Þriðjudagur 04.02.2014 - 00:08 - FB ummæli ()

Íslendingar skildu Norðmenn í haust

Erfitt er að fá nokkurn botn í afstöðu LÍÚ og íslenskra stjórnvalda í viðræðum við Evrópusambandið og Norðmenn. Nú er lausn deilunnar sögð stranda á því að Norðmenn vilji veiða meira en ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins segir til um.  Ef allt væri með felldu þá ættu íslensk stjórnvöld að taka tillögum sem geta aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar fagnandi. Mögulega sjá ráðamenn LÍÚ ákveðna hættu á að ef veiðar verði auknar verulega að þá gæti það orðið til þess að smábátar fengju að taka þátt í makrílveiðunum. Eins og komið hefur rækilega fram í fjölmiðlum þá sitja þingmenn Framsóknarflokksins á leyndófundum með LÍÚ til að móta afstöðu þingmanna flokksins.

Aumt er að sjá hvernig sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar var dreginn fram í sviðsljósið af Morgunblaðinu til þess að rökstyðja málstað LÍÚ og Framsóknarflokksins og halda því fram að málflutningur Norðmanna sé óskiljanlegur og undarlegur, þar sem að hann gangi gegn ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins.  Málflutningur Hafró nú í febrúar um að ekki megi fara á svig við ráðgjöfina stangast algerlega á við það sem sérfræðingur Hafró, Guðmundur J. Óskarsson hélt  fram sl. haust um að lítið væri að marka umrætt stofnmat og veiðiráðgjöf þar sem hún byggði á kolröngum gögnum sem gæti ekki leitt til annars en rangrar niðurstöðu.

Flestum ætti að vera ljóst sem fara á annað borð yfir forsendur veiðiráðgjafar Alþjóðahafrannsóknarráðsins, að kvótasetningin hvílir á afar veikum grunni og að makrílstofninn hefur farið vaxandi þrátt fyrir að veitt hafi verið um árabil langt umfram svokallaða veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur