Sunnudagur 30.09.2018 - 14:06 - Rita ummæli

„Hollenska minnisblaðið“

Þriðjudaginn 25. september 2018 fór skýrsla mín um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins á netið frá fjármálaráðuneytinu. Þar eru tveir kaflar um Icesave-deilu Breta við Íslendinga. Fimmtudaginn 27. september skrifaði aðalsamningamaður Íslands í fyrstu lotu málsins, Svavar Gestsson, á facebooksíðu sína: „Svokölluð skýrsla HHG um hrunið er komin út. Hún er eiginlega Reykjavíkurbréf; þau eru ekkert skárri á ensku. Auðvitað er sleppt óþægilegum staðreyndum eins og hollenska minnisblaðinu.“

Þótt Svavar hefði þá haft tvo daga til að lesa skýrsluna hefur farið fram hjá honum að á 154. bls. hennar segir neðanmáls: „In the chaos during the bank collapse, a memo of mutual understanding had been signed by Icelandic officials after talks with their Dutch counterparts, accepting some of the Dutch claims, but it had no legal validity and the Icelandic government made it clear afterwards that it was not bound by it in any way.“

Ég sleppti því ekki „óþægilegum staðreyndum“ eins og minnisblaðinu, sem var að vísu ekki hollenskt, heldur á ensku og undirritað af hollenskum og íslenskum embættismönnum 11. október 2008. Eins og ég benti á hafði þetta minnisblað ekkert lagalegt gildi frekar en fjöldi minnisblaða, sem undirrituð hafa verið um til dæmis fyrirhuguð álver og Íslendingar muna eftir. Geir H. Haarde hringdi í hollenska forsætisráðherrann til að tilkynna honum að Íslendingar myndu ekki fara eftir þessu minnisblaði embættismannanna.

Tvennt er hins vegar athyglisvert. Svavar kallar minnisblaðið „óþægilega staðreynd“. Óþægilega í huga hverra? Aðeins þeirra sem töldu það hafa eitthvert gildi, sem það hafði ekki að mati neinna nema ef til vill samningamanna Hollendinga í Icesave-deilunni. Er Svavar í liði þeirra? Í öðru lagi er Svavar bersýnilega ónákvæmur í vinnubrögðum. Hann fullyrðir að ég sleppi staðreyndum sem ég ræði um í skýrslu minni. Líklega hefur hann ekki nennt að hanga yfir skýrslu minni frekar en yfir Icesave-samningnum forðum, og er árangurinn eftir því.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015, og Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út 2020. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir