Mánudagur 28.9.2015 - 10:15 - 5 ummæli

Hvernig fáum við nýjan Hæstarétt?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Mikið hefur verið deilt um úrskurði Hæstaréttar síðustu árin, og sem betur fer er það að færast í aukana að lögfræðingar viðri gagnrýni á störf réttarins. Það er gott, því Hæstiréttur þarf eiginlega frekar en flestar aðrar stofnanir á gagnrýni að halda, þar sem enginn er yfir hann settur, og nánast ómögulegt að hrófla við því sem hann ákveður, jafnvel þegar það er tóm þvæla. Reyndar hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) margsinnis slegið á puttana á dómurum Hæstaréttar, en hann er eini aðilinn sem það getur, og aðeins á mjög takmörkuðu sviði, auk þess sem það er afar erfitt að fá MDE til að taka mál til meðferðar.

Það heyrist oft sú krafa, beint og óbeint, að „hreinsað verði út úr“ Hæstarétti, þegar fólki misbjóða úrskurðir hans. Það er rétt að taka fram að ég er stundum alveg ósammála almenningsálitinu um ýmsa úrskurði réttarins (sérstaklega hvað varðar sýknun ákærðra í sakamálum, sem mér finnst stundum að njóti ekki þess réttar sem þeir eiga að hafa í réttarríki). Ég er líka „íhaldssamur“ að því leyti að ég vil alls ekki að hægt sé að „hreinsa út“ dómara þótt mörgum líki ekki við úrskurði þeirra. En það er vandamál að lítið er hægt að gera þegar dómstólar fella dóma sem eru rangir, og það gera þeir auðvitað stundum. Skref í rétta átt er endurupptökunefndin sem nýlega hefur fengið það verkefni að gera tillögur til ríkissaksóknara um endurupptöku sakamála, eins og gerst hefur nýlega varðandi Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Það er þó vandamál að nefndin gerir bara tillögu til ríkissaksóknara, sem sendir málið svo til Hæstaréttar, þannig að það er fólk í sömu stöðum og stofnunum og þeir sem felldu ranga úrskurði sem á að taka málið upp að nýju.

Annað vandamál sem mér virðist tröllríða Hæstarétti (og að vissu marki öllu réttarkerfinu) er að íslensk lögfræði hefur frá upphafi, í hundrað ár, verið búin til í litlum andapolli. Auðvitað er ekki um að ræða eina litla klíku í einu litlu bakherbergi, en þegar nánast allir lögfræðingar landsins og hver einasti dómari, hefur í hundrað ár komið úr sama þrönga umhverfinu, nefnilega lagadeild Háskóla Íslands, þá er ekki við öðru að búast en að það hafi neikvæð áhrif á víðsýni í stéttinni. Íslensk lögfræði er líklega einhver einangraðasta fræðigreinin í heiminum, og það er að stórum hluta sjálfvalið, því háskólalögfræðingar í nágrannalöndum stunda margir miklar rannsóknir sem birtast á alþjóðavettvangi, en það virðist enn frekar sjaldgæft á Íslandi, a.m.k. í HÍ.

Það er ekki í lagi að reka dómara af því að einhverjum finnist þeir ekki dæma rétt. Það er ekki heldur í lagi að hunsa niðurstöðu nefndar sem á að vinna á faglegum forsendum, nema hægt sé að sýna fram á með óyggjandi hætti að hún hafi komist að rangri niðurstöðu. Slíkir möguleikar verða fyrr eða síðar misnotaðir af þeim sem „okkur“ líkar ekki við. Ef það er ástæða til að leiðrétta kynjahallann í dómnefndinni sem nýlega felldi umdeildan úrskurð um hæfi umsækjenda um starf Hæstaréttardómara, þá verður greinilega að gera það með lagabreytingu, úr því Hæstiréttur hefur lagt blessun sína yfir skipun hennar.

Að „reka“ alla Hæstaréttardómara

En, þótt almennt megi ekki reka dómara, þá er hægt að breyta lögum, á eðlilegan og skynsaman hátt, og losna þannig á einu bretti við alla dómara í Hæstarétti, svo hægt sé að byrja með hreint borð. Það er ekki bara mögulegt, það er eiginlega sjálfsagt mál að gera það á allra næstu árum, af eftirfarandi ástæðum:

Lengi hefur verið talað um að koma á fót millidómsstigi, meðal annars til að minnka álagið á Hæstarétti, sem verður að taka fyrir hvert einasta mál sem áfrýjað er frá héraðsdómi. Flest nágrannalöndin eru með slíkt millidómsstig, og síðan með einhvers konar Hæstarétt sem eingöngu úrskurðar í „mikilvægum“ málum (þótt mikilvægið sé skilgreint með ólíkum hætti).

Miðað við það gífurlega álag sem er á Hæstarétti, og sem veldur því að dómarar geta afar sjaldan allir sett sig vel inn í þau mál sem þeir þurfa að dæma í, virðist skynsamlegt að koma á millidómsstigi. Hæstiréttur tæki þá til dæmis aðeins fyrir mál sem hann teldi sjálfur ástæðu til að efast um að rétt hefði verið dæmt í á millidómsstiginu og svo þau mál sem ástæða væri til að fella fordæmisgefandi dóma um.

Ef skipan dómsmála verður breytt með þessum afgerandi hætti er ljóst að leggja á núverandi Hæstarétt niður, þar sem arftaki hans fær allt annað og nýtt hlutverk. Það þýðir sjálfkrafa að núverandi dómarar eiga engan sérstakan rétt á sæti í nýjum æðsta dómstól; þeir yrðu að sækja um slík störf eins og aðrir.

Ferskan Hæstarétt fyrir nýja stjórnarskrá

En það er önnur ástæða fyrir því að setja ætti á laggirnar nýjan æðsta dómstól, með nýjum dómurum. Það ætti nefnilega að samþykkja fljótlega þá stjórnarskrá sem óhætt virðist að segja að almenningur í landinu vilji fá í staðinn fyrir þá sem nú er í gildi. Þegar það gerist er kjörið tækifæri að stokka upp dómskerfið, og fá nýjan æðsta dómstól, vonandi að stórum hluta með nýju fólki, sem byrjar með hreint borð, en ekki það rykfallna ræksni sem nú er setið við.

Þótt ég sé andvígur kynjakvótum er ég vongóður um að ef skipað yrði upp á nýtt í (nýjan) Hæstarétt, þá yrðu kynjahlutföllin talsvert öðru vísi en nú, ekki síst vegna þess að konum hefur fjölgað gífurlega meðal yngri lögfræðinga, og kannski er kominn tími til að yngja svolítið upp í þeim viðhorfum sem eru ráðandi í Hæstarétti.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.8.2015 - 12:12 - 3 ummæli

Stórfelld áfengisvandamál Kópaskersbúa

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Eins og allir vita jókst heildaráfengisneysla gríðarlega þegar bjórinn var leyfður á Íslandi, auk þess sem stór hluti þjóðarinnar fór að drekka bjór í tíma og ótíma, meðal annars ótæpilega á vinnutíma. (Not). Eins og allir vita fór áfengisneysla algerlega úr böndunum þegar komið var á kjörbúðafyrirkomulagi í vínbúðum ÁTVR. (Sömu uppgötvun var reyndar búið að gera í Svíþjóð, þar sem templurum og öðru hreintrúarfólki tókst nokkrum árum lengur að sporna við þeim ófögnuði en sálufélögum þeirra á Íslandi). (Not). Eins og allir vita (a.m.k. í Svíþjóð; íslensku templurunum datt aldrei í hug að nota þessa „röksemdafærslu“) jókst heimilisofbeldi gríðarlega þegar farið var að hafa ríkið opið á laugardögum. (Not).

Eins og allir vita myndi það auka til muna alls konar hörmungar ef Íslendingar fengju að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Enda hefur komið í ljós að á þeim stað þar sem þetta hefur verið prófað í tilraunaskyni, Kópaskeri, er meirihluti þorpsbúa nú kominn suður í meðferð, eða ætti að vera á leiðinni þangað. Og þorpið er rústir einar, sem um ráfa þessir örfáu hræður sem höfðu nægan viljastyrk til að keyra frekar í klukkutíma til Þórshafnar eða Húsavíkur, þar sem sala á matvælum og áfengi er enn aðskilin.

PS. Takk, Arnar, fyrir að benda á þessar hörmungar á Kópaskeri: http://blog.pressan.is/arnarsig/2015/08/21/vin-i-matvoruverslun/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.7.2015 - 10:15 - 9 ummæli

Prestarnir okkar sem nauðga

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Fyrir nokkrum vikum hélt Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur í Langholtskirkju, predikun sem bar yfirskriftina „Drengirnir okkar sem nauðga„. Það virðist vera svo að nauðgarar fyrirfinnist í öllum þjóðfélagshópum, þeir séu engin „sérstök tegund“, umfram það að vera nauðgarar. Því liggur beint við að álykta að meðal presta séu ekki síður nauðgarar en meðal annarra samfélagshópa. Þess vegna er fyrirsögn þessa pistils alveg jafn eðlileg og réttlætanleg og yfirskriftin á predikun Guðbjargar.

En, í hvorugu tilfellinu er þetta réttlætanlegt. Í báðum tilfellum er talað um fólk sem tilheyrir tilteknum hópi sem nauðgara, þótt það að tilheyra slíkum hópi þýði auðvitað alls ekki að viðkomandi sé einu sinni líklegur til að vera nauðgari.

Fyrir skömmu sagði svo Steinunn Stefánsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands, þetta í ræðu:

„Við viljum ekki búa í samfélagi þar sem sá ótrúlegi hlutur gerist aftur og aftur, að lítill mjúkur og ilmandi hvítvoðungur taki einhverjum áratugum síðar upp á því að nauðga vinkonu sinni eða beita konu sína ofbeldi.“

Talið um „drengina okkar sem nauðga“, um að karlar sem hópur kúgi konur sem hóp, hvað þá að nauðganir séu „eitt skýrasta birtingarform karllægra yfirráða í samfélaginu almennt“(*), eru af sama toga og hatursáróður gegn gyðingum eða múslimum eða konum. Hér er um að ræða það sem á ensku er kallað „guilt by association“, og gæti á íslensku heitað venslasekt, þar sem sök er klínt á saklaust fólk af því að það tilheyrir hópi sem ásakandinn hefur illan bifur á, vegna fordóma.

Þessi sóðalegi áróður, þar sem allt illt sem sumir karlar gera (og reyndar konur líka) er gert að sakarefni fyrir karlmenn sem hóp, er afar algengur, jafnvel meðal fólks í valda- og áhrifastöðum. En hann er ekki til þess fallinn að bæta eitt eða neitt, ekki frekar en annar áróður af sama toga. Nema valdastöðu þeirra sem nota hann sér til framdráttar.

Og þessi áróður verður ekki skárri fyrir þá blíðmælgi sem bæði Guðbjörg og Steinunn nota hér. Þvert á móti er það vitnisburður um nöturlegt viðhorf í samfélaginu að annars kurteist fólk skuli tala eins það sé sjálfsagt mál að spyrða unga drengi og jafnvel (karlkyns) hvítvoðunga við nauðganir. Það ætti að vekja alveg jafn hörð viðbrögð og ef við töluðum daglega um prestana okkar sem nauðgara.

(*) Úr meistararitgerð Guðrúnar M. Guðmundsdóttur í mannfræði við Háskóla Íslands árið 2004, „Af hverju nauðga karlar?“, aðalleiðbeinandi Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.6.2015 - 10:15 - 1 ummæli

Rektor HÍ eyðir milljón í eigin valdhroka

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Fyrr á þessu ári sótti ég um stöðu rektors Háskóla Íslands. Ég var eini umsækjandinn erlendis frá (enda var starfið bara auglýst innanlands, þvert á reglur skólans og kotroskið tal forystu hans um glæsta stöðu á alþóðavettvangi). Þegar ég spurði háskólaráð hvort það hygðist standa fyrir kynningum á umsækjendum fyrir starfsmenn og stúdenta, sem kjósa rektor, var það ekki ráðið sem svaraði heldur rektor, Kristín Ingólfsdóttir. Hún sagði að ekkert slíkt stæði til, heldur væri bara treyst á að utanaðkomandi félagasamtök sæju um það, eins og áður hefði verið gert. Hún tók þó fram að gengið væri út frá því að þeir aðilar, t.d. félag prófessora, gættu þess að tryggja jafnræði meðal umsækjenda hvað það varðaði.

Þar sem rektor sendi fyrirspurnir mínar, sem ég stílaði á háskólaráð, ekki til ráðsins, þrátt fyrir skýra beiðni mína um það, gróf ég á endanum upp netföng meðlima ráðsins og sendi formlegt erindi beint til þess. Þar spurði ég hvort ráðið hygðist standa fyrir kynningum á umsækjendum og hvort það hygðist greiða kostnað minn af ferðum til landsins vegna slíkra kynninga (enda skapar það augljóslega ójafnræði miðað við umsækjendur innan skólans að þurfa að ferðast til landsins, fyrir utan sjálfan kostnaðinn, og ég þekki engan annan háskóla sem ekki greiðir ferðakostnað vegna kynningar þeirra sem koma til greina í akademískar stöður).

Rektor er forseti háskólaráðs og því fór ég líka fram á að rektor viki sæti þegar háskólaráð fjallaði um þessar málaleitanir mínar, þar sem einn umsækjenda var aðstoðarrektor, einn nánasti samstarfsmaður rektors til margra ára, valinn af henni sjálfri, sem ég taldi að gerði hana vanhæfa til að fjalla um málið.

Í stað þess að víkja sæti, þótt ekki væri nema til að forðast allan grun um óeðlileg hagsmunatengsl, var ákveðið að fá tvö lögfræðiálit, frá lögfræðistofum úti í bæ. Þessi álit röktu hvernig úrskurðað hefði verið í málum af þessu tagi, og sögðu að allt ylti þetta á því hvort um nána vináttu væri að ræða milli rektors og aðstoðarrektors. Væri ekki um slíka vináttu að ræða hefði hingað til ekki verið úrskurðað að um vanhæfi væri að ræða, en annars gæti  það verið til staðar.  Háskólaráð úrskurðaði einróma að Kristín væri ekki vanhæf, þótt ekki væri útskýrt hvernig ráðið hefði skorið úr um hversu miklir vinir hún og aðstoðarrektor væru, og Kristín sat svo fundinn þar sem fjallað var um þessi mál mín.

Hver ákvað og hvað kostuðu álitin?

Þegar ég frétti af því að skólinn hefði látið gera þessi lögfræðiálit skrifaði ég lögfræðingi skólans, Elínu Blöndal, og spurði hver hefði tekið ákvörðunina um það, og hvað það hefði kostað. Þetta var 8. mars. Ég fékk svar næsta dag þar sem Elín sagði „ég hef móttekið spurningar þínar og mun svara þeim eins fljótt og unnt er, það kann þó að dragast um nokkra daga vegna miklla anna og málafjölda.“ Ég ítrekaði fyrirspurnina 17. mars, 20. mars, 7. apríl, og við rektor 8. apríl. Þann 9. apríl skrifaði Elín mér að „erindi þín hafa verið móttekin og verða afgreitt fljótlega, það hefur því miður dregist vegna mikilla anna og ert þú beðinn velvirðingar á því.“ Ég ítrekaði spurningarnar einu sinni enn þann 12. maí, en þegar ég hafði engin svör fengið þann 17. maí kvartaði ég til umboðsmanns Alþingis. Hann sendi háskólanum bréf þar sem farið var fram á upplýsingar um hvað liði meðferð málsins.

Í gær, 9. júni, fékk ég svo bréf frá Elínu Blöndal. Þar svaraði hún spurningunum tveimur, sem ég bar upp þrem mánuðum áður. Svörin voru ekki flókin: Það var rektor sem ákvað sjálf að fá þessi lögfræðiálit. Þau kostuðu 681 þúsund krónur, auk virðisaukaskatts. Með virðisaukaskatti hafa álitin þá væntanlega kostað háskólann rúmlega 840 þúsund.

Þótt það sé auðvitað aukaatriði, þar sem um prínsípmál var að ræða, þá mátti ráðið vita að kostnaðurinn við að borga t.d. tvær ferðir fyrir mig til landsins yrði varla meiri en hundrað þúsund. Hitt er verra, að Kristínu datt ekki í hug að þótt ekki væri hægt að sýna fram á að hún væri ekki augljóslega vanhæf samkvæmt lögum væri skynsamlegra að víkja sæti, af því að góðir stjórnsýsluhættir snúast meðal annars um að forðast að grunur vakni um hagsmunaárekstra. Þetta er því miður rótgróið viðhorf í íslenskri stjórnsýslu, sem hefur lítið breyst síðan Vilmundur Gylfason lýsti því með hinum fleygu orðum „löglegt en siðlaust“.

Þessar 840 þúsund krónur sem Kristín lét háskólann borga til að þurfa ekki að víkja sæti, og láta þar með aðra meðlimi háskólaráðs um að afgreiða mál þar sem augljóslega mátti efast um hæfi hennar, eru þó ekki eini kostnaðurinn sem af því hlaust. Samtals hafa opinberir aðilar haft af þessu kostnað sem er varla undir milljón. Milljón úr vösum almennings, og skóla þar sem forystan klifar endalaust á því að hann sé fjársveltur.

Þess má svo geta að ég kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna þeirrar ákvörðunar Kristínar og háskólaráðs að hún viki ekki sæti. Niðurstaða hans var í samræmi við lögfræðiálitin tvö. Hins vegar birti HÍ frétt um það á vef sínum og þar tókst ekki betur til en svo að rangt var farið með. Umboðsmaður sagði, eðlilega, ekki að „tengsl rektors og aðstoðarrektors“ væru „ekki með þeim hætti að það leiði til vanhæfis rektors“,  enda gerði hann enga rannsókn á því hver persónuleg tengsl þeirra væru. Einungis var útskýrt að vanhæfið ylti á umræddum persónulegum tengslum, og að „sönnunarbyrðin“ væri hjá þeim sem kvartaði. Þótt ég hafi tvisvar bent rektor á þessa rangfærslu hefur fréttin enn ekki verið leiðrétt.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.4.2015 - 10:15 - Rita ummæli

Áfellisdómar yfir forystu Háskóla Íslands

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í gær birti ég á Facebooksíðunni sem ég notaði fyrir rektorsframboð mitt póst sem sendur var á hi-starf, en það er póstlisti við Háskóla Íslands, þar sem rædd eru málefni skólans. Þar sagði einn af öflugustu vísindamönnum landsins frá því hvernig HÍ hafði dregið hann og sex aðra umsækjendur um svar við umsóknum um stöðu í rafmagnsverkfræði í meira en fjórtán mánuði, áður en tilkynnt var að staðan hefði verið lögð niður. Ég veit ekki hver ástæðan var í því tilfelli, en þetta, að leggja niður stöður sem farið hafa gegnum umsóknarferli, er „trix“ sem oftar en einu sinni hefur verið beitt við HÍ til að komast hjá því að ráða fólk sem ekki var þóknanlegt þeim sem með völdin fóru.

Þetta er einn af mörgum áfellisdómum yfir núverandi forystu HÍ, sem ber ábyrgð á fjölda tilfella þar sem skólinn hefur hrakið frá sér öflugt vísindafólk. En það er fleira misjafnt sem forysta skólans ber ábyrgð á, hlutir sem hafa beinlínis skaðað starf skólans og orðstír hans. Það sem verra er, afar lítið er talað opinskátt um mál af þessu tagi innan skólans, þótt víða kraumi mikil óánægja undir niðri. Síðustu daga hafa þó nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn látið í sér heyra á ofangreindum póstlista. Ég segi hér frá tveimur póstum á listann, og birti viðbrögð mín við þeim (sem ég sendi líka á þennan lista).


Í öðrum póstinum var talað um „heiðarlegt vísindastarf“ og sagt frá fundi þar sem fram kom að Íslendingar einir Norðurlandaþjóða væru ekki með „kerfisbundnar leiðir til þess að hafa eftirlit með og taka á óheiðarleika í vísindastarfi“. Það kemur mér ekki á óvart, eins og kemur fram í svari sem ég sendi við þessu:

„Þessar vikur sem ég tók þátt í kosningabaráttunni við HÍ sem frambjóðandi var mér bent á nokkur dæmi um óyggjandi ritstuld við skólann. Hér er bæði um að ræða ritstuld akademískra starfsmanna og ritstuld nemenda (í lokaritgerðum) sem leiðbeinendur áttu augljóslega, vegna aðstæðna, að koma auga á. Ekkert hefur verið gert í þessum málum, og það þrátt fyrir þann stórfellda ritstuld prófessors við skólann sem framinn var fyrir tíu árum eða svo, og sem skólinn beitti engum viðurlögum við.

Þetta er augljóslega áfellisdómur yfir núverandi forystu skólans, enda vandséð að afbrot af þessu tagi væru nokkurs staðar liðin í háskóla með lágmarks siðferði.“


Hinn pósturinn var frá fyrrverandi akademískum starfsmanni skólans, sem sagði frá hörmulegum viðtökum varðandi aðbúnað og aðstoð þegar hún réði sig til HÍ 2010, fáum árum eftir doktorspróf við bandarískan háskóla. Þetta virðist ekki vera einsdæmi heldur nánast hafa verið regla við HÍ áratugum saman, þar sem ungt vísindafólk er sett í langa þrælkun, í stað þessa að búa því slík kjör að það geti blómstrað, skólanum til hagsbóta. Hér fer á eftir svar mitt við þessum pósti:

Sæl NN (og þið öll)

Þótt ég sé ekki lengur frambjóðandi ætla ég að svara þessu í stuttu máli, þótt ég svari ekki hverri spurningu fyrir sig, enda held ég flest vandamálin sem þú nefnir séu af sömu rót runnin, nefnilega skilnings- eða hirðuleysi um það hvernig gott háskólastarf er byggt.

Lausnin sem ég sé á þeim augljósa og langvarandi vanda sem þú talar um er að Háskóli Íslands fari einfaldlega að haga sér eins og þeir skólar gera sem hann vill líkjast. Það þýðir meðal annars eftirfarandi

— Að afleggja vinnumatskerfið og nota í staðinn það jafningjamat sem alls staðar er lagt til grundvallar í fræðasamfélaginu, og sem byggt er á alþjóðlegum viðmiðum. Ef forysta skólans treystir sér ekki til að taka raunverulega forystu og ábyrgð eins og forysta sæmilegra háskóla gerir, þá er vonlaust að hún muni bæta starf skólans. Sá sem skýlir sér á bak við baunatalningu af því tagi sem birtist í vinnumatskerfinu er ekki hæfur til að leiða háskóla.

— Hætta að sóa rannsóknafé skólans í rannsóknir á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu en þar sem aðallega er birt á íslensku í dag, og nota féð í staðinn til að efla allar þær góðu rannsóknir sem er að finna innan skólans.

— Vernda sérstaklega ungt vísindafólk sem er að hefja feril sinn. Svo virðist sem HÍ hafi mjög lengi, kannski alltaf, farið þveröfugt með ungt fólk en þeir skólar sem hann segist vilja bera sig saman við, þ.e.a.s. kaffært það í allt of mikilli annarri vinnu en rannsóknum, auk þess sem launin hafa verið svo lág að fólk reynir að bæta þau upp með vinnu sem tekur tíma frá rannsóknum. Það er vísasta leiðin til að skaða vísindaferil á því viðkvæma stigi varanlega.

Með því að hætta þeirri sóun sem nefnd er hér að ofan losnar tími sem hægt er að nota í kennslu, og létta þannig kennsluálagið á þeim sem ástæða er til að veita meira svigrúm fyrir rannsóknir. Þetta gerist auðvitað ekki á einni nóttu, en sé rétt haldið á málunum mun þetta fé/tími losna nokkuð hratt á næstu árum þannig að hægt sé að efla gott rannsóknastarf.

Ég segi eins og þú, NN, þótt ég hafi það mjög gott erlendis, og þótt ég hafi aldrei starfað við HÍ, að ég læt mig alltaf öðru hverju dreyma um að vinna við skólann, að því tilskildu að þessi mál séu komin í nokkurn veginn skikkanlegt horf. Enda er margt sem mig myndi langa að gera á Íslandi, t.d. varðandi menntun stærðfræðinga og stærðfræðikennara og uppbyggingu rannsókna, þar sem ég tel mig hafa eitthvað fram að færa. Væri forysta skólans að vinna vinnuna sína, og hefði í raun þann metnað sem yfirlýsingar hennar snúast um, þá myndi ég miklu frekar vilja vera óbreyttur akademískur starfsmaður við skólann en rektor.

Því má svo bæta við að þegar ég var rekinn frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010, sem leiddi til þess að tíu manna rannsóknahópur, fjármagnaður af Öndvegisstyrk, leystist upp, og allir fjórir föstu starfsmennirnir (þar af einn við HÍ) fluttu til Skotlands, gerði forysta HÍ ekki minnstu tilraun til að fá okkur yfir til sín, þrátt fyrir fyrirspurnir mínar. Það hefði þó ekki átt að vera óyfirstíganlegt á þeim tíma, eins og ég benti á, að fá menntamálaráðuneytið til að gera það kleift fjárhagslega, enda hafði forysta HR skömmu áður einmitt nefnt það sem möguleika að við færum yfir, og samningar HR voru lausir þegar þetta var.

Bestu kveðjur, með von um bjartari framtíð,

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.4.2015 - 10:15 - 1 ummæli

Hvort myndi ég kjósa Guðrúnu eða Jón Atla?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í rektorskjörinu í Háskóla Íslands s.l. mánudag fékk Jón Atli Benediktsson 48,9% greiddra atkvæða, Guðrún Nordal 39,4% og ég 9,7%. Því þarf að kjósa aftur milli Jóns og Guðrúnar, úr því að enginn fékk yfir 50%. Ég hef ekki kosningarétt (og það hafa eigendur skólans, sá almenningur sem borgar rekstur hans, ekki heldur), svo ég þarf ekki að gera upp við mig hvort þeirra ég myndi heldur kjósa. Ég ætla samt að útskýra á hvaða forsendum ég myndi taka slíka ákvörðun, ef ég þyrfti þess.

Flest af þeim atriðum sem ég tel hér upp talaði ég auðvitað um í kosningabaráttunni, en sum hef ég lítið rætt áður, þótt ég telji þau skipta miklu máli. Ég set þessi „nýju“ atriði fyrst hér að neðan, þótt hin sem ég hef áður talað um séu kannski mikilvægari.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa þetta allt hef ég skáletrað, í lok hvers kafla, þær spurningar sem ég myndi spyrja Guðrún og Jón Atla til að gera upp hug minn.

Stjórnsýsla, akademískt frelsi og umræða innan skólans

Háskóli Íslands hefur lengi notið mikillar velvildar fjölmiðla, sem birst hefur í að þeir hafa gjarnan endurvarpað hátíðlegu tali forystu skólans um hann, en sjaldan athugað veruleikann að baki. Þátttaka mín í rektorskjörinu varð til þess að margt fólk innan skólans sagði mér frá hlutum sem ekki eru í eins góðu lagi og þeir hafa e.t.v. virst utan frá séð, vegna þessarar einlitu umfjöllunar. Ég fæ ekki betur séð en að forysta skólans hafi skotið sér hjá því að taka á ýmiss konar málum sem upp hafa komið, sem hefur valdið því að óánægjan kraumar víða undir niðri. Eitt mál sem ratað hefur í fjölmiðla og sem margir innan skólans virðast enn óánægðir með er stórfellt ritstuldarmál prófessors, sem leiddi ekki til neinna viðurlaga af hálfu skólans. Það er nánast óhugsandi í háskóla með sjálfsvirðingu og óbærilegur tvískinnungur af hálfu skóla sem eðlilega refsar nemendum sínum fyrir slíkt. Ekki er að sjá að forysta skólans sé líkleg til að haga sér með öðrum hætti framvegis.

Mér sýnist líka ljóst að opinská umræða eigi sér ekki stað innan skólans um hin ýmsu vandamál hans, bæði hvað varðar akademískt starf og stjórnsýslu, og að það sé talsverð sjálfsþöggun í gangi, af því að margir óttist að verða refsað með einum eða öðrum hætti fyrir að tjá óþægilegar skoðanir og gagnrýni á yfirvöld skólans. Ég hef sett fram þá hugmynd að komið verði á fót „umboðsmanni“ akademískra starfsmanna, sem þeir gætu snúið sér til með kvartanir vegna meintra brota á akademísku frelsi. Þeir sem hafa aðgang að Facebook geta séð hana hér.

Því myndi ég spyrja Guðrúnu og Jón Atla hvort og þá hvernig þau hyggist taka á erfiðum málum, bæði varðandi misferli starfsmanna og þá kúgun sem sumir þeirra upplifa. Ég vil fá skýr svör, ekki undanbrögð og innantóman fagurgala af því tagi sem ég hef heyrt hingað til frá forystu skólans.

Hvernig á að velja rektor?

Aðferð HÍ við að velja rektor er vægast sagt óeðlileg. Þótt nauðsynlegt sé að rektor hafi sæmilegan stuðning við stefnu sína meðal starfsfólks er óeðlilegt að starfsmenn ráði því alfarið (ásamt stúdentum) hver sé æðsti yfirmaður stofnunarinnar, alveg eins og það væri ótækt að starfsmenn Vegagerðarinnar réðu hver væri forstjóri. Eigendur skólans, sá almenningur sem einnig borgar allan rekstur hans, hafa að sönnu nokkra fulltrúa, skipaða af menntamálaráðherra, í háskólaráði, sem er æðsta stjórn skólans. En háskólaráð hefur ákveðið að afsala sér öllu valdi sínu í hendur starfsfólki og stúdentum, og stimplar sjálft bara útkomuna úr rektorskjöri. Ráðið hefur heldur ekki lyft litlafingri til að kynna umsækjendur fyrir þeim sem kjósa, ekkert gert til að jafna aðstöðumun umsækjenda innan úr og utan skólans, og þar að auki beinlínis brotið reglur skólans með því að auglýsa rektorsstarfið ekki utan landsteinanna, sem bendir til andúðar á því að utanaðkomandi sæki um. Þessi fruntalega afdalamennska er einmitt ein ástæða þess að skólinn þarf sárlega á því að halda að fá utanaðkomandi rektor, og það er ein af ástæðum þess að ég vona að sá sem nú verður kosinn rektor muni ekki sitja lengur en fimm ár.

Annað sem augljóslega býður heim spillingu er að rektor er forseti háskólaráðs, og fólk innan skólans virðist sammála um að rektor hafi sem slíkur, og með öðrum hætti, mikil áhrif innan þess. Sitjandi rektor sem vill sitja áfram getur því haft afgerandi áhrif á möguleika sína, og einnig á það hver verði eftirmaður. Þetta er spilling sem er bókstaflega innbyggð í reglur skólans.

Það er líka sérkennilegt að hlusta á mærðina um það „lýðræði“, sem á að felast í því að starfsmenn kjósi rektor. Annars vegar nær það lýðræði ekki lengra en til þess „aðals“ sem starfar í skólanum og hefur persónulegra hagsmuna að gæta, en „almúginn“ sem borgar brúsann hefur engin áhrif. Hins vegar hafa stundakennarar, sem hafa á sinni könnu 30% kennslu við skólann, og búa við afar léleg kjör, ekki atkvæðisrétt, á meðan nemendur, jafnvel þeir sem bara eru skráðir í eitt námskeið, hafa slíkan rétt.

Ég tel að háskólaráð eigi að beita sér fyrir því að rektorsefni yrðu kynnt vandlega fyrir starfsfólki og stúdentum, sem fengju góð tækifæri til að spyrja spurninga og koma skoðunum sínum á framfæri. Ráðningin ætti hins vegar að vera í höndum nefndar sem hefði það hlutverk að ráða þá manneskju sem líklegust væri talin til að efla skólann, ekki til að vinna dýra og froðukennda vinsældakosningu sem þar að auki skipar starfsfólki í tvær stríðandi fylkingar eins og raunin virðist nú orðin. Starfsfólk og stúdentar ættu að hafa fulltrúa í slíkri nefnd, en aðrir í henni þyrftu að vera utanaðkomandi fólk sem nyti sæmilegs trausts, og auðvitað ætti að hafa þar óháð erlent háskólafólk.

Myndi Guðrún eða Jón Atli beita sér fyrir að betur yrði staðið að ráðningu rektors, og uppræta eigin áhrif á það ferli, alveg sérstaklega ef þau hefðu áhuga á að sitja lengur en fimm ár?

Kennslumálin

Ég fékk talsverðar skammir fyrir gagnrýni mína á slaka kennsluhætti og vont námsmat sums staðar í skólanum, og það þótt ég tæki alltaf fram að kennslan væri örugglega góð sums staðar og að augljóslega væri til ágætis þekking á góðum og slæmum kennsluháttum innan skólans. Samt vita allir sem vilja vita að kennsluhættirnir eru sums staðar óboðlegir í skólanum, og augljóst að forysta skólans hefur leitt þau vandamál hjá sér. Það er áfellisdómur yfir forystu háskóla að láta sig litlu varða hvernig kennsla fer fram, því forystan ber að sjálfsögðu ábyrgð á gæðum kennslunnar, sem er annað höfuðhlutverk háskóla, og hún verður ekki bætt alls staðar nema forystan taki raunverulega forystu í því.

Myndi Guðrún eða Jón Atli taka þá forystu í kennslumálunum sem þarf, og láta þau boð út ganga að kennsluna verði að bæta þar sem henni er ábótavant? Myndu þau beita sér fyrir því að umbunað verði fyrir góða kennslu? Og hvernig myndu þau fara að þessu?

Rannsóknir

Forysta HÍ talar og lætur eins og Íslendingar séu einhvers konar ofurmenni, og því geti skólinn, sem spannar mestallt íslenska háskólakerfið, verið með alla akademíska starfsmenn í rannsóknastöðum, sem er óþekkt í löndum með jafn stórt háskólakerfi, og það þótt rannsóknaháskólar í viðkomandi löndum hafi mun meira fé en HÍ. Þetta eru blekkingar af sama tagi og beitt var í fjármálastofnunum fyrir hrun. Afleiðingarnar fyrir HÍ verða ekki sams konar hamfarir fyrir almenning, en þeir sem einbeita sér að því að fela vandamálin munu ekki leysa þau, frekar gera þau ennþá verri, eins og sjá má af því flókna og fáránlega vinnumatskerfi sem notað hefur verið í stað þess að umbuna fyrir góðar rannsóknir og kennslu.

Hvað eru Guðrún eða Jón Atli líkleg til að gera sem leiddi af sér að rannsóknafé skólans yrði notað í rannsóknir af þeim gæðum sem miðað er við í sæmilegum skólum á alþjóðavettvangi?

Í lokin get ég svo ekki stillt mig um að birta gula spjaldið sem ég tel að eigi að sýna núverandi forystu skólans:

gula-spjaldid

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur