Framundan er forsetakjör í Bandaríkjunum, og nýlega var kosið til þings í Bretlandi og Frakklandi. Þótt fyrirkomulag kosninga í þessum þremur löndum sé um margt ólíkt, er það sameiginlegt, að úrslit kosninga þurfa ekki að svara til atkvæðatalna. Verkamannaflokkurinn í Bretlandi fékk færri atkvæði en í síðustu kosningum, en miklu fleiri þingsæti. Skýringin var, að Íhaldsflokkurinn tapaði fjölda þingsæta, af því að í mörgum kjördæmum hirti Umbótaflokkurinn (Reform Party) af honum verulegt fylgi, svo að hann varð ekki lengur stærsti flokkurinn. Þjóðfylkingin í Frakklandi jók talsvert fylgi sitt í síðari umferð þingkosninganna, en af því að vinstri flokkar höfðu myndað bandalag gegn henni, skilaði það sér ekki í þingsætum. Vel getur verið, að forseti Bandaríkjanna verði kjörinn með minni hluta atkvæða samanlagt, vinni hann sigur í nokkrum ríkjum, sem ráðið geta úrslitum, en mörg önnur ríki eru næsta örugg vígi annars hvors stóra flokksins.
Sumir segja, að þetta sé ólýðræðislegt. Það er hæpið. Lýðræði er ekki fólgið í því að endurspegla atkvæðatölur, heldur í möguleikanum á að skipta friðsamlega um valdhafa, hafi þeir misst fylgi. „Höfuðkostur lýðræðis er sá, að það gerir kleift að losna við ríkisstjórn án þess að skjóta hana,“ sagði Vilmundur landlæknir Jónsson. Við einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi myndast oftast tveir flokkar, sem kjósa má um, svo að valið milli þeirra er skýrt og ábyrgðin tvímælalaus. Í bandaríska forsetakjörinu er síðan tilgangslaust að leggja saman atkvæðatölur úr einstökum ríkjum til að reikna út einhvern meiri hluta kjósenda. Það eru ríkin fimmtíu, sem kjósa forsetann, og hann þarf að hafa meiri hluta á kjörmannasamkomu, sem skipuð er fulltrúum frá ríkjunum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2024.)
Rita ummæli