Allt stefnir í að Sveitarfélagið Skagafjörður ríði á vaðið hvað varðar breytingar á innheimtuaðgerðum í ljósi loforða ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar heimilanna. Á fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar í dag lagði ég fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að fresta öllum kostnaðarsömum innheimtuaðgerðum.
Ríkisstjórn Íslands hefur boðað stórtækar aðgerðir til lausnar á skuldavanda heimilanna. Það er ljóst að innan skamms koma til framkvæmda fjölmargar aðgerðir sem fela m.a. í sér afnám verðtryggingar og niðurfærslu á verðtryggðum skuldum heimilanna. Sömuleiðis liggur fyrir á sumarþingi tillaga um flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingar við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Á meðan framangreindar aðgerðir til hjálpar illa stöddum fjölskyldum eru handan við hornið er það eina rétta í stöðunni að Sveitarfélagið Skagafjörður fresti innheimtuaðgerðum.
Ekki er ofsagt að sveitarstjórnarfulltrúar Sveitarfélagsins hafi tekið tillögunni fagnandi, en þó heyrðust þær raddir að nauðsynlegt væri að útfæra tillöguna nánar og eðlilegast væri því að vísa henni til Byggðaráðs Skagafjarðar.
Ég, auk fjölmargra annarra Skagfirðinga, vænti þess að Byggðaráð Skagafjarðar muni hrinda tillögunni í framkvæmd fljótt og örugglega. Enginn efi er um að breytingarnar munu vekja von í brjóstum margra Skagfirðinga og styðja við bakið á þeirri ætlan ríkisstjórnarinnar að leiðrétta skuldir heimilanna fljótt og örugglega.