrygginguna og leiðrétta skuldir heimilanna án nokkurrar tafar, þá tel ég ráðlegt að nýir stjórnarherrar láti verkin tala áður en haldið er áfram að skammast í baksýnisspegilinn.