Sunnudagur 09.06.2013 - 22:21 - FB ummæli ()

Brennivín og fiskur

Eitt helsta baráttumál þeirra sem hafa gengið fram undir gunnfána frelsis í viðskiptum á Íslandi, er að auka frelsi með sölu áfengra drykkja í matvöruverlsunum. Þeir sem þykjast vilja ganga hvað lengst vilja brennivínið í matvörubúðir, en hófsemdarmenn í framangreindum hópi vilija takmarka frelsið við bjór og léttvín. Fyrir þessu hafa verið færð margvísleg og ágæt rök. Má þar nefna að minnka þurfi umsvif hins opinbera, vöruúrval fyrir neytendur myndi aukast, aukið hagræði skapast í versluninni og viðskiptavinir þyrftu ekki að gera sérstaka ferð eftir löglegum vímuefnum.

Frelsisfólkið hefur verið mjög upptekið í áfengiskaupamálinu og það svo að ein helst vonarstjarnan í þeim hópi lét gera sérstaka úttekt á úrvali af léttvínstegundum á Selfossi annars vegar og hins vegar í dönskum smábæ.
Mér hefur alltaf þótt merkilegt að liðssafnaður frelsisins hafi ekki gert nokkra athugasemd við það að ríkisstofnunin Verðlagsstofa skiptaverðs skuli gefa út verð á fiski, á sama tíma og bægslast er gegn fyrirkomulagi á sölu áfengis.
Ekkert er eðlilegra en að markaðsverð sé látið gilda við verðmyndun á afla, en það leiddi að jafnaði til hærri launa til sjómanna og hækkaðra tekna hafna. Með einfaldri breytingu og markaðstengingu á afla þá er ekki verið að taka eitt né neitt af útgerðinni heldur er verið að tryggja henni hæsta verðið hverju sinni. Með markaðslausn væri verið tryggja að þeir sem gætu gert sem mest verðmæti úr aflanum fengju hann til vinnslu. Það myndi án nokkurs vafa efla verðmætasköpun og opna á nýliðun í undirstöðuatvinnugrein landsmanna.
Á tímum eins og í dag, þegar þjóðin þarf að búa við gjaldeyrishöft, er nauðsynlegt að auka gagnsæi með gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, en fátt er betur til þess fallið en opin og frjás verðmyndun á afla. Um er að ræða ódýra, hagkvæma og sanngjarna leið sem er mun líklegri til árangurs en mannfrekt eftirlitskerfi.

Ég tek það fram að ég er ekki mótfallinn breytingum á áfengisútsölu vítt og breitt um landið og treysti vel duglegum og ábyrgum kaupmönnum til þess að standa að sölu áfengis eftir þeim reglum sem samfélagið setur. Hins vegar tel ég að um algert smámál sé að ræða samanborið við tvöfalda verðlagningu á fiskafla landsmanna.

Þögn sjálfskipaðra talsmanna frelsisins um þetta gríðarstóra hagsmunamál þjóðarinnar er æpandi, sérstaklega þegar horft er til látanna í kringum litla brennivínsmálið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur