Það var einkennilegt að hlusta á viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þeim fréttum að ríkisstjórnin væri hætt við að leggja fram umdeilt frumvarp um stjórn fiskveiða. Rætt var við leiðtoga Samfylkingar, BF og síðan Steingrím J. sem enn virðist ráða því sem hann ráða vill í Vg. RÚV sleppti því algerlega að taka púlsinn á Pírötum við vinnslu frétttarinnar. Ég saknaði þess að fá ekki fá ekki að heyra í þeim þar sem málflutningur hinna var ekki upp á marga fiska.
Ekki bar á öðru en að þremenningarnir söknuðu þess sárlega að frumvarpið hefði ekki komið fram þrátt fyrir að það mætti skilja á félögunum að frumvarpið væri ónýtt!
Inntak rökstuðnings formanns Samfylkingarinnar virtist vera vel æfðir frasar, beint frá LÍÚ, um að ríkisstjórnin væri að koma greininni í nagandi óvissu. Steingrímur J., sem þekkir mjög til deilna, tók sér stöðu stjórnmálaskýranda og sá fyrir sér djúpstæðar deilur á stjórnarheimilinu, þar sem að ríkisstjórnin gæti ekki klárað mál. Formaður BF var að venju undrandi á öllu málinu og ekki leyndi sér að hann var vonsvikinn yfir stöðu mála.
Með því að festa sig í gamalkunnum frösum er stjórnarandstaðan að skila auðu í umræðunni um stjórn fiskveiða. Lítill vilji virðist vera hjá öðrum flokkum en Pírötum til að skoða gagnrýni á núverandi kerfi. Reynsla síðustu áratuga hefur sýnt okkur að kvótakerfi í blönduðum botnfiskveiðum er afar vond aðferð við að stjórna veiðum og miklu nær að beita sóknarstýringu. Kerfið hefur reynst illa en þorskveiðin nú hér við land er um helmingur af því sem hún var fyrir daga kerfisins og ýsuveiði við sögulegt lágmark.
Stjórnarandstaðan gerir ekki neinn ágreining um tvöfalda verðlagningu á fiski, sem hefur þær afleiðingar að sjómenn fá ekki sömu laun fyrir sömu vinnu og það sem sparast rennur beint í vasa útgerðarinnar. Tvöfalda verðlagningin kemur í veg fyrir eðlilega samkeppni og nýliðun í matvælavinnslu.
Stjórnarandstaðan virðist vera algerlega föst í frösum einangraðra hagsmunasamtaka og ekki hafa burði til að taka stjórn fiskveiða til opinnar og málefnalegrar umræðu.