Sunnudagur 04.01.2015 - 16:07 - FB ummæli ()

Út úr hvaða hól kemur Sigmundur Davíð?

Í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun,  fékk forsætisráðherrann okkar langt viðhafnarviðtal, þar sem að hann fór yfir sýn sína á stjórn landsins. Sigurjón M. Egilsson stjórnandi þáttarins fer ekki þá leið að vera mjög gagnrýnin á svör viðmælandans líkt og Helgi Seljan er þekktur fyrir. Nei, það er frekar að Sigurjón M. Egilsson veiti viðmælandanum stuðning og í morgun hafði ég á tilfinningunni að stjórnandinn héldi beinlínis í hendina á forsætisráðherra.  Þessi tækni hefur sína miklu kosti, þar sem að sá sem situr fyrir svörum hættir til að fara á flug og segja heldur meira en ella.  Það var einmitt það sem Sigmundur Davíð gerði í morgun hann tókst á loft og beraði hversu illa upplýstur hann er m.a. um málefni sjávarútvegsins.

Sigmundur Davíð fullyrti að á öðrum stöðum í heiminum en á Íslandi, væri stunduð ríkisstyrkt ofveiði – Um hvað er maðurinn að tala og hvaða rugl er þetta? Það á að minnsta kosti ekki við í Færeyjum, Rússlandi og Noregi.  Í ESB er farið nokkuð nákvæmlega eftir sömu „vísindalegu ráðgjöf“ ICES og gert er hér á Íslandi og er árangurinn þar eins og hér – hörmulegur!  Þorskveiðin nú á Íslandsmiðum er helmingurinn af því sem veiðin var fyrir daga kvótakerfisins.

Norskur sjávarútvegur gengur vel og frelsi til nýliðunar í greininni er með þeim hætti að íslenskir smábátasjómnenn sem hafa hrakist úr landi vegna atvinnuhafta illræmds kvótakerfis eru að byggja upp sínar útgerðir í Noregi.

Undarlegt var að hlýða á forsætisráðherra gefa sig út fyrir að hann væri verndara sjávarbyggðanna.  Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan fiskvinnslufólk var flutt nánast nauðungarflutningum úr kjördæmi forsætisráðherra og til Suðurnesja. Það er ljóst að að ef núverandi kerfi verður fest í sessi, þá mun það halda áfram að koma harkalega niður á sjávarbyggðunum. Núverandi kerfi er vissulega gott fyrir stórútgerðina, en ekki fyrir starfsfólk í greininni. Alengt er að fiskvinnslufólk fái greitt útborgað rétt liðlega 200 þúsund krónur á mánuði, sjómenn fá ekki greiddan hlut af raunvirði aflans heldur er farið eftir Verðlagsstofuverði sem tugum prósenta lægra. Allur almenningur tapar á tvöföldu verðlagningunni þar sem að hún  ýtir undir „hækkun í hafi“.  Afurðir eru seldar á undirverði út úr landinu í gegnum sölufyrirtæki stórútgerðanna,  þar sem hagnaðurinn hverfur inn í skattaparadísir.

Vonandi fer forsætisráðherra í það verka að kynna sér raunverulega ástand í sjávarbyggðum landsins.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur