Þriðjudagur 26.11.2013 - 00:13 - FB ummæli ()

Þökkum þeim

Samtakamáttur og barátta  Íslendinga á áttunda áratug síðustu aldar gerði þjóðinni kleift  að færa út fiskveiðilögsögu landsins í 200 mílur. Baráttan kostaði langvinnar deilur við þær þjóðir Evrópu sem nytjað höfðu íslensk fiskimið um áratuga skeið. Deilunum fylgdu hótanir um úrsögn úr NATO, ásiglingar breskra herskipa á íslensk varðskip og slit á stjórnmálasambandi við Breta.

Sigurinn sem vannst í deilunni var grunnforsenda þess að þjóðin náði yfirráðarétti yfir veiðum á öllum nytjastofnum í lögsögunni og þar með makrílnum.  Mér finnst sem að núverandi sjávarútvegsráðherra geri harla lítið úr þeirri baráttu sem þjóðin háði um fiskimiðin á sínum tíma, í grein í Morgunblaðinu þann 25. nóvember sl.  Í greininni fullyrðir hann að samningsstaða Íslendinga til þess að fá að veiða makríl í íslenskri lögsögu, væri nánast vonlaus ef að stórútgerðin hefði ekki haldið til makrílveiða þegar makríll fór að veiðast hér við land!

Mér hefði þótt fara betur á að sjávarútvegráðherra hefði þakkað þeim sem ætti raunverulegar þakkir skyldar, í stað þess að draga taum þeirra sem vilja gera makrílinn að skiptimynt í alræmdu kvótabraski.  Nýframsóknarmenn virðast vilja slá ryki augu almennings með illa rökstuddum fullyrðingum um hagkvæmi framseljanlegra fiskveiðikvóta.  Vissulega er það hagkvæmt fyrir þá aðila sem fá kvótann gefins –  það sást vel á fjáfestingum  í aðdraganda hrunsins m.a. í;  þyrlum, Stoke og fjármálafyrirtækjum – Ekki þarf hins vegar að fara í langa göngutúra um helstu sjávarbyggðir landsins sem flestar hafa munað  fífil sinn fegurri og skoða heildarafla og aldur íslenskra fiskiskipa, til þess að sjá  hið augljósa – að kerfið er alls ekki að gera sig.

Ef að sjávarútvegsráðherra hefur raunverulegan vilja til þess að láta jafnræði ríkja um nýtingu á makrílnum og hægja á græðgisvæðingunni þá er sú röksemdafærsla mun greiðfærari en sú ófæra sem ríkisstjórnin stefnir nú út í.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur