Fimmtudagur 18.10.2012 - 16:37 - FB ummæli ()

Álftanes + Garðabær = Nei takk!

Þessi grein birtist í Mogganum í dag. Takk Moggi.

Sameining Álftaness og Garðabæjar hefur lengi verið til umræðu og ekki að ástæðulausu þar sem Álftanesi tókst svo gott sem að setja sig á hausinn í aðdraganda Hrunsins og ekki gott að sjá hvernig ætti að leysa úr þeirri stöðu. Fyrirhuguð sameining sem íbúar sveitarfélaganna fá að kjósa um á laugardaginn ber þess þó frekar merki að vera yfirtaka en sameining og ekki er hún heldur valfrjáls sameining eins og stundum hefur verið haldið fram. Sjálfur er ég almennt hlynntur sameiningum sveitarfélaga þar sem það á við og tel að á höfuðborgarsvæðinu ætti að sameina öll sveitarfélögin í eitt en þó að því tilskyldu að þau hefðu áfram ákveðið sjálfdæmi í ákveðnum málum og að aðkoma þeirra að heildarstjórninni sem hálf-sjálfstæðra eininga yrði áfram tryggð. Hvað þessa einstöku sameiningu varðar eru svo mikilvægir meinbugir á henni að ekki verður við unað og ekki er hægt að sitja þegjandi hjá og horfa á mikilvæga hagsmuni Álftnesinga svo algerlega fyrir borð borna. Þeir hagsmunir sem skipta hér mestu máli eru skipulagsmál, skólamál og svo áframhaldandi bein aðkoma íbúanna sjálfra að málefnum „hverfisins“ Álftaness eftir sameiningu.

Álftanes hefur mikla sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu sem náttúruperla með stórum óbyggðum svæðum með miklu varplandi fugla sem og sínum óspilltu fjörum, þ.m.t. tveim skeljasandsfjörum af þremur sem eftir eru á höfuðborgarrsvæðinu. Hugtakið „Sveit í borg“ hefur lengi verið einkunnarorð og þó nýlegar breytingar á deiliskipulagi höggvi skörð í þessa hugmyndafræði eru þó engar stórfelldar breytingar í húsbyggingarmálum framundan. Við sameiningu hefur þess ekki verið gætt að Álftnesingar fái áfram eitthvað um það að segja hvernig skipulagi svæðisins verður háttað og rödd Álftnesinga mun hverfa þegar kemur að skipulagsmálum í nýju sveitarfélagi enda verðum við ekki nema 2.400 í 14.000 manna sameinuðu sveitarfélagi. Þar hræða sporin enda Garðabær ekki beint þekktur fyrir að sýna umhverfinu virðingu með eyðileggingu fagurra hrauna suður af bænum og ákafa um að eyðileggja hluta Gálgahrauns fyrri nýjan óþarfan veg. Ekki síst valda nýjustu æfingarnar undanfarin ár áhyggjum þar sem meðfram Álftanesveginum í Garðahrauni voru jarðýtur dínamít og gröfur notaðar til að eyðileggja hraunið og moka burt lynginu fyrir ný hús og götur. Götur sem voru svo skýrðar Hraunprýði og Lyngprýði. Vitað er að stór landsvæði á Álftanesi freista verktaka og braskara sem byggingarland og með sameiningu við Garðabæ er mjög hætt við að Álftanesið verði fljótlega að sams konar malbiks og steypu samfélagi og stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins. Hvað svo sem verður munu íbúar Álftaness alla vega ekkert hafa um málið að segja sem slíkir enda ekki nema brot af íbúum sameinaðs sveitarfélags.

Hvað skólamálin varðar þá hræða sporin og sameiningar annara sveitarfélaga sýna það skýrt að það er eingöngu spurning um tíma hvenær skóli smærra sveitarfélagsins verður lagður niður enda sameining þessi, eins og aðrar, fyrst og fremst af peningalegum ástæðum sem taka ekki tilliti til mikilvægi þess að um heilt samfélag sé að ræða. Umtalsverður sparnaður fyrir sameinað sveitarfélag mun nást með lokun Álftanesskóla enda stór og mannmargur vinnustaður og þótt sameingarsinnar í sveitarstjórn Álftaness telji sig hafa tryggt tilvist skólans eru engin ákvæði í samningnum um að Álftnesingar sjálfir hafi eitthvað um það að segja í framtíðinni hvort hér verður skóli eða ekki. Skólinn er hjarta samfélagsins og ef hann fer verður hér ekkert samfélag lengur heldur úthverfi úr Garðabæ án takmarks og tilgangs. Augljóst er að undir þessum formerkjum verður hagsmunum Álftnesinga betur borgið sem sjálfstæðu sveitarfélagi heldur en með sameiningu.

Hvað skuldamálin varðar þá hefur verið sýnt fram á að rekstur sveitarfélagsins stendur undir ákveðinni skuldastöðu og það þarf einfaldlega að semja um hana eins og gert er í sambærilegum tilfellum fyrirtækja og einstaklinga. Ávinningur Garðbæinga af sameiningu er mjög óljós. Skuldir Álftaness 2012 eru áætlaðar um 3,2 milljarðar sem þýðir um 230.000 krónur á hvern íbúa í sameinuðu sveitarfélagi eða um 920.000 aukna skuld á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Garðabæ. Nú ber að sjálfsögðu að þakka Garðbæingum það að taka á sig þessar skuldir ef þeir kjósa svo enda yrði róðurinn þungur áfram fyrir Álftnesinga ef ekki yrði af sameiningu. Það athyglisverða er að þessari tölu, 920.000 skuld á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Garðbæ hefur ekki verið haldið á lofti í hinum mikla atgangi sameiningarsinna undanfarið og er ekki að finna í áróðursbæklingnum „Okkar val“ eða vefsíðunni með sama nafni. Samkvæmt bæjarstjórn Garðabæjar mun sameiningin ekki kosta íbúana neitt, svona eins og Harpan og nýr Landspítali. Hér má því gera ráð við að það séu hégómlegir stórveldadraumar bæjarstjórnar Garðabæjar sem ráða ferðinni frekar en beinharðir hagsmunir íbúana. Eins og áður hefur komið fram rekur Garðabær útþenslustefnu og sér Álftaness því fyrst og fremst sem byggingarland auk þess að fá aðsetur forseta Íslands til sín, en það þykir víst fínt.

Nú er ekki réttlátt að efast um að sveitarstjórnarmenn Álftaness hafi ekki gert sitt besta í þessari stöðu og svo sannarlega hefur þeim tekist með undraverðum hætti að snúa við rekstri sveitarfélagsins eftir óráðsíuna miklu. Það ber að þakka og virða og Álftnesingar sjálfir hafa að auki einnig þurfta að búa við þungar umframbyrðar og niðurskurð þjónustu. Það má hins vegar ekki gefast upp og samþykkja það að leggja samfélagið Álftanes niður vegna þessa, Þetta samfélag okkar er einfaldlega merkilegra en það. Við eigum að reyna að endursemja við Garðabæ um sameiningu sem inniber ákveðna sjálfstjórn í umhverfis- og skólamálum og setja með því fordæmi fyrir auknu íbúalýðræði og þá einnig fyrir frekari sameiningum annarra sveitarfélaga. Ef það tekst ekki þurfum við að axla ábyrgðina og halda áfram sjálf.

„Mannshöfuðið er þungt en þó skulum vér uppréttir ganga“ sagði mætur maður einhvern tímann. Segjum því nei við sameiningu að þessu sinni en þökkum jafnframt garðbæingum áhugann og örlætið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.10.2012 - 19:33 - FB ummæli ()

Ferðamennirnir

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með netheimum í dag vegna ummæla sem hafa birst þar í kjölfar viðtals við mig í þættinum „Reykjavík síðdegis“ á Bylgjunni í gær. Í viðtalinu fjalla ég almennt um áhyggjur mínar af því tjóni sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna er að valda á íslenskri náttúru og hvernig ferðamannaiðnaður af þessari stærðargráðu skekkir og getur afskræmt samfélög. Frægt er dæmið frá Indlandi þar sem íbúar fá ekki lengur að halda bálfarir í friði fyrir ágangi ferðmanna, aðallega vestrænna, sem troðast um allt otandi myndavélum og linsum að syrgjendum.

Í viðtalinu fer ég víða og tala m.a. um hvernig ferðamannaiðnaðurinn hefur hefur áhrif á og jafnvel neyðir íbúa til að breyta daglegum lífsvenjum sínum. Þar tek ég sem dæmi þann sprota sem var tekinn að blómstra í íslenskri kaffihúsamenningu og verslun í miðborg Reykjavíkur en hvoru tveggja er nú nánast alfarið rekið á forsendum ferðamannaiðnaðar og umhverfisspjöll á fagurri náttúru eru alkunn. Í viðtalinu fjalla ég einnig um háa verðlagningu, lágt þjónustustig og metnaðarleysi sem ég verð allt of víða var við á ferðum mínum um landið en að jafnaði fer ég um 15 til 20 ferðir út á land á hverju ári og s.l. sumar var ég nærri tvo mánuði utan Reykjavíkur. Þótt vissulega sé metnaður mikill víða og þjónusta góð er allt of mikið um að okrað sé á gestum og dæmin um 2.300 króna hamborgara og 3.200 króna bleikjuflak og 25.000 króna næturgistingu eru allt of algeng. Metnaðarleysi í matseðlum veitingahúsa þar sem frumleikinn felst helst í mismunandi útgáfum af hamborgurum, pizzum og stærðinni á „Season all“ kryddbauknum hjá kokknum er ótrúlega algengt.

Áhrifin sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur haft eru augljós og ég hef talað um afskræmingu samfélaga í því samhengi þó á Íslandi kalli þetta sumir því sérkennilega nafni menningartengd ferðaþjónusta. Sú afskræming felst til dæmis í því að menningin og sagan er skrumskæld og víkingasafn, skaufasafn, spákonu-, sjóraæningja- og skrímslahús eru auglýst sem hluti af íslenskri menningu þegar lítið eða ekkert af þessu á sér stoð í raunveruleikanum. Þar inni er líka álfa- og huldufólksæðið og Keikó var þarna inni um tíma þar til hann flúði. Sannkölluð Disney-væðing samfélags. Þessu fylgir svo gróska í auglýsingaskiltum meðfram þjóðvegum landsins sem auglýsa herlegheitin og þótt slík skilti séu bönnuð með lögum utan þéttbýlis, enda með sanni sjónmengun, er ekkert gert í málinu þar sem einhverjir græða pening á dæminu. Umhverfsstofnun hefur fulla vitneskju um málið en slík skilti heyra undir hana en stofnunin bregst ekki við ábendingum þar um vegna manneklu og fjárskorts.

Þetta nær þó hámarki þegar menn átta sig á að náttúruperlur eru að eyðileggjast og vilja í staðinn rukka fyrir aðgang að þeim, er á meðan er, svo þegar allt er ónýtt getum við bara farið til Kanarí. Sama hugsun og með geirfuglinn, síldina, þorskinn og virkjanirnar. Það er þetta sem ég vil kalla afskræmingu, að það þyki sjálfsagt mál að íslendingar geti ekki farið um landið sitt án þess að borga fyrir það og geti ekki notið þess vegna þeirra þúsunda erlendu ferðamanna sem fyrir á staðnum. Hér er hægt að nefna ótal dæmi, Landmannalaugar, Gullfoss, Geysi, Þórsmörk, Námaskarð, Dimmuborgir, Dettifoss, Öskju og Skaftafell. Það sama hefur gerst í stangveiðinni þar sem íslendingar eru orðnir í minnihluta í veiðbókum um allt land og í staðinn orðnir þjónustuaðilar við erlenda auðmenn. Nú er nýjasta orðið „Náttúrupassi“ sem við munum væntanlega þurfa að kaupa og ganga með í veskinu til að geta ferðast um landið ef ferðaiðnaðurinn og þjónkunaraðilar hans fá sitt fram.

Sjálfur var ég einn af þeim sem fagnaði ferðaþjónustu sem nýrri atvinnugrein á sínum tíma en aldrei hefði mig órað fyrir að þróunin yrði með þessum hætti. Vandinn er að sjálfsögðu algert stefnuleysi stjórnvalda og „Villta vesturs“ umhverfi þar sem viðurkennt er að stór hluti greinarinnar er utan skattkerfisins. Hafandi hlustað á s.k. „aðila ferðaþjónustunnar“ marg oft á nefndafundum Alþingis og heyrt hugmyndir þeirra um að „dreifa ferðamönnum yfir árið“ sem er í sjálfu sér gott og gilt markmið þá hefur alltaf brostið á með langri vandræðalegri þögn þegar ég spyr þá hvað þeim finnst margir ferðamenn á ári vera nóg. Það er engu svarað um hámark og þó ferðaþjónustuaðilarnir viðurkenni að vandamálið sé til staðar þá er á sama tíma ISAVIA sem sér um flugvöllin í Keflavík með áætlanir á borðinu um aðra flugbraut og stækkun flugstöðvarinar svo hægt sé að fjölga ferðamönnum á sumrin. Nú þegar eru ferðamenn tvöföld íbúatala Íslands (á Spáni hættu stjórnvöld að styðja við geirann þegar ferðamenn voru orðnir jafnmargir íbúunum) og stefnir að óbreyttu í milljón manns á ári innan skamms og tvær milljónir eftir um sjö ár miðað við sömu þróun.

Gagnrýni mín snýst ekki um erlenda ferðamenn heldur fjölda þeirra og hvernig íslenskt samfélag er orðið ofurselt þeirri hugsun allt sé leyfilegt í nafni peninga, jafnvel að svipta íbúana þeirri náttúru og því umhverfi sem þeirra hafa fæðst og alist upp í.

Að sjálfsögðu tók bloggið við sér og umræðan hefur verið mikil í dag. Það sem var þó athyglisverðast við hana var að umræðan á Vísi.is var nánast öll í upphrópunar- og persónuníðsstíl meðan umræðan á DV var mjög yfirveguð og málefnaleg, alla vega framan af þar til Teitur nokkur Atlason kom þar inn og sakaði mig um útlendinga andúð. Á Facebook steig svo fram Snærós nokkur Sindradóttir pólitískur ungsproti í VG og ásakaði mig um að vera með „rasískt rugl“ án þess að hafa hlustað á viðtalið. Ég tók að gamni mínu stikk prufu af fjórum bloggsóðum og þar kom einnig í ljós að enginn þeirra hafði heldur hlustað á viðtalið. Bæði Teitur og Snærós eru að vísu komin í prófkjörsslag og því annt um að stimpla sig inn í pólitíska rétthugsun en hér hafa þau sannarlega búið sér til „Strámann“ til að ráðast því ekki aðeins er ég fæddur erlendis heldur hef ég flutt frá Íslandi í tvígang til að fara erlendis í nám, búið í þremur löndum, unnið í fjölda landa og ferðast til um 60. Auk þess er ég hluti af pólitísku afli sem kallast Dögun og drög að stefnu Dögunar í málefnum innflytjenda, flóttamanna og þróunarsamvinnu er að  finna hér en þar er fjallað um að Dögun sé fjölmenningarsinnað stjórnmálaafl. Meira að segja bleiki snepillinn sem kallar sig Viðskiptablað tók snúning á mér af tilefninu. Sem betur fer hafa flestir á netinu þekkst vandamálið og verið málefnalegir en það er leitt að sjá og heyra sleggjudóma frá fólki og fjölmiðlum sem hafa ekki einu sinni kynnt sér málið.

Hvað um það, íslensk umræðuhefð er og verður að eilífu söm við sig en fyrir þá sem nenna að hlusta þá er hér tengill á  viðtalið á Bylgjunni  og  hér er tengill á lag við texta Dags Sigurðarsonar  sem sá landann oft með hnyttnu auga.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.10.2012 - 11:56 - FB ummæli ()

Yfirlýsing vegna dóms

Yfirlýsing

vegna dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli Ragnars Árnasonar gegn Þór Saari.

Í gær féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í meiðyrðamáli Ragnars Árnasonar prófessors við HÍ gegn undirrituðum þar sem tiltekin ummæli undirritaðs í DV um meint tengsl Ragnars Árnasonar við LÍÚ voru dæmd dauð og ómerk. Undirritaður var jafnframt dæmdur til að greiða Ragnari Árnasyni miskabætur vegna ummælanna, kostnað við birtingu dómsins sem og málskostnað. Undirritaður var sýknaður af refsikröfu Ragnars Árnasonar.

Ummælin sem dómurinn varðar voru látin falla í örstuttu símaviðtali við blaðamann DV vegna umræðna á Alþingi um stöður við Háskóla Íslands kostaðar af hagsmunaðilum. Ummælin voru leiðrétt daginn eftir að beiðni Ragnars, hann beðinn afsökunar á þeim og leiðrétting einnig send til rektors HÍ. Leitað var frekari sátta í málinu en án árangurs.

All nokkru síðar eða í upphafi nóvembermánaðar lagði þinghópur Hreyfingarinnar fram frumvarp á Alþingi um róttækar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem undiritaður er fyrsti flutningsmaður að. Fljótlega upp úr því eða í byrjun desember er lögð fram stefna í Héraðsdómi Reykjaness á hendur undirrituðum vegna ummælana um Ragnar Árnason sem höfðu birst í DV rúmlega þremur mánuðum fyrr.

Undirritaður telur að stefna Ragnars hafi verið með öllu tilhæfulaus og sé tilraun til þöggunar á umræðu um málefni sem hvað heitast hefur brunnið á þjóðinni í áratugi sem eru breytingar á kvótakerfinu og úthlutun aflaheimilda.

Lögmenn mínir telja að í niðurstöðu Héraðsdóms sé ekki tekið fullnægjandi tillit til dóma í sambærilegum málum, hvorki dóma Hæstaréttar Íslands né dóma Mannréttindadómsstóls Evrópu, en síðast liðið sumar féllu þar tveir dómar Íslandi í óhag.

Niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness mun því verða áfrýjað til Hæstaréttar.

 

Álftanesi, 4. október 2012

Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.9.2012 - 13:18 - FB ummæli ()

Tvö mikilvæg þingmál

Hreyfingin mælti fyrir tveimur mikilvægum þingmálum í gær. Annað er frumvarp um almenna niðurfellingu á verðtryggðum skuldum heimila vegna þess forsendubrests sem varð í Hruninu og leiddi til stökkbreytingar þessara lána. Frumvarpið gerir líka ráð fyrir afnámi verðtryggingar. Hitt málið er breyting á lögum um fjármál stjórnmálaflokka þar sem framlög fyrirtækja (lögaðila) eru bönnuð, 200.000 hámark verði á framlögum einstaklinga og að öll framlög unfram 20.000 verði gerð opinber innan þriggja daga frá viðtöku þeirra. Einnig er gert ráð fyrir jafnræði úthlutum opinbers fjár til stjórnmálahreyfinga. Margrét Tryggva. mælti fyrir báðum málunum af stakri prýði en fjórflokkurinn var frekar fámál þegar kom að frumvarpinu um fjármál flokkana. Sjálfur var ég fjarverandi vegna ferðar atvinnuveganefndar um Suðurland sem var mjög athyglisverð.

Tengill á frumvarpið um skuldir heimilanna er hér og tengill á umræðun er hér. Tengill á frumvarpið um fjármál flokkana er hér og tengill á umræðuna er hérGreinargerðirnar með málunum eru hér fyrir neðan:

Greinargerð með þingsályktunartillögu um almennar niðurfellngar á skuldum heimila.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 140. löggjafarþingi (580. mál) og er nú endurflutt nokkuð breytt.     Með tillögu þessari er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra skipi þriggja manna starfshóp, óháðan hagsmunaaðilum, sem útfæri áætlun um almenna niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila. Í áætluninni felist að þær skuldir sem til eru komnar vegna hækkunar vísitölu neysluverðs frá árslokum 2007 og eru umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands verði fluttar frá heimilunum í sérstakan afskriftasjóð fasteignaveðlána. Auk þess er gert ráð fyrir því að breytingar verði gerðar á verðtryggingarákvæðum slíkra lána. Tillagan gerir ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en 1. nóvember 2012 og útfærslan verði eins og nánar er útlistað hér. Tillagan gerir ráð fyrir að áætlunin komi til framkvæmdar eigi síðar en 1. janúar 2013.     Frá áramótum 2007/2008 hafa eftirstöðvar verðtryggðra fasteignaskulda heimilanna hækkað um 384,2 ma.kr. eða 38,2% vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs. Þessi mikla hækkun hefur sett þúsundir heimila í mikinn vanda en fjöldi heimila með fasteignaveðlán í lok árs 2010 var um 72.700. Tugir þúsunda heimila eru komin með neikvæða eiginfjárstöðu sem þau munu ekki ná sér upp úr í fyrirsjáanlegri framtíð og sú staða mun fyrr eða síðar leiða til uppgjafar og verða dragbítur á allt efnahagslíf í landinu.     Hækkun þessi er til komin vegna hruns bankakerfisins og gengisfalls krónunnar, atburða sem ekki voru fyrirsjáanlegir lántakendum sem byggðu lántökur sínar á upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum og úr fjölmiðlum en ekki síst frá ráðamönnum þjóðarinnar sem alveg fram á síðustu daga fyrir hrunið staðhæfðu að engin hætta væri í aðsigi.

Það hefur því orðið alger forsendubrestur fyrir öllum greiðslumöguleikum á fasteignaveðlánum heimila landsins, forsendubrestur sem ekki er ásættanlegt að þau beri ein og sér. Það er því brýnt að heimilunum sé skapaður ásættanlegur og réttlátur grunnur til að standa undir sér og að þessar miklu hækkanir verði leiðréttar, enda eins og áður sagði til komnar vegna forsendubrests sem heimilunum var stöðugt tilkynnt að gæti ekki orðið. Tillaga þessi gengur út á að leiðrétta þennan forsendubrest án þess að það leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð og Íbúðalánasjóð og hlífi einnig eignahlið efnahagsreikninga lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja við skelli.     Leiðréttingin gengur út á að sú hækkun á fasteignaveðlánum heimilanna sem varð vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (2,5%) verði færð af heimilunum og yfir í sérstakan sjóð, afskriftasjóð fasteignaveðlána, sem verður eign í efnahagsreikningum skuldaeigendanna. Þar myndar þessi hluti lánanna nýtt óverðtryggt lán sem ber árlega 3,5% vexti. Sjóður þessi verður greiddur niður með 25 jöfnum árlegum greiðslum, í fyrsta sinn einu ári eftir stofnun sjóðsins. Sjóðnum verði skapaðar tekjur eins og greint er frá hér að aftan.     Í töflu 1 má sjá sundurliðun á fasteignaveðlánum annars vegar eftir tegund láns og hins vegar eftir lánveitanda.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti í skýrslu sinni, Skýrsla um afföll íbúðalána við stofnun nýju bankanna og kostnað við niðurfærslu lána,útreikninga á upphæð verðbóta á verðtryggð lán miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá nóvember 2007 (gildir fyrir verðbreytingar lána í janúar 2008) til og með júlí 2011 (gildir fyrir verðbreytingar í september 2011). Flutningsmenn fengu Marinó G. Njálsson, ráðgjafa, til að fara yfir og sannreyna þess útreikninga og framlengja þá til síðustu áramóta. Einnig var upphæð verðbóta reiknuð út frá 2,5% þaki á árlegar verðbætur. Niðurstöðurnar má sjá í töflu 2.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt þessu væri forsendubrestur lánanna því 275,9 ma.kr. miðað við 2,5% þak á árlegar verðbætur sem jafngildir 22,7% af eftirstöðvum verðtryggðra fasteignaveðlána í lok 2. ársfjórðungs 2012.     Fjármálafyrirtæki hafa þegar komið að einhverju leyti til móts við lántaka vegna hækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja nam sú leiðrétting um 49,8 ma.kr. í árslok 2011, þegar miðað er við að allar leiðréttingar samkvæmt 110% leiðinni annars vegar og sértækrar skuldaaðlögunar hins vegar séu vegna verðtryggðra lána. Ef gert er ráð fyrir að helmingur þeirrar upphæðar teljist leiðrétting á verðbótum, þ.e. 24,9 ma.kr., þykir rétt að taka tillit til þess og lækka reiknaðan forsendubrest sem því nemur. Verði sýnt fram á að meiri leiðréttingar á verðbótum hafi þegar farið fram lækki þessi tala enn frekar.

Bankarnir þrír, þ.e. Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, fengu umtalsverðan afslátt af lánum heimilanna við flutning lánanna frá gömlu bönkunum, þ.e. Kaupþingi, Glitni og Landsbanka Íslands. Þessi afsláttur var misjafn frá einum banka til annars, en nam þó tugum prósenta samkvæmt upplýsingum frá bönkunum sjálfum. Breytilegt var eftir bönkum hvernig afslátturinn dreifðist á tegundir lána og var hann lægri á verðtryggðum lánum en gengistryggðum. Ekki hefur að fullu verið sýnt hver afslátturinn var né hvernig hann hefur verið nýttur. Þrátt fyrir að bankarnir hafi lækkað höfuðstól skulda heimilanna og fyrirtækja um umtalsverðar upphæðir, þá sýna þeir nánast á hverjum ársfjórðungi mjög góðan hagnað, sem að einhverju leyti byggist á endurmati eignasafna, m.a. lánasafna. Virðist því vera sem bókfært virði lánasafnanna sé umtalsvert lægra en sú upphæð sem bankarnir reyna að innheimta, þ.e. kröfuvirði. Af þeim sökum telja flutningsmenn að hjá bönkunum sé meira en borð fyrir báru til að mæta þeirri lækkun verðtryggðra lána sem hér er mælt fyrir. Þetta á hins vegar ekki við um Íbúðalánasjóð og suma lífeyrissjóði. Er það þess vegna sem lögð er fram sú tillaga að stofnaður sé afskriftasjóður fasteignaveðlána.

Lagt er til að í afskriftasjóð fasteignaveðlána færist allar áfallnar verðbætur á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimilanna umfram 2,5% þak, að frádregnum þeim leiðréttingum sem þegar hafa farið fram. Staða sjóðsins við stofnun yrði því um 250 ma.kr. Þar sem Íbúðalánasjóður er í raun aðeins milliliður fyrir fjármagnseigendur sem fjármagna íbúðakaup fer hlutur Íbúðalánasjóðs í afskriftunum yfir til handhafa skuldabréfa sem Íbúðalánasjóður og forverar hans hafa gefið út til að fjármagna útlán sín til íbúðakaupenda (HFF-bréf). Eigendur afskriftasjóðsins (kröfuhafar) verði því innlánsstofnanir, aðrir eigendur HFF-bréfa (og annarra bréfa Íbúðalánasjóðs) sem ekki eru í eigu lífeyrissjóða og lífeyrissjóðirnir. Eign þeirra er í sömu hlutföllum og kröfur þeirra hljóða upp á og fá þeir kröfur sínar greiddar á 25 árum með jöfnum árlegum greiðslum (jafngreiðslulán). Miðað er við að höfuðstóll kröfunnar beri 3,5% vexti. Það þýðir að sjóðurinn þyrfti að standa undir 15,168 ma.kr. inngreiðslu árlega. Fyrsta árið skiptist sú greiðsla þannig að 3,322 milljarðar koma frá sérstöku 0,25% vaxtaálagi á öll fasteignaveðlán, 2,874 milljarðar frá lífeyrissjóðum, 6,284 milljarðar frá innlánsstofnunum og öðrum handhöfum skuldabréfa Íbúðalánasjóðs en lífeyrissjóðunum og 2,688 milljarðar frá svokölluðum eltandi vaxtabótum. Tillagan gerir ráð fyrir að sjóðnum verði skapaðar tekjur til 25 ára til að standa undir útgjöldum sínum. Þessar tekjur eru fjórþættar:

a) Sérstakt vaxtaálag verði lagt á öll fasteignaveðlán. Nemur það í upphafi 0,25%, en lækkar árlega um 0,01% uns það verður 0,10% þegar tíu ár eru eftir af endurgreiðslutímabilinu og helst óbreytt eftir það. Miðað við forsendur sem gera ráð fyrir 3% árlegri aukningu í fasteignaveðlánum verður sá hluti 3,32 ma.kr. fyrsta árið en 2,7 ma.kr. síðasta árið.

b) Lagður verði árlegur tímabundinn eignarskattur á eignir innlánsstofnana og HFF-bréfa eign annarra en lífeyrissjóða. Nemur hann 0,195% í upphafi, en lækkar um 0,005% árlega og endar því í 0,075% á 25. ári. Miðað við forsendur sem gera ráð fyrir 5% árlegri eignaaukningu yrði sá hluti 6,28 ma.kr. fyrsta árið en 7,8 ma.kr. síðasta árið.

c) Vaxtabætur (eltandi vaxtabætur) sem hefði verið ráðstafað í vaxtabætur til heimilanna ef ekki hefði komið til niðurfærsla á skuldunum verða notaðar í staðinn til niðurgreiðslu sjóðsins. Miðað við að útgreiddar vaxtabætur árið 2011 voru um 12 ma.kr. og að 22,4% lækkun verði á þeim eru þetta 2,69 ma.kr. fyrsta árið. Miðað er við að þessi upphæð lækki hlutfallslega í samræmi við höfuðstól afskriftasjóðsins og verði því komnar niður 158 m.kr. síðasta árið.

d) Afgangurinn af fjármögnun sjóðsins verður fengin með sérstökum tímabundnum eignarskatti á eignir lífeyrissjóða. Nemur hann 0,14% í upphafi, en lækkar árlega og endar í 0,07% á 25. ári. Miðað er við forsendur sem gera ráð fyrir 5% árlegri eignaaukningu lífeyrissjóða og verður hluti lífeyrissjóðanna 2,8 ma.kr. fyrsta árið en 4,5 ma.kr. síðasta árið.

Með þessu er lagt til að byrðarnar af leiðréttingunni dreifist á marga aðila. Inni í útreikningum á greiðslum lántaka er gert ráð fyrir vexti fasteignaveðlána um 3% á ári (hvort heldur út af nýjum lánum eða vegna verðbóta á eldri). Verði vöxtur lánanna meiri, þá er hægt að draga hraðar úr vaxtaálaginu, lækka sérstakan eignarskatt hraðar eða greiða eftirstöðvar sjóðsins hraðar upp. Í útreikningum á greiðslum lánafyrirtækja er gert ráð fyrir 5% árlegum vexti eigna.     Þar sem lífeyrissjóðirnir eru afgangsstærð í fjármögnun afskriftasjóðsins og í raun nettó- þiggjendur greiðslna úr sjóðnum mun þessi aðgerð ekki koma illa við lífeyrissjóðina svo neinu marki nemi. Þess ber að geta að lífeyrissjóðirnir hafa þegar fengið um 170 ma.kr. eingöngu í verðbætur af lánum til heimilanna frá áramótum 2007/2008 auk þess að hafa fengið 33,4 ma.kr. afslátt í svokölluðum Avens-viðskiptum. Flutningsmenn telja að bæði lífeyrissjóðir og innlánsstofnanir hafi góða getu til að standa undir þeim greiðslum sem hér um ræðir. Hagnaður bankanna frá hruni hefur sýnt að þar er vel borð fyrir báru og eiginfjárstaða þeirra er sterk. Hvað lífeyrissjóðina varðar eru þetta hlutfallslega mjög lágar upphæðir sem ekki vega þungt. Yngri kynslóðir sjóðfélaga greiða nú þegar háar upphæðir til að rétta af skekkjuna sem er milli lofaðs réttindaávinnings og raunverulegs. Framlag sjóðanna til uppgjörs afskriftasjóðs fasteignaveðlána mundi þá skila til baka hluta af þeim peningum sem yngri sjóðfélagar hafa lagt í þessa kynslóðatilfærslu. Reyndin er þó sú að afslátturinn sem fékkst vegna Avens-bréfanna gerir meira en að dekka hlut lífeyrissjóðanna vegna inngreiðslna í afskriftasjóðinn. Samhliða þessu er lagt til að verðtrygging á nýjum fasteignaveðlánum verði afnumin með öllu og að verðtrygging eldri lána verði lögfest með hámarki í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands sem nú er 2,5%.

Þar sem um almenna aðgerð er að ræða er einnig lagt til að hugað verði að því sem heildarlausn hvort hægt sé að færa öll óverðtryggð fasteignaveðlán sem ekki falla undir gengislánadóma Hæstaréttar yfir í þetta umhverfi frá og með áramótum 2007/2008 og meðhöndla þau með sama hætti og verðtryggðu lánin. Flutningsmenn telja að sú framkvæmd sem hér er lögð til muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á efnahagslífið í heild sinni og skila öllum kröfuhöfum fasteignaveðlána öruggari og betri stöðu að endingu vegna þeirrar miklu óvissu um þessar skuldir sem minnkar verulega við þessa framkvæmd. Með tillögu þessari eru þrjú fylgiskjöl með útreikningum.

Greinargerð með tillögum um fjármála stjórnmaálflokka.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 140. löggjafarþingi (665. mál). Með því eru lagðar til breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006. Þær breytingar sem lagðar eru til eru í samræmi við markmið laganna um að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum, sem og að auka traust á stjórnmálum og efla lýðræði.

Helstu breytingar frumvarpsins eru þær að banna framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og að takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr., þó þannig að framlög hærri en 20 þús. kr. skuli gera opinber innan þriggja daga frá því að þau voru móttekin. Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök fái hærri fjárframlög en þau sem minni eru. Lagt er til að stjórnmálasamtök fái fjárframlag sem þarf til að reka skrifstofu og fundaraðstöðu í hóflegri stærð í hverju kjördæmi. Stjórnmálasamtök fái einnig framlög til að greiða framkvæmdastjóra laun sem og starfsmanni í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Þá verði fjárframlög til þingflokka þau sömu fyrir alla flokka.

Hvað varðar framlög vegna kosninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir jöfnu framlagi til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram á landsvísu en bjóði stjórnmálasamtök ekki fram í öllum kjördæmum fái þau fjárframlag í samræmi við fjölda frambjóðenda þeirra sem hlutfallstölu af 126.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 22:41 - FB ummæli ()

Fjárlögin, úff!

Umræðan um fjárlög næsta árs hófst í dag. Eins og undanfarin ár er um skattahækkanir (þó óverulegar) að ræða og niðurskurð eða stöðnun í útgjöldum. Á máli ríkisstjórnarinnar heitir þetta blönduð leið. Þessi leið hefur hins vegar ekki gengið upp og gerir ekki enn. Skuldirnar hækka og vaxtakostnaðurinn hækkar og nú er um 19% af öllum skatttekjum ríkissins sem fara bara í að greiða vexti af skuldunum. Þegar um fimmtungur tekna fer bara í vexti er einboðið að endar munu ekki ná saman og við höfum bent á það frá upphafi kjörtímabilsins að skuldastaða ríkissjóðs væri ekki sjálfbær og að það yrði að endursemja um frestun vaxtagreiðslna og niðurfellingu skulda. Hvað um það, hér er tengil  á ræðu mína um fjárlögin í dag. Góðar stundir.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 01:24 - FB ummæli ()

Stefnuræða um framtíð

Flutti minn skammt af hefðbundinni stefenuræðu í gærkvöld. Þar lýsti ég aðallega áhyggjum mínum af þeirri framtíð sem bíður Íslands verði ekki haldið skynsamlega á málum á næstu níu mánuðum. Þið getið lesið hvað ég á við hér fyrir neðan í ræðunni eða hlustað á hana hér. Talað orð gildir.

 

Stefnuræða 12. september 2012

Frú forseti, góðir landmenn.

Hér höfum við hlýtt á fjórðu stefnuræðu hæstvirts forsætisráðaherra Jóhönnu Sigurðardóttur frá kosningunum vorið 2009.  Eins og venjulega er hér á ferð mikil lofrulla um hversu vel hefur gengið frá Hruninu og fram eru settar af mikilli færni upplýsingar sem eru í besta falli til heimabrúks og alls ekki til þess fallnar að leggja mat á raunverulega stöðu samfélagsins.

Þó sumt hafi færst til betri vegar er það eins og alltaf gerist eftir allar miklar efnahagsþrengingar að leiðin liggur upp á við, eins og gerst hefði burtséð frá hvaða ríkisstjórn stýrði hér málum.

Sitjandi ríkisstjórn sem svo miklar vonir voru bundnar við hefur nú lagt fram þingmálalistann fyrir sitt síðasta þing á kjörtímabilinu og staðfestir þar með slæman grun margra að ekki verði staðið við þau loforð eða þau stefnumál sem lögð voru fram í aðdraganda síðustu kosninga. Utan stjórnarnskrármálsins sér stefnufestu ríkisstjórnarinnar einungis stað í einu atriði á öllum hennar líftíma og það er að halda til streitu yfirlýsingu hæstvirts forsætisráðherra frá 3. Desember 2010 er hún sagði orðrétt, með leyfi forseta:

“Ég held að í þessu skelfileg hruni sem þjóðin varð fyrir þá sé aldrei hægt að tala um neinn jöfnuð eða réttlæti ég held bara að við stöndum frammi fyrir því.”

Frú forseti.

Við þetta hefur ríkisstjórnin svo sannarlega staðið. Tugþúsundum íbúðareigenda sem sem urðu fyrir gríðarlegu tjóni vegna hruns krónunnar og verðbólguskotsins sem fylgdi í kjölfarið hefur ekki verið rétt sáttahönd heldur hafa þeir fengið blauta tusku í andlitið hvað eftir annað. Mesta réttlætismál lýðveldissögunnar liggur óbætt hjá garði og ekki nóg með það heldur gaf ríkisstjórnin bönkunum óheft skotleyfi á skuldara þrátt fyrir mikla niðurfærslu lána sem fluttust milli gömlu og nýju bankana. Gríðarlegur hagnaður bankanna nú ber þess glöggt merki.

En ekki nóg með það. Nú þegar sjálfur Hæstiréttur þjóðarinnar hefur dæmt stóran hluta þessara lána ólögleg hafa stjórnvöld tekið undir með þeim sem töpuðu málinu, bönkunum, og lagst á eitt við að aðstoða þá við að finna eitthvað sem kallast „ásættanleg lausn.“ Skiptir þá engu að um dóm Hæstaréttar er að ræða og hefur framkvæmdavaldið þess í stað skaffað bönkunum aðstoð ýmissa stofnana sinna til að hægt sé að draga málið enn frekar á langin með að minnsta kosti ellefu dómsmálum til viðbótar. Og Alþingi sjálft með sína efnahags- og skattanefnd og formann hennar, háttvirtann þingmann Helga Hjörvar í broddi fylkingar horfir þögul á.

Af nógu öðru er að taka en ég læt hér staðar numið um afstöðu stjórnarmeirihlutans til jöfnuðar og réttlætis.

Frú forseti.

Aðdragandi Hrunsins og þau stjórnmál sem rekin voru hér á landi á áratugunum þar á undan báru skýr merki af spilltu samfélagi. Óheft samspil athafnamanna, fjármagns og stjórnmála þar sem vildarvinir stjórnmálaflokka sölsuðu undir sig almannaeigur og auðlindir var reglan og þeir voru á góðri leið með að hirða stóru orkufyrirtækin líka þegar spilaborgin hrundi.

Ítarleg skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis varpaði skýru ljósi á atburðarásina og ekki þurfti mikla hugsun til að skilja að svo illa var komið fyrir íslensku samfélagi að það var á mörkum þess að geta talist til siðmenningar. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn ekki náð að snúa samfélaginu af þeirri braut. Það er því fyllilega við hæfi að hafa uppi varnaðarorð af þyngra taginu hvað framtíðina varðar.

Frú forseti.

Framundan eru þrír mikilvægir vegvísar sem Alþingi og landsmenn allir verða að tryggja að varði þann veg sem framundan er fyrir samfélagið okkar. Þrjár vörður sem við verðum að nota til að byggja hér nýtt og betra samfélag.

Sú fyrsta er þjóðaratkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá, stjórnarskrá sem sannarlega hefur verið skrifuð af þjóðinni, um þjóðina og fyrir þjóðina. Ítarlegt, vel yfir farið og vandað plagg sem Alþingi hefur svo glæsilega beðið þjóðina um og hún svo glæsilega afhent. Mikilvægt, og sennilega mikilvægara en nokkuð annað í lýðveldissögunni, er að landsmenn allir átti sig á mikilvægi þess að hún verði samþykkt.

Önnur varðan á ferðinni framundan er meðferð Alþingis á frumvarpinu að nýrri stjórnarskrá verði það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þar er mikilvægt að úrtölumenn gamla spillta Íslands nái ekki að stöðva málið og að blásið verði á þá kröfu að almenn samstaða verði að ríkja á þingi um stjórnarskrárbreytingarnar. Þetta er nefnilega ekki stjórnarskrá þingsins heldur stjórnarskrá þjóðarinnar og þegar meirhluti hennar hefur talað ber þinginu að fara eftir því. Þar mun því reyna á kjark þingmanna hér inn að láta ekki undan oki og málþófi minnihluta þingsins, undan oki gamla spillta Íslands.

Þriðja varðan á leiðinni er svo komandi Alþingiskosningar í apríl. Þar skiptir miklu máli að þjóðin losi sig í eitt skipti fyrir öll við Hrunverjana sem enn sitja á þingi og eða lúra í bakherbergjum flokkana. Þar skiptir einnig máli að kjósendur losi sig við þá þingmenn núverandi meirihluta sem brugðist hafa í eftirmála Hrunsins, þá þingmenn sem m.a. hafa staðið í vegi fyrir leiðréttingum á skuldum heimilanna, hafa stöðvað frumvörp um persónukjör, hafa stöðvað frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur, vilja færa útgerðinni kvótann til tuttugu ára og hafa tryggt það að fjármagnseigendum eru greiddir milli 80 og 90 milljarðar á ári í vexti úr ríkissjóði á sama tíma og ekki eru til penngar fyrir límbandi til að líma saman lækningatækin á Landspitalanum.

Frú forseti.

Þessar þrjár vörður marka framtíð þjóðarinnar og ef þeim verður ekki fylgt lýsi ég eftir framtíðarsýn þess fólks sem hafnar þeim.

Forseti.

Á þessu ári og snemma á því næsta, frá og með tuttugasta október og til loka apríl stöndum við á krossgötum, krossgötum sem munu skipta sköpum um framtíð Íslands og þar verðum við að velja rétta leið. Samfélag okkar eins og það leggur sig hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum, áfalli sem enn er ekki yfirstaðið og skiptir því miklu að rétt leið sé valin. Þar getur sagan verið okkur mikilvægur leiðarvísir ef við kjósum að rýna í hana.

Sagan sýnir okkur nefnilega að þjóðir og þjóðríki koma og fara og að það eru tvær meginástæður fyrir því að þjóðir fara, líða undir lok. Önnur er sú að þær eru yfirteknar í styrjöld og innlimaðar í aðrar stærri eða brotnar upp í smærri þjóðarbot. Um það höfum við ótal dæmi og nýleg.

Hin ástæðan er að þjóðir spillast, úrkynjast innan frá og liðast í sundur undan eigin vanmætti til að bregðast við spillingu og siðferðishruni. Hætta bara að vera til. Fyrst sem siðmenntað samfélag og síðar sem þjóð. Um það höfum við einnig dæmi og það nýleg.

Frú forseti.

Ef okkur ber gæfa til að fylgja þeim vörðum sem við þegar sjáum og vitum hvert leiða, þeim þremur vörðum sem upp voru taldar hér áðan. Þá hef ég ekki áhyggjur, þá mun þetta bjargast og þá er framtíðin björt.

Ef ekki, þá sitjum við uppi með gamla Ísland, það Ísland sem ekki var alvont en bar illilega af leið, gjörspilltist og hrundi. Fyrir slikt Ísland er ekki til nein framtíðarsýn.

Tökum því höndum saman, hér inni á þingi sem utan þess og tryggjum með samvinnu og langtímahugsun, heill og framtíð þjóðarinnar og látum skammtíma hugsun um gróða og völd lönd og leið. Það er að hluta til okkar Alþingismanna að vísa vegin inn í þessa framtíð og við megum ekki bregðast í því verkefni. Börnin okkar og börn framtíðarinnar eiga það skilið, eiga það svo sannarlega skilið.

Við þá hér inni sem vilja það ekki, vilja ekki fara þessa leið, þá sem hafa vermt þessa stóla svo lengi og til svo lítils gagns vil ég einfaldlega segja. Ykkar tími er liðinn, standið ekki í vegi fyrir framtíðinni.

Góðar stundir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.9.2012 - 11:32 - FB ummæli ()

Þingsetningin

Þingsetningin verður í dag. Því miður hefur Alþingi enn ekki tekist að breyta dagskránni og hafa athöfnina í þinghúsinu frekar en að byrja á blessum einhvers guðs í kirkju hinum megin við götuna. Alþingi á að vera yfir slíkar trúarhefðir hafið og því munum við þingmenn Hreyfingarinnar vera á Austurvelli á meðan og fara svo inn í þinghúsið þegar raunveruleg þingsetning hefst. Sjáumst.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.9.2012 - 10:22 - FB ummæli ()

Vinnubrögð á Alþingi

Hér fyrir neðan er bréf sem ég hef sent til forseta Alþingis og forsætisnefndar vegna vinnu s.k. undirhóps atvinnuveganefndar Alþingis um kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar en sá hópur hefur fundað undanfarið án þess að boða fulltrúa Hreyfingarinnar á fundina og því ekki hægt að ætla annað en að um skipulagt baktjaldamakk sé að ræða. Um er að ræða vinnu við frumvarp stærstu og dýrmætustu auðlind íslendinga og því e.t.v. ekki furða að þeir þingmenn undirhópsins vilji ekki hafa gagnrýnendur á kerfið með sér á fundum. Þessi vinnubrögð eru til vansa fyrir lýðræðislega kjörið þing en e.t.v. dæmi um hvað menn eru tilbúnir að ganga langt þegar kemur að kvótamálum.

 

Reykjavík, 3. september 2012

Forseti Alþingis

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir,

Forsætisnefnd

 

Efni:  Brot á samkomulagi þingflokka um þinglok.

Ágæti forseti og forsætisnefnd.

Tilefni þessa erindis er að undirrituðum, sem er formaður þinghóps Hreyfingarinnar og á sæti í atvinnuveganefnd Alþingis, hefur borist til eyrna og lesið af því í blöðum að svo kallaður undirhópur atvinnuveganefndar um fiskveiðistjórnunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar sem starfaði um tíma í júní s.l. hafi haldið nokkra fundi í nýliðnum ágústmánuði án þess að fulltrúi Hreyfingarinnar væri boðaður á þá fundi.

Hópurinn samanstendur af einum fulltrúa hvers þingflokks úr atvinnuveganefnd og var falið að leita samkomulags í þingmáli 657 um stjórn fiskveiða. Fulltrúar í honum eru: Kristján L. Möller Samfylkingu, Björn Valur Gíslason Vinstri hreyfingunni grænu framboði, Einar K. Guðfinnsson Sjálfstæðisflokki, Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki auk mín fyrir hönd Hreyfingarinnar.

Í samkomulagi þingflokka og formanna þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi um þinglok í júní s.l. var skýrt tiltekið að áðurnefndur hópur myndi starfa áfram og skila tillögum til ráðherra sjávarútvegsmála fyrir upphaf haustþings. Ég sat alla fundi þingflokksformanna sem og formanna stjórnmálaflokka sem sneru að þinglokunum og aldrei kom til tals að undanskilja ætti Hreyfinguna frá þessari vinnu.

Þær upplýsingar sem ég hef fengið eru að á fyrsta fundi hópsins í ágúst hafi formaður hans Kristján L. Möller og fleiri á fundinum „talið óljóst“ hvort fulltrúi Hreyfingarinnar ætti áfram sæti í hópnum og þess vegna ekki boðað mig á fundinn.

Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum og ekki hægt að túlka öðruvísi en skýrt brot á fyrrgreindu samkomulagi um þinglok. Vinna hópsins snýst um úthlutun mestu verðmæta sem þjóðin býr að, fiskveiðiauðlindinni, og virðast fulltrúarnir fjórir í hópnum, sem allir hafa uppi málstað útgerðarinnar í málinu, hafa tekið einhliða ákvörðun um að véla um leiðir í málinu bak við luktar dyr. Slík vinnubrögð eru ólíðandi og til háborinnar skammar fyrir Alþingi, atvinnuveganefnd og formann hennar Kristján L. Möller.

Þess skal getið að starfsemi slíkra hópa á sér hvergi stoð í þingsköpum Alþingis og þeir hafa enga lögformlega stöðu í stjórnskipaninni og því lagði undirritaður fram eftirfarandi bókun á fundi atvinnuveganefndar þann 19. júní síðastliðinn: ”Hreyfingin mótmælir því fyrirkomulagi við vinnu við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld (mál 657 og 658) að s.k. trúnaðamannahópur fulltrúa stjórnmálaflokka haldi áfram vinnu sinni og skili frá sér samantekt/greinargerð til grundvallar frekari vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða. Slíkur hópur hefur enga formlega stöðu samkvæmt þingsköpum Alþingis og það er óásættanlegt að vinna við þingmál fari fram með þessum hætti. Hreyfingin krefst þess að hópurinn sem samanstendur af fulltrúum í atvinnuveganefnd vinni að málinu með atvinnunefnd allri og að nefndin öll hafi beina aðkomu að öllum fundum og tillögum hópsins.“

Það er því krafa Hreyfingarinnar að Kristjáni L. Möller verði vikið frá sem formanni atvinnuveganefndar og að baktjaldamakk undirhópsins sem átti sér stað í ágúst verði opinberað.

Þess má og geta að þetta er í annað sinn sem samkomulag um þinglok er þverbrotið. Síðast var það gert í jólahlé þingsins 2010-2011 vegna Icesave málsins þegar fjárlaganefnd fundaði þótt slíkt væri brot á samkomulaginu. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar neitaði forseti Alþingis að bregðast við og gera nokkuð í málinu þótt hún hafi sjálf staðfest það samkomulag með undirskrift sinni.

Alþingi nýtur einungis trausts um 9% þjóðarinnar og eftir Hrunið haustið 2008 hefur verið mikilvægara en nokkru sinni að þingið og forseti þess reyni að ávinna þinginu traust almennings. Það hefur hingað til mistekist og ef forseti þingsins og forsætisnefnd ætla að leggja blessun sína yfir slík vinnubrögð sem hér að ofan eru tíunduð þá mun vegur þingsins í huga almennings seint vænkast.

Með vinsemd og virðingu,

Þór Saari

formaður þinghóps Hreyfingarinnar

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.5.2012 - 12:19 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá

Undanfarna daga hefur verið uppi mikill misskilningur í netheimum og víðar og jafnvel hjá þingmönnum, varðandi þau drög að nýrri stjórnarnskrá sem nú eru rædd á Alþingi.

Sú afgreiðsla sem nú er í gangi í þinginu er aðeins eitt skref af mörgum við gerð nýrrar stjórnrskrár sem hófst í kjölfar þeirrar háværu kröfu Búsáhaldabyltingarinnar um víðtækar lýðræðisumbætur. Kröfu sem kom fram vegna þeirra alverlegu misbresta sem birtust fólki í algjörlega vanhæfri ríkisstjórn og stjórnsýslu í aðdraganda og í kjölfar Hrunsins. Þeim sem efast um það er bent á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og dóminn yfir Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra þar sem á um 400 blaðsíðum starfshættir stjórnkerfisins eru tíundaðir. Alþingi hefur fram að þessu verið ófært um að gera nokkuð nema lítilsháttar breytingar á stjórnarskránni. Stjórnarskrá sem í grunninn er plagg skrifað af danakóngi fyrir Danmörku 19. aldar og það þrátt fyrir að strax við upphaf lýðveldisins væru allir stjórnmálaleiðtogar landsins sammála um að sú stjórnaskrá sem þá tók gildi væri aðeins bráðabirgðaplagg. Hefðbundin flokkapólitík og hagsmunabarátta sérhagsmuna með tengsl inn í stjórnmálaflokka tók nefnilega fljótlega völdin af mönnum og kom í veg fyrir allar umbætur ef frá er talið að nýr mannréttindakafli var skrifaður inn í stjórnarskrána eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst í raun um að íslenska stjórnarskráin virti ekki grundvallar mannréttindi.

Flokkapólitíkin gegn nýrri stjórnarskrá náði svo hámarki við lok starfs stjórnarskrárnefndar undir stjórn Jóns Kristjánssonar þegar hatur Sjálfstæðsiflokksins á forseta landsins kom í veg fyrir samþykkt nýrrar stjórnarskrár í kjölfar þess að hann vísaði fjölmiðlalögum í dóm þjóðarinnar, en þá kröfðust sjálfstæðismenn að ný stjórnarskrá skerti til muna völd forsetans.

Í kjölfar kosningana 2009 lagði forsætisráðherra fram fumvarp um  þjóðkjörið stórnlagaþing  25 til 31 manna sem skyldu endurskoða stjórnarskrána. Það frumvarp tók svo mikilvægum breytingum í meðferð Allsherjarnefndar þar sem verkefninu var skipt  upp í þrjá hluta. Haldin var Þjóðfundur eitt þúsund manna sem valið var á með slembiúrtaki úr þjóðskrá sem velti upp og skoðaði atriði sem hugsanlega ættu heima í nýrri stjórnarkskrá. Svo því sé haldið til haga þá gefur 1.000 manna slembiúrtak fullkomið þversnið af skoðunum þjóðarinnar. Niðurstöður Þjóðfundar fóru svo til sjö manna nefndar sem valin var með þverpólitísku samþykki allrar Allsherjarnefndar og henni var falið að vinna með tillögur Þjóðfundar sem og aðrar tillögur að stjórnarkrárbreytingum sem Alþingi hafði unnið með og útbúa þær í viðunandi búning fyrir næsta skref í ferlinu. Það skref var þjóðkjörið stjórnlagaþing 25 manna sem yfir 84.ooo manns völdu úr um 500 frambjóðendum.  Stjórnlagaþing sem í kjölfar mjög umdeilds og illa rökstudds úrskurðar Hæstaréttar, sem var í raun einsdæmi í lýðræðissögu vesturlanda, varð að Stjórnlagaráði sem Alþingi skipaði en með þeim sömu fulltrúum og þjóðin hafði kosið. Hvaðanæfa að í heiminum hefur þetta fyrirkomulag verið talið til mikillar eftirbreytni og fjölmargir alþjóðlegir sérfræðingar hafa hrósað því.

Síðastliðið sumar afhenti Stjórnlagaráð Alþingi  tillögur sínar að nýrri stjórnarskrá. Forseti Alþingis lagði þær tillögur fyrir þingið í formi skýrslu til umræðu og ákvörðunar um framhaldsmeðferð en í núverandi stjórnarskrá er skýrt kveðið á um það að það skuli vera Alþingi sjálft sem breytir stjórnarskránni. Í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu frá m.a. mér, Róbert Marshall og fleirum var ákveðið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fengi skýrsluna til umfjöllunar og að lokinni yfirferð yrði leitað álits þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu á tillögum Stjórnlagaráðs, áður en Alþingi tæki þær til efnislegrar meðferðar. Það er tillaga nefndarinnar sem nú er verið að ræða í þinginu en hún snýr að því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eigi síðar en 20. október næstkomandi, en eins og kunnugt er komu Sjálfstæðisflokkur og nokkrir þingmanna Framsóknarflokks með málþófi í veg fyrir að atkvæðagreiðslan yrði haldin samhliða forsetakosningum þann 30. júní.

Tillagan sem nú er verið að ræða  er hér  og meðfylgjandi breyting á dagsetningu  er hér.  Tillagan er einföld og auðskilin og spyr hvort viðkomandi kjósandi vilji að tillögur Stjórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Auk þess er spurt fimm spurninga um efnisatriði úr tillögum stjórnlgaráðs, þ.e. hvort í nýrri stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um náttúruauðlindir, ákvæði um þjóðkirkju, ákvæði um persónukjör, ákvæði um jafnt vægi atkvæða og ákvæði um að tiltekinn hluti manna geti með undirskrift krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Ástæðan fyrir þessum fimm spurningum en ekki einhverjum öðrum er að hér er um að ræða breytingar og/eða viðbætur sem eru umtalsverð frávik frá núverandi stjórrarskrá og því þykir rétt að fá álit þjóðarinnar á þeim sérstaklega. Ef þetta verður samþykkt verður lagt fram frumvarp á haustþingi þar sem Alþingi fær málið til efnislegrar meðferðar í samræmi við núgildandi stjórnarskrá og hefur sér þá til aðstoðar álit þjóðarinnar á málinu.

Sjálfstæðisflokkurinn og fjórir þingmenn Framsóknarflokksins eru hins vegar alveg mótfallnir því að þjóðin verði spurð álits á drögum að nýrri stjórnarskrá og hafa nú haldið upp málþófi í um fjörtíu klukkutíma um málið og orðið sjálfum sér og öllum flokkssystkinum sínum til skammar. Þeir hafa nú haldið á annað hundrað ræður og farið í á sjöunda hundrað andsvör við sjálfa sig. Framganga þeirra byggist að mestu á rangfærslum og viljandi misskilningi og efnislegt innlegg er ekki neitt og oft virðast þeir ekki hafa hugmynd um hvað stendur í tillögum Stjórnlagaráðs eða þeirri tillögu sem þeir eru þó að ræða.

Í könnun sem  MMR birti  þann 27. apríl síðastliðinn kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti eða 2/3 hlutar aðspurðra vilja að tillögur Sjtórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Hvað efnisatriðin varðar þá eru 86% fylgjandi því að náttúruauðlindir verði í þjóðareign, 87% vilja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, 84% vilja persónukjör, 77% vilja jafnt vægi atkvæða í kosningum og rúmlega 55% vilja ekki ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá.

Aðalatriðið er að það er ekki verið að keyra í gegn nýja stjórnarskrá heldur verið að vísa því til þjóðarinnar hvað henni finnist eigi að vera í nýrri stjórnarskrá og sú staða að minnihluti þingmanna í hagsmunagæslu fyrir aðra fjárhagslega sérhagsmuni geti komið í veg fyrir það er óþolandi og í raun aðför að lýðræði í landinu.  Ef þetta heldur áfram mun Alþingi standa frammi fyrir því fyrr eða síðar hvort að sú notkun Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna á þeim nær helga rétti minnihlutans á þingi að geta stöðvað þingmál með málþófi sé genginn of langt.

Það að taka ræðustól Alþingis í gíslingu sérhagsmuna og koma í veg fyrir málefnalega og lýðræðislega meðferð þingmála gengur ekki upp til lengdar. Það hlýtur því að koma til athugunar hjá forseta Alþingis að skoða 64. grein þingskapa sem gefur færi á að stöðva eða takmarka umræðu um mál. Slíku ákvæði var síðast beitt í herstöðvarmálinu þann 30. mars 1949 eftir aðeins tveggja tíma umræðu um hvort landið skyldi lagt undir erlent hervald. Ráðandi afl þess tíma þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, stöðvaði umræðuna og kom í veg fyrir að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú snýst málið um þá sem vilja koma í veg fyrir að álit þjóðarinnar heyrist. Slíkt afstaða er fáheyrð en lýsir vel þeirri fyrirlitningu sem málþófsþingmenn hafa á almenningi í landinu. Alþingi á að sjálfsögðu ekki að líða slíkt til lengdar. Fyrirlitning málþófsþingmanna á lýðræði og almannavilja er komin fram og óþarft að orðlengja það meir.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.4.2012 - 23:21 - FB ummæli ()

Kína og Ísland

Forsætisráðherra Kína er að koma hingað til lands næst komandi föstudag.  Síðasta heimsókn æðsta ráðamanns Kína var hörmuleg niðurlæging fyrir íslenska þjóð þegar hundruðum Falun Gong meðlima var meinað að koma til landsins og tugir sem þó komust voru lokaðir inni í grunnskóla í Keflavík svo Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gætu spókað sig og sperrt með kínverska forsetanum án þess að hann móðgaðist við að þurfa að berja mótmælendur augum.  Þetta kórónaði starfsferil Björns Bjarnasonar sem þá var dómsmálaráðherra og fleytti líka Stefáni Eiríkssyni upp í jobbið sitt sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, en hann stýrði aðgerðunum sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.

Við megum hins vegar ekki láta svona heimsókn endurtaka sig og því mun Hreyfingin leggja fram tillögu til þingsályktunar um mannréttindabrot í Kína og hvetjum jafnframt þá íslensku ráðamenn sem hitta kínverska forsætisráðherrann að ræða við hann málefni Tíbet og mannréttindi í Kína almennt.

Átti smá orðastað í þinginu í dag við utanríkisráðherra um málið og var ekki annað á honum að heyra en að hann sé eindreginn stuðningsmaður þess að ræða þessi mál við kínversk stjórnvöld.  Sjá hér.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur