Laugardagur 5.4.2014 - 14:10 - FB ummæli ()

Bjarni og bankabónusinn

Leiðtogi sjálfstæðismanna reynir nú í örvæntingu að ná til almennings en flokkurinn glímir við mikið innanmein og fylgisleysi í Reykjavík.  Eitt af stóru útspilunum sem Bjarni spilar út er að minna á 25 milljarða skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.  Ekki er ég viss um það að þetta skori hátt hjá almenningi þar sem að skattalækkanirnar hafa farið að langstærsta hluta til um 2% landsmanna.  Þ.e. þeirra sem sem greiddu auðlegðarskatt, veiðigjöld og þeir sem langhæstar hafa tekjurnar.  Á meðan að heilu byggðarlögunum er að blæða út og hundruðir manna sjá fram á nauðungarflutninga þá er Bjarni aðallega að íhuga hvernig hækka megi verulega bónusa vina sinna sem stýra og stjórna bönkum.
Svo virðist sem Bjarni sé orðinn algerlega viðskila við allan almenning í landinu,  til marks um firringuna virðist hann ekki vita hvaða merkingu orðin „you aint seen nothing yet“ hefur í huga fjölda íslendinga.  Þessi orð ramma inn stórveldishugsun afglapanna sem settu Ísland á höfuðið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.4.2014 - 19:49 - FB ummæli ()

Upp eða niður?

Leiðtogi Framsóknarmanna og reyndar okkar allra flutti ákaflega einkennilega ræðu á ársþingi SA í dag.  Rauði þráðurinn í ræðunni var að hægt væri að tala upp efnahagslífið með bjartsýni og auka þar með samkeppnishæfni og hag þjóðarinnar.

Það sem kom óneitanlega á óvart var að Sigmundur valdi að boða bjartsýnina og jákvæðni með því að úthella í ræðunni blóðugum skömmum yfir alla þá sem sjá ekki sól forsætisráðherra.

Hér eru nokkrar tilvitnanir frá boðbera bjartsýninnar:

Það er tímabært að segja skilið við hugarfar afturhalds, neikvæðni og niðurrifs. Flest bendir enda til að svartnættinu sé að slota og trú á eigin getu að eflast. Það er einna helst í innstu myrkviðum netsins og í ræðustól Alþingis að hagsmunaverðir svartnættisins halda vöku sinni.

og

Enn er sterk sú umræða að við eigum varla rétt á að berjast fyrir okkar eigin hagsmunum. Það sé jafnvel fullreynt að við getum staðið á eigin fótum og því sé betra að ákvarðanir í mikilvægum hagsmunamálum okkar, svo sem peningamálum, séu teknar af öðrum en okkur sjálfum. Síðasta ríkisstjórn á stóran þátt í þessari orðræðu um dugleysi þjóðarinnar.

Til er fólk sem leit á hátt á efnahagslegar ófarir Íslands sem sinn stærsta sigur, sem réttlætingu á eigin skoðunum. Loksins var komin sönnun þess að Ísland og Íslendingar væru ekkert svo merkilegir og jafnvel hálf-glataðir aular.

Það er skrýtin efnahagsáætlun að ætla að berja þjóðinni bjartsýni í brjóst með því að ausa úr skálum reiði sinnar!

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.3.2014 - 20:02 - FB ummæli ()

Brottfallið

Nú hefur verkfall framhaldsskólakennara staðið í á þriðju viku en umræðan um áhrif þess liggur frekar lágt. Það snertir samt þjóðlífið á marga vegu og sjálfan mig beint þar sem ég á tvo krakka í framhaldsskóla. Ég sé að óvissan um hvernig, hvenær og hvort verkfallið leysist hefur mikil áhrif. Ég get tekið undir það sjónarmið að krökkum sem standa höllum fæti í námi og/eða eiga gisið stuðningsnet, m.a. í formi fjölskyldu, sé hættara við að falla úr námi.

Svo er annað brottfall sem ég hef einnig áhyggjur af, brottfall framhaldsskólakennaranna sjálfra. Auðvitað má búast við að mörgum finnist sem störf þeirra séu ekki metin að verðleikum. Búast má við að kennarar fari að leita sér að öðrum starfsvettvangi og þá falla þeir fyrst úr stéttinni sem eiga auðvelt með að fá sér vinnu annars staðar.

Mér finnst ráðherra hafa haldið mjög illa á málum. Í stað þess að taka strax upp alvöruviðræður um það sem deilt er um, þ.e. kaup og kjör, er farið í að flækja deiluna með því að draga inn í hana einhverjar skipulagsbreytingar, helstar þá um styttingu náms til stúdentsprófs. Þær breytingar munu ekki nást með góðu móti nema einnig verði horft til breytinga á grunnskólanámi.

Ráðherrann hefði auðveldlega getað komið til móts við sjónarmið kennra með því að benda á að þeir hefðu dregist aftur úr í launum smám saman á löngu tímabili og þess vegna væri eðlilegt að taka einhvern tíma í að koma leiðréttingunni fram.

Hætt er við því að ef deilan verður ekki leyst í vikunni muni hún harðna enn frekar og brottfall og skaði verði meiri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.3.2014 - 12:43 - FB ummæli ()

Nauðungaflutningar – Hvar er Sigmundur Davíð?

Útgerðarfyrirtækið Vísir hefur, skv. 1. gr.  laga um stjórn fiskveiða, yfir að ráða veiðiheimildum sem úthlutað er til eins árs í senn. Skýrt er tekið fram í lögunum að úthlutunin myndar ekki eignarrétt og markmið laganna sé að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Ekki er um það deilt að ætlanir útgerðarfyrirtækisins, að leggja niður alla  fiskvinnslu frá Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri, ganga þvert gegn markmiðum laganna; að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.  Fréttir herma að fyrirtækið hafi gengið hreint til verks í hreppaflutningum og boðið upp á ókeypis flutninga til Grindavíkur og að skaffa húsnæði á Suðurnesjum. Ef vilji er hjá stjórnvöldum þá er auðvelt að sporna við yfirgangi nokkurra útgerðarfyrirtækja gagnvart búsetu og afkomu heilu byggðalaganna.  Vandinn er sá að LÍÚ á fríðan flokk þingmanna í flestum flokkum þingsins og einn þeirra hefur játað að hann gangi beinlínis erinda LÍÚ í löggjafastörfum sínum á Alþingi Íslendinga.  Á meðan á annað hundrað starfsmenn sem sjá fram á flutning eiga sér vart málsvara á þinginu né virðist sem að kjörnir fulltrúar í viðkomandi sveitarfélögum hafi manndóm í sér til þess að krefjast breytinga á kvótakerfinu sem er að rústa lífsgrundvelli umbjóðenda þeirra.

Ekkert hefur heldur frést af viðbrögðum Sigmundar Davíðs Gunnlauonar fyrsta þingmanns Norðausturkjördæmisins – mögulega finnst honum þetta bara í lagi að hundrað kjósendur hans séu fluttir hreppaflutningum landshorna á milli. Nauðungarflutningar í boði Vísis snerta mun fleiri en starfsmenn fyrirtækisins en þeir munu fyrirsjáanlega raska skólagöngu og fjölskylduhögum.

Ef Sigmundur Davíð hefur áhuga á að grípa inn í þá getur hann auðveldlega gert það – Vilji er allt sem þarf.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.3.2014 - 10:43 - FB ummæli ()

Skagfirðingar gagnrýna Sigurð Inga

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar lagði ég ásamt Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur fram ályktun til samþykktar þar sem skorað var á ríkisstjórnina að hætta við að skera stórkallalega niður veiðidaga á grásleppu.  Aukin atvinnuhöft ganga gegn atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og valda óvissu um framtíðarrekstraröryggi smábáta.

Tillagan hljóðaði svo:

Ályktun til ríkisstjórnar Íslands.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að fara að óskum sjómanna og hætta við boðaða skerðingu veiðidaga á grásleppu sbr. reglugerð 72/2014, úr 32 dögum sem var í fyrra og í 20 daga.

Það er skemmst frá því að segja að tillagan var samþykkt efnislega, en þó með þeirri breytingu sem skagfirskir framsóknarmenn lögðu ofuráherslu á, að ályktunin beindist sérstaklega að sjávarútvegsráðherranum, Sigurði Inga Jóhannssyni.

Það er greinilegt að það er vaxandi óánægja innan Framsóknarflokksins með sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar, en mér finnst ómaklegt að ábyrgðinni á henni sé varpað einvörðungu á sjávarútvegsráðherrann  – stefnan er fyrst og fremst á ábyrgð forystumanna ríkisstjórnarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.3.2014 - 10:05 - FB ummæli ()

Skagfirðingar gagnrýna Sigurð Inga!

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar lagði ég fram ásmt Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur ályktun til samþykktar þar sem skorað var á ríkisstjórnina að hætta við að skera stórkallalega niður veiðidaga á grásleppu.  Aukin atvinnuhöft ganga gegn atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og valda óvissu um framtíðarrekstraröryggi smábáta.

Tillagan hljóðaði svo:

Ályktun til ríkisstjórnar Íslands.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að fara að óskum sjómanna og hætta við boðaða skerðingu veiðidaga á grásleppu sbr. reglugerð 72/2014, úr 32 dögum sem var í fyrra og í 20 daga.

Það er skemmst frá því að segja að tillagan var samþykkt efnislega, en þó með þeirri breytingu sem skagfirskir framsóknarmenn lögðu ofuráherslu á, að ályktunin beindist sérstaklega að sjávarútvegsráðherranum, Sigurði Inga Jóhannssyni.

Það er greinilegt að það er vaxandi óánægja innan Framsóknarflokksins með sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar, en mér finnst ómaklegt að ábyrgðinni á henni sé varpað einvörðungu á sjávarútvegsráðherrann  – stefnan er fyrst og fremst á ábyrgð forystumanna ríkisstjórnarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.3.2014 - 23:58 - FB ummæli ()

Pírati rífst ekki

Einn efnilegasti þingmaður landsins, Helgi Hrafn Gunnarsson, fullyrti í dag að menn rifust ekki við stærðfræði í tengslum við ákvörðun um makrílveiðar. Tölvuvæddi píratinn virðist ekki hafa áttað sig á því, frekar en margur annar í þjóðfélaginu, að málið snýst ekki um stærðfræði heldur líffræði.

Sú veiðiráðgjöf sem Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur byggt á byggist á reiknisfiskifræði og hefur reynst alröng og augljóslega kolröng síðasta hálfa áratuginn þegar kemur að veiðiráðgjöf í makríl í Norður-Atlantshafinu. Það hefur verið veitt langt umfram ráðgjöf og samt sem áður hefur stofninn breiðst út um Atlantshafið.

Á þessari vitleysu byggðu íslensk stjórnvöld og LÍÚ málflutning sinn en mögulega vildi LÍÚ ekki stækka kökuna til að koma í veg fyrir að einhver utan þröngs hóps fengi skerf af henni og þeir sætu þess í stað einir að henni en viðsemjendur okkar, þ.e. Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið, búnir að átta sig á að þessi reiknisfiskifræðilega ráðgjöf er kolröng.

Það er gott að vera vitur eftir á og ég vona að píratar geti líka verið það og farið yfir ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins og veiði undanfarinna ára sem hefur verið langt umfram ráðgjöfina og viðurkenni hið augljósa, að ráðgjöfin hefur verið alröng.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.2.2014 - 13:49 - FB ummæli ()

Hvað er hægt að segja?

Nú berast fréttir af góðri veiði við Færeyjar.  Um er að ræða fisk sem átti ekki að vera til samkvæmt framreikningi reiknisfiskifræðinnar – ekki frekar en makríllinn hér við land og sömuleiðis ekki ýsan sem veiðist í miklu magni. Góð ýsuveiði er eitt mesta vandamál íslenskra smábátasjómanna nú um stundir, svo undarlega sem það hljómar. Sjómenn komast ekki í róður vegna þess að útgefinn kvóti er ekki í neinu samræmi við aflabrögð.

Í færeyska sóknardagakerfinu þekkist ekki þetta einkennilega vandamál – ekki frekar en brottkastið. Hvað er hægt að segja þegar aðilar vinnumarkaðarins, stjórnmála- og blaðamenn sætta sig við algerlega ónýtt og óréttlátt kerfi við stjórn fiskveiða? Engu líkara er en að fyrrgreindir aðilar trúi því að íslenska kvótakerfið sé það allra besta í heimi – þrátt fyrrir að þorskveiðin nú sé 100 þúsund tonnum minni hér við land en hún var árið 1924 og fiskveiðiflotinn fjörgamall. Það er lítið hægt að segja þar sem kerfið virðist hafa fengið guðdómlegan sess hjá fræðasamfélaginu og nánast er litið á málefnalega gagnrýni sem guðlast. Fræðimenn í Háskóla Íslands hafa jafnvel gefið út þá furðulega stefnu að lögsækja hvern þann sem bendir á augljós og vafasöm tengsl þeirra við sérhagsmunasamtök sem sjá hag sínum borgið við að festa ruglið í sessi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.2.2014 - 18:14 - FB ummæli ()

Kjánalegar hótanir Háskólans

Í kjölfar hrunsins var það vel þekkt iðja útrásarvíkinga að hóta málsókn þeim fréttamönnum sem leyfðu sér að  fjalla um fjárglæfra þeirra sem bitnuðu harkalega á þorra almennings. Tilgangurinn var að þagga niður alla opinbera umfjöllun um myrkraverkin sem ekki þoldu dagsljósið.

Nú berast fréttir af því að starfsmaður Háskóla Íslands Helgi Áss Grétarsson hafi komið fram á Bylgjunni og hótað hverjum þeim málsókn sem bendir á tengsl Lagastofnunar og Helga Áss við LÍÚ í gegnum tíðina.  Með hótun um málsókn virðist eiga að koma í veg fyrir gagnrýna umræðu um fádæma  lélega álitsgerð Lagstofnunar þar sem fullyrt var að Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hefði brotið lög þegar hann gaf rækjuveiðar frjálsar árið 2010.

Þegar rækjuveiðar voru gefnar frjálsar voru hagsmunir þjóðarinnar settir í öndvegi á kostnað afar þröngra sérhagsmuna. Þeir sem réðu yfir heimildum til rækjuveiða höfðu ekki nytjað stofninn um árabil en í stað þess fénýttu þeir rækjukvóta í tegundatilfærslu og brask.

Miklu nær væri að Háskóli  Íslands stæði í þeim sporum að standa vörð um gagnrýna umræðu og almannahag og tekið væri tillit til þeirrar gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á kostnaði fræðistarfa í aðdraganda hrunsins. Í 8. bindi segir á bls. 213:

Fyrr á tímum herjuðu einkum pólitísk og trúarleg öfl á vísindamenn og reyndu að hafa áhrif á viðfangsefni fræðimanna og niðurstöður þeirra. Í nútímanum hafa tengsl efnahagslífs og háskólastarfs orðið meira áhyggjuefni, meðal annars vegna þess að mun erfiðara er að henda reiður á áhrifum á fræðimenn, ekki síst í andrúmslofti þar sem mikil viðskiptavild er ríkjandi.
Það fer yfirleitt ekki á milli mála þegar valdið kemur að ofan, en það getur auðveldlega farið framhjá manni þegar það smýgur inn í formi styrkja eða kostunar og einstaklingar laga hegðun sína ósjálfrátt að því án þess að þurfa nokkurn tíma að lúta valdboði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.2.2014 - 19:24 - FB ummæli ()

Enginn sómi fyrir Háskóla Íslands

Nú hefur Lagastofnun Háskóla Íslands gefið út álitsgerð þar sem fullyrt er að Jón Bjarnason fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafi brotið lög þegar hann gaf rækjuveiðar frjálsar árið 2010.  Það var að sjálfsögðu kostaður fræðimaður LÍÚ sem gerði álitsgerðina sem telur þéttskrifaðar heilar 25 blaðsíður.  Í álitsgerðinni er hlaupið yfir að fjalla um dóm þar sem beinlínis er tekið á kröfu um ógildingu á stjórnarathöfnum ráðherra í rækjuveiðimálinu, en þeirri fráleitu kröfu var vísað frá dómi.  Sæmilega vitiborið fólk ætti að sjá í hendi sér  að áltisgerð um lögfræðileg álitamál þar sem sleppt er að fjalla um  dóma þar sem tekist er á um umfjöllunarefni álitsgerðarinnar, er ekki pappírsins virði. Aðrir starfsmenn Háskóla Íslands hljóta að setja sóma síns vegna spurningamerki við slíka starfsemi sem rekin er í nafni Háskóla Íslands.

Þegar rækjuveiðar voru gefnar frjálsar þá voru hagsmunir þjóðarinnar settir í öndvegi á kostnað afar þröngra sérhagsmuna.  Þeir sem réðu yfir heimildum til rækjuveiða höfðu ekki nytjað stofninn um árabil en í stað þess fénýttu þeir rækjukvóta í tegundatilfærslu og brask.

Rækjufrumvarp núverandi sjávarútvegsráðherra  felur í sér að veiðiheimildir flytjast aftur til þeirra sem voru löngu hættir að veiða.  Það mun að öllum líkindum verða til þess að  rækjuveiðiskipin verði á ný bundin við bryggju og þjóðarbúið fara á  mis við mikila verðmætasköpun.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur