Laugardagur 29.09.2018 - 16:01 - 2 ummæli

Óvönduð vinnubrögð Marinós G. Njálssonar

Marinó G. Njálsson hefur birt athugasemdir við skýrslu mína um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, þótt hann viðurkenni, að hann hafi ekki lesið hana, aðeins íslenskan útdrátt úr henni. Furða ég mig á því, hvað mönnum gengur til, sem taka til máls opinberlega og hinir hróðugustu án þess að hafa kynnt sér umræðuefnið. Hér mun ég leiðrétta Marinó lið fyrir lið. Áhugasamir lesendur geta borið staðhæfingar Marinós og svör mín saman og flett upp í skýrslu minni:

  1. Marinó bendir á, að beiting hryðjuverkalaganna sé ekki áhrifaþáttur í falli Glitnis og Landsbanks, því að þeir bankar hafi verið fallnir, áður en þau voru sett að morgni 8. október. Það er alveg rétt, enda segi ég það hvergi, sem hann leggur mér í munn. Af hverju gerir hann mér upp skoðanir? Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó segir: „Bretar sökuðu Kaupþing ekki um ólöglega flutninga fjármagns frá Bretlandi til Íslands, heldur flutninga sem voru á skjön við fyrirheit.“ Þetta er rangt hjá Marinó. Þeir Alistair Darling og Gordon Brown sökuðu báðir Kaupþing um ólöglega flutninga fjármagns til Íslands. Margar tilvísanir eru í skýrslu minni og raunar líka í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Darling segist til dæmis sjálfur hafa sagt Geir H. Haarde þetta í símtali þeirra 3. október 2008. „I told the Icelandic prime minister that it appeared that large sums of money had been taken out of the UK from the Kaupthing branches, which was a serious breach of FSA regulations. The FSA had to find out by the end of the afternoon whether or not that breach had taken place. If it had, they would close the bank.“ (Sjá 77. bls. í skýrslu minni.) Brown sagði Geir í símtali þeirra 5. október, að svo virtist sem ólöglegir fjármagnsflutningar frá KSF til Kaupþings næmu ekki 600 milljónum punda, heldur 1,6 milljónum punda. (Sjá 80. bls. í skýrslu minni.) Á blaðamannafundi 12. nóvember sagði Brown: „There was an issue about money that had been taken out of London and returned to Iceland and we wanted back in London.“ (Sjá 92. bls. í skýrslu minni.) Í skýrslu minni er vitnað í skýrslu RNA um allt þetta, en jafnframt ræddi ég margoft um þetta við þá Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen, sem tóku við símtölunum frá breskum ráðamönnum. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Marinó heldur því fram, að bankarnir hafi verið löngu fallnir, svo að neitun Danske Bank á fyrirgreiðslu í sambandi við sölu á norska Glitni hafi ekki skipt neinu máli. Hann má hafa þessa skoðun, og eðli málsins samkvæmt er erfitt að sanna hana eða hrekja. En hann fullyrðir allt of mikið, þegar hann talar um „svikamyllu“ í kringum Kaupþing í Bretlandi. Bankinn sætti rækilegri rannsókn árum saman í Bretlandi, en ekkert misjafnt fannst um KSF, dótturfélag Kaupþings. Ég vitna einmitt í skýrslu minni í ummæli breskra blaðamanna, eftir að stjórnvöld urðu að gefast upp á rannsókn sinni, og töldu þeir þetta mikla sneypuför. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó heldur því fram, að sú staðreynd, að KSF var gjaldfær og traustur banki, þótt Bretar hafi lokað honum, skipti engu máli um bankahrunið. En lokun KSF felldi einmitt Kaupþing! Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar. Marinó er ekki fyrsti maðurinn, sem vill, að ég skrifi um eitthvað annað en ég hef áhuga á að skrifa um.
  1. Ég er út af fyrir sig sammála Marinó um, að vogunarsjóðir réðu ekki úrslitum. En Marinó virðist ekki vera kunnugt um skýrslu, sem Deloitte gerði að ósk slitastjórnar Landsbankans, en hún sýndi, að Icesave-féð var að langmestu leyti notað í Bretlandi, fyrst í fjárfestingar og síðan í endurfjármögnun þessara fjárfestinga. Það var ekki notað í ný lán til eigenda stærsta hlutarins í bankanum. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó virðist gleyma því, að hagur UBS, stærsta banka Sviss, var svo bágborinn, að honum varð að bjarga tvisvar, einu sinni fyrir fjármálakreppuna og í henni sjálfri. Spurningin er, hvers vegna Sviss fékk aðstoð, en ekki Ísland. Bandaríkjamenn munaði ekki um veita Íslandi aðstoð, sem um munaði. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Marinó hefur rangt fyrir sér, að Rússalánið hefði ekki skipt máli um bankahrunið. Tilboðið um það kom, áður en Kaupþing féll. Hugsanlega hefði Kaupþing bjargast, hefði lánið verið veitt. Áhlaupið á það hefði stöðvast og stjórnvöld sefast. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína og kynnt sér tímalínu atburða.
  1. Hér hefur Marinó rangt fyrir sér. Auðvitað hafði það áhrif á stærð gjaldþrota bankanna, umfang bankahrunsins, að eignir voru sums staðar hirtar á smánarverði. Ég hefði raunar einmitt verið beðinn sérstaklega að kanna þetta mál.
  1. Hér hefur Marinó rangt fyrir sér. Brunaútsölur voru engin söguleg nauðsyn, enda fóru þær ekki fram í Svíþjóð og Bretlandi, svo að dæmi séu tekin. Brunaútsölurnar fóru fram í Noregi, Finnlandi og Danmörku, af því að stjórnvöld þar knúðu þær fram, eins og fram kemur í skýrslu minni. Hér hefði Marinó betur lesið hana.
  1. Ég treysti mér ekki til að hafa eindregna skoðun á því, hvort íslenska bankakerfið hafi átt fyrir skuldum, hefði það fengið lausafjárfyrirgreiðslu, eins og fram kemur í skýrslu minni. Ég er hins vegar sammála fjármálafræðingunum Ásgeiri Jónssyni og Hersi Sigurgeirssyni í þeirra vönduðu bók um það, að eignasöfn íslensku bankanna voru líklega hvorki verri né betri en eignasöfn erlendra banka almennt séð.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.
  1. Marinó hefur rangt fyrir sér. Gögn er að finna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um tillögur seðlabankastjóranna, og vitna ég í þau í skýrslu minni á 183. bls. Þau eru í 6. bindi, 19. kafla: um flutning Kaupþings, bls. 122 og 124, um færslu Icesave-reikninga úr útbúi í dótturfélag, bls. 124; um sölu norska Glitnis, bls. 256–7. Eins og oft hefur komið fram, varaði Davíð Oddsson líka opinberlega við útþenslu bankanna í ræðu sinni á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007. Í skýrslu minni er einnig sagt frá fjölda funda, þar sem seðlabankastjórarnir vöruðu við, allt frá nóvember 2005. Hér hefði Marinó betur lesið skýrslu mína.
  1. Marinó hefur rangt fyrir sér. UBS, RBS og Danske Bank hefðu allir fallið, hefðu þeir ekki fengið lausafjárfyrirgreiðslu frá seðlabönkum landa sinna, og þeir seðlabankar hefðu ekki getað veitt þessa lausafjárfyrirgreiðslu, hefðu þeir ekki getað gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann. Þetta eru alkunnar staðreyndir. Ég vitna í skýrslu minni í ótal gögn um þetta, en bendi Marinó um Danske Bank meðal annars á bókina Andre folks penge: Historien om den danske finanskrise eftir Niels Sandøe og Thomas Svaneborg. Það er hins vegar rétt, að Ísland hefði þurft hlutfallslega miklu meiri lausafjárfyrirgreiðslu en flest önnur ríki (ef til vill að Skotlandi undanteknu, ef horft er á það sem ríki).
  1. Marinó er hér að andmæla niðurstöðu þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, sem ég vitna í. Hann vissi þetta auðvitað ekki, af því að hann hafði ekki lesið skýrslu mína. Hefði hann betur gert það.
  1. Þarfnast ekki leiðréttingar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Marinó G. Njálsson

    Sæll Hannes,

    Svona það fyrsta, þá heiti ég Marinó, ekki Marínó.

    Ég er í flestum mínum athugasemdum að benda á þá staðreynd að skýrslan þín heitir í íslenskri þýðingu: Fall íslensku bankanna: Erlendir áhrifaþættir. Þessar 20 helstu niðurstöður fjalla hins vegar ekki nema að takmörkuðu leyti um það sem gerðist fyrir hrun og flest voru áhrifaþættir varðandi endurreisnina, ekki hrunið.

    Ég er síðan ekki að fjalla um skoðanir þínar, heldur það sem segir í þessum helstu niðurstöðum. Ég veit ekkert hverjar skoðanir þínar eru og er því ekkert að fjalla um þær. Ég vona innilega að skýrslan sé niðurstaða rannsókna, en ekki vettvangur fyrir skoðanir þínar.

    Ég tók sem svo, að þessi 20 atriði væru frá þér komin, þannig að í lagi væri að fjalla um þau. Ég tek eingöngu á því sem þar kemur fram og séu niðurstöðurnar ekki bein vísun í það sem stendur í skýrslunni og jafnvel röng vísun, þá væri gott að þú skýrðir út hverjar af þessum niðurstöðum eru ekki í samræmi við efni skýrslunnar.

    Minn stærsti punktur er samt sá, að of stór hluti atriða er um endurreisnina og of fá um undanfarann. Ég tók síðan eftir því í gær að Svein Harald Øygard tekur undir með mér varðandi hluta þeirra atriða sem þú virðist líta á sem fleipur hjá mér. Þú fyrirgefur mér síðan, ef ég tel Ásgeir Jónsson ekki hlutlausan þegar kemur að því að meta eignasöfn bankanna. Staðreyndir eru hins vegar þær, að hvergi í heiminum voru líklega þrír bankar eins tengdir í gegn um krosseignarhald, sem gerði það að verkum að eigendur áttu almennt ekkert í bönkunum, heldur voru með allt að láni. Sömu aðilar áttu (eða áttu ekki) síðan öll stærstu fyrirtæki í Kauphöllinni, með allt að láni. Stærstu töp bankanna urðu annars vegar í lánum til fjárfesta og hins vegar til fyrirtækja eigenda sinna. Eignasöfn upp á þúsundir milljarða urðu að nánast að engu við fall bankanna, þó hagur hrunbankanna hafi vænkast þegar um hægði. Einhverra hluta vegna, þá töpuðust þúsundir milljarða (eða einhverjir fengu skuldahreinsun) og aðallega hjá þeim sem voru með hlutabréf að veði fyrir lánum sem tekin voru til að kaupa þessi hlutabréf. Gjaldþrot Samson, Björgólfs Guðmundssonar, afskriftir Ólafs Ólafssonar, fléttan í kringum Bakkavör, Icelandair, Baugur, ertu að segja mér að ekkert hafi tapast. Það eru bara fræðilegar vangaveltur hvort þetta hefði ekki tapast, ef bankarnir hefðu ekki farið í þrot í byrjun október 2008. Þeir fóru í þrot og mikilvægt er að skilja hvers vegna það gerðist, svo hægt sé að koma í veg fyrir að slíkt ástand skapist aftur.

    Ég segi hvergi að Icesave hafi verið notað í lán til eigenda LÍ.

    Viðmælendur mínir (m.a. starfsmenn Kaupþings) lýstu ástandinu í Kaupþingi í nóvember 2007 þannig að bankinn hafi verið kominn í tæknilegt þrot. Ástarbréfin og síðan veðlánin hjá hinum ýmsu seðlabönkum staðfesta hinn mikla vanda bankans. Menn þurfa að vera í mikilli afneitun til að sjá það ekki. Vandi Landsbanka Íslands jókst með hverju prósentunni sem gengið veiktist frá seinni hluta júlí 2007. Ástarbréfin og veðlánin staðfesta að bankinn var kominn í nánast óyfirstígalegan vanda. Glitnir var kominn í tæknilegt þrot í september 2007 og hefði betur selt norska hluta starfseminnar þá. Aftur staðfesta ástarbréfin og veðlánin hjá seðlabönkum hve vandi bankans var orðinn alvarlegur síðla veturs 2008. Það gekk sá orðrómur innan stjórnarráðsins í febrúar 2008, að bankarnir myndu falla í október sama ár. Svo það sé á hreinu hef ég hvergi í ræðu eða riti áfellst bankana fyrir að reyna að bjarga sér, enda hef ég þá trú að það sé réttur hvers fyrirtækis þegar gefur á bátinn. Ég hef hins vegar reynt að skilja hvenær menn fóru út af sporinu, vegna þess að ég tel mikilvægt að við skiljum hvaða aðvörunarljósum við eigum að líta eftir. Það er lærdómurinn sem við eigum að draga af hruninu. Vissulega er gott að skilja hvað gekk á í endurreisninni til að geta siglt framhjá þeim skerjum verði annað hrun.

    Liður 2: Þá er það vissulega túlkunaratriði hvort brot á reglum FSA sé lögbrot, en skýrsluhöfundar RNA líta ekki svo á. Ég lít svo á, að Kaupþing hafi farið gegn fyrirmælum FSA og vissi ég að menn lögðu nótt við dag frá 3. – 6. október 2008 að sanna fyrir FSA að bankinn væri að fara að fyrirmælunum. Þetta voru hins vegar ekki lögbrot í þeim skilningi að lög hefðu verði brotin.

    Liður 4: Ég kalla þetta svikamyllu, þegar Kaupþing notaði KSF til að fjármagna móðurbankann. Fjallað er um þetta í skýrslu RNA.

    Liður 5: Rétt er að lokun KSF felldi Kaupþing. Það voru hins vegar þegar tveir bankar fallnir og stór hópur viðskiptavina Kaupþings var kominn í mikinn vanda eða á leið þangað vegna falls hinna bankanna. Kannski hefði Kaupþing staðið af sér áföllin, ef bankinn hefði fengið lengri tíma.

    Liður 6: Ég hélt að heiti skýrslunnar vísaði til þess sem gerðist fyrir hrun og því átti ég von á að sjá upplýsingar um þá atburði. Ég hélt líka að hún ætti að lýsa rannsóknarniðurstöðum, en ekki hvað þú hefðir áhuga á að kæmi fram. Afsakaðu, að ég hafi ekki staðist það að setja fram kaldhæðni öðru hvoru.

    Liður 8: Ég er ekkert að gleyma stöðu UBS, enda var ég búinn að benda á það í bloggfærslu löngu fyrir hrun, að UBS hafi tapað 10 milljörðum USD vegna sub-prime lána vegna ársins 2006. Það kom skýrt fram í máli Timothy Geithner vorið 2008, að óskir Íslands um aðstoð voru ekki nægar til að bjarga stöðunni og var Íslendingum bent á að leita til AGS. 1 ma.USD var ekki upp í nös á ketti í því ástandi sem var á Íslandi á þessum tíma og hætt hefði verið á að menn væru að henda góðum peningum á eftir vondum. Erlendir seðlabankastjórar töldu einnig Íslendinga í mikilli afneitun yfir stöðunni, eins og má sjá í ýmsum skrifum, m.a. Seðlabankans á þessum tíma. Að vera síðan að líkja Íslandi og Sviss sama er út í hött.

    Liður 10: Áhugavert að einhver á Íslandi telji að Rússalánið hafi í raun og veru staðið til boða. Að NATO-þjóð myndi taka við fjárhagslegri aðstoð frá Rússum. Þó lánið hefði staðið til boða, þá taka slík mál ekki klukkutíma, heldur vikur eða mánuði og því hefði lánið aldrei komið nógu fljótt til að breyta stöðunni hjá Kaupþingi.

    Liður 11: Ég er ekkert að hafa rangt fyrir mér hér. Bendi á að þetta varði endurreisnina, ekki hrunið. Tjái mig að öðru leyti ekkert um niðurstöðuna.

    Liður 12: Sama og liður 11 að því viðbættu að brunaútsölur eiga sér stað og eru hrægammarnir alltaf tilbúnir í slíkar veislur.

    Liður 13: Er búinn að fjalla um hann að ofan.

    Liður 17: Verð að viðurkenna, að ég túlkaði þessa fundargerð á bls. 122 þannig að menn væru að skoða kosti, en ekki hefði neitt verið lagt til. Þó DO segi að sér finnist skynsamlegt, þá er ekki þar með sagt að Seðlabankinn sé að gera tillögu um slíkt. Mervyn King lagði það hins vegar til skýrum orðum. Í fundargerð frá 13. febrúar (á bls. 126-7) um fund með Kaupþingsmönnum þá er síðan ekki minnst á þetta atriði. Ef sett hefði verið fram tillaga, þá væri nú lágmark að ræða hana við bankann sjálfan! Í fundargerð á bls. 124 kemur skýrt fram að það var Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, sem upplýsti að bankinn væri að skoða að flytja Icesave í breska lögsögu. Það var ekki tillaga Seðlabankans.

    Og svo ég vitni nú í mína bók, þá er rétt að seðlabankastjórar áttu það til að vara við, en í sömu ræðunni var í löngu máli talað á jákvæðum nótum, en svo kom ein neikvæð málsgrein. Misvísandi skilaboð voru orðin að listgrein hjá Seðlabankanum. Vissulega skil ég vel að menn urðu að tjá sig varlega, en fyrr má nú vera. Er þetta sérstaklega áberandi í bréfaskriftum við erlenda seðlabankastjóra á vormánuðum 2008, þar sem menn lýstu því yfir að ekki bæri að efast um rekstrarhæfi íslensku bankanna, þegar allir vissu að það var allt í steik hjá þeim. Að fullyrða slíka hluti við Bank of England eða Seðlabanka Evrópu afhjúpaði afneitunina/blekkingarleikinn sem var í gangi á Íslandi. Báðir þessir aðilar vissu betur en að hægt væri að halda slíku fram við þá. Já, það er hægt að finna alls konar dæmi, en ekkert af þessu kom fram í verkum Seðlabankans og að ég tali nú ekki um FME sem var að missa sig í hrifningu á uppgangi bankanna.

    Liður 18: Nú er lesskilningur minn allt annar en þinn, Hannes. Ég tala bara ekkert um það hvort þeir hefðu fallið eða ekki. Ég segi: „Ekkert bendir til þess að UBS, Danske Bank og RBS hafi verið bjargað vegna þess að Svisslendingar, Danir og Skotar/Bretar hafi fengið lausafjárfyrirgreiðslu.“ Ég er að benda á tengslin milli lausafjárfyrirgreiðslu til seðlabanka, ekki til bankanna sjálfra. Ég er nokkuð viss um að allir þessir bankar hefðu fallið án stuðnings. Var bara ekkert að vísa til þess.

    Liður 19: Er fjallað um að ofan.

  • kristinn geir st, briem

    skiptir þetta svo mikklu máli nú er ekki betra að læra svolítið af þessu mér sínist fólk vera í afneitum. mest heppni að ekki fór mjög ílla ef dómstólar efðu dæmt okkur í óhag í máli hollendínga og breta værum við ekki í núverandi stöðu. væri næsta spurníng til hannesar hvað varð um alla þessa milljarða sem lánadrottnar töpuðu í hruninu

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir