Fimmtudagur 31.03.2016 - 18:04 - FB ummæli ()

Til þess var leikurinn gerður

Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við að æðstu ráðamenn þjóðarinnar séu með félög í skattaskjólum. Rétt er að velta fyrir sér hvaða hvatar liggja að baki þess að Íslendingar skrái félög í Tortóla eða Seychelles-Eyjum.  Helsti hvatinn sem liggur að baki er að fela slóð peninga og komast hjá upplýsingaskyldu skattyfirvalda.   Það eru einkum 3 ástæður fyrir því að menn leggja á sig langa leið með stofnun fyrirtækja í skattaskjólum.

Í fyrsta lagi eru það þeir sem vilja koma löglega fengnu fé undan skattlagningu.  Í öðru lagi eru það þeir sem vilja koma ólöglegum feng undan yfirvöldum vegna ólöglegrar starfsemi á borð við dópsölu. Í þriðja lagi er verið að sækjast eftir því að geta lagt aukinn kostnað á löglega starfsemi, til að minnka hagnað og þar með skattgreiðslur.

A) Undanskot á löglega fengnu fé. Ástæða þess að auðmenn vilji koma löglega fengnu fé undan er yfirleitt sú að verið er að forðast að greiða skatta af hagnaði.  Lykillinn fyrir því að það gangi upp er að gefa upp kaupin á Tortólafélaginu til skatts og skrá tryggilega flutninginn á fé í félagið. Í þessu ljósi er forhert hjá stjórnarherrunum að reisa þá vörn á bak við stofnun félaga í skattaskjólum að allt hafi tryggilega verið gefið upp til skatts, til þess var leikurinn alltaf gerður.  Sjaldnast er fé geymt á Tortóla heldur á Tortólafélagið reikning í öðru landi t.d. á Bretlandi eða Lúxemborg sem eigendur félagsins nýta sér til þess að losa út fé, án nokkurs eftirlits.  Þegar búið er að tæma reikninga félagsins má einfaldlega leggja niður Tortólafélagið.  Tryggilegast er að geyma að leggja aflandsfélagið niður í 7 ár frá stofnun þess en að þeim árum liðnum, fellur niður skylda til að varðveita íslensk bókhaldsgögn. Engin hætta er á að hægt sé af afla nokkurra upplýsinga frá Tortóla um rekstur fyrirtækisins, þegar send er inn tilkynning um að „starfsemi“ félags hafi verið hætt.

B) Ólögleg starfsemi. Þeir sem stunda ólöglega starfsemi sækja sömuleiðis í þjónustu skattaskjóla og þarfnast það ekki mikilla skýringa á að slík starfsemi sæki í leyndina.

C) Búa til kostnað. Þeir sem eru með  rekstur á Íslandi, sem skilar einhverjum hagnaði, geta stofnað fyrirtæki í skattaskjóli og sent háa reikninga til Íslands, sem verður til þess að í stað þess að það myndist skattstofn á Íslandi sem hægt væri að skattleggja þá færist aukið fé í skattaskjólin. Það er vel þekkt að fyrirtæki þar sem raunveruleg starfsemi fer fram séu skuldsett og eigandi skuldanna sé fyrirtæki í skattaskjóli í eigu sama aðila. Ákveðnir eru háir vextir og þóknanir sem verða til þess að fé flyst í auknum mæli í skattaskjólin.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur