Laugardagur 19.01.2019 - 10:20 - 1 ummæli

Faðir velferðarríkisins

Vel færi á því í íslenskri tungu að kalla það, sem Þjóðverjar nefna Wohlfartsstaat og Bretar welfare state, farsældarríki, en nafnið velferðarríki er líklega orðið hér rótfast, þótt af því sé erlendur keimur. Átt er við ríki, þar sem margvíslegur bótaréttur hefur tekið við af hefðbundinni fátækraframfærslu. En hvað sem króginn er kallaður, leikur enginn vafi á um faðernið. Þýski járnkanslarinn Otto von Bismarck er jafnan talinn faðir velferðarríkisins.

Bismarck varð kanslari hins sameinaða þýska keisaraveldis í janúar 1871 og tók þegar til við að treysta ríkisheildina og berja niður þá, sem hann taldi ógna völdum sínum. Fyrst sneri hann sér að kaþólsku kirkjunni, sem laut að hans dómi erlendu valdi, leysti upp Kristmunkaregluna, sleit stjórnmálasambandi við Páfagarð, hóf eftirlit með trúarbragðafræðslu í skólum, skyldaði fólk til að ganga í borgaralegt hjónaband og varpaði jafnvel nokkrum óhlýðnum biskupum í fangelsi. Kirkjan tók snarplega á móti, en eftir margra ára þóf náði járnkanslarinn samkomulagi við hana.

Næst sneri Bismarck sér að sósíalistum, en þýski jafnaðarmannaflokkurinn hafði verið stofnaður 1875, og hlaut hann 9% atkvæða í kosningum til þýska Ríkisdagsins 1877. Notfærði Bismarck sér, að árið 1878 var tvisvar reynt að ráða keisarann af dögum, og takmarkaði með lögum ýmsa starfsemi flokksins. Voru þau lög í gildi næstu tólf ár. En jafnframt reyndi Bismarck að kippa stoðunum undan jafnaðarmönnum með því að taka sjálfur upp ýmis baráttumál þeirra. Árið 1883 voru sjúkratryggingar teknar upp í Þýskalandi og árið 1884 slysatryggingar. Elli- og örorkutryggingar voru teknar upp 1889, ári áður en Bismarck hrökklaðist frá völdum. Fóru mörg önnur ríki næstu áratugi að fordæmi Þjóðverja.

Ekki varð hinum grálynda kanslara að þeirri von sinni, að í velferðarríkinu þryti jafnaðarmenn erindi. Þeir uxu upp í að verða um skeið stærsti flokkur Þýskalands. Og afkvæmi hans, velferðarríkið, óx líka ört á tuttugustu öld. Er það líklega víða orðið ósjálfbært, og rætist þá vísuorðið: Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. janúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • kristinn geir st, briem

    rétt með bismarck en niðurlag greinar hannesar er furðulegt að velferðarríkið sé orðið ósjálbært þegar stjórnvöld hola það að innan og veita foréttindahópum afslátt fjármögnun kerfisins hannes ætti að kann hvernig new deal var fjármagnað og árangurin af að færa fjármagn á æ færi hendur hefur híngað til endað með uppreisnum hvort uppreisn er skári kostur en aukinn velferð efast ég um það er til nægjanlega djúp hola fyrir auðmannin til að skríða ofaní ef til uppreisnar kæmi franska piltíngin er gott dæmi um

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir