Mánudagur 4.12.2017 - 23:03 - FB ummæli ()

Áhuga- og atvinnumenn

Mér fannst vel fundið að Kastljósið tæki viðtal við nýjan umhverfisráðhera í kjölfar umræðu um hvort fyrrum framkvæmdastjóri Landverndar væri heppilegur í starfi umhverfisráðherra.

Nýliðinn í stjórnmálum Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra komst vel frá Kastljósþætti kvöldsins, þar sem hann lýsti sýn sinni á starfið. Hann greindi réttilega frá því að úrskurðir í deilumálum sem snúa að málaflokkum ráðuneytisins væru að miklu leyti komnir til óháðra úrskurðanefnda. Það að hann hafi unnið af harðfylgni í starfi á vegum áhugamannnafélags um náttúruvernd ætti að gefa til kynna að hann geti tekið til hendi, en alls ekki að hann virði í engu andstæð sjónarmið.

Það er ekki úr vegi að RÚV haldi áfram umfjöllun um augljósa hagsmunaárekstra ráðherra og láti ekki staðar numið við nýliðann Guðmund Inga.  Nokkuð hefur borið á efasemdum um hvort fyrrum stjórnarformaður Samherja sé heppilegur í stóli sjávarútvegsráðherra.  Fyrir vestan hefur hann verið borinn þeim sökum að hafa misnotað aðstöðu sína sem bæjarstjóri á Ísafirði til þess að koma Guggunni gulu til Samherja.

Efst á blaði ætti auðvitað að vera hjá RÚV að taka til umfjöllunar hvernig tryggja megi að almenningur standi við sama borð viðskiptafélagar og fjölskyldufyrirtæki fjármálaráðherra þegar komið er að samningagerð við hið opinbera. Með öðrum orðum hvernig koma megi í veg fyrir ný Borgunarmál.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.11.2017 - 17:34 - FB ummæli ()

Reglugerð sem hvetur til framhjálöndunar

Einn af vondum fylgifiskum kvótakerfis í fiskveiðum er hvati brottkasts og rangrar upplýsingagjafar um landaðan afla, eins og skýrt kom fram í Kveik, fréttaskýringaþætti RÚV. Viðbrögð ráðamanna og hagsmunasamtaka útgerða við þættinum, hafa einkennst af því að halda því fram að vandamálið sé hverfandi og það heyri að mestu fortíðinni til.

Hér er  skýrsla Hafró frá í fyrra sem sýnir fram á að liðlega 2.138 tonn af þorski hafi verið hent í sjóinn á árinu 2015 og inn í þeirri tölu eru ekki öll veiðarfæri. Niðurstaða skýrslunnar er að reiknað brottkast hafi aukist en ekki minnkað eins og sjávarútvegsráðherra hefur haldið fram í kjölfar fréttflutnings RÚV!

Í stað þess að reglur um fiskveiðar séu; réttlátar, sveigjanlegar og þannig úr garði gerðar að taka í burtu hvata til brottkasts, þá er of oft farin þveröfug leið.  Sorglega gott dæmi um slíkt er reglugerð sem sett var árið 2011 um lúðuveiðar sem skyldaði sjómenn til þess að sleppa allri lífvænlegri lúðu í sjóinn. Þeirri lúðu sem ekki væri hugað líf átti að landa á markað og verðmæti aflans að gera upptæk í ríkissjóð. Þegar reglugerðin var sett, þá voru engar beinar lúðuveiðar stundaðar og öll sú lúða sem veiddist var meðafli á öðrum veiðum. Aðeins lítill hluti lúðu sem er veidd, er lífvænleg, þannig að þeir sem settu reglugerðina hafa eflaust búist við að eitthvað lítið myndi draga úr að lúðu væri landað á markað.  Ég benti hins vegar á það að reglugerðin myndi strax leiða til þess að lúðan yrði seld á svörtum markaði. Samkvæmt reglugerðinni fengu sjómenn ekkert fyrir vinnu sína og útgerð ekkert upp í kostnað við veiðar og löndun á aflanum. Afleiðingarnar af þessu regluverki létu ekki á sér standa – skráður landaður lúðuafli var strax árið eftir gildistöku reglugerðarinnar, innan við 7 % af því sem hann var ári áður.  Þar sem lúðan er að mestu meðafli þá er ljóst að raunveruleg veiði var miklu mun meiri en löndunartölur gefa til kynna. Reglum um lúðuveiðar var síðan breytt í lok árs 2012, þannig að útgerðir og sjómenn fá í sinn hlut 20% af virði landaðs lúðafla. Við þá breytingu jókst skráður lúðuafli upp í um 20% af því sem aflinn var áður en reglugerðin var sett.

Mér finnst tímabært að ráðamenn hætti þessu tali um BESTA sjálfbæra fiskveiðistjórnunarkerfið í heimi og fari að sníða augljóst misrétti og ágalla af kerfinu.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.11.2017 - 23:21 - FB ummæli ()

Þegar ég sótti um starf fiskistofustjóra

Nú fer hátt í einn milljarður króna í eftirlit með sjómönnum og mér er til efs að nokkur íslensk stétt manna sé undir jafn miklu eftirliti ef frá eru taldir íslenskir fangar.  Rekstur Fiskistofu slagar upp í að vera um 2/3 af rekstrarkostnaði fangelsanna.

Fyrir nokkrum árum þá sótti ég um starf fiskistofustjóra og var meira að segja boðaður í atvinnuviðtal í sjávarútvegsráðuneytinu.  Sú heimsókn var um margt minnisstæð m.a. fyrir þá sök að í ráðuneytinu var þá á ferð framkvæmdastjóri LÍÚ sem gek valdsamlega um svæðið rétt eins  og hann ætti það með hurðum og gluggum á meðan ágætur sjávarútvegsráðherra skaust laumulega um á milli herbergja.

Viðtalið sjálft byrjaði frekar vandærðalega. Ég þóttist finna í viðtalinu að mér sem þekktum baráttumanni gegn ónýtu og óréttlátu kvótakerfi og auknu frelsi til veiða, væri mætt af ákveðni tortryggni af yfirstjórn ráðuneytisins.

þegar ég var spurður út í mína sýn á starfið og svaraði því á þá leið að nauðsynlegt væri að nálgast verkefnið með öðrum hætti en gert væri.  Ég taldi nauðsynlegt að taka sem flesta hvata í burtu úr kerfinu til brottkasts.  Ein leið væri að fara í sóknarkerfi líkt og gert er í Færeyjum en þar er brottkast nær óþekkt. Ef ætlunin væri hins vegar að halda sig við kvótakerfi þá þyrfti að fara í ákveðnar breytingar m.a. að minni og verðminni fiskur drægist hlutfallslega minna frá  kvóta en stærri og verðmætari fiskur.  Ef svo væri þá hyrfi allur hvati til brottkasts á smáfiski. Sömuleiðis taldi ég rétt að tryggja að kvótaleiga yrði aldrei hærri en svo að sjómenn hefðu alltaf hag af því að landa öllum afla. Ef leigan er hærri en fæst fyrir aflann á markaði er lítil von til þess að fiskur skili sér í land.  Enginn þarf að velkjast í vafa um að sjómönnum mislíkar að þurfa að taka þátt í brottkasti og það ætti að vera auðvelt að ná miklum árangri með því að setja réttu hvatana inn í kerfið.

Gott ef ég benti ekki einni á í viðtalinu  að rétt væri að huga að nýtingaprósentu frystitogara og að eðlilega væri rétt að setja stórt spurningamerki við að stóru fyrirtækin í greininni vigtuðu sjálf aflann inn í sínar vinnslur.

Viðtalið endað síðan kurteislega en „sérfræðingur“ ráðuneytisins benti mér kurteislega á undir rós að ég væri ekki á réttum stað í atvinnuleit.  Ég er ekki frá því að fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV í kvöld, hafi staðfest að svo hafi alls ekki verið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.9.2017 - 22:16 - FB ummæli ()

Afrek Garðabæjarprinsins

Nú reynir á ábyrgð íslenskra kjósenda

Við fáum það á hreint hvort að hinn almenni kjósandi sé fyllilega sáttur við:

  1. Gjöf á eigum almennings til vandamanna forsætisráðherra, Borgun, upp á a.m.k. 5 milljarða króna!
  2. Að birta ekki skýrslur um annars vegar aflandsfélög og hins vegar hvernig „leiðréttingin“ rataði helst til stóreignafólks, en báðar þessar skýrslur voru tilbúnar fyrir alþingiskosningarnar á síðasta ári, en núverandi forsætisráðherra ákvað að halda þeim leyndum fram yfir kosningarnar!
  3. Stórfellda einkavæðingu á  heilbrigðiskerfinu!
  4. Stórhækkun á eldsneytissköttum og hótanir um að umlykja höfuðborgina með tollahliðum!

Kjósendur geta sagt skoðun sína á kjördag. Ef það er ekki gert með skýrum hætti í kjörklefanum, þá mun þessi listi lengjast hratt og örugglega. Ég hef fullan skilning á því að ríkasta 1% landsmanna vilji verðlauna afrek Garðabæjarprinsins, en  bágt með að skilja ef aðrir vilja taka þátt í því.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.8.2017 - 21:44 - FB ummæli ()

Karlmennskan í Barselóna

Það var mikið mannval í þættinum Vikulokunum á RÚV í dag, þann 19. ágúst.  Í þættinum voru aðstoðarmenn ráðherra, sérfræðingur sem hefur veitt íslenskum ráðamönnum ráðgjöf auk þáttarstjórnenda á Ríkisútvarpinu eða þau;  Snærós Sindradóttir, Andrés Jónsson, Ólafur Teitur Guðnason og Karl Pétur Jónsson.  Fyrirfram hefði mátt búast við yfirvegaðri og skynsamari umræðu um menn og málefni sem efst voru á baugi í liðinni viku.

Efst í huga álitsgjafanna var forseti BNA, vinaríkis Íslands og var bróðurparti þáttarins varið í að ræða Donald Trump. Í stað þess að það færi fram yfirveguð umræða, þá upphófst múgæsingur í hljóðverinu, þar sem forseti BNA var nefndur í sömu andrá og fasistar og minnt var á fjöldamorð nasista í seinni heimstyrjöldinni.  Gekk sefjunin í hljóðverinu svo langt að kallað var eftir bandarískt kerfi eða almenningur kæmu réttkjörnum forsetna BNA frá völdum „með einum eða öðrum hætti“, sem auðvelt er að skilja á versta veg.  Mér varð ekki um sel að heyra þessar yfirlýsingar fólks sem allt er nátengt æðstu ráðmönnum í einu friðsælasta ríki heims.

Umræðan í þættinum róaðist mjög þegar talið barst að hryðjuverkaárásum íslamista í Barselóna, en jafnframt varð hún vitlausari. Í stað þess að ræða augljósa rót vandans þ.e. hvernig megi ráðst gegn því að öfga íslamistar nái að spilla ungum múslimum, þá var kastljósinu beint að vanda ungra reiðra karlmanna almennt.    Það var látið að því liggja að það lægi einhver vafi á því hver kveikjan að hryðjuverkunum í Barselóna væri og kastljósinu jafnvel beint að vonleysi ungra karla í stórborgum Evrópu. Þeirri spurningu var jafnframt varpað fram áskandi út til íslensku þjóðarinnar – hvað við værum að gera rangt í uppeldinu sem samfélag!  Þessi bullkenning var síðan undirstrikuð með umræðu um sjálfsvíg ungra íslenskra karlmanna.

Það sem olli mér áhyggjum var niðurstaða opinberu álitsgjafanna. Hún var á þá leið að talsverð von væri á að alda hryðjuverka í Evrópu myndi linna, við það eitt að fjallað yrði minna um voðaverkin. Kenningin var á þá leið, að ef fjallað yrði minna um hryðjuverkin, þá yrði fólk síður hrætt, sem leiddi af sér minni hvata ungra reiðra karlmanna til þess fremja hryðjUverk.

Það að stinga hausnum í sandinn átti að leysa málið að sjálfu sér!

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.7.2017 - 19:59 - FB ummæli ()

Jónsskatturinn

Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með hugmyndaflugi ráðherra byggðamála, Jóns Gunnarssonar. Nýjustu hugðarefni hans hljóða á þá leið að skattleggja eigi allar leiðir út úr Reykjavík. M.ö.o. hyggst æðsti yfirmaður samgöngumála á Íslandi skattleggja alla þá sem vilja inn og út úr höfuðborginni.

Áhugavert væri að gera samanburð á því hve oft meðallandsbyggðarmaðurinn fer oft inn og út úr höfuðborginni samanborið við hinn almenna höfuðborgarbúa. Dettur einhverjum t.a.m. í hug  að borgarbúar neyðist jafnoft og landsbyggðarfólk þarf að gera  til þess að ferðast landshorna á milli að sækja sér læknisþjónustu? Ætla má, m.v. þann gífurlega mun á þjónustu sem boðið er upp á innan höfuðborgarinnar og utan hennar að landsbyggðarfólk þurfi að fara töluvert oftar til Reykjavíkur en Reykvíkingar út úr henni.

Ef hugmyndir ráðherra byggðamála ná fram að ganga leggst hinn nýi skattur Sjálfstæðisflokksins með margföldum þunga á landsbyggðarfólk. Auðsjáanlegt er einnig að ferðaskatturinn muni þjóna sem tvöföld skattlagning þar eð hann mun hafa áhrif á verðlag á vörum úti á landi, enda munu flutninga- og hópflutningabifreiðir væntanlega einnig verða gjaldskyldar. M.t.t. þessa má svo benda á að vöruverð er nú þegar talsvert hærra úti á landi en í höfuðborginni.  Skattahækkunin mun þá einnig verða frekari Þrándur í Götu uppbyggingar ferðþjónustunnar á landsbyggðinni.

Einhverra hluta vegna þá hef ég þá trú á Jóni Gunnarssyni; að hann vilji í hjarta sínu hinum dreifðu byggðum vel. Ef svo er í raun og veru þá ætti hann að gleyma þessum landsbyggðarskatti og, jú,  verða talsmaður aukins frelsis til fiskveiða hringinn í kringum landið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.7.2017 - 16:43 - FB ummæli ()

Umhverfisstofnun sett í ankannalega stöðu

Nýlega var haldin ráðstefna á Ólafsfirði um sjókvíaeldi. Á ráðstefnunni flutti m.a. sú færeyska  Marita Rasmussen, fróðlegt erindi um hvernig nágrannar okkar í Færeyjum drógu lærdóm af þeim hremmingum sem greinin rataði í, í byrjun aldarinnar.  Svo vel tókst til við endurskipulagninguna að fiskeldið hefur síðan blómstrað í Færeyjum. Sjókvíaeldi er svo sannarlega ekki ný atvinnugrein á Íslandi og ég sakna þess í umræðu um eldið á Íslandi hvernig á að  gera hlutina öðruvísi en áður, en saga sjókvíaeldis á Íslandi  er ekki án áfalla.

Erfitt er að átta sig á stefnu stjórnvalda, en á málþinginu á Ólafsfirði hélt Þorgerður Katrín sköruglega ræðu þar sem slegið var úr og í hvert stefndi. Það eina sem var nokkuð skýrt í málflutningnum var bæði kolrangt og kom málinu lítið sem ekkert við þ.e. sú fullyrðing ráðherra að vel hefði tekist upp við stjórn þorskveiða síðustu áratugina.  Staðreyndin er sú þorskaflinn er nú miklu minni en fyrir daga kvótakerfisins.  Ráðherra eða a.m.k. einhverjir af aðstoðarmönnum hennar ættu að vita betur.

Hverju þarf að breyta í regluverki sjókvíaeldis? Það er ljóst að Umhverfisstofnun er sett í þá ankannalegu stöðu að úthluta náttúruauðlindum án endurgjalds með útgáfu einfalds starfsleyfis á sviði mengunarvarna. Markmið starfleyfa Umhverfisstofnunar snúa eðlilega eingöngu að mengunarvörnum, en hafa í tilfelli fiskeldis orðið ígildi sérleyfis til nýtingar á standsvæða þjóðarinnar. Í Noregi eru umrædd sérleyfi verðlögð fyrir afar háar upphæðir. Umhverfisstofnun er lent í þeirri stöðu að taka að sér skipulagsvinnu sem snertir margvíslega þætti annars skipulags sveitarfélaga á borð við losun fráveituvatns og siglingaleiðir. Nýlegar breytingar sem gerðar voru í nafni einföldunar var að flytja eftirlit með mengunarvörnum fiskeldis frá Umhverfisstofnun og til Matvælastofnunar eru misheppnaðar.

Ef stjórnvöld vilja einföldun á regluverkinu og gera málsmeðferð skýrari þá er nærtækasta leiðin að færa skipulagsvald sveitarfélaga út á strandsvæði, þannig að þau geti boðið út nýtingu á ákveðnum svæðum þar sem eldi er leyfilegt, með ákveðnum skilyrðum.

Sömuleiðis þarf að efla umgjörð og mengunareftirlit með greininni.  Það er ekki einungis gert með því að auka fjármuni til þeirra verka. Það er ekki síður mikilvægt að  það komi fram  pólitískur stuðningur í þá átt líkt og núverandi umhverfisráðherra hefur látið í ljós.

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.6.2017 - 21:11 - FB ummæli ()

Vilja selja skattasniðgöngurum flugvöll, en eltast baunir

Alvöru undanskot á Íslandi eru hvorki gerð með fimmþúsund króna seðli né tíuþúsund króna seðli – Þetta á fjármálaráðherra að vita manna best.

Spurningin sem vaknar við tillögu Benedikts fjármálaráðherra um að banna seðla er; Hvers vegna í ósköpum veigrar hann sér við að taka á stórum undanskotum?

Stórfelld undanskot á Íslandi verða þegar útflutningsfyrirtækin sem hafa tímabundinn einokunarrétt til að nýta sjávarauðlindina, „selja“ sjávarafurðir til eigin skúffufyrirtækja á lágu verði sem síðan selja vöruna á miklu hærra verði til raunverulegra kaupenda. Hagnaðurinn af viðskiptunum verður  eftir á reikningi skúffufyrirtækja  í skattskjólum á Kýpur, Guernsey eða einhverju álíka og verður því ekki skattlagður á Íslandi.

Sama hefur átt við um að þá iðju sem íslenskir innflytjendur hafa lengi stundað þ.e. flutt inn vörur til landsins, í gegnum milliliði erlendis og skilið eftir fjármuni á erlendum bankareikningum. Eflaust verður þessi iðja snúnari með aukinni samkeppni sem fylgir Costco.

Stór undanskot  stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi fara fram með þunnri eiginfjármögnun og háum vaxtagreiðslum af málamyndalánum sem veitt eru af sjálfum eigendum stóriðjufyrirtækjanna. Komið er í veg fyrir að hagnaður myndist í fyrirtækjunum sem hægt væri að skattleggja, með því að búa til kostnað  stóriðjufyrirtækjanna við móðurfélög m.a. með háum vaxtagreiðslum.

Í stað þess að koma með tillögur sem taka á stórum undanskotum, þá leggur Viðreisn fram tillögu um seðlabann til þess að tína upp nokkrar baunir í ríkissjóð! Á sama tíma á flokkurinn í leynilegum viðræðum við erlenda aðila um sölu á Keflavíkurflugvelli.  Áformin um að einkavæða eina raunverulega hliðið inn og út úr landinu gengur í sjálfu sér algerlega í berhögg við hagsmuni almennings.

Það er eftir öðru hjá Viðreisn, að sá erlendi aðili sem á í viðræðum við stjórnvöld, um kaupin á Keflavíkurflugvelli, er fjárfestingafélagið Macquarie, sem er þekkt af stórfelldum undanskotum á hagnaði Kastrup-flugvallar í Kaupmannahöfn. Þau undanskot fóru fram með þunnri eiginfjárfjármögnun og háum vaxtagreiðslum.   Reynsla Dana af sölunni á Kastrup til fyrrgreindra aðila var einfaldlega hræðileg. Í kjölfarið á sölunni rann allur ágóði fyrirtækisins af starfseminni á  Kastrup, sem vaxtagreiðslur beina leið í skattaskjól í gegnum skúffufyrirtæki í Lúxemborg.

Það er engu líkara en að Viðreisn vilji taka með töngum á þeim sem stela fimmþúsundkalli en bugta sig og beygja fyrir þeim sem stela meiru en 500 milljónum!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.5.2017 - 14:00 - FB ummæli ()

Varaformaður Vg gerist talsmaður útgerðarauðvalds Íslands

Mikill þungi er kominn í umræðu um nauðsyn þess að breyta illræmdu kvótakerfi í sjávarútvegi. Kerfið er óréttlátt en það veitir örfáum aðilum einokunarrétt til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna. Sömuleiðis tryggir það örfáum vald til þess að ákveða hvort að atvinna og byggð leggist af í heilu byggðalögunum. Það er ljóst að ef því verður ekki breytt, þá mun byggð í núverandi mynd í Vestmanneyjum fleiri sjávarbyggðum, heyra sögunni til.  Fyrir utan hrópandi óréttlætið, þá er staðreyndin sú að það hvetur til brottkasts og skilar miklu mun minni afla á land, en upphaflegar áætlanir gerður ráð fyrir.  Þorskaflinn nú er rétt um helmingur af því sem hann var fyrir daga kerfisins. Kerfið er því ekki neitt sem þjóðin getur verið stolt af, heldur þarf að taka það til róttækrar endurskoðunar.

Fyrirfram hefði mátt telja að flokkur á borð við Vg sem segist vera til vinstri myndi leggjast á árar með þeim sem vildu breytingar, þannig að arður af greininni skilaði sér í vasa fleiri Íslendinga. Bóka hefði mátt andstöðu flokks sem kennir sig við alþýðuna í ljósi þess að kerfið hefur skert samningsstöðu sjómanna og gert fjölda þeirra að leiguliðum.

Raunin er allt önnur, en Vg virðist styðja kerfið algerlega óbreytt, ef marka má ritröð greina sem varaformaður, Vg Björn Valur Gíslason, hefur skrifað á heimasíðu sínna www.bvg.is. Engu líkara er en að varaformaður Vg hafi fengið hland fyrir hjartað, þegar hann heyrði máli hallað á kvótakerfið  og það hafi hleypt af stað ritræpu þar sem kerfið og greifar þess eru mærðir.

Í ritröðinni kennir ýmissa grasa og seilist varaformaður Vg mjög langt til þess að verja hagsmuni 0.1% Íslendinga á kostnað okkar hinna, 99,9% landsmanna. Ef marka má málflutning Björns Vals, þá virðist sem Vg telji að kvótakerfið sé eitt stærsta skref í umhverfismálum sem þjóðin hefur stigið og hann þakkar kerfinu smátt sem stórt m.a. að hætt var að henda veiðarfærum í sjóinn.  Það gerir hann þrátt fyrir að kvótakerfið hvetji til brottkasts og hafi nákvæsmlega ekkert með úrgangsmál að gera!  Sú skoðun kemur fram hjá varaformanninum, að þeir flokkar sem gerast svo róttækir að boða einhverjar breytingar á óréttlátri og úreltri skipan atvinnugreina, bíði hræðileg örlög og skiptir þá engu máli hvort að flokkarnir heita Frjálslyndi flokkurinn, Viðreisn eða Samfylkingin.  Leiðtogi Vinstri grænna er með glýjuna í augunum yfir framgangi Samherja og ákveður að minnast ekki einu orði á að fyrirtækið hefur notið sérgæsku og einokunaraðstöðu til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Fyrirtækið hefur nýtt sér skattaskjól á Kýpur og eigendur voru í Panamaskjölunum auk þess að bera þeir með beinum hætti á óábyrgum rekstri fjármálafyrirtækja í aðdraganda hrunsins.

Aumast af öllu aumu í þjónku varaformanns Vg við stórútgerðarauðvaldið, er þó þegar hann ákveður að bera sérstaklega blak af stjórnendum Granda, þegar þeir sögðu upp 86 fiskvinnslukonum á Akranesi sem unnu láglaunastörf. Inntak greinarinnar er á þá leið að ekki megi breyta kerfinu í einu né neinu og ef það hefði átt að koma í veg fyrir uppsagnirnar á Akranesi, þá hefði þurft að gera ráðstafanir í upphafi þegar framsalið var sett á á sínum tíma – nú er ekkert hægt að gera að mati varaformanns Vg. Það fer vel á því að vitna beint í skrif Björns Vals

Þeir sem nú lýsa óánægju sinni með stöðuna á Akranesi ættu að beina henni til þeirra (stjórnmálamanna) en ekki HB-Granda.

Íslensk alþýða þarf ekki óvini með svona vini.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.4.2017 - 21:13 - FB ummæli ()

Ögmundur spyr Bjarna en spurði Steingrím J. einskis

Á heimasíðu Ögmundar Jónassonar má sjá góða og gilda spurningu sem beint er til forsætis- og fjármálaráðherra. Ögmundur fer einnig á meinlegan hátt yfir kjánalagar yfirlýsingar ráðherranna í ljósi; leynimakksins, sögu og eðli vogunarsjóðanna.

Spurningin til núverandi ráðherra er á þá leið, hvort þeir setji ofar hagsmuni fjármálabraskara eða þjóðarhag?

Skrifin eru gott tilefni til að rifja upp, að það var fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem leiddi vogunarsjóðina inn í bankann, þrátt fyrir mikla gagnrýni úr eigin þingflokki.

Það er því ekki úr vegi að spyrja Ögmund Jónasson hvort hann hafi stutt Lilju Mósesdóttir þegar hún gagnrýndi Steingrím J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra fyrir að afhenda Arionbanka til þeirra vogunarsjóða, sem nú eru að auka hlut sinn í bankanum.  Það er eins og mig minni að Ögmundur hafi stutt þessa sölu eða gjöf á bankanum þá, og ekki fékkst uppgefið hverjir kaupendurnir voru þá, frekar en nú. Fjármálaráðherra þá fékk ekki heimild til sölunnar fyrr en nokkrum mánuðum eftir kaupin voru gengin í garð.

Lærdómur sögunnar er, að  nauðsynlegt er að upplýsa um hverjir eru á bak við kaupin á Arionbanka nú og einnig ætti að rannska einkavæðinguna sem fram fór á vegum Steingríms J, í hreinu og tæru vinstristjórninni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur