Föstudagur 19.07.2013 - 01:05 - FB ummæli ()

Að misnota veikindin

Óstjórn hefur ríkt við stjórnun Reykjavíkurborgar á liðnum árum.  Borgarfulltrúar liðinna ára gerðu sig seka um að hlaupa á eftir allskyns kynjum útrásarliðs, spekúlanta og gullgerðarmanna, sem þóttust ætla að spinna gull í REI ævintýrum, Orkuveitunni, Hörpunni og fasteignabraski.  Borgarbúar eru minntir daglega á óstjórnina með hækkuðum orkureikningum, vatnssköttum og órækt innan borgarmarkanna.

Ólafur F. Magnússon, sem hefur að eigin sögn átt við erfið veikindi að stríða, tók ekki þátt í þessum hlaupum og barðist oft einn síns liðs gegn ruglinu og óráðsíunni.  Það er vert að velta því fyrir sér hvernig Laugavegurinn og Vatnsmýrin litu út ef að ekki hefði verið spornað við því að gjaldþrota verktakar hefðu fengið, m.a. í umboði Dags B. Eggertssonar, að ryðja í burtu öðru hverju húsi neðarlega á Laugaveginum og grafa upp Vatnsmýrina til þess að byggja upp blauta drauma um alvöru Evrópska Höfuðborg.  Enginn þarf að efast um að ef að þær hugmyndir hefðu farið lengra hefði miðborgin verið meira og minna í hálfgerði rúst næstu árin eftir hrunið.

„Góða fólkið“ í borgarstjórn og fylgismenn þess gerði sig ítrekað sekt um að nýta sér veikleika Ólafs F. Magnússonar, m.a. með ólátum á áhorfendapöllum þegar hann tók við embætti borgarstjóra.  Vissulega gerði Ólafur F. Magnússon mistök í embætti, m.a. í viðskiptum sínum við fyrrum félaga sína í Frjálslynda flokknum.  Enginn borgarfulltrúi hreyfði leg né lið til þess að leiðrétta augljós mistök vegna styrkveitingar til Frjálslynda flokksins, en þegar flokkurinn hafði fengið borgina dæmda í Hæstarétti til þess að fara að lögum, þá voru fyrstu viðbrögðin að gera kröfu á hendur fyrrum borgarstjóra.

Ef farið er út í að skrifa út reikninga vegna fjártjóns vegna óráðsíu borgarfulltrúa í gegnum tíðina, þá er ég viss um að margir aðrir ættu að fá mun hærri reikning en Ólafur F. Magnússon, sérstaklega þegar sumir þeirra hafa játað opinberlega að þeir hafi vísvitandi misnotað veikindi hans.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur