Þingmenn Sjálfstæðisflokksins kenna sig við að vera hægrimenn og vilja í orði kveðnu nýta markaðslausnir þegar vel liggur á þeim. Markaðslausnir fela í sér að verð á vöru og þjónustu ræðst af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði.
Óneitanlega er það skringilegt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og sömuleiðis Samtökum Atvinnulífsins fagna sérstöku átaki undir kjörorðinu „Stöndum saman og rjúfum vítahring verðbólgunnar“ sem felur m.a. í sér að setja fyrirtæki sem hækka verð á vöru, á svartan lista ASÍ.
Stæði það ekki hægrimönnum nær að berjast gegn verðtryggingu sem leiðir til sjálfvirkrar hækkunar á kostnaði eða þá fákeppni og óeðlilegum viðskiptaháttum. Fjölmörg dæmi eru um fákeppni í íslensku viðskiptalífi og óeðlilega viðskiptahætti, á borð við ríkisverðlagningu Verðlagsstofu skiptaverðs á fiski langt undir frjálsu markaðsverði.
Heilbrigðir hægrimenn ættu miklu frekar að leggjast á árar með þeim sem vilja að sanngjörn markaðslögmál ríki og opna fyrir samkeppni sem víðast í stað þess að festast í því að réttlæta óeðlileg séríslensk kerfi og fákeppni.
Ánægja þingmanna Sjálfstæðisflokksins með svarta listann er óeðlileg ef litið er til þeirrar stefnu sem flokkurinn kennir sig við, en á hinn bóginn þá er hún í góðu samræmi við athafnir flokksins á síðustu árum.