Þriðjudagur 2.10.2012 - 12:11 - FB ummæli ()

Súlan og raunveruleikinn

Með hruni hefði mátt búast við að kerfi, sem brugðust, væru endurskoðuð í stað þess að þau væru stagbætt.

Eitt þeirra kerfa, sem brást algerlega, eru lífeyrissjóðirnir, sem studdu við og fjármögnuðu útrásarvíkingana. Tap lífeyrissjóðanna var gífurlegt á samkrullinu við fjárglæframennina og ekki sér fyrir endann á því hversu mikið tapið verður. Það ætti að blasa við að eftir að helstu verkalýðsleiðtogar Íslands hafa setið í umboði sjóðanna inni í fjárfestingarfélögum í Lúx, sem stofnuð voru í gegnum skúffufélög á Tortola, þurfi að staldra við og stokka upp kerfið.

Í stað þess að stjórnun og stefna sjóðanna sé tekin til endurskoðunar eru núna uppi hugmyndir um að hækka það hlutfall launatekna, sem rennur inn í sjóðina úr 12% upp í 15,5%, til að standa undir skuldbindingum og tapi sjóðanna. Þá er staðið í vegi fyrir afnámi verðtryggingarinnar og vaxtalækkunum,vegna þess að það lækkar til skamms tíma uppblásna Excelsúluna sem stöðugt er einblýnt á. Þessi afstaða er sér í lagi furðuleg þar sem lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar fullt í fangi með að finna arðsöm verkefni fyrir það gríðarlega mikla fé, sem þeir eru núna að sýsla með, sem nemur tæplega einni og hálfri þjóðarframleiðslu.

Hvers vegna á að bæta í þegar menn eiga fullt í fangi með að sinna því sem þeir hafa þegar úr að spila?

Hver er hin raunverulegi lífeyrissjóður? Hinn raunverulegi lífeyrissjóður eru þau verðmæti sem vinnandi fólk getur látið af hendi rakna á hverjum tíma til þeirra sem hættir eru að vinna. Sömuleiðis eru það auðlindir þjóðarinnar, þ.e. fiskimiðin og orkan. Hávaxtastefnan og verðtryggingin verða augljóslega til þess að tækifærum til raunverulegrar atvinnusköpunar fer fækkandi og sífellt dýrara verður fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið, sem leiðir til þess að ungt fólk ákveður að flytja af landi brott. Ef svo verður í auknum mæli þá fyrst verður lífeyrissjóðakerfið í verulegum vanda.

Er ekki orðið tímabært að endurskoða séríslensk kerfi s.s. lífeyrissjóðakerfið og kvótakerfið í sjávarútveginum, sem sögð eru þau  bestu í heimi, en eru þegar betur er að gáð þau verstu – eða ætlum við að halda áfram blekkingarleiknum?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.9.2012 - 00:21 - FB ummæli ()

Ögmundur, hvort er alvarlega að brjóta lögin eða grípa ekki inn í?

Stjórnkerfið er í gríðarlegri kreppu. Fjármálastofnanir virða ekki dóma Hæstaréttar, álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er sett til hliðar og Ríkisendurskoðun lítur á það sem sitt hlutverk að leyna þjóðina í stað þess að upplýsa.

Reyndar er það svo að hjá Ríkisendurskoðun hafa lengi viðgengist undarleg vinnubrögð. Til dæmis að gefa út torræðar skýrslur um augljósa spillingu við einkavæðingu bankanna og bæta síðan gráu ofan á svart með því að gefa Halldóri Ásgrímssyni sérstakt heilbrigðisvottorð þegar hann seldi sér og sínum stóran hlut í Búnaðarbankanum.

Eftir hrun virðist lítið hafa breyst. Ráðamenn þjóðarinnar horfa gapandi og ráðalausir á lögbrotin og grípa ekki inn í þrátt fyrir að vera bent á þau og þeim lýst í smáatriðum.  Dæmin eru víða. Meirihluti Vg og Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Skagafjarðar hefur leynt gögnum, meðal annars leynilegum fjármögnunarsamningi við Kaupfélag Skagfirðinga vegna framkvæmda, sem munu verða til þess að sveitarfélagið sprengir lögbundið 150% skuldaþak sitt. Fyrir fjórum vikum var Ögmundi bent á þetta, en hann hefur ekkert aðhafst. Hann hefur gert tilraun til að vísa málinu frá sér í afkima stjórnsýslunnar, sem tekur heila meðgöngu að fá úrlausn hjá.

Mér finnst sú spurning verðug, hvort sé alvarlega af meirihlutanum að brjóta lögin eða af Ögmundi að horfa framhjá löbrotunum, sem honum ber að taka á.

Hvar endar þetta? Það er vissulega alvarlegt að ræna banka, en það er ekki síður alvarlegt ef lögreglan horfir aðgerðarlaus á.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.9.2012 - 00:19 - FB ummæli ()

Að væla í Jóhönnu

Það er skringilegt að horfa upp á þá lífeyrisforstjórana Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Egilsson væla í Jóhönnu Sigurðardóttur, af öllum manneskjum, yfir því að aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar kippi stoðum undan kjarasamningum.

Þeir félagarnir þurfa enga aðstoð eða hjálp þegar þeir sitja saman í lífeyrissjóðunum að braska með lífeyri landsmanna, þar sem þeir eru í valdatafli og blása jafnvel lífi í dauðvona fyrirtæki. Aftur á móti þegar þeir eiga að gera það sem þeir eru kjörnir til að gera, eins og að koma á kjarasamningum, þá þurfa þeir alltaf að kalla á ríkisvaldið sér til hjálpar.

Það sem er þó undarlegast er að þeir eru sammála um að bregða fæti fyrir hugmyndir, sem gætu raunverulega hjálpað til við að rétta við efnahag landsins og bætt kjör landsmanna. Þar má nefna afnám verðtryggingarinnar, breytingar á kvótakerfinu , sem stuðlar augljóslega að aukinni verðmætasköpun og að halda lífeyrissjóðakerfinu óbreyttu. Þeir félagarnir vilja halda áfram vaxtaokri, brottkasti, braski og lífeyrissjóðasukki og væla svo í Jóhönnu um að ekkert gangi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.9.2012 - 20:08 - FB ummæli ()

Hver hefði trúað því?

Hver hefði trúað því í september 2008, að eftir stjórnun  „hreinnar og tærrar“ vinstri stjórnar að þá væri staðan svona:

Seðlabanki Íslands veitir höfuðpaurum hrunsins sérstakan afslátt af íslensku krónunni fyrir það eitt að koma með hluta af þýfinu til baka til landsins.

Stjórnvöld leggja það til að festa í sessi illræmt kvótakerfi í sjávarútvegi og færa nokkrum sægreifum auðlindina á silfurfati.  Að vísu í þetta skiptið til ævinlegrar eignar.

Fimmta hver króna sem ríkið innheimtir fer til greiðslu vaxta, þar sem bróðurparturinn lendir hjá eigendum bankanna sem fengu þá fyrir slikk.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins telur það ótímabært að aðskilja fjárfestingar- og viðskiptabanka.

Í miðjum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu gerir ríkisstjórnin „leynisamning“ við einn hæstlaunaða forstjóra ríkisstofnunar.

Búið er að taka upp gamla góða bónusakerfið í Landsbankanum, sem lagt var af tímabundið í kjölfar hrunsins.

Ganga má að því sem vísu að Jóhanna Sigurðardóttir láti víggirða þinghúsið á þingsetningardegi.

Svona má lengi telja.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.9.2012 - 23:57 - FB ummæli ()

Þörf ræða forseta lýðveldisins

Setning Alþingis þann 11. september fór fram í skugga víggirðingar og almenns vantrausts á stórum hluta þingheims. Ólafur Ragnar Grímsson forseti flutti þarfa ræðu þar sem að hann minnti þingmenn á hina óþægilegu framangreindu staðreynd.

Vantraustið má að mestu leyti rekja til þess að ríkisstjórnin, sem kjörin var til breytinga, hefur helgað krafta sína endurreisn gamla Íslands. Óskir almennings hafa verið hunsaðar á meðan fulltrúar sérhagsmuna hafa ráðið stefnu stjórnvalda. Enginn velkist í vafa um að stjórnarflokkarnir og reyndar fjórflokkurinn í heilu lagi taki meira mið af málflutningi Samtaka fjármálafyrirtækja en Hagsmunasamtaka heimilanna. Sjónarmið almannahagsmuna eru iðulega látin víkja fyrir þröngum sérhagsmunum klíka á borð við LÍÚ.  Afleiðingin er sú að verðtryggingin lifir enn góðu lífi, reyndar svo góðu lífi að lögð var niður nefnd sem hafði það hluverk að minnka vægi verðtryggingarinnar. Festa á illræmt kvótakerfi í sessi út öldina og dómar Hæstaréttar hafa verið hunsaðir ef að þeir hafa raskað ró fjármálafyrirtækja. Hörðustu deilurnar á þinginu hingað til hafa snúist um það hvort að enginn stjórnmálamaður ætti að sæta ábyrgð, Geir Haarde einn, eða þá hvort að samverkamenn hans hefðu átt að deila með honum sakamannabekknum.

Með samþykkt nýrrar stjórnarskrár stjórnlagaráðs virkjast beint lýðræði, sem verður til þess að almenningur hefur meiri möguleika á að hafa áhrif með beinum hætti á mikilsverð mál, sem fulltrúalýðræðið hefur hingað til hikstað á. Hætt er við því að sömu öfl og vilja óbreytt vald sérhagsmuna reyni nú að tala nýja stjórnarskrá niður.  Enginn efi er um það í mínum huga að beint lýðræði muni endurreisa traust á Alþingi þar sem að fulltrúarnir, sem þar sitja, munu í auknum mæli þurfa að taka tillit til almannahagsmuna.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.9.2012 - 14:08 - FB ummæli ()

Hvar eru blessuð Bændasamtök Íslands?

Margir bændur eru í þeim hópi sem á um sárt að binda vegna fautalegrar innheimtu bankanna á ólöglegum gengistryggðum lánum.

Það dæmi sem ég hef hér fyrir framan mig er af bændum; hjónum, sem komin eru á sextugsaldur. Þau eru krafin um vel á sjötta hundrað þúsund krónur mánaðarlega í greiðslur af ólöglegu láni. Eftir því sem liðið hefur á árið hafa hjónin átt erfiðara með að standa í skilum þar sem Seðlabankinn hefur hækkað gríðarlega þá breytilegu vexti sem endurgreiðslur lánsins miðast við. Afleiðingar vaxtahækkananna eru þær að mánaðarlegar afborganir hafa hækkað um nokkra tugi þúsunda króna. Aukinn mánaðarlegur kostnaður vegna lánsins bættist síðan ofan á önnur ófyrirséð útgjöld búsins s.s. vegna bilunar á dráttarvél og bifreið. Þrengri fjárhagsstaða leiddi til þess að hjónin óskuðu eftir því að lengt yrði í láninu og mánaðarlegar afborganir lækkaðar.

Landsbankinn, ríkisbankinn, sem skuldar fólkinu í raun stórfé, þar sem að hann hefur fengið ofgreidda fjárupphæð sem nemur vel á annan tug milljóna króna, hefur sett það skilyrði fyrir lækkun á mánaðarlegri afborgun, að vextir lánsins verði hækkaðir gríðarlega.

Hvers konar stjórnvöld leyfa lögbrjótinum að setja brotaþolanum afarkosti? Jú það er „Norræna velferðarstjórnin.“

Að mínu mati mættu Bændasamtök Íslands beita sér af mun meiri hörku fyrir þá bændur, sem komnir eru í ólöglega skuldakreppu stjórnvalda og banka. Vissulega er málið viðkvæmt fyrir stjórnvöld, sem þarf að semja við um gerð búvörusamninga, en ráðherrar ríkisstjórnarinnar líta fallna dóma Hæstaréttar, sem snúa að gengistryggðu lánunum, sem högg. Það er engu að síður  óhætt að hvetja hagsmunasamtök bænda til að beita sér af meiri krafti í málinu, sem brennur á fjölmörgum bændum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.8.2012 - 23:25 - FB ummæli ()

Að horfa á ofbeldi og borða snittur

Ráðamenn eru þeir einu sem geta breytt leikreglum og tekið þá úr ábyrgðarstöðum sem beita borgarana órétti og þvingunum.

Þingmenn stjórnarinnar virðist ekki átta sig á því að hún var kosin til breytinga en ekki til þess að horfa á atburðarásina með hendur í skauti. Það hvernig bankarnir hafa komist upp með að virða að vettugi dóm Hæstaréttar í gjaldeyrislánamálinu er eitt skýrasta dæmið um lúpulega framgöngu stjórnvalda. Þrátt fyrir dóminn halda bankarnir áfram innheimtum á ólöglegum lánum eins og ekkert hafi í skorist enda halda stjórnvöld áfram að leita ráða hjá lögbrjótunum.

Afleiðingarnar eru að bankarnir hafa fært sig upp á skaftið og beita nú „viðskiptavinina“ hótunum sem geta ekki kallast annað en ofbeldisfullar. Það dæmi sem ég hef hér fyrir framan mig  er af bændum; hjónum sem komin eru á áttræðisaldur og krafin eru um á fjórða hundrað þúsund krónur mánaðarlega í greiðslur af ólöglegu láni. Með aðstoð barna sinna ná þau enn að öngla saman  fjárupphæðinni enda verða þeim að öðrum kosti reiknaðir dráttarvextir og þau sett á vanskilaskrá. Bankinn hefur sett það skilyrði   fyrir lækkun á mánaðarlegri afborgun að vextir lánsins verði hækkaðir um tugi prósenta. Það er ekki réttarríki þegar lögbrjóturinn setur brotaþolanum afarkosti, sérstaklega ekki þegar ljóst er að bankinn skuldar viðkomandi háar upphæðir.

Á meðan ofbeldisverkin eiga sér stað horfa stjórnarliðar á. Þeir setja sig jafnvel í stellingar íþróttafréttamanna og lýsa atburðum með hneykslun og axla kannski örlitla ábyrgð en varpa þó meginábyrgðinni annað. Þess á milli eiga þeir vinsamleg samtöl við afbrotamennina og borða í boði þeirra snittur og fínerí.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur