Þriðjudagur 29.03.2016 - 22:29 - FB ummæli ()

Tortólastjórnin

Nú hafa æðstu ráðamenn þjóðarinnar játað að hafa falið fé í skattaskjólum og verið meðal stórra kröfuhafa í föllnu bankana. Þeir eru einnig orðnir berir að ósannsögli og vanhæfi.

Ástæðan fyrir því að peningar eru geymdir í skattaskjólum er ekki flókin. Hún snýst ekki um; gleymsku, að vera búsettur í útlöndum, fá arf eða kaupa hús í Dúbaí. Nei hvatinn er einfaldlega að snúa á skattyfirvöld.

Flestir ættu að muna eftir því þegar formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson sá alla meinbugi á því að afla upplýsinga um undanskot íslenskra auðmannna í erlendum skattaskjólum.  Í umræðum um málið haustið 2014 lagði hann þunga áherslu á að öllum skattsvikurunum  verði gefnar fyrirfram upp allar sakir!  Ég man ekki betur en að hann hafi notið mikils skilnings hjá forsætisráðherra í málinu.  Á sama tíma og Tortólaráðherrar sáu alla meinbugi á að afla persónuupplýsinga um skattaskjólin settu þeir í snarhasti lög um hvernig afla mætti allra mögulegra persónulegra gagna um íslenska öryrkja m.a. úr læknaskýrslum og um tekjur maka þeirra, svo eitthvað sé nefnt, til þess að tryggja að ekki væri krónu ofaukið í vösum öryrkjanna.

Þessar fréttir af skattaskjólsfélögum æðstu ráðamanna koma mér ekki svo á óvart – það sem kemur óvart er hve vörn ráðamannanna og stuðningssveitar þeirra innan  þings sem utan, er heiftúðleg og ómerkileg.  Ráðist hefur verið að RÚV fyrir að flytja fréttir um málið, reynt að láta málið snúast um meintan rógburð eða þá að með umfjöllun sé verið að vega að jafnrétti kynjanna!  Það liggur við að ég kenni í brjóst um harða stuðningsmenn Tortólaráðherranna, sem halda þessa dagana uppi nauðvörn fyrir þá, á síðum blaða, netinu og á Útvarpi Sögu.  Sumir hverjir sem harðast ganga fram hafa jafnvel þurft sæta framangreindum persónunjósnum yfirvalda og undarlegt er að lesa stuðningsgrein eldriborgara við Tortólaráðherra í Morgunblaðinu, sem hafa varla efni á að kaupa blaðið í lausasölu.

Það er allra hagur að auka gagnsæi og fá á hreint hvaða hagsmuni ráðamenn eru að verja.  Þegar Bjarni Benediktsson æðsti yfirmaður allrar skattheimtu  og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar í landinu sáu alla meinbugi á því að afla gagna um skattaskjólin, þá voru þeir með sinn eigin hag í huga, en alls ekki hag þorra almennings.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur