Miðvikudagur 16.01.2019 - 17:44 - Rita ummæli

Það bar hæst árið 2018

Heimarnir eru jafnmargir mönnunum, sagði þýska skáldið Heinrich Heine, og þegar ég horfi um öxl í árslok 2018, verður mér auðvitað starsýnt á það, sem gerðist í eigin heimi. Þar bar hæst, að ég skilaði í september skýrslu á ensku um bankahrunið 2008, en hana vann ég í samstarfi við nokkra aðra fræðimenn fyrir Félagsvísindastofnun að beiðni fjármálaráðuneytisins. Að baki henni lá mikil vinna, en ég stytti hana mjög að áeggjan Félagsvísindastofnunar. Skrifaði ég íslenskan útdrátt hennar í fjórum Morgunblaðsgreinum. Ég gaf út fjórar aðrar skýrslur á árinu, eina fyrir samtökin ACRE í Brüssel um alræðisstefnu í Evrópu og þrjár fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: Why Conservatives Should Support the Free Market; The Immorality of Spending Other People's Money; Challenges to Small States. Einnig birti ég ritgerðir á ensku í bókum og tímaritum. Allt er þetta eða verður brátt aðgengilegt á Netinu.

Ég flutti fyrirlestra um ýmis efni í Las Vegas, Brüssel, Kaupmannahöfn, Bakú, Tallinn, São Paulo, Ljubljana, Reykjavík og Kópavogi og ritstýrði þremur bókum, Til varnar vestrænni menningu eftir sex íslenska rithöfunda, Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmund G. Hagalín, Sigurð Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Guðinn sem brást eftir ensk-ungverska rithöfundinn Arthur Koestler, Nóbelsverðlaunahafann André Gidé og fleiri og Framtíð smáþjóðanna eftir norska skáldið Arnulf Øverland.

Fyrir Íslendinga var þetta afmælisár: 100 ár voru frá fullveldinu og 10 ár frá bankahruninu, þegar fullveldinu var ógnað, ekki síst með Icesave-samningunum, sem íslenska þjóðin bar gæfu til að fella. Á alþjóðavettvangi ber hæst að mínum dómi, að Bandaríkin ætlast nú til þess af Evrópusambandinu, sem er jafnríkt þeim og jafnfjölmennt, að það axli sambærilegar byrðar til varnar vestrænu lýðræði og Bandaríkin hafa ein gert allt frá stríðslokum 1945. Ekki er fullreynt, hvort Evrópusambandið rís undir því, en hinir austrænu jötnar, Kína og Rússland, hrista mjög spjót þessi misserin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. janúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir