Miðvikudagur 30.09.2015 - 22:31 - FB ummæli ()

Ekki allt á leið til fjandans

Afar jákvæð þróun hefur átt sér stað í umhverfismálum  síðustu áratugina, bæði nær og fjær. Á Íslandi hafa orðið stórstígar framfarir á mörgum sviðum t.d. í förgun sorps og bættri nýtni á gæðum jarðar.   Út í hinum stóra heimi hafa sömuleiðis margir mikilvægir áfangar náðst í bættum mengunarvörnum og efnanotkun. Það hefur leitt af sér margvíslegar framfarir m.a. í bættum loftgæðum og að styrkur þrávirkra lífrænna efna hefur farið minnkandi í umhverfinu jafnt og þétt síðustu fjóra áratugina.

Þrátt fyrir framangreindar staðreyndir þá einkennist umræðan um umhverfismál í fjölmiðlum af dómsdagsspám.  Oftar en ekki eru dómsdagsspár nútímans íklæddar fræðilegum vísindabúningi. Þegar farið er með gagnrýnum hætti yfir gögnin sem spárnar byggja á, þá kemur oftar en ekki í ljós að þau eru rýr og ályktanir ekki í nokkru samræmi við niðurstöðurnar.  Í fréttum hér innanlands koma reglulega fram fréttir af því að einhver dýrastofn s.s. lundi, bleikja, sandsíli, ýsa eða jafnvel refastofninn sé hruninn og einhverjar ægilegar hamfarir séu í uppsiglingu. Í fréttum af ótíðundunum er þess sjaldnast getið að það sé ofur eðlilegt að stærð framangreindra dýrastofna sveiflist mjög. Ef stofn er stór eru allar líkur á að hann taki dýfu og sama á við ef stofn er í lægð þá eru líkur til þess að hann stækki. Líklegasta skýringin á ýkjunum er sú að þeir sem veita fjármagni til rannsókna á náttúrunni finnst þeim ekki vel varið nema sé verið að finna lykil og helst einhverja lausn á dularfullu og ískyggilegu hruni.

Út í heimi berast með reglulegu millibili fréttir af því að allt sé að fara til verri vegar og að vísindagögn sýni að allir fiskistofnar heimsins séu við það að gufa upp.  Fyrir nokkrum árum flutti RÚV fréttir af því að það stefndi í að fiskveiðar legðust af árið 2048.  Það komst síðan upp að fullyrðingin um endlok allra fiskveiða í heiminum reyndist vera fölsk beita vafasamra „vísindamanna“ til að fanga athygli fjölmiðla. Á sínum tíma reyndi ég að leiðrétta RÚV, en hafði ekki erindi sem erfiði.  Því miður virðist sem RÚV hafi lítið lært af málinu af meintum endalokum allra fiskistofna árið 2048, þar sem enn er sagt gagnrýnislaust frá ógnum allra fiskistofna heimsins.

Nú síðast var það frétt þess efnis  að rannsókn á vegum World Wildlife Fund, staðfesti að dýraríki heimshafanna hefði minnkað um helming frá árinu 1970. Í fréttinni kemur fram að hægt sé að snúa þróuninni við ef teknar verði upp umhverfisvænar veiðar, sem væntanlega þyrfti að votta fyrir ærinn kostnað, hjá rannsakendunum sjálfum, World Wildlife Fund. Ekki hafa fréttamenn RÚV, enn greint frá þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á augljósa galla á aðferðafræði skýrslunnar og  innstæðulausum fullyrðingum skýrslunnar.Í nýrri grein í Science er fullyrt að maðurinn taki til sín allt að 14 falt stærri hluta af fiskistofnun en aðrir afræningjar. Það er  beinlínis rangt og stenst ekki nokkra skoðun.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fara yfir faglega gagnrýni á áróðursplagg WWF geta kynnt sér hana á heimasíðu hóps vísindamanna sem hafa stofnað tengslanetið CFOOD, sem berst á móti augljóslega röngum fréttafluttningi af áhrifum fiskveiða, sem hvað eftir annað koma fram, í stórum og áhrifamiklum fjölmiðlum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur