Það má vel taka undir það sem Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknarflokksins segir um vinnubrögð núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra í húsnæðismálum. Ráðherrann blaðrar í sífellu um kerfisbreytingar á meðan verk hennar eru mjög ómarkviss. Afleiðingarnar eru að ekkert hefur gerst í húsnæðismálum á þeim rúmu tveimur árum sem ríkisstjórnin hefur setið annað en að hagur almennings hefur versnað, á meðan fasteignafélög nátengd fjármálafyrirtækjum hafa fitnað.
Mér finnst það þó heldur harkalegt að skella allri skuldinni á Eygló Harðardóttur eina en hún býr við þær aðstæður í ríkisstjórninni að hvorugur oddviti ríkisstjórnarflokkanna hefur nokkurn áhuga né skilning á málaflokknum. Þeirra áherslur snúa að málefnum ríka fólksins og þess vegna vilja þeir: hækka bankabónusa, afnema auðlegðarskattinn og færa makrílinn í einkaeign örfárra fjölskyldna.
Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott þar sem enn getur sjálfshælinn forsætisráðherra státað af einu hæsta vaxtastigi í heimi og einstæðri verðtryggingu. Háir vextir eru einu sinni langstærsti kostnaður einstaklinga við húsnæðiskaup – Líklegast hafa flestir ráðherrar í ríkisstjórninni áttað sig á afleiðingum hárra vaxta, en þeim er bara nákvæmlega sama.