Miðvikudagur 19.12.2012 - 16:08 - FB ummæli ()

Jón Gnarr rassskelltur

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, fékk rassskell í Hæstarétti í dag er hann tapaði máli gegn Frjálslynda flokknum.  Aldrei vildu pólitískir forystumenn í borginni, með þá Dag B. og Jón Gnarr í forsvari,  ljá máls á viðræðum um sanngjarna lausn málsins, ef frá er talinn fundurinn sem Jón Gnarr boðaði Guðjón Arnar á og Jón Gnarr mætti svo ekki sjálfur á!

Á heimasíðu Besta flokksins kemur fram að hann sé lýðræðissinnaður umbótaflokkur sem vill lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á jafnréttisgrundvelli auk þess sem Jón Gnarr hefur talið sig vera fánabera umburðarlyndisins. Búast hefði mátt við að þessu nýja stjórnmálaafli fylgdu ferskir vindar, en framkoma flokksins í málinu var mikil vonbrigði. Framganga hans gagnvart Frjálslynda flokknum einkenndist af fordómum og hroka og virtist Besti flokkurinn vera tilbúinn til þess líta algerlega framhjá sanngjarnri lausn og því að ná sanngjörnum sáttum. Í staðinn beitti hann aflsmunum sínum með afar ósanngjörnum hætti, sem staðfest var í Hæstarétti í dag.

Vonandi lærir Besti flokkurinn af mistökunum og tekur ekki þessi vinnubrögð með sér inn í Bjarta framtíð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.12.2012 - 13:20 - FB ummæli ()

Það er búið að kjósa

Á Alþingi er verið að þæfa afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins. Í þeirri ósvinnu leggja einstaklingar úr svokölluðu „fræðasamfélagi“ sín lóð á vogarskálarnar til þess að koma í veg fyrir að vilji landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október sl. verði virtur.

Í allri umræðu framangreindra aðila gegn afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins örlar ekki á nokkurri efnislegri gagnrýni.  Það sem er dregið fram í umræðuna er eitthvert tal um að; ferlið hefði þurfi að vanda frekar, ekki megi hraða ferlinu, sett út á vinnubrögð og jafnvel er því haldið fram að þjóðin hafi haft takmarkaða aðkomu að gerð frumvarpsins!

Síðan er því jafnvel haldið fram að ekkert kalli á stjórnkerfisbreytingu, en það virðist algerlega vera fallið úr minni þeirra þingmanna og „fræðinga“ sem um ræðir, að hér hafi orðið hrun sem hefur ekki enn verið gert upp.

Málið  er að það er búið að kjósa um stjórnarskrárfrumvarpið og þá niðurstöðu ber Alþingi að virða.  Í sjálfu sér er það æði undarlegt að stjórnmálaflokkar sem hafa um áratugaskeið kennt sig við lýðræðið skuli telja sig umkomna að fara gegn skýrum vilja þjóðarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.12.2012 - 23:24 - FB ummæli ()

Baðstjóri ESB

Ég er nýkominn úr námsferð hóps sveitarstjórnarmanna til Brussel, þar sem Evrópuþingið var sótt heim.  Ferðin var vel skipulögð og fengu námsmennirnir að hlýða á fjölda fyrirlestra þar sem skipulag og gangverk sambandsins voru kynnt.  Eftir langa fyrirlestratörn á öðrum degi námskeiðsins ákvað ég að skella mér í sundlaug í höfuðborg Evrópu, enda voru erindin farin að renna saman í eitt suð.  Það var ekki auðhlaupið að því að finna slíkt mannvirki. Það var ekki fyrr en eftir lipra þjónustu íslensku utanríkisþjónustunnar og þriggja belgískra leigubílstjóra að laugin Poseidon fannst á endanum.

Ekki fannst mér sundlaugin í höfuðborg Evrópu standast samanburðinn við sundlaugina í höfuðstað Norðurlands vestra á Sauðárkróki, þrátt fyrir að laugin á Króknum þyki vera í lakara lagi á íslenskan mælikvarða.  Þegar í laugina var komið fékk ég ákúrur fyrir að stinga mér til sunds án sundhettu og komu mér þær þrifnaðarreglur verulega á óvart þar sem að algerlega óheimilt var að þrífa sig án sundfatnaðar fyrir sundferðina og reyndar var enga sápu að finna í baðklefanum!

Mér finnst furðulegt að heyra á það minnst að Íslendingar geti tekið að sér  fiskveiðistjórn ESB og jafnvel lagt til mann í embætti fiskveiðstjórans í ljósi algers árangursleysis íslenska kvótakerfisins, ósanngirninnar og sóunar kerfisins.  Miklu nær væri ef við gerðum Evrópu þann greiða að taka að okkur nýtt embætti baðstjóra Evrópusambandsins og forystu í reglugerðum varðandi sundlaugar. Það er gott að geta boðið fram krafta sína á þeim sviðum sem maður er hæfur á.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.11.2012 - 22:32 - FB ummæli ()

Upphlaupið og Íbúðalánasjóður

Nú gengur yfir samfélagið umræðualda um stöðu Íbúðalánasjóðs og er nánast upphlaup í Kauphöllinni, Alþingi og í fjölmiðlum. Ástæðan fyrir æsingnum er nýlegt viðtal við þingkonu Samfylkingarinnar, sem í viðtali við útlendinga, minntist á að mögulega þyrfti Íbúðalánasjóður að rifta gerðum lánasamningum.

Í raun er ekkert nýtt í málinu og fátt nýtt sem útskýrir lætin. Umtalaður vandi Íbúðalánasjóðs, sem snýr að rýrnandi eiginfjárhlutfalli vegna greiðslu gamallar og kostnaðarsamrar fjármögnunar, er búinn að vera  lengi ljós. Ég átta mig reyndar ekki á mikilvægi reiknaðs eiginfjárhlutfalls Íbúðalánasjóðs þar sem skuldbindingar sjóðsins eru ríkistryggðar.

Öllum ætti sömuleiðis að vera ljóst að þingmenn Samfylkingarinnar hafa hingað til ekki sett það fyrir sig að breyta gerðum lánasamningum, sbr. Árna Páls-ólögin. Það eina sem mögulega er nýtt er að umræðan rataði í erlenda fjölmiðla en ekki íslenska. Ekki skil ég þá viðkvæmni, þar sem biðröð útlendinga eftir að fjárfesta í innlendum skuldaviðurkenningum er ekki löng. Biðröðin er í hina áttina þ.e. að sleppa með fjármagn úr landi.

Í lokin þá er vert að velta því fyrir sér í hve miklum mæli þetta mál snertir almenning. Vissulega er almenningur að tapa skattfé sem fer í að rétta af Íbúðalánasjóð, en þeir sem eru væntanlega að hagnast á tapi Íbúðalánasjóðs, eru þeir sem lánuðu fjármagnið, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðirnir, sem eru í eigu þessa sama almennings.

Sjálfur hef ég meiri áhyggjur af annars konar vanda sem snýr að raunverulegri verðmætasköpun í landinu og að þjóðin sé ekki að endurnýja og jafnvel selja úr landi atvinnutæki sem geta skapað raunverulegan arð, þegar ráðamenn verða loksins búnir að komast út úr bóluhagkerfinu og ná jarðsambandi.

Það er auðvitað ekkert vit í öðru en að ráðamenn svari þeirri spurningu hvers vegna í ósköpunum minna magn af þorski var veitt á árinu 2011 en gert var hér við land árið 1913?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.11.2012 - 15:13 - FB ummæli ()

Að uppnefna gagnrýna umræðu sem skítadreifingu

Formaður Besta flokksins skrifar langa grein undir fyrirsögninni „drepum á skítadreifurum“.  Í greininni fer Guðmundur Steingrímsson eins og köttur í kringum heitan graut við að rökstyðja að þjóðin á áfram að búa við verðtryggingu og óbreytt kvótakerfi, hann er á móti niðurfærslu lána hjá almenningi og hann telur að lagning rafstrengs til Evrópu sé töfralausnin á efnahagsvanda Íslendinga.  Engin tilraun er gerð til þess að svara þeim efnislega, sem hafa fært málefnaleg rök fyrir því að afleggja verðtrygginguna og kvótakerfið í sjávarútvegi – Þeir sem hafa lagt til nýjar og vel rökstuddar leiðir, eru einfaldlega uppnefndir skítadreifarar!

Við hrunið varð samdráttur í verðmætaframleiðslu. Laun, eignir og önnur verðmæti lækkuðu að verðgildi.  Nú eru peningar ávísun á verðmæti og það er fráleitt að ætla að hægt sé að tryggja sérstaka „verðtryggingu“ á peningum og lánum þegar andlag þeirra hefur lækkað gríðarlega.   Með leið verðtryggingarinnar er verið að viðhalda gríðarlegu ójafnvægi í hagkerfinu.  Augljóst er að með breyttri fiskveiðistjórn væri hægt að færa mun meira líf í undirstöðuatvinnugrein landsmanna, en núverandi kerfi hefur algerlega brugðist upphaflegum markmiðum sínum. Það eitt að fiskur taki verð á markaði myndi leiða til mikillar framþróunar í fiskvinnslu og tryggja aukinn arð af greininni.

Það að kalla eftir umburðalyndri umræðu í öðru orðinu og kveða niður í hinu orðinu rökstuddar leiðir með uppnefnum fer ekki saman. Ekki bætir úr þegar Guðmundur Steingrímsson gefur ekki rétta mynd og snýr í raun út úr, í langhundi sínum, áhyggjum okkar sveitarstjórnarmanna í Skagafirði, yfir fækkun íbúa í kjölfar gríðarlegrar fækkunar starfa á vegum ríkisins í sveitarfélaginu frá hruni, en þeim hefur fækkað um 15%.

Visssulega fer fram gríðarleg verðmætaframleiðsla hér á landi, en óstjórnin og séríslensk kerfi, eins og verðtryggingin, lífeyrissjóðakerfið og kvótakerfið, hafa orðið til þess að megnið af verðmætunum gluðast úr höndum þjóðarinnar.  Mikils er um vert að fagna gagnrýnni umræðu um breytingar á framangreindum kerfum til hagsældar fyrir þjóðina og þeir sem vilja vinna þjóðinni gagn ættu frekar að hvetja til umræðunnar en að þagga hana niður.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.10.2012 - 22:56 - FB ummæli ()

Peningana frekar í börnin en kerfisvarðhunda

Á fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar lagði ég til að sveitarfélagið léti af þeirri ætlan að ganga í samtök sem kalla sig Samtök sjávarútvegssveitarfélaga. Stjórn samtakanna er að mestu skipuð harðsvíruðum fylgismönnum kvótakerfisins en formaður samtakanna er Svanfríður Inga Jónasdóttir á Dalvík. Með stofnun samtakanna er einsýnt að verið er að stofna enn eitt vígið til þess að koma í veg fyrir vitræna umræðu um stjórn fiskveiða. Fyrsta ályktun samtakanna bar þess skýr merki en hún innihélt mótsagnakenndar rangfærslur.

Mér finnst miklu nær að mörghundruð þúsund krónur af skattfé Skagfirðinga séu nýttar í að gera  eitthvað fallegt fyrir börnin okkar en að punga því í gamla staðnaða kerfisvarðhunda.

Ég læt hér fylgja með bókun mína frá sveitarstjórnarfundinum:

 „Sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra, Sigurjón Þórðarson, styður ekki aðild Sveitarfélagsins Skagafjarðar að Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Ástæðan er sú að margir þeirra sveitarstjórnarmanna, sem hafa valist til forystu í samtökunum, hafa um árabil stutt núverandi kvótakerfi og gera enn, sem hefur leitt til þess að veiðiheimildir hafa flust frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi hörmungum fyrir landsbyggðina og þjóðina alla.

Fyrsta ályktun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga er og í meginefnum kolröng, þ.e.a.s. sú staðhæfing að fólki, sem vinnur við veiðar og vinnslu hafi fækkað alla síðustu öld. Mikill uppgangur var í sjávarútvegi á Íslandi framan af tuttugustu öldinni, allt þar til kvótakerfið var sett á, en það leiddi til aflasamdráttar og stöðnunar. Umtalsverðar tækninýjungar hafa ekki orðið við botnfiskveiðar á síðustu áratugum, enda eru togararnir þeir sömu og fyrir daga kvótakerfisins og sjómennirnir á þeim jafn margir og áður. Helstu breytingarnar eru að leyfilegur afli er helmingi minni en hann var áður.

Ekki er hægt að taka undir þá rakalausu fullyrðingu í ályktun samtakanna að veiðigjaldið auki á meinta hagræðingu í greininni, því að ef svo væri þá væri undarlegt að standa gegn gjaldtökunni.“

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.10.2012 - 11:47 - FB ummæli ()

Fyrirskipunum Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs hafnað

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru mjög afgerandi og jákvæð.  Fólkið kaus með breytingum og að tryggt verði að auðlindir s.s. fiskveiðiauðlindin verði áfram í eigu þjóðarinnar.  Niðurstaðan var þvert á fyrirskipanir tvíeykisins Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en þeir gáfu út þá línu að frumvarpinu skyldi hafnað. Fólk sá í gegnum röklausan málflutning flokksformannanna til stuðnings sérhagsmunaöflunum á kostnað þjóðarhags.

Nú er komið að vendipunkti hjá silfurskeiðadrengjunum. Ætla þeir að draga sína flokka í leiðangur studdan af ÍNN og Morgunblaðinu á móti afgerandi vilja þjóðarinnar, eða munu þeir greiða fyrir og virða þjóðarviljann?
Ef þeir velja fyrri kostinn er alveg ljóst að flokkar, sem áður voru fjöldahreyfingar, munu smám saman breytast í sértrúarsöfnuði. Aftur á móti, ef þeir taka hinn kostinn og reyna að nálgast vilja þjóðarinnar, sérstaklega í auðlindamálum og lýðræðisumbótum, mun hinn venjulegi flokksmaður ef til vill geta fyrirgefið þeim.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.10.2012 - 23:35 - FB ummæli ()

Billegur Bjarni Ben

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gefið út þá línu til liðsmanna sinna að þeir eigi að segja nei við nýrri stjórnarskrá í kosningunum 20. október næstkomandi. Hann hefur hins vegar hvorki bent á neina grein í nýju stjórnarskránni sem fer fyrir brjóstið á honum, né rökstutt skoðun sína með einum eða neinum hætti. Hann hefur heldur ekki bent á neitt í núgildandi stjórnarskrá, sem alls ekki má falla út.

Ég hef lent í því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að sauðtryggir fylgismenn Sjálfstæðisflokksins hafi hafið umræður fullir eldmóðs um að segja ætti nei í komandi kosningum um nýja stjórnarskrá. Í framhaldinu hef ég spurt viðkomandi hvað það er í raun og veru, sem þeir eru efnislega á móti í drögum að nýrri stjórnarskrá. Þá hefur verið vægast sagt fátt um svör. Helst hefur verið talað um að eitthvað í ferlinu hafi ekki verið gott og að spurningarnar á kjörseðlinum séu óljósar. Í framhaldinu hef ég lesið spurningarnar fyrir viðkomandi og spurt hvað það er í þeim sem hægt sé að misskilja. Þá verða viðkomandi venjulega kjaftstopp. Í framhaldinu hef ég iðulega reynt að taka upp léttara hjal, svo sem um ensku knattspyrnuna eða veðrið.

Greinilegt er að þessi billegi málflutningur Bjarna setur hinn almenna Sjálfstæðismann í mjög erfiða stöðu.

Að lokum hlýtur það að vera spurning hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætlar upp á dekk við stjórn landsins ef hann treystir sér ekki í málefnalega umræðu um grundvallarlög þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.10.2012 - 23:26 - FB ummæli ()

Elliði bragðar á eigin meðali

Elliði Vignisson var um árabil einn harðasti talsmaður algerlega frjáls framsals á veiðiheimildum. Nú er öldin önnur og orðið hefur alger viðsnúningur á skoðunum Elliða til frjáls framsals kvótakerfisins. Ef málið væri ekki jafn alvarlegt og raun ber vitni, og í raun sorglegt, mætti eflaust hlæja að því.

Fyrir örfáum árum þegar Elliði taldi að útgerðarmenn í Vestmannaeyjum væru ofan á í kvótakerfinu líkti hann þeim á blogginu sínu við verstu kommúnista, sem leyfðu sér að tala um að sporna þyrfti við því að Vestfirðingar misstu allar veiðiheimildir og hefðu ákveðinn forgang á að nýta fiskimiðin við strendur byggðanna.

Í dag, þegar Elliði fær að bragða á því meðali sem hann taldi rétt að Vestfirðingar tækju inn án nokkurra kveinstafa,  er hljóðið orðið beiskara í bæarstjóra Vestmannaeyinga.  Núna, þegar byggðaeyðingarmáttur kvótakerfisins er farinn að kveikja sína elda í Vestmannaeyjum, er bæjarstjórinn farinn að tala um nauðsyn þess að tryggja öryggi og rétt sjávarbyggðanna. Það er því af sem áður var.

Átakanlegur er sá málflutningur að kenna veiðigjaldinu einu um öryggisleysi íbúa sjávarbyggðanna, en vissulega má leiða að því líkur að það herði á neikvæðum áhrifum kerfisins. Veiðigjaldið er hugmynd Sjálfstæðisflokksins til þess að þjóðin sætti sig við óréttlátt og afar vont kvótakerfi, en það þurfti ekki mikinn spámann til þess að sjá að gjaldið myndi aðeins hækka þegar það á annað borð var komið á.

Vonandi munu framámenn í Sjálfstæðisflokknum, sem nýlega hafa opinberað efasemdir um óbreytt kerfi, s.s. Elliði og Ásbjörn Óttarsson, verða menn til að skoða róttækar breytingar á stýringu fiskveiða, en í því felast gríðarleg tækifæri fyrir sjávarútveginn.  Það ætti öllum að vera ljóst að óbreytt kerfi, burt séð frá umræddu veiðigjaldi, ógnar mjög öllu atvinnulífi í Vestmannaeyjum og á Snæfellsnesi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.10.2012 - 22:24 - FB ummæli ()

Ásbjörn Óttarsson sló bjartan tón!

Í vikunni sótti ég fund þingmanna Norðvesturkjördæmis, sem haldinn var fyrir sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra. Fundurinn stefndi í það að verða hefðbundinn rétt eins og útvarpsmessa á sunnudagsmorgni, þar sem fátt nýtt gerist. Rætt var um refaveiðar og vegagerð og Guðbjartur flutti sína gamalkunnu predikun um að hér hefði hefði orðið hrun í boði Sjálfstæðisflokksins. Boðskapurinn var, eins og áður, að skera ætti meira niður í ríkisrekstri á Norðurlandi vestra en annars staðar á landinu.

Ásbjörn Óttarsson kom á óvart og sló nýjan og jákvæðan tón í umræðunni um landsins gagn og nauðsynjar. Hann flutti hreinskilna ræðu þar sem hann viðurkenndi að fiskveiðiráðgjöfin, sem flokkurinn hans hefur hingað til staðið vörð um, gengi alls ekki upp. Þar greindi hann frá því að ráðgjöf og leyfilegt aflamark á ýsu væri ekki í neinum takti við það sem sjómenn skynjuðu á miðunum. Einn fundarmanna orðaði það þannig að það væri svo mikið af ýsu í sjónum að hún væri nánast farin að ganga á land. Bent var á að ýsustofninn hefði vaxið þegar veitt var umfram ráðgjöf og síðan mælst stöðugt minni þegar farið var að veiða í samræmi við ráðgjöfina. Ásbjörn tók með ræðu sinni undir þær gagnrýnisraddir sjómanna og fjölmargra, sem hafa bent á að fiskveiðiráðgjöfin hafi verið verulega gagnrýniverð og að hægt sé að gera betur. Hingað til hefur, svo undarlegt sem það nú er, verið reynt að þagga niður málefnalega gagnrýni á reiknisfiskifræði stjórnvalda. Umræðan um raunverulega stjórn fiskveiða hefur nú týnst í deilum um skattlagningar og veiðigjöld.

Þessi þöggun er furðuleg í ljósi þess að breytingar, sem gætu leitt til aukinnar veiði, væru verulegur búhnykkur fyrir þjóðarbúið og gætu sömuleiðis auðveldað skynsamar og réttlátar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Hreinskilinni ræðu þingmannsins ber að fagna og vonandi nær hann að koma einhverju viti fyrir aðra þingmenn flokks síns.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur