Sunnudagur 20.09.2015 - 19:14 - FB ummæli ()

Gunnar Bragi ætti að læra af Degi

Margir helstu stjórnmálaskörungar Reykjavíkurborgar og í landsstjórninni eru mjög uppteknir við að taka þátt í að útkljá helstu og flóknustu deilur alþjóðastjórnmálanna, á sama tíma og þeir láta hjá líða að greiða úr minni málum heimahaganna. Ekki bólar á því að almenningur sjái fyrir endann á vaxtaokri, verðtryggingu eða raunverulegum úrbótum í húsnæðismálum. Lítill áhugi er hjá framangreindum aðilum að ræða skynsamlegri og réttlátari nýtingu fiskimiðanna. Nei, púðrinu er helst eytt  í að taka virkan þátt í alþjóðlegum deilum fyrir botni Miðjarðarhafs og austur á Krímskaga eða þá hvernig Ísland geti leyst vanda þeirra tugmilljóna manna í heiminum sem eru á vergangi vegna stríðsátaka.

Þrátt fyrir áherslur stjórnmálaskörunganna á alþjóðamálin eru tillögurnar og úrræðin sem gripið er til oftar en ekki algerlega vanhugsuð. Engu er líkara en að ráðamenn hafi hvorki  víðtæka þekkingu á deilunum sjálfum sem þeir eru að blanda þjóðinni í né hafi kynnt sér þær afleiðingar sem aðgerðir þeirra hafi. Það var augljóst á ruglandanum í kringum þvinganir Íslands gagnvart Rússlandi og sömuleiðis í dæmalausu en skammvinnu viðskiptabanni Reykjavíkurborgar á Ísrael.

Meirihluti borgarstjórnar hafði lítið sem ekkert spáð í það fjárhagslega tjón sem bannið hefði í för með sér eða þá hvernig ætti að framfylgja banninu. Borgarstjóri gerði það eina rétta í klúðrinu þegar hann boðaði að hætt yrði við bannið. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík ætti að geta sætt sig við viðsnúninginn, en hann hefur náð fram athygli og umræðu um ástand mannréttindamála í Ísrael. Á hinn bóginn er augljóst að langvinnt viðskiptabann Reykjavíkurborgar á Ísrael hefði ekki skipt neinu fjárhagslegu máli fyrir Ísrael. Viðskiptaþvinganir Íslands gagnvart Rússlandi eru sama marki brenndar. Ráðamenn virtust ekki hafa nokkurn minnsta grun um að þær hefðu neikvæðar afleiðingar fyrir landshag og að Rússar myndu svara í sömu mynt. Það er sömuleiðis kristaltært að viðskiptaþvinganir Íslands gegn Rússlandi munu ekki breyta einu né neinu í  stuðningi Rússa við rússneska minnihlutann í Úkraínu.

Tjón íslensks almennings er að öllum líkindum miklum mun meira vegna deilna íslenskra stjórnvalda við Rússland en vegna klúðurs Reykjavíkurborgar. Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að tekjur íslenskra launþega skerðist um hátt í 3 milljarða króna árlega vegna deilnanna og þá er ótalið tap fyrirtækja og hins opinbera!

Það væri ráð að utanríkisráðherra lærði af viðsnúningi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í stað þess að festast í klúðri og óþörfum deilum við Rússa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur