Laugardagur 26.01.2019 - 10:32 - 1 ummæli

Niður með fjöllin?

Ungur vinstrimaður flutti á dögunum jómfrúræðu á Alþingi. Hafði hann áhyggjur af því að í heiminum væru hinir ríku að verða sífellt ríkari og vitnaði í svokallaða fjalldalareglu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls í túlkun Þorsteins Gylfasonar: „Fjöll mega ekki vera hærri né tignari en þarf til þess að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir.“ Regla Rawls var með öðrum orðum sú að það þjóðskipulag væri eftirsóknarverðast þar sem hinir verst settu væru sem best settir þegar til langs tíma væri litið.

Þessi ungi maður virðist ekki hafa skilið aðalatriðið í kenningu Rawls. Hann fjölyrti á Alþingi um hversu ofurríkir sumir væru orðnir, svo að taka þyrfti af þeim fé með ofursköttum. En Rawls hafði ekki áhyggjur af hinum ríku, heldur hinum fátæku. Rawls vildi þá og því aðeins jafna kjörin að hinir verst settu yrðu við það sem best settir. Hann spurði: Hvernig vegnaði þeim? Og sannleikurinn er sá að hinum fátæku hefur aldrei vegnað betur. Fátækt er almennt að snarminnka í heiminum. Hinir ríku eru að verða ríkari og hinir fátæku eru að verða ríkari. Dýrkeypt reynsla frá Venesúela sýnir einnig að hinir fátæku verða ekki ríkari við það að hinir ríku verði fátækari.

Þeir, sem hafa aðeins áhyggjur af hinum ríku, eru sekir um eina af höfuðsyndunum sjö, öfund. Það orð er komið af því að af-unna, geta ekki unnt öðrum einhvers. „Það er ekki nóg að mér gangi vel. Öðrum þarf að ganga illa,“ sagði W. Somerset Maugham. Eitt besta dæmið er úr Íslendingasögum. Hrafn Önundarson og Gunnlaugur Ormstunga kepptu um ástir Helgu hinnar fögru. Eftir harðan bardaga hjó Gunnlaugur fótinn af Hrafni, en sá aumur á honum og sótti honum vatn, eftir að Hrafn hafði heitið að gera honum ekki mein. Þegar Gunnlaugur kom með vatnið, lagði Hrafn til hans. „Illa sveikstu mig nú,“ sagði Gunnlaugur. „Satt er það,“ svaraði Hrafn, „en það gekk mér til þess, að ég ann þér ekki faðmlagsins Helgu hinnar fögru.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • kristinn geir st, briem

    en einghverstaðar verða peíngarnir að koma ekki má prenta þá einsog klósettpapír. þeir fáu peníngar sem eru í umferð leita þángað sem peníngar eru fyrir því eikst ójöfnuður þjóðfélagsin því gétur túlkun h.h.g ekki verið rétt

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir