Fimmtudagur 06.02.2014 - 11:05 - FB ummæli ()

Hvenær er nóg – nóg?

Íslenskir fjölmiðlar með Morgunblaðið í broddi fylkingar hafa fjallað ítarlega og með mikilli meðaumkun um þá erfiðu daga sem íslenskar stórútgerðir ganga í gengum. Að mati forkólfa útgerðarmanna, þá hafa stjórnvöld búið atvinnugreininni svo harðneskjuleg skilyrði, að þeir hafa líkt stöðu sinni við aðstæður gyðinga á dögum þriðja ríkisins. Sömuleiðis eru dæmi um að þeir hafi dregið upp ljósmyndir af börnum sínum á fundum grátklökkir og óttast um framtíð barna sinna.

Á sama tíma og forstjóri Brims hefur sett atvinnuöryggi fjölda fjölskyldna í uppnám með uppsögnum, þá beindi hann spjótum sínum að stjórnvöldum og sagði þau búa fyrirtækinu ólíðandi rekstrarskilyrði!  Forstjórinn virðist vera búinn að gleyma því að hann fékk nýlega hjá ríkisbankanum afskrifaða 20 þúsund milljónir króna og hreinn hagnaður Brims ársið 2012 var þjúþúsund og sjöhundruð milljónir króna. Afskriftirnar nema upphæð sem er margfaldar skuldir skulduga sveitarfélaginu Skagafirði og hagnaður Brims, á árinu 2012 var mun meiri en allar tekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Forstjóri Brims hefur því ekkert tilefni til þess að væla og þessar æfingar hans í fjölmiðlum eru beinlínis ósvífnar gagnvart almenningi sem glílmir við raunverulega erfiðleika.

Í sjálfu sér er skiljanlegt að blaðamenn á Morgunblaðinu verði að taka þátt í þessum leik að hugga útgerðaraðalinn enda blaðið í eigu þeirra en furðulegt er að sjá aðra fjölmiðla verða meðvirka í umfjölluninni.

Í lokin er rétt að spyrja hvort að forstjóri Brims sem hefur tímabundin einokunarrétt til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna, sé að gera eitthvað svona ofboðslega merkilegt sem enginn annar getur gert?  Mín skoðun er sú að það sé nákvæmlega ekki neitt og tímabært sé að hleypa öðrum að í greininni, sérstaklega þegar mönnum líður svona illa í því sem þeir eru að gera.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur