Miðvikudagur 3.10.2018 - 14:26 - FB ummæli ()

Hvers virði eru Viðreisn og Vg

Umræðan á hinu háa Alþingi, um stjórn fiskveiða í tengslum við frumvarp um ákvörðun veiðigjalds var beinlínis farsakennd á köflum. Nokkur fjöldi þingmanna vitnaði um ágæti kerfisins umfram öll önnur kerfi í heimi og það þrátt fyrir að vera bornir og barnfæddir í byggðarlögum sem komin eru í algera rúst vegna kerfisins!

Í umræðunni var hlaupið með öllu yfir þá sorglegu staðreynd að þorskaflinn er mun minni nú en áður en kerfið var sett á og er um helmingur af því sem kerfið átti að skila árlega þegar kerfið var sett á. Enginn minntist heldur á að þrátt fyrir að sjávarútvegurinn búi við miklu meira eftirlit en aðrar atvinnugreinar og að afar hörðum viðurlögum sé beitt við brotum á lögum um stjórn fiskveiða dugir það ekki til. Opinberar skýrslur og myndefni sem sýnt var fyrir nokkru á RÚV sýna glögglega að viðamiklar brotalamir eru á kerfinu enda eru beinir hvatar í kvótakerfinu til brottkasts og framhjálöndunar. Í stað þess að taka umrædda hvata í burtu eru í alvörunni uppi hugmyndir um að koma á enn meira myndavélaeftirliti og jafnvel dróna til að njósna um áhafnir íslenskra fiskiskipa.

Eina einkennilegustu röksemdafærsluna gegn öllum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu flutti sjálfskipaður verndari Vestmannaeyja, Páll Magnússon. Fyrirfram hefði mátt ætla að verndari Eyjanna væri gagnrýninn á kerfið þar sem drjúgur hluti af atvinnuréttindum eyjarskeggja er kominn í eigu kaupfélags norður í landi, sem ég er reyndar félagsmaður í. Á Páli var ekki annað að heyra en að hann væri á móti því að fara í breytingar sem hann væri samt í hjarta sínu sammála, þ.e. að nota markaðslausnir við úthlutun veiðiheimilda. Ástæðan var sú að við útfærslu á útboðum á veiðiheimildum átti að tryggja m.a. byggðsjónarmið, t.d. að allar veiðiheimildir tæmdust ekki úr Eyjum og flyttust norður á Sauðárkrók.

Þingmenn Sigmundar í Miðflokknum stóðu þétt saman með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í að verja og mæra ónýtt kerfi. Persónulegustu ræðuna flutti Sigurður Páll en á honum var að heyra að hann hefði komist í nokkrar álnir vegna kerfisins og jafnvel komist í þann flokk manna sem boðið var í kaffi hjá bankastjóranum.

Það er við hæfi að spyrja hvers virði afstaða og stefna Viðreisnar og Vg sé í sjávarútvegsmálum. Niðurstaðan er augljós hvað Viðreisn varðar, hún er einskis virði. Þegar flokkurinn var komninn í aðstöðu til breytinga í ríkisstjórn, þá gerði hann ekki neitt með stefnuna. Málflutningur og verk Þorgerðar Katrínar, núverandi formanns Viðreisnar, voru ekki í neinu samræmi við stefnu flokksins fyrir kosningar og nú í stjórnarandstöðu á þingi. Það stefnir í Vg geri jafn lítið með stefnu sína og Viðreisn hér um árið, þar sem það lítur út fyrir að prúðbúið ráðherralið Vg, sé búið að steingleyma loforðum um að auka jafnræði og vægi byggðasjónarmiða. Nú er svo komið að forsætisráðherra virðist líða mun betur í dúkalögðum glitsölum með auðmönnum í SFS en á fundi með kjósendum sínum að ræða sjávarútvegsmál. Í því stjórnarsamstarfi sem hún valdi sér er augljóst að hún getur miklu frekar uppfyllt óskir auðmannanna en kjósenda sinna.

Ef ríkisstjórn undir forystu Vg stígur ekki einhver skref, jafnvel þó lítil verði, í átt til jafnræðis og byggðarsjónarmiða í sjávarútvegsmálum, í tengslum við vinnu við endurskoðun veiðigjalda, þá er augljóst að stefna Vg og Viðreisnar er jafn verðmæt þegar til kastanna kemur.

Stefnan er þá einskis virði!

Sigurjón þórðarson, líffræðingur

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.9.2018 - 11:30 - FB ummæli ()

Ólögmæt gjaldtaka í Hvalfirði

Innheimta Spalar ehf. á veggjöldum nú í Hvalfirði er vægst sagt vafasöm.

Í fyrsta lagi þá hafa veggjöld þegar greitt vel ríflega upp stofnkostnað við gerð ganganna og því hefði samkvæmt upphaflegum áætlunum, átt að vera hætt gjaldtöku fyrir löngu í Hvalfjarðargöngum. Í öðru lagi þá virðist vera eitthvert ólag á bókhaldi Spalar ehf., en í svari við fyrirspurn Bjarna Jónssonar á Alþingi, kom fram að fyrirtækið gæti með engu móti greint kostnað við innheimtu veggjalda frá öðrum rekstrarkostnaði ganganna!  Í þriðja lagi, þá rann samningur Spalar við ríkið út í júlí sl. og er því forsenda fyrir áframhaldandi gjaldtöku algerlega brostin og gjaldtakan vafalítið ólögmæt.

Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að ráðherra samgöngumála horfi fram hjá vafasamri gjaldtöku á almenningi, vegna þröngra sérhagsmuna aðila sem tengjast fjáruppsprettunni Speli ehf. Árlegar tekjur félagsins nema um einum og hálfum milljarði króna. Líkt og í kvótakerfinu í sjávarútvegi hafa sjónarmið almennings og byggða, verið látin víkja í málinu fyrir annarlegum sérhagsmunum.

Málið er afar slæmt fyrir þá sem aðhyllast aukna gjaldtöku í samgöngukerfinu.  Þokukennt bókhald Spalar ehf og ógagnsæi, er ekki beinlínis trausvekjandi. Ekki bætir úr skák þegar gjaldtöku er haldið áfram þrátt fyrir að samningar og forsendur þeirra segja að henni skuli hætt.

Sigurjón Þórðarson

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 3.6.2018 - 21:25 - FB ummæli ()

Tárast vegna Vg

Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með vinum mínum í VG, sem ég studdi dyggilega í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Skagafirði, fylkja sér í vörn fyrir allra ríkasta fólk Íslands, útgerðaraðalinn. Flokkurinn leggur nú höfuðáherslu á að lækka álögur á auðmenn í sjávarútvegi. Helsta skýringin sem forystumenn Vg gefa á undarlegri afstöðu sinni, er sú að minni útgerðir standa höllum fæti. Það er vissulega rétt að minni útgerðir sem settar eru í þá undarlegu stöðu að leigja rétt til að nýta sameiginlega auðlind landsamanna af kvótagreifum, standa afar illa. Í stað þess að jafna samkeppnisstöðu smærri og stærri útgerða, þannig að þær standi jafnar að því að nýta sameiginlega auðlind landsamanna, þá vilja þingmenn Vg lækka skatta jafnt á auðmenn sem leiguliða. Það er augljóst hvor hópurinn fær stærri sneið af þessari gjöf!
Það  er furðulegt að hlusta á þingmann eins og Kolbein Óttarsson Proppé sem ætti að þekkja kröpp kjör, slá um sig í Vikulokunum á RÚV, með fullyrðingum um að útgerðin þurfi að hafa mun hærri EBITDA en aðrar atvinnugreinar, þar sem hún þurfi að fjárfesta svo mikið. Vel að merkja EBITDA er hagnaður að frátöldum afskriftum, vöxtum  og sköttum. Með öðrum orðum, það er búið að borga allar fjárfestingarnar  og veiðileyfagjaldið sem Kolbeinn hafði svo miklar áhyggjur af. Líklegast hefði besta málsvörn hans og Vg verið sú að flokkurinn sé hlyntur brauðmolakenningunni. Ef VG styður brauðmolakenninguna sem gengur út á mikilvægi þess að hinu ríku verði enn ríkari, þar sem að þá munu brauðmolar af gnægtarborðum hinna ríku sáldrast niður til okkar aumingjanna, þá er það eins og það er, en kemur eflaust ýmsum kjósendum flokksins á óvart.
Ég er sorgmæddur yfir þessu öllu saman og hugur minn er hjá kjósendum flokksins sem varla vissu að VG færi fyrir stefnu sem er örlítið hægra megin við stefnu Trumps í efnahagsmálum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.4.2018 - 11:30 - FB ummæli ()

Þorskstofninn minnkaði um ríflega 20% frá í fyrra

Nú hafa verið birtar niðurstöður stofnmælinga botnfiska (togararallið) sem fram fór í lok febrúar og í mars sl. Niðurstöðurnar eru mjög sláandi eða að stofninn hafi minnkað um ríflega 20% frá í fyrra.  Hér er um gríðarmikla minnkun að ræða eða meiri en það sem veitt var úr stofninum í fyrra –  Aflareglan sem notast er við miðar við að veitt sé 20% af veiðistofni árlega. Framsetning Hafrannsóknarstofnunar á hrapinu í stofnmælingunni gefur mjög skakka mynd af stöðunni, en í skýrslunni segir: „Stofnvísitala þorsks er 5% lægri en meðaltal áranna frá 2012, þegar vísitölur voru háar.“

Niðurstaðan er algert skipbrot fyrir þá veiðiráðgjöf sem Hafró hefur notað á síðustu áratugum – þorskaflinn nú er ríflega helmingur af því sem hann var að jafnaði fyrir daga kvótakerfisins. Upphafleg markmið núverandi stjórnunar var að fá jafnstöðuafla í þorski upp á 500 þús. tonn árlega og komast hjá náttúrulegum stofn- og aflasveiflum.  Frá því snemma á tíundaáratug síðustu aldar hefur verið farið nákvæmlega eftir ráðgjöf Hafró um leyfilegan heildarafla, með það að markmiði að minnkuð veiði gefi meira seinna.  Þetta mikla bakslag í stofnmælinguna nú, er það þriðja í röðinni frá því að stjórnvöld fóru að fylgja ráðgjöfinni upp á punkt og prik. Hingað til þá hefur það leitt til gríðarmikils niðurskurðar á aflaheimildum og óbreytta nýtingarstefnu. Nú við þriðja bakslagið í áralöngu uppbyggingarstarfi hljóta ábyrg stjórnvöld að fara nýjar leiðir og endurskoða veiðiráðgjöfina frá grunni.

Hvað er að núverandi ráðgjöf? Hún byggir alfarið á mjög ónákvæmri fiskatalningu og leggur til hliðar allar líffræðilega og vistfræðilega þekkingu um samspil fæðu og fiskstofna. Grundvöllur fyrir friðun fiskstofna er augljóslega að það sé ofgnótt af fæðu. Hvers vegna kryfja stjórnvöld þetta ekki til mergjar?

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.3.2018 - 23:16 - FB ummæli ()

Árangursríkur sveitarstjórnarfundur í Skagafirði

Í Sveitarfélaginu Skagafirði blossaði óvænt upp heit umræða um framtíð verðlaunaðs Byggðasafns Skagfirðinga.  Umræður fóru fram um málið á sveitarstjórnarfundi í dag. Umræðan var bæði afar kurteis og málefnaleg, enda bera allir fundarmenn með tölu hag sveitarfélagsins mjög fyrir brjósti.   Eina skuggann sem bar á fundinn var óvænt upphlaup sveitarstjóra í lok fundar sem ég vonast til að jafni sig á næstunni.

Einróma niðurstaða sveitarstjórnarfundarins var að fresta afgreiðslu samninga við Sýndarveruleika ehf. og sömuleiðis óljósum samningi við hugbúnaðarfyrirtæki um; stjórnun, hönnunarvinnu og ráðningu verktaka auk samningagerðar á vegum sveitarfélagsins.

Það er ljóst að meðferð málsins hingað til hefur algerlega stangast á við 103 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem segir til um skyldu  sveitarstjórna til að upplýsa íbúa  um mál sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu og langtíma skuldbindingar fyrir sveitarfélagið.  Ef ekki verður brugðist við lagalegri skyldu um að upplýsa íbúa um fjárhagslegar byrðar og ívilnanir sem framangreindir samningar hafa í för með sér, þá er nauðsynlegt að óska eftir aðkomu æðri stjórnvalda. Sagan af langtíma leynilegum samningum sveitarfélaga sem tíðkuðust á Reykjanesi, hræðir óneitanlega.

Það leikur einnig verulegur vafi á því að samningarnir séu í samræmi við 65. gr. sveitarstjórnarlaga sem fjalla um ábyrga meðferða fjármuna. Í greininni segir að sveitarfélögum sé óheimilt að fjárfesta í hagnaðarskyni nema þeim sé falið það lögum samkvæmt, en með þeirri undantekningu þó að ef um brýna samfélagslega hagsmuni sé að ræða.  Ég held að flestir Skagfirðingar séu mér sammála um að það sé brýnna að reka byggðasafn en sýndarveruleikasýningu.

Hver svo afstaða fólks er til Byggðasafnsins eða sýndarveruleikasýninga, þá gefur frestunin kost á dýpri umræðu um málið og skýru áliti sveitarstjórnarráðuneytisins, sem er vel.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.2.2018 - 00:08 - FB ummæli ()

Vill Vg einkavæða heilbrigðiskerfið?

Forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir sló því fram sí-svona á Viðskiptaþingi í dag, að það væri óskynsamlegt að ríkið ætti bankana.  Ekki kom hún með neinar sérstakar röksemdir máli sínu til stuðnings – hún sagði einfaldlega að einkavæðing bankanna væri nauðsynlegur liður í því sem kallast endurskipulagning fjármálakerfisins.

Ég stórefast um að einkavæðing bankanna sé ofarlega á óskalista almennings og atvinnurekenda sem eru að byggja upp fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Efst á lista almennings er lækkaður vaxta- og bankakostnaður og margir eru einfaldlega smeykir við einkavæðinguna. Ríkisútvarpið vakti nýlega athygli á því söluferlið væri með gamalkunnu sniði –  bæði ógagnsætt og byrjað að tína væna bita út úr bönkunum! Fyrirsjáanlegt er sömuleiðis að væntanlegir „kaupendur“ verði sömu aðilar og ráku gömlu bankana í einu stærstu gjaldþrot veraldarsögunnar. Búast má því við að meðal áberandi hluthafa verði Björgólf Thor, Ólafur Ólafsson, Samherji, Bakkavararbræður og fjölskylda fjármálaráðherra.

Verður stutt að bíða þess að Vg mæli fyrir frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.2.2018 - 23:22 - FB ummæli ()

Braskið og ASÍ

Forysta ASÍ hefur í félagi við áhrifamenn innan Samtaka atvinnulífsins verið leiðandi í íslensku fjármálakerfi.  Þetta einkennilega samstarf ASÍ og SA á sér stað í gegnum stjórnir í lífeyrissjóðanna sem ráðstafa drjúgum hluta af launaveltu landsmanna. Fjármálavafstur forystu ASÍ hefur leitt af sér að óskýra hagsmunavörslu þar sem greinilegt er að hagsmunir almenns launafólks eru komnir neðarlega á blaðið en í öndvegi er að tryggja óbreytt kerfi og völd. Þetta samkrull ASÍ og fjáramálakerfisins hefur staðið um áratugaskeið, en ekki þótti  það tiltökumál á sínum tíma þegar fyrrum forseti ASÍ réð sig í framkvæmdastjórastól Íslandsbanka í beinu framhaldi af setu á forsetastóli ASÍ.  Það kæmi í sjálfu sér alls ekki á óvart ef að núverandi forseti ASÍ færi sömu leið á næstunni.

Afleiðingarnar af fjármálabraski forystu ASÍ eru meðal annars þær að forystan hefur þegar á reynir staðið fast með þröngum hagsmunum stórfyrirtækja þrátt fyrir að augljóst sé að það sé á kostnað þorra launafólks.  Forysta ASÍ hefur staðið með verðtryggingunni, kvótakerfinu í sjávarútvegi, endurreisn óbreytts fjármálakerfis og braskara á borð við Bakkavararbræðra.  Að vísu stóð forysta ASÍ með almenningi í furðulegum endurútreikningum Seðlabankans á ólöglegum gengistryggðum lánum.

Þessi einkennilega mynd er að framkallast með skýrari hætti hugum landsmanna í ýmsum málum m.a. í fjárfestingum og að því virðist samstarfi lífeyrissjóðanna við Gamma.  Fjárfestingarfélagið Gamma virðist hafa ótæmandi aðgang að fjármunum lífeyrissjóðanna til kaupa á  húsnæði sem síðan er leigt út dýrum dómi til launafólks.  Skyldusparnaður launafólks er með þessu hætti notaður til þess að spenna upp verð á fasteignum og koma á okurleigu. Launþegar vilja frekar fara þá leið sem formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson boðar þ.e. að bjóða húsnæði á sanngjörnu verði og stöðva græðgisvæðingunar á húsnæðismarkaði einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Allt tal forseta ASÍ um samstöðu snýst þegar öllu á botninn er hvolft um áframhaldandi brask og völd nokkurra forystumanna launþega á kostnað almennings.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.1.2018 - 21:47 - FB ummæli ()

Er Vg fyrst og fremst flokkur ríka fólksins?

Það er ákaflega erfitt að greina það með nokkrum hætti á stjórn landsins, að hún sé undir forystu róttæks vinstriflokks. Vg hefur löngum boðað að taka ætti á misskiptingunni og koma á réttlæti og sjálfbærni við nýtingu á auðlindum þjóðarinnar.

Nú þegar flokkurinn er kominn í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn þá hafa forystumenn flokksins þagnað um þessi baráttumál og umræðunni beint í allt aðrar áttir m.a. #Ég líka mál stjórnmálakvenna.  Ástæðan fyrir þögninni er alls ekki sú að ástand mála hafi farið batnandi hvað varðar misskiptinguna eða hvað þá auðlindanýtingu.  Nýlegar fréttir báru með sér að um að 1.000 auðugustu Íslendingarnir ættu nær allt eigið fé í íslensku atvinnulífi. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur beindi sjónum að því að stjórnvöld settu kíkinn fyrir blinda augað þegar komið var að svindli og sóun stærri aðila í kvótakerfinu, í sjávarútvegi.

Eitt af því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur áformar, er að teknir verði út úr bönkunum fjármunir, til þess að fara í ákveðin samfélagsverkefni m.a. vegagerð og niðurgreiðslu skulda ríkisins.  Umræddir fjármunir í bönkunum eru tilkomnir vegna okurvaxta og afarkjara sem íslenskur almenningur býr við.  Á árunum 2015 og 2016 var gróði viðskiptabankanna samanlagt um 165 milljarðar kr. Ef gróðanum væri skipt á milli landsmanna, þá kæmi um 2 milljónir í hlut hverrar 4 manna fjölskyldu í landinu. Það gefur auga leið að gjöld bankanna leggjast mjög misþungt á landsmenn og ætla má að ungt fólk sem er að fjárfesta í húsnæði beri þyngstu byrðarnar á meðan bankarnir létta undir með ríka fólkinu.

Það er merkilegur fjandi ef Vg ætlar að nota áhrif sín við stjórn landsins með þeim hætti að steravaxnir bankar verði reknir áfram í algerlega óbreyttri mynd, í stað þess að koma á samfélagsbanka sem byði almenningi sanngjörn kjör.

Ef bankarnir verða reknir í óbreyttri mynd og fjármunum tappað af þeim í ríkissjóð, þá mun það vera til mikillar hagsbóta fyrir auðmenn og leiða til enn frekari misskiptingar.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.12.2017 - 18:22 - FB ummæli ()

Doktor að blekkja

Greinin birtist í síðustu viku í Morgunblaðinu:

Dr. Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur SFS,  skrifar grein, sem birtist 200 mílum Morgunblaðsins, þar sem hann segir að það hafi náðst afar góður árangur við að stjórna þorskveiðum frá árinu 1992. Á grein Kristjáns má skilja að þorskstofninn sé að gefa meiri afla og að stækkun hrygningarstofnsins hafi gefið góða raun.

Ef skoðað er tímabilið frá árinu 1992 og fram til dagsins í dag og borið saman við jafn langt tímabil til baka, þá ætti að vera augljóst hverju mannsbarni að „stjórnunin“ hefur valdið gríðarlegu tjóni.  Meðaltals ársaflinn á seinna tímabilinu er aðeins 57% af því sem hann var á fyrra tímabilinu, Nýliðun seinna tímabilsins er aðeins 73% af því sem hún var fyrra á tímabilinu, sem Kristján vill meina að óstjórn hafi ríkt á.  Vel að merkja að fækkun nýliðunar verður þrátt fyrir markvissa stækkun hrygningarstofns og friðunar á smáfiski!

Í greininni er fullyrt að Íslendingar hafi verið leiðandi í því að búa til aflareglu á tíunda áratugnum, sem segði til um hve veiða ætti stóran hluta af fiskistofni, til þess að tryggja langtíma hagkvæma nýtingu.  Hann sleppir því hins vegar að nefna þá staðreynd að sú aflaregla var endurskoðuð upp úr síðustu aldamótum vegna þess að hún reyndist afar illa.  Þorskstofninn fór í sína náttúrulega niðursveiflu um aldamótin, þrátt fyrir að dregið hafi verið gríðarleg úr veiðum frá árinu 1992.

Gefin var út skýrsla, nefndar um langtíma nýtingu fiskistofna árið 2004, með „endurskoðaðri“ aflareglu, án þess að farið væri með gagnrýnum hætti yfir líffræðilegar forsendur hennar. „Endurskoðunin“ var framkvæmd af höfundum upphaflegu reglunnar og var niðurstaða skýrslunnar í stuttu máli að stofnmatið sjálft væri ónákvæmt og því nauðsynlegt að leggja til að enn lægra hlutfalls veiðistofns yrði veiddur en áður hafði verið gert.  Með því að fara með veiðina niður í 20% af veiðistofni, þá væri gulltryggt að mögulegt ofmat á veiðistofni hefði neikvæð áhrif á afrakstur þorskstofnsins.

Afli síðustu ára er langt frá því að ná því að vera í námunda við þau fyrirheit sem gefin voru þegar aflaregla var tekin upp og sömuleiðis þegar hún var endurskoðuð.  Með öðrum orðum þá hefur hún fallið á eigin forsendum.

Í lokinn er rétt að útgerðarmenn og landsmenn allir spyrji – Hvers vegna er Dr. Kristján Þórarinsson að beita blekkingum og halda því fram að það hafi náðst árangur þegar reynslan sýnir augljóslega annað?

nefndaralit2004_lokaeint (2)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.12.2017 - 23:46 - FB ummæli ()

Norðurlandameistarinn Katrín Jakobsdóttir

Í fyrir nokkru áttum við fosætisráðherra sem var alltaf að setja heimsmet.  Okkar ágæti Sigmundur Davíð setti að eigin mati mörg heimsmet m.a. í leiðréttingu lána í boði íslenskra skattgreiðenda.

Fréttir af leiðtogafundi um loftslagsmál sem fram fer nú í París bera það með sér að ungur og efnilegur forsætisráðherra þjóðarinnar hafi þegar sett eitt Norðurlandamet á fyrstu dögum sínum í embætti.  Afrekið gefur góð fyrirheit um enn frekari árangur –  Evrópumet eða jafnvel heimsmet. Katrín kynnti  á fundinum metnaðarfulla í tíma­setn­ing­u, um að Ísland verði fimm árum á und­an hinum Norður­landaþjóðunum í að koma á svokallaðri kolefnishlutleysingu. Með kolefnishlutleysingu er átt við að jafn mikið verði bundið af koltvísýringi t.d. með skógrækt og losað er af koltvísýringi út í umhverfið með mengandi útblæstri.

Inn í útreikningum Katrínar Jakobsdóttur er eftir því sem ég best veit ekki losun frá stóriðjunni. Hún getur sjálf þakkað sér töluverðan hluta af þeirri losun, þar sem hún studdi dyggilega við að reist yrði kolakynnt kísilver á Bakka. Það var gert meðal annars með beinum opinberum stuðningi við uppbygginguna.

Það gerir þessi markmið Íslendinga um kolefnishlutleysinguna glæsilegri en ella er að byrðarnar verða alfarið á kostnað íslensks almennings en ekki erlendrar stóriðju.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur