Þriðjudagur 09.04.2024 - 07:26 - Rita ummæli

Ritstjórinn Matthías Johannessen

Með Matthíasi Johannessen er genginn einn merkasti blaðamaður tuttugustu aldar á Íslandi. Hann var aðeins 29 ára, þegar hann varð ritstjóri Morgunblaðsins árið 1959, og gegndi því starfi í 41 ár, til sjötugs. Ég kynntist honum á seinni hluta áttunda áratugar. Útvarpsþættir, sem ég hafði séð um, Orðabelgur, höfðu vakið athygli, og Matthías bað mig að skrifa fastan dálk í Morgunblaðið, sem ég gerði í nokkur ár. Var fróðlegt að fylgjast með ritstjórunum, honum og Styrmi Gunnarssyni. Undir öflugri ritstjórn Valtýs Stefánssonar hafði Morgunblaðið orðið stórveldi. Bjarni Benediktsson styrkti blaðið enn í ritstjóratíð sinni árin 1956–1959, og þeim Matthíasi og Styrmi tókst að varðveita ítök blaðsins og jafnvel auka, ekki síst eftir að vinstri blöð tíndu tölu.

Matthías vissi margt, sem aðrir vissu ekki. Hann sagði mér til dæmis, að á bak við dulnefnið Jón Reykvíking, sem skrifaði alræmt níð um Kristmann Guðmundsson í Mánudagsblaðið árið 1961, hefði leynst Einar Ásmundsson lögfræðingur. Hafði Einar reiðst ólofsamlegum ritdómi Kristmanns um ljóðabók eftir sig. Í dagbók sinni á Netinu sagði Matthías enn fremur frá því, að Stefán Ólafsson, þá forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hefði laumað að þeim Styrmi úrslitum skoðanakönnunar, sem Félagsvísindastofnun var fengin til að gera í trúnaði um fylgi manna í forsetakjöri 1996. Brást Háskólinn aldrei við þessu trúnaðarbroti Stefáns.

Matthías var góðvinur tveggja snjöllustu skálda samtíðarinnar, þeirra Steins Steinarrs og Tómasar Guðmundssonar, en sagði mér, að hann hefði ekki getið verið það í einu. Tómas hafði gert gys að lausamálsljóðum Steins í hláturleik (revíu), en Steinn hefnt sín með vísu um, að sál Tómasar hefði gránað fyrr en hárin. Þeir Tómas urðu ekki vinir fyrr en eftir lát Steins. Jafnframt kynntist Matthías vel hinum svipmiklu stjórnmálamönnum Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni. Ég fékk hann til að segja frá þessum fjórum mönnum í óbirtum sjónvarpsþætti, sem nú þyrfti að búa til sýningar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. mars 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir