Mánudagur 12.08.2013 - 19:22 - FB ummæli ()

Félagsvísindasvið Háskóla Íslands á villigötum

Eitt af meginhlutverkum háskóla er  að vera gagnrýnið afl í samfélaginu. Forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands virðist engan vegin átta sig á því hlutverki ef marka má viðtal við hann á Bylgjunni þann 12. ágúst sl. Málflutningur forsetans  var í stuttu máli  sagt áróður fyrir íslenska kvótakerfinu, sem hefur leitt til brottkasts, svindls og byggðaröskunar, auk þess að hafa komið í veg fyrir nýliðun í atvinnugreininni og leitt til stórfellds eftirlitskostnaðar.  Öllum ætti að  vera ljóst að kerfið er alls ekki að ganga upp þó það væri ekki nema fyrir þá nöpru staðreynd að þorskaflinn er nú einungis helmingurinn af því sem að hann var fyrir daga kerfsins.

Í stað þess að fræðimenn HÍ fari ofan í saumana á augljósum göllum íslenska kvótakerfisins og leggi til breytingar landi og þjóð til heilla, þá er kerfið mært og allt mögulegt og ómögulegt talið því til tekna.  Í framangreindu viðtali var kerfið sagt leiða af sér hvorki meira né minna en best rekna sjávarútveg í heimi, sem væri m.a. í mun betri málum en norskur sjávarútvegur. Kerfið  var sömuleiðis sagt vera  lykill að ýmsu markaðsstarfi og fullvinnslu afurða,  s.s niðursuðuafurða og roðvinnslu á Sauðárkróki. Ef farið er yfir fullyrðingar forseta Félagsvísindasviðsins, þá standast þær ekki neina skoðun.

Förum yfir málið:

Er kvótakerfið forsenda fullvinnslu  og framleiðslu niðursuðuafurða? Varla! Þar sem niðursuða sjávarafurða hófst á Íslandi á 19. öld og var mjög blómleg á 20. öldinni víða um land, m.a.  á Akureyri, þar sem „sardínur“  voru soðnar niður, gaffalbitar komu frá Siglufirði og ýmsar afurðir frá Ora svo eitthvað sé talið til.  Það er sömuleiðis hrein og tær vitleysa að gefa það í skyn kvótakerfið sé einhver forsenda þess að roð fari til frekari vinnslu  hér á Sauðárkróki.

Stenst fullyrðingin um giftursamlegt markaðsstarf íslensku virðiskeðjunnar í sjávarútvegi?  Svar Viðars Garðarssonar, eins helsta sérfræðings landsins í markaðsmálum, við þeirri spurningu er nei, en hann var með sérstakan þátt á mbl.is   um málið undir yfirskriftinni „Lítil sérstaða íslensks fisks“.

Getur það staðist að Norðmenn standi langt að baki Íslendingum hvað varðar rekstur og fullvinnslu sjávarafurða? Nei. Norðmenn eru framarlega í framleiðslu á kavíar úr þorskhrognum, reykingu fiskafurða og lýsisframleiðslu. Norðmenn er sömuleiðis miklu framar í markaðsstarfi en Íslendingar, enda hafa þeir í digrari sjóði að sækja. Ekki hefur frést af miklum afskriftum hjá norskum útgerðarmönnum, ólíkt ýmsum starfsbræðrum þeirra hér við land, sem hafa einnig varað við að nær öll gjaldtaka geti riðið útgerðinni að fullu.  Skýtur það nú ekki skökku við að ef flett er í  gegnum norsk sjávarútvegsblöð á borð við Fiskaren að þar er ávallt að finna fréttir af glæsilegri nýsmíði skipa og tækjabúnaðar fyrir norskan sjávarútveg  á meðan sá „best rekni  í heimi“, að mati forseta Félagsvísindasviðs HÍ, notast við togara sem eru að meðaltali þjátíu ára gamlir?

Vissulega hefur margt jákvætt gerst í íslenskum sjávarútvegi á síðustu áratugum frá því að kvótakerfið var tekið upp, en flest af því á rætur að rekja til annarra þátta, svo sem opinna fiskmarkaða og framþróunar í tölvu og flutningatækni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur