Miðvikudagur 14.08.2013 - 17:10 - FB ummæli ()

Skólpið á RÚV

Talsverð umræða hefur verið á RÚV síðustu daga um fráveitumál sveitarfélaga.  Eins og oft vill verða þá hefur umræðan farið út um víðan völl m.a. um reglugerðir sem unnið er með,  skipulag eftirlits og  fjármál sveitarfélaga.

Mengun frá venjulegu húsaskólpi má skipta í þrjá þætti: lífræn næringarefni, örverur og svo stærri agnir, einkum pappír og plast.  Við sjávarströndina á Íslandi er ofauðgun vegna lífrænna næringarefna ekki vandamál og er það bæði vegna fámennis og sömuleiðis vegna þess hve sjórinn er góður viðtaki hér við land.  Gerlamengun getur hins vegar orðið talsverð  í skammdeginu þegar áhrifa sólarljóss gætir hvað minnst, en sólarljósið er mjög gerileyðandi.

Íslenska reglugerðin, um fráveitur og skólp nr 798/1999, er sett með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/271/ESB. Í íslensku reglugerðinni eru heimasmíðuð ákvæði um leyfilegt gerlamagn við strendur, en engin viðmið er að finna um þau í Evróputilskipuninni. Sömuleiðis er að finna ákvæði um að einföld síun geti komið í stað fyrsta stigs hreinsunar á fráveituvatni sem rennur í sjó. Séríslenska ákvæðið um leyfilegt gerlamagn er, svo undarlegt sem það nú er, strangara en baðvatnsreglur Evrópusambandsins og sömuleiðis ekki í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 796/1999  um varnir gegn mengun vatns. Ákvæðið um að einföld síun á skólpi fyrir 150 þúsund manna borg, geti komið í staðin fyrir fyrsta stigs hreinsun, sem felur m.a. í sér að minnka lífrænt magn í skolpi um helming, minnkar verulega kröfur  um hreinsun skólps fyrir Höfuðborgarsvæðið.  Allt virðist benda til þess að sú eftirgjöf á kröfum á hreinsun sé mjög skynsöm, þar eð viðtakinn ræður vel við fráveituvatnið sem veitt er í hann. Að öðrum kosti þyrfti að fara í kostnaðarsama vinnslu og jafnvel urðun á seyru, sem unnin yrði úr skólpinu.

Séríslenska ákvæðið um leyfilegt magn gerla er mjög íþyngjandi fyrir minni byggðir við sjávarsíðuna. Sömuleiðis er erfitt að færa fyrir því einhver haldbær rök að mörkin þurfi að vera strangari hérlendis en í  baðvatnsstöðlum í Evrópu. Ákvæðið leiðir til þess að ef  á að uppfylla það  í skammdeginu þá þarf að leggja nokkur hundruð metra langar lagnir út í sjó frá nokkur hundruð manna byggðum.  Efasemdir um skynsemi þess  að fara í slíkar framvæmdir hafa ekki verið til þess að setja þær ofar á forgangslista. Það er ljóst að slíkar framkvæmdir samkvæmt séríslensku reglunum verða of umfangsmiklar ef horft er til Evróputilskipunarinnar.

Í fréttum RÚV var látið að því liggja að skipan heilbrigðisnefnda sveitarfélaga væri ástæða þess að heilbrigðiseftirlitin beittu ekki dagsektum og að eftirlitið setti kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að starfsemi sveitarfélaga.  Reynslan er sú að það er mikill vilji hjá rekstraraðilum að hafa sína starfsemi í góðu lagi og á það ekki síður við um sveitarfélög en fyrirtæki sem eru í rekstri.

Heilbrigðiseftirlitum er skylt að fara að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og  beita starfsemi á vegum sveitarfélaga, sem og aðra starfsemi,  þvingunarúrræðum laga  ef  önnur úrræði þrýtur, s.s. að loka ákveðinni starfsemi eða takmarka hana tímabundið. Á það við um t.d. sundlaugar, vatnsból, leiktæki og húsnæði. Hvað varðar umræddar dagsektir, þá er ekki til mikils að nota viðkomandi úrræði í ljósi 71. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.  Fyrir nokkrum árum var á Alþingi vakið máls á að dagsektir væru í raun gagnslaust úrræði vegna þess að þær falla niður um leið og sá brotlegi lætur tilleiðast að fara að lögum.  Ég tel það ekki vænlegt að meta störf  heilbrigðisnefnda út frá því hversu oft þær beita hálfónýtu verkfæri.

Aldrei hef ég orðið var við annað en að í Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra ráði málefnaleg sjónarmið ferðinni og þar sé bæði metnaður fyrir góðu starfi og ábyrgum rekstri, því sætir þessi framsetning RÚV mikilli furðu.  Heilbrigðisnefndirnar gegna mjög mikilvægu hlutverki þar sem ákvarðanir eru þá í  höndum þeirra sem þekkja vel til staðbundinna aðstæðna í stað miðstýrðrar ákvarðanatöku.  Miðstýringin stríðir gegn inntaki Staðardagskrár 21 (Local Agenda 21) en rauði þráðurinn í stefnunni gengur út á að virkja almenning og nærsamfélagið til siðferðislegrar umhverfisvitundar og virkrar þátttöku í umhverfismálum. Bein ábyrgð á eftirliti og eftirfylgni heilbrigðisnefnda er því eina rökrétta leiðin út frá þeirri stefnumótun stjórnvalda sem unnið er út frá.

Mikilvægast er að vinna skipulega og af skynsemi að því að ná árangri í fráveitumálum en minna skiptir hver slær og hvernig á puttana á öðrum.  Umfjöllun RÚV hjálpar vissulega við það koma málinu ofar á dagskrá, sem greiðir vonandi fyrir sómasamlegri lausn, en árangur í umhverfismálum verður seint talinn í fjölda þvingunarúrræða.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur