Sunnudagur 13.10.2013 - 19:24 - FB ummæli ()

Samherjar gegn þjóðinni

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, lætur sig margvísleg þjóðþrifamál varða á borð við rusl á víðavangi í Höfuðborginni og stofnaði í þeim tilgangi sérstaka síðu á veraldarvefnum til þess að fá borgarbúa með sér í baráttuna.

Það kom mér því nokkuð á óvart að heyra málflutning lögmannsins  í morgun í útvarpsþættinum Sprengisandi þar sem að hann dró taum samherja síns, Þorsteins Más Baldvinssonar, í stjórn Glitnis gegn hagsmunum þjóðarinnar.  Glitnir banki sem þeir Sigurður G. og Þorsteinn Már stýrðu í aðdraganda hrunsins með sínum Stím ævintýrum fór eins og kunnugt er lóðbeint á hausinn. Gjaldþrot þeirra samherjanna er eitt af stærri gjaldþrotum veraldarsögunnar.

Sigurður G. reyndi að rökstyðja þá  skoðun sína í viðtalinu að Þorsteinn Már ætti persónulega drjúgan hluta af fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar á Íslandsmiðum þar sem að hann hefði keypt ónýtan togara þegar hann vann í skipasmíðastöð Suður með sjó á þeim tíma sem núverandi kvótakerfi var tekið upp.  Hann réttlætti þá skoðun sína með því að hann hefði keypt einhvern hluta af tímabundnum veiðiheimildum, sem veittar voru af stjórnvöldum til eins árs í senn, af öðrum útgerðarmönnum, sem höfðu þær einnig tímabundið til afnota, og fékk það út að þar með væri um séreign viðkomandi útgerðarmanns að ræða.  Það hljómaði því undarlega þegar hann hélt því fram að fiskur væri einskis eign fyrr en hann væri kominn upp úr sjónum.

Lögmaðurinn mátti ekki heyra á það minnst að þeir, sem nytu tímabundinna sérréttinda umfram aðra Íslendinga, þyrftu að greiða fyrir sérgæðin!  Með þessari afstöðu er tekin afstaða með sérhagsmunum gegn íslensku þjóðinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur