[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu]
Mikið hefur verið deilt um úrskurði Hæstaréttar síðustu árin, og sem betur fer er það að færast í aukana að lögfræðingar viðri gagnrýni á störf réttarins. Það er gott, því Hæstiréttur þarf eiginlega frekar en flestar aðrar stofnanir á gagnrýni að halda, þar sem enginn er yfir hann settur, og nánast ómögulegt að hrófla við því sem hann ákveður, jafnvel þegar það er tóm þvæla. Reyndar hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) margsinnis slegið á puttana á dómurum Hæstaréttar, en hann er eini aðilinn sem það getur, og aðeins á mjög takmörkuðu sviði, auk þess sem það er afar erfitt að fá MDE til að taka mál til meðferðar.
Það heyrist oft sú krafa, beint og óbeint, að „hreinsað verði út úr“ Hæstarétti, þegar fólki misbjóða úrskurðir hans. Það er rétt að taka fram að ég er stundum alveg ósammála almenningsálitinu um ýmsa úrskurði réttarins (sérstaklega hvað varðar sýknun ákærðra í sakamálum, sem mér finnst stundum að njóti ekki þess réttar sem þeir eiga að hafa í réttarríki). Ég er líka „íhaldssamur“ að því leyti að ég vil alls ekki að hægt sé að „hreinsa út“ dómara þótt mörgum líki ekki við úrskurði þeirra. En það er vandamál að lítið er hægt að gera þegar dómstólar fella dóma sem eru rangir, og það gera þeir auðvitað stundum. Skref í rétta átt er endurupptökunefndin sem nýlega hefur fengið það verkefni að gera tillögur til ríkissaksóknara um endurupptöku sakamála, eins og gerst hefur nýlega varðandi Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Það er þó vandamál að nefndin gerir bara tillögu til ríkissaksóknara, sem sendir málið svo til Hæstaréttar, þannig að það er fólk í sömu stöðum og stofnunum og þeir sem felldu ranga úrskurði sem á að taka málið upp að nýju.
Annað vandamál sem mér virðist tröllríða Hæstarétti (og að vissu marki öllu réttarkerfinu) er að íslensk lögfræði hefur frá upphafi, í hundrað ár, verið búin til í litlum andapolli. Auðvitað er ekki um að ræða eina litla klíku í einu litlu bakherbergi, en þegar nánast allir lögfræðingar landsins og hver einasti dómari, hefur í hundrað ár komið úr sama þrönga umhverfinu, nefnilega lagadeild Háskóla Íslands, þá er ekki við öðru að búast en að það hafi neikvæð áhrif á víðsýni í stéttinni. Íslensk lögfræði er líklega einhver einangraðasta fræðigreinin í heiminum, og það er að stórum hluta sjálfvalið, því háskólalögfræðingar í nágrannalöndum stunda margir miklar rannsóknir sem birtast á alþjóðavettvangi, en það virðist enn frekar sjaldgæft á Íslandi, a.m.k. í HÍ.
Það er ekki í lagi að reka dómara af því að einhverjum finnist þeir ekki dæma rétt. Það er ekki heldur í lagi að hunsa niðurstöðu nefndar sem á að vinna á faglegum forsendum, nema hægt sé að sýna fram á með óyggjandi hætti að hún hafi komist að rangri niðurstöðu. Slíkir möguleikar verða fyrr eða síðar misnotaðir af þeim sem „okkur“ líkar ekki við. Ef það er ástæða til að leiðrétta kynjahallann í dómnefndinni sem nýlega felldi umdeildan úrskurð um hæfi umsækjenda um starf Hæstaréttardómara, þá verður greinilega að gera það með lagabreytingu, úr því Hæstiréttur hefur lagt blessun sína yfir skipun hennar.
Að „reka“ alla Hæstaréttardómara
En, þótt almennt megi ekki reka dómara, þá er hægt að breyta lögum, á eðlilegan og skynsaman hátt, og losna þannig á einu bretti við alla dómara í Hæstarétti, svo hægt sé að byrja með hreint borð. Það er ekki bara mögulegt, það er eiginlega sjálfsagt mál að gera það á allra næstu árum, af eftirfarandi ástæðum:
Lengi hefur verið talað um að koma á fót millidómsstigi, meðal annars til að minnka álagið á Hæstarétti, sem verður að taka fyrir hvert einasta mál sem áfrýjað er frá héraðsdómi. Flest nágrannalöndin eru með slíkt millidómsstig, og síðan með einhvers konar Hæstarétt sem eingöngu úrskurðar í „mikilvægum“ málum (þótt mikilvægið sé skilgreint með ólíkum hætti).
Miðað við það gífurlega álag sem er á Hæstarétti, og sem veldur því að dómarar geta afar sjaldan allir sett sig vel inn í þau mál sem þeir þurfa að dæma í, virðist skynsamlegt að koma á millidómsstigi. Hæstiréttur tæki þá til dæmis aðeins fyrir mál sem hann teldi sjálfur ástæðu til að efast um að rétt hefði verið dæmt í á millidómsstiginu og svo þau mál sem ástæða væri til að fella fordæmisgefandi dóma um.
Ef skipan dómsmála verður breytt með þessum afgerandi hætti er ljóst að leggja á núverandi Hæstarétt niður, þar sem arftaki hans fær allt annað og nýtt hlutverk. Það þýðir sjálfkrafa að núverandi dómarar eiga engan sérstakan rétt á sæti í nýjum æðsta dómstól; þeir yrðu að sækja um slík störf eins og aðrir.
Ferskan Hæstarétt fyrir nýja stjórnarskrá
En það er önnur ástæða fyrir því að setja ætti á laggirnar nýjan æðsta dómstól, með nýjum dómurum. Það ætti nefnilega að samþykkja fljótlega þá stjórnarskrá sem óhætt virðist að segja að almenningur í landinu vilji fá í staðinn fyrir þá sem nú er í gildi. Þegar það gerist er kjörið tækifæri að stokka upp dómskerfið, og fá nýjan æðsta dómstól, vonandi að stórum hluta með nýju fólki, sem byrjar með hreint borð, en ekki það rykfallna ræksni sem nú er setið við.
Þótt ég sé andvígur kynjakvótum er ég vongóður um að ef skipað yrði upp á nýtt í (nýjan) Hæstarétt, þá yrðu kynjahlutföllin talsvert öðru vísi en nú, ekki síst vegna þess að konum hefur fjölgað gífurlega meðal yngri lögfræðinga, og kannski er kominn tími til að yngja svolítið upp í þeim viðhorfum sem eru ráðandi í Hæstarétti.