Miðvikudagur 9.5.2012 - 15:32 - Rita ummæli

Stjórnendaáhættan í lífeyrissjóðunum

Vilhjálmur Egilsson var stjórnarformaður lífeyrissjóðsins Gildis þar til nýlega, og undirritar sem slíkur ársskýrslu sjóðsins fyrir 2011. Þar er í fyrsta sinn gerð grein fyrir „stjórnmálaáhættu“ sem sjóðurinn búi við. Forysta sjóðsins fékk á sig talsverða gagnrýni í skýrslu nefndar sem lífeyrissjóðirnir settu sjálfir á laggirnar, þar sem meira að segja var haldið fram að sjóðurinn hafi farið kringum lög.

Merkilegt nokk er ekkert minnst á stjórnendaáhættu sjóðsins, en hún mun vera umtalsverð, enda sami framkvæmdastjórinn nú og lengi fyrir hrun, auk þess sem sömu valdaklíkur og vanalega verma stjórnarstólana.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.5.2012 - 11:19 - 4 ummæli

Hlutafélög og upplýsingalög

Í þessum nýlega dálki í Guardian er varpað fram nýstárlegri en tímabærri hugmynd. Í stuttu máli:

Hlutafélög grundvallast á því að eigendurnir, þeir sem hirða gróðann, bera enga ábyrgð á þeim skuldum sem þeir safna, eða þeim skaða sem þeir geta valdið, ef allt fer á versta veg. Hvort tveggja lendir á samfélaginu og/eða fólki sem ekkert hefur til saka unnið, né heldur nokkurn tíma deilt gróðanum. (Enda mun Adam Smith, sem frjálshyggjupostular vitna gjarnan í, hafa verið andvígur hlutafélögum, af því að eigendur þeirra bæru ekki ábyrgð á afleiðingum gerða sinna.)

Af því að hlutafélögin njóta þannig verndar samfélagsins, og aðrir þurfa að bera skaðann sem þau valda, þá er óeðlilegt annað en að almenningur hafi fulla innsýn í starf þeirra. Þess vegna ættu upplýsingalög (sem eru allt of veik á Íslandi, en það er annað mál) að ná yfir hlutafélög líka. Til að fara ekki allt of bratt í þetta mætti byrja á bönkunum. Þeir hafa valdið almenningi gríðarlegum skaða, og eru enn með ríkisábyrgðir, svo það er eðlilegt að þeir þurfi að starfa alveg fyrir opnum tjöldum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.5.2012 - 11:59 - 15 ummæli

Hvað má forsetinn gera?

Því var lengi haldið fram að 26. grein stjórnarskrárinnar (sem fjallar um hvað gerist ef forseti synjar lögum staðfestingar) væri ekki „virk“, þ.e.a.s. að forseti gæti ekki neitað að skrifa undir lög. Annað er komið á daginn, og enginn reynir lengur að halda fram að forseti hafi ekki þennan rétt.

Í 25. grein stjórnarskrárinnar stendur þetta:

Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.

Þetta gæti varla verið skýrara: Forseti getur lagt fram frumvörp sem Alþingi verður þá að fjalla um. Auðvitað dagar fullt af frumvörpum uppi á Alþingi, svo þingheimur gæti þannig sniðgengið frumvörp frá forseta. En ef forsetinn beitti þessu ákvæði eins og núverandi forseti hefur beitt synjunum, þ.e.a.s. í samræmi við augljósan meirihlutavilja þjóðarinnar, þá yrði erfitt fyrir Alþingi að hunsa slík frumvörp.

Hér er dæmi um frumvarp (í grófum dráttum) sem forseti gæti lagt fram: Allur fiskveiðikvóti verður innkallaður, í jöfnum skrefum á næstu tíu árum.

Áhugavert væri að heyra hvort forsetaframbjóðendur hyggjast nýta þennan möguleika sem stjórnarskráin færir forsetanum.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.5.2012 - 12:51 - 20 ummæli

Tillaga og greinargerð um kvótakerfið

Tillaga:

1. Allur kvóti verði innkallaður, frá og með næsta fiskveiðiári.

2. Öll afnot af kvóta verði seld á opnu uppboði, til eins eða fleiri ára í senn, þó ekki fleiri en tíu.

Greinargerð:

Verði kvótinn seldur á uppboði mun útgerðin væntanlega borga það fyrir hann sem hún þolir, ekki meira.

Útgerðir sem ekki þola að kaupa kvóta á uppboði í slíkri samkeppni ættu að fara á hausinn.

Sé ástæða til að ætla að einhver byggðarlög fari illa út úr þessu má styrkja þau fjárhagslega.  Slíkir styrkir, og notkun þeirra, skulu vera uppi á borðinu, í nafni gegnsæis.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.5.2012 - 11:57 - 12 ummæli

Svör um klám og mannréttindi í Rvík

Fyrir þrem vikum sendi ég Mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar nokkrar fyrirspurnir vegna klámvæðingarbæklings borgarinnar, sem fjallað var um hér og hér.  Svör bárust í fyrradag, og eru þau birt hér í lokin.  Reyndar er sumum spurningunum ekki svarað, og hef ég ítrekað þær, og mun birta svörin hér ef þau verða athygliverð.

Eitt af því sem sérstaka athygli vekur í svörum mannréttindastjórans er eftirfarandi:

Við mótun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði 16. maí 2006, var lögð áhersla á að kynjajafnrétti væri rauði þráðurinn í stefnunni og starfi mannréttindanefndar/ráðs þótt stefnan næði til fleiri þátta en jafnréttis kynjanna.

Það er líka athyglisvert að mannréttindastjórinn leiðir hjá sér spurninguna um hvort það skipti máli hversu algeng kynferðisleg áreitni er á vinnustöðum borgarinnar (staðreyndin er að slíkt er nánast óþekkt hjá borginni eins og fjallað var um  hér).

Miðað við  áherslurnar sem birtast í útgáfuefni og á vefsíðum Mannréttindaskrifstofunnar, virðist ekki óvarlegt að ætla að meirihluti vinnu þeirra 5-6 starfsmanna sem þar starfa snúist um það sem kallað er kynjajafnrétti og kynbundið ofbeldi.  Samt er ekki að sjá að þetta séu  raunveruleg vandamál hjá borginni.  Eins og fram hefur komið er kynferðisleg áreitni nánast óþekkt fyrirbæri á vinnustöðum borgarinnar, þótt Mannréttindaskrifstofan hafi gefið út sérstakan bækling þar sem gefið var í skyn að þetta væri alvarlegt vandamál, þvert á það sem vitað var áður en bæklingurinn kom út.

Sé útgáfuefni Mannréttindaskrifstofunnar skoðað, og það sem birtist á vefsíðum hennar, verður sú spurning æ áleitnari hvort starf þessarar skrifstofu þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að skapa vinnu fyrir fólk sem er með klám og ofbeldi á heilanum.  Það er nógu slæmt að sóa þannig almannafé.  Hitt er ekki skárra að með þessu er reynt að skapa andrúmsloft ógnar og tortryggni á fölskum forsendum.  Það er sérkennilegt „mannréttindastarf“.

—————————————————————————————-
From: Anna Kristinsdóttir <anna.kristinsdottir@reykjavik.is>
Date: 2012/4/30
Subject: Svör við fyrirspurnum
To: einar@alum.mit.edu

Sæll Einar,

Meðfylgjandi eru svör vegna fyrirspurna þinnar frá 9. og 11. Apríl 2012

1.  Hver tók ákvörðun um útgáfu bæklingsins (og um vinnuna sem á undan honum fór)?

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Háskóla Íslands sótti um styrk til nýsköpunarsjóðs námsmanna í samvinnu við Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna í Háskóla Íslands til að skoða klámvæðingu á vinnustöðum. 
Verkefnið var mjög vel af hendi leyst og var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Lögð er áhersla á að nýsköpunarsjóðsverkefni séu nytsamleg og var frá upphafi í umsókn gert ráð fyrir að rannsóknin nýttist stjórnendum og starfsfólki með kynningarefni af einhverju tagi.  

2.  Af hverju var ákveðið að gefa út bæklinginn?
Til þess að hvetja til umræðu um klámvæðingu og kynferðislegra áreitni í samfélaginu, sjá einnig svar við spurningu 1. 

3.  Hversu mikið kostaði þetta, þ.e.a.s. öll vinnan í þessu sambandi, útgáfa, dreifing o.s.frv.?
Ekki liggur fyrir endanlegur kostnaður vegna útgáfu en hönnun og prentun er áætlað að kosti kr 250.000. -300.000  Bæklingnum var dreift á vinnustaði Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands af starfsfólki án sérstaks kostnaðar. Bæklinginn er einnig að finna á vef borgarinnar.

4.  Telur þú þetta átak vera mikilvægan þátt í mannréttindastarfi borgarinnar?  Ef svo er, af hverju?  Og, skiptir í því sambandi einhverju máli hversu algeng kynferðisleg áreitni er á vinnustöðum borgarinnar?


Já, í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar er sérstaklega kveðið á um Reykjavíkurborg vinni gegn klámvæðingu.  Enn fremur segir að kynferðisleg áreitni sé með öllu óheimil. Með kynferðilegri áreitni er vísað í orðskýringar jafnréttislaga; Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Öll kynferðisleg áreitni er litin alvarlegum augum hvort sem um eitt eða fleiri atvik er að ræða. 

5.  Miðað við útgáfuefni Mannréttindaskrifstofunnar virðist þið telja að klám og kynjajafnrétti séu mikilvægustu mannréttindamálin.  Er það í raun lýsandi fyrir afstöðu ykkar?  Ef svo er, af hverju teljið þið þetta svona mikilvægt (meðal mannréttindamála)?  Ef ekki, hver eru þá helstu áherslumálin í mannréttindum hjá ykkur, hvernig vinnið þið að þeim og hvernig er hægt að kynna sér afrakstur þeirrar vinnu?

Sveitarfélög hafa lögbundna skyldu, skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10 frá 2008, til að halda úti starfi jafnréttisnefnda sem er lagðar ákveðnar skyldur á herðar, sjá 12. grein laganna. Hjá Reykjavíkurborg er mannréttindaráði falin þessi verkefni.  
Við mótun mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði 16. maí 2006, var lögð áhersla á að kynjajafnrétti væri rauði þráðurinn í stefnunni og starfi mannréttindanefndar/ráðs þótt stefnan næði til fleiri þátta en jafnréttis kynjanna.   Starf mannréttindaskrifstofu endurspeglar lagasetningar og samþykkta stefnumótun Reykjavíkurborgar.  Árlega er unnin starfsáætlun  mannréttindaráðs í mannréttindamálum og þar koma fram helstu áherslur sem unnið er eftir hverju sinni. Starfsáætlun má finna á síðu mannréttindaskrifstofu undir útgefið efni auk ýmiss annars efnis sem varpar ljósi á starfsemina. 

 

6.         Það er best ég bæti við einni spurningu til þín.  Á þessari síðu eru birtar „kynlegar tölur“:  http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/mannr_ttindaskrifstofa/skjol/kynlegar_tolur_070312_HQ.pdf  Hver er tilgangurinn með því?  Og hvernig eru valin þau atriði sem fjallað er um?

Á fundi mannréttindaráðs þann 11. mars 2010 var samþykkt tillaga í mannréttindaráði um að á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars yrði kynnt töluleg gögn varðandi stöðu kynjanna í Reykjavík. Mannréttindaskrifstofa vinnur í samráði við mannréttindaráð að útfærslu bæklingsins hverju sinni.  

Með bestu kveðju,

Anna Kristinsdóttir
mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.4.2012 - 11:02 - 13 ummæli

Klám og skrattamálun í Reykjavík

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar gaf nýlega út bæklinginn „Klámvæðing er kynferðisleg áreitni“. Ég fjallaði um hann í þessum pistli, en þá vissi ég ekki að borgin bjó yfir upplýsingum um algengi kynferðislegrar áreitni á vinnustöðum hennar. Þær upplýsingar fékk ég eftir að hafa spurt, en fyrst fékk ég þó þetta svar frá starfsmanni skrifstofunnar: „Eftir að bæklingurinn kom út hafa fjölmargar konur starfandi hjá Reykjavíkurborg rætt atvik sem þær hafa orðið fyrir og tengjast klámvæddri orðræðu. Vonandi svarar það spurningu þinni um algengi.“

Þegar ég spurði nánar var mér sagt að borgin hefði gert viðhorfskönnun þar sem spurt var hvort starfsmenn borgarinnar hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu samstarfsfólks. Könnunin náði til 6.738 starfsmanna borgarinnar og svarshlutfalliið var 67%, þ.e.a.s. 4.848 svöruðu. Í könnuninni kom fram að um 0,2% svarenda segjast hafa orðið fyrir líkamlegri kynferðislegri áreitni, og um 0,3% fyrir kynferðislegri áreitni í orðum.

Sé gengið út frá að þessi könnun sé áreiðanleg er niðurstaðan sem sagt að kynferðisleg áreitni er nánast óþekkt fyrirbæri á vinnustöðum borgarinnar, og þessar upplýsingar lágu fyrir þegar Mannréttindaskrifstofan gaf út ofannefndan bækling.

Ég fjallaði svolítið um umrædda „rannsókn“ í áðurnefndum pistli en mun gera það nánar síðar, enda virðist hún lýsandi dæmi fyrir þá afstöðu til raunveruleikans sem einkennir hina svokölluðu kynjafræði við Háskóla Íslands. Hér er þó rétt að geta þess að rannsóknin byggist á viðtölum við fimm handvalda starfsmenn borgarinnar, sem höfundur var „svo lánsamur að vildu segja honum frá reynslu sinni.“ („I was fortunate enough to find five research participants, who were willing to share their experiences with me.“)

Í tveim tilfellum segja viðmælendurnir sögu sem bendir til að tilteknir yfirmenn hafi hagað sér með ósæmilegum hætti, sem þeir hefðu átt að fá tiltal fyrir. (Hafa ber þó í huga að við (og höfundurinn) fáum bara aðra hliðina á málinu, því ekki var rætt við þá sem voru bornir sökum.) Í einu tilfelli segist viðmælandi hafa séð mynd af naktri konu á tölvuskjá og dagatal með nöktum konum á vegg í herbergi sem hún kom inn í. Þetta eru sem sagt „gögnin“ sem rannsóknin byggir á, en gefið er í skyn að klám gegnsýri vinnustaði borgarinnar, með hræðilegum afleiðingum, enda var sem sagt ráðist í útgáfu bæklings um málið, sem ætlaður er starfsmönnum borgarinnar og Háskóla Íslands (þar sem fundust, samkvæmt greininni, þrjár auglýsingar á vegg með fáklæddum konum, tvær frá nemendafélagi, en ein frá óþekktum aðila og ótengd skólanum).

Það er jafn sérkennilegt að fá ráðskonu í Femínistafélaginu til að gera úttekt á þessum málum eins og það væri að fá biskup til að rannsaka þörfina á trúboði í skólum. En, það er einmitt algengt meðal þeirra femínista sem helst hafa sig í frammi á Íslandi að krefjast þess að hin sérkennilega pólitíska afstaða þeirra — um að samfélagið sé gegnsýrt af klámi sem gegni því hlutverki að kúga konur — sé viðurkennd sem fræðilegur sannleikur, rétt eins og trúarhópar þykjast hafa höndlað hinn eina sannleika um lífið og tilveruna.

Hver var þá tilgangurinn með þessari „rannsókn“? Ljóst er að fólkið sem hrinti henni af stað og gaf út bæklinginn vissi, áður en bæklingurinn kom út, að kynferðisleg áreitni er nánast óþekkt vandamál á vinnustöðum borgarinnar, a.m.k. miðað við þau gögn sem viðkomandi hafa í höndum. Getur verið að tilgangurinn sé eingöngu að skapa vinnu fyrir „kynjafræðinga“ (sem finnst ástæða til að taka fram í opinberum svörum um þessi mál að þeir séu þar að auki femínistar)?

Eða getur verið að tilgangurinn sé langmiðaðri og snúist um að skapa ótta og óvissu, til að tryggja áhrif þeirra sem reka þennan áróður? Það er ekki nýtt, heldur vel þekkt aðferð þeirra sem stunda ýmiss konar „verndunar“bisniss. Öðru nafni heitir þetta að mála skrattann á vegginn og er mikið stundað af þeim sem hafa atvinnu af að særa út djöflana sem þeir skópu sjálfir.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur