Miðvikudagur 20.8.2025 - 07:02 - Rita ummæli

Heimspekiprófessor hafnar málfrelsi

Þegar ég stundaði heimspekinám fyrir fimmtíu árum, fyrst í Reykjavík, síðan í Oxford, greindi kennara mína á um margt. En þeir voru allir undantekningarlaust hlynntir málfrelsi og þá líka og raunar ekki síst málfrelsi þeirra, sem þeir voru ósammála. Málfrelsi virtist vera eitt þeirra gilda, sem talin voru sjálfsögð, jafnvel eitt helsta verðmæti vestrænnar menningar, sem verja skyldi með ráðum og dáð. Heimspekin átti umfram allt að vera frjáls rannsókn og rökræða. Til dæmis gerði Páll Skúlason heimspekiprófessor strangan greinarmun á ofbeldi og skynsemi. Ofbeldisseggir vildu ekki ræða mál með rökum. Þeir gátu aðeins steytt hnefa, öskrað, barið mann og annan. Nú er öldin önnur. Finnur Dellsén heimspekiprófessor hafnar málfrelsi, fyrst í færslu á Facebook, síðan í grein í vefblaðinu Vísi.

Ofbeldisseggirnir skertu málfrelsi og rannsóknafrelsi

Tilefni skrifa Finns er, að ísraelskum fræðimanni á sviði gervigreindar og lífeyrisskuldbindinga, hagfræðiprófessornum Gil S. Epstein, var boðið að halda fyrirlestur í Háskóla Íslands 6. ágúst 2025 um hið forvitnilega fræðasvið sitt. Stóð Rannsóknastofnun um lífeyrismál að viðburðinum, sem Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor átti að stjórna. Fimmtán menn, þar á meðal nokkrir starfsmenn Háskólans með Ingólf Gíslason aðjúnkt í fararbroddi, ruddust inn í fyrirlestrasalinn í Þjóðminjasafni með mótmælaspjöld. Þegar fundarstjóri og fyrirlesari reyndu að tala, öskruðu hinir óboðnu gestir á þá, svo að ekki heyrðist mannsins mál. Gekk á þessu í tuttugu mínútur, uns Gylfi sá sér þann kost einan að slíta fundi. Seinna um daginn skrifaði ég á Facebook, að rektor yrði auðvitað að áminna Ingólf „fyrir virka tilraun með ofbeldi til að hefta málfrelsi og rannsóknafrelsi innan Háskóla Íslands“. Einnig gagnrýndi Kolbeinn H. Stefánsson dósent framferði hávaðaseggjanna og kvað það hugsanlega varða við siðareglur Háskólans.
Þótt Finnur segist vera að svara okkur Kolbeini, gerir hann það ekki. Ég sagði, að um væri að ræða „tilraun með ofbeldi til að hefta málfrelsi og rannsóknafrelsi innan Háskóla Íslands“. Finnur gerir sér lítið fyrir og endurskilgreinir ágreininginn eins og hann sé um akademískt frelsi háskólamanna, val þeirra á rannsóknarefnum, og skilgreinir slíkt frelsi þröngt sem frelsi frá afskiptum stjórnvalda. Síðan dregur hann þá ályktun af framferði hinna óboðnu gesta í Þjóðminjasafninu, að þeir hafi ekki reynt að hefta akademískt frelsi í þeim skilningi, og má það til sanns vegar færa. En þetta er samt ekkert svar. Aðalatriðið er, að hávaðaseggirnir voru ekki að mótmæla, eins og þeir hafa fullan rétt á að gera, trufli þeir ekki góða allsherjarreglu. Þeir voru að koma í veg fyrir, að fundarstjóri og fyrirlesari á viðburði í Háskólanum fengju að tala. Þeir voru að öskra þá niður, og þeim tókst það. Þeir voru að ógna. Þetta var fullkomið ofbeldi.
Finnur ver framferði ofbeldisseggjanna með því að segja það annað en það var. Ég var ekki aðeins að ræða um akademískt frelsi, heldur einnig og raunar aðallega um málfrelsi. En með framferði ofbeldisseggjanna var málfrelsi háskólamanna ekki aðeins skert, heldur líka rannsóknafrelsi, akademískt frelsi. Einn þáttur í rannsóknafrelsi er einmitt, eins og Finnur hefur raunar sjálfur bent á í fjölda ritgerða, að fræðimenn geti setið saman og rökrætt í ró og næði, eins og ætlunin var að gera á þessum fundi í Þjóðminjasafninu. Orð getur sprottið af orði, nýjar hugmyndir kviknað. Ofbeldisseggirnir komu ekki aðeins í veg fyrir, að Epstein fengi að tala, heldur hindruðu þeir líka frjóa rökræðu við hann um brýn viðfangsefni eins og gervigreind og lífeyrisskuldbindingar, en talið er, að allt að helmingur núverandi starfa í hagkerfum Vesturlanda geti horfið vegna gervigreindar.

Rökin fyrir málfrelsi rifjuð upp

Þegar ég stundaði heimspekinám fyrir fimmtíu árum, tóku kennarar mínir góð og gild rökin fyrir málfrelsi, eins og John Stuart Mill setti þau fram í öðrum kafla Frelsisins frá 1859. Bönnuð skoðun gæti í fyrsta lagi verið rétt, en með banninu hefði mannkyn verið svipt henni, auk þess sem yfirvöld væru ekki óskeikul. Mörg dæmi væru þess, að yfirvöld hefðu bannað réttar skoðanir, til dæmis þær að jörðin væri í laginu eins og hnöttur og að hún snerist í kringum sólina, en ekki öfugt. „Eppur si muove.“ Í öðru lagi gæti bönnuð skoðun verið röng. En hana ætti samt að umbera, sagði Mill, því að rétt skoðun efldist, þegar hún sætti andmælum og og öðlaðist þá nýtt líf. Benti hann í því sambandi á, að kaþólska kirkjan skipaði jafnan andmælanda, advocatus diaboli, þegar taka skyldi mann í dýrlingatölu, og átti hann að leita að rökum gegn því. Í því sambandi má minna á orð Georges Orwells: „Hafi frelsi almennt einhverja merkingu, þá er það rétturinn til að segja fólki það, sem það vill ekki heyra.“ Í þriðja lagi hélt Mill því fram, að andstæðar skoðanir gætu geymt í sér hvor sinn hluta sannleikans, og væri því hollt að hafa þær báðar í huga. Hvað hefur breyst, frá því að mér var kennt þetta fyrir fimmtíu árum?
Svipuð hugsun og í riti Mills kemur fram í frægum vísuorðum danska skáldsins Grundtvigs árið 1836 um, að málfrelsið væri ekki síður frelsi Loka en Þórs. Með því átti Grundtvig við, að hlusta þyrfti á rök, jafnvel þótt þau kæmu frá alræmdum bragðaref, og reyna að hrekja þau í stað þess að varna honum máls af þeirri ástæðu einni, hver hann væri. Árið 1945 urðu fjörugar umræður um þessi vísuorð í Danmörku, því að kommúnistar vildu banna „andlýðræðislegar“ skoðanir á meðal opinberra starfsmanna. Vildu þeir beinlínis hafna því, að frelsið ætti að vera frelsi Loka ekki síður en Þórs. Hinn virti lagaprófessor Poul Andersen skrifaði þá, að erfitt væri að skilgreina, hvaða skoðanir væru „andlýðræðislegar“, svo að best væri að halda sig við reglu Grundtvigs, en auðvitað að því tilskildu, að bannað væri að hvetja til ofbeldis eða beita því. Samkvæmt þessu átti tvímælalaust að virða málfrelsi fyrirlesarans, en Ingólfur Gíslason og aðrir upphlaupsmenn höfðu hins vegar ekki rétt á að hvetja til og beita ofbeldi, eins og þeir gerðu.

Rannsóknafrelsi í háskólum

Finnur Dellsén skilgreinir akademískt frelsi furðuþröngt. Það sé aðeins frelsi frá stjórnvöldum. Hér ætla ég ekki að ræða, hvort fulltrúar skattgreiðenda eigi að hafa einhvern íhlutunarrétt um, hvernig opinberu fé sé varið, enda snerist upphlaupið í Þjóðminjasafninu um annað. En margt annað getur beint eða óbeint skert rannsóknafrelsi háskólamanna. Þegar ég settist í félagsvísindadeild, komst ég til dæmis að því, að Evrópusambandið kostaði námskeið um Evrópumál. Hversu líklegt var, að gagnrýni á Evrópusambandið yrði þar sett fram af fullri sanngirni? Ég komst líka að því, að Þróunarsamvinnustofnun greiddi fyrir lokaritgerðir um þróunaraðstoð. Hversu líklegt var, að þar væri haldið á lofti þeirri sennilegu tilgátu, að svokölluð þróunaraðstoð væri oftast aðstoð án þróunar? Ég komst líka að því, að Alþýðusamband Íslands greiddi laun kennarans í námskeiði um vinnumarkaðinn, en hann var yfirlýstur marxisti, stéttabaráttusinni. Hversu líklegt var, að hann kenndi um þá niðurstöðu fjölmargra traustra rannsókna, að kjarabarátta hefði lítil sem engin áhrif á kjarabætur, heldur hlytust þær aðallega af hagvexti? Þess skal þó getið, að öllu þessu hefur verið hætt, og samkennarar mínir létu meira að segja eftir mér að hætta að tala ensku á deildarfundum.
Rannsóknafrelsi háskólamanna er svo sannarlega ekki aðeins frelsi frá stjórnvöldum, eins og Finnur segir. Ég skal nefna fleiri dæmi. Ég hélt erindi á ensku á alþjóðlegri ráðstefnu blaðamanna í Bifröst 1999 og gagnrýndi þar auðjöfur einn, sem átti þá sjónvarpsstöð og blöð. Ég setti útdrátt úr erindinu, auðvitað á ensku, á heimasíðu mína í Háskólanum. Auðjöfurinn ákvað árið 2004 að höfða meiðyrðamál gegn mér fyrir breskum dómstól, því að hann hefði hagsmuna að gæta í Bretlandi. Þótt dómur yfir mér þar ytra væri að lokum ógiltur, kostaði málið mig um 25 milljónir króna þá, en það væru um 70 milljónir króna nú. Alkunna er, að auðjöfrar um heim allan nota hótanir um kostnaðarsamar málsóknir í Bretlandi til að þagga niður í rithöfundum og blaðamönnum. Annar auðjöfur gekk á fund háskólarektors í desember 2009 til að krefjast þess, eins og hann sagði sjálfur blaðamönnum, að ég yrði rekinn frá Háskólanum. Gaf hann mér að sök að hafa á kaffistofu kennara sýnt samstarfsfólki mínu útprentun af vefsíðu, þar sem gagnrýnd var bankafyrirgreiðsla við hann í ljósi þess, að hann var með fjölskyldu sinni langstærsti skuldunautur bankanna fyrir hrun þeirra. Vitaskuld sinnti háskólarektor ekki kröfu auðjöfursins, enda ekki á hans valdi.
Hér hef ég aðeins nefnt nokkur dæmi af eigin reynslu. En ýmsar almennar hættur steðja að rannsóknafrelsi háskólamanna á okkar dögum. Vitað er, að þeir, sem fara yfir umsóknir úr rannsóknasjóðum, hafa gátlista: Er minnst á jafnrétti kynjanna í umsókninni? Eða hlýnun jarðar af mannavöldum? Ef svo er ekki, þá snarminnka líkur á, að umsóknir hljóti náð fyrir augum umsegjanda. Menn með skoðanir, sem eru óvinsælar í háskólaheiminum, eiga iðulega í erfiðleikum með að fá stöður eða styrki, og ritgerðum þeirra er hafnað í fræðitímaritum. Hver rannsóknin af annarri í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós, að í hug- og félagsvísindum eru vinstri sinnaðir háskólakennarar um það bil níu af hverjum tíu, en hægri sinnaðir einn af hverjum tíu. (Enn ein lífsreynslusaga: Þegar ég sótti um styrk í rannsóknasjóð Háskólans til að ganga frá bók minni um Íslenska kommúnista 1918–1998, var umsegjandi stjúpdóttir kommúnistaforingjans Svavars Gestssonar, og hún lagði auðvitað til, að umsókninni yrði hafnað, sem og varð.)

Skýlaust brot á siðareglum Háskólans

Mér virðist enn fremur einsætt eins og Kolbeini H. Stefánssyni, að þeir mótmælendur í Þjóðminjasafninu, sem starfa við Háskólann, hafi brotið siðareglur hans með framferði sínu í Þjóðminjasafninu, þótt Finnur Dellsén segi það fjarstæðukennt. Þeir komu með ofbeldi í veg fyrir, að fyrirlesari fengi að flytja erindi sitt og fundarmenn eftir það að setjast á rökstóla með honum. Með því brutu þeir til dæmis grein 3.1 í siðareglunum: „Við virðum frelsi hvers annars til rannsókna og tjáningar á fræðilegri þekkingu og sannfæringu okkar.“ Þetta ákvæði hlýtur að eiga við um gestafyrirlesara ekki síður en starfsmenn Háskólans. Óeirðaseggirnir brutu líka grein 4.1: „ Við sýnum hvert öðru virðingu í framkomu, samskiptum, ræðu og riti og högum skoðanaskiptum á málefnalegan hátt.“ Enn fremur brutu þeir grein 6.2: „Við rýrum ekki orðspor og trúverðugleika Háskólans með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög og reglur eða virðingarleysi við mannhelgi og mannréttindi.“
Forsprakki óeirðanna, Ingólfur Gíslason, bar framan á sér aðgangskort sitt að Háskólanum. Nokkrir aðrir háskólamenn tóku þátt í ólátunum, sem áttu sér stað á venjulegum vinnutíma. Ég legg þó ekki eins mikið upp úr þessum skýlausu brotum á siðareglum Háskólans og hinu, sem er aðalatriði málsins, að þessir óeirðaseggir, hvort sem þeir störfuðu í Háskólanum eða ekki, reyndu beinlínis að svipta aðra málfrelsi og rannsóknafrelsi, og þeim tókst það í þetta sinn. Við það verður ekki unað. Það er beinlínis ískyggilegt, hversu mikið óþol sumir virðast hafa fyrir skoðunum annarra. Enski dómprófasturinn William Ralph Inge sagði: „Óvinir frelsisins rökræða ekki, — þeir skrækja og skjóta.“

Á ekki að hlusta á Ísraelsmenn?

Í færslu sinni á Facebook segir Finnur Dellsén, að mótmælin hafi ekki beinst að Gil S. Epstein fyrir það, að hann sé Ísraelsmaður, heldur fyrir það, að hann hafi óbeint stutt stríðsrekstur Ísraels, því að háskólinn, sem hann starfi við í Ísrael, eigi margvíslega samvinnu við stjórnvöld. Hann hafi „líklega“ tengst stríðsrekstrinum. Í grein sinni á Vísi bætir hann við þeirri röksemd, að fyrirlesarar eigi almennt ekki fortakslausan rétt á því, að menn þegi við boðskap þeirra. Það sé að vísu kurteisi, en hún getið vikið fyrir gildari sjónarmiðum. „Eitt af þessum „öðrum gildum“ sem við þurfum að vega á móti akademískri kurteisi er gildi þess að mótmæla hroðaverkum á borð við þjóðarmorðið sem nú er verið að fremja á Gaza fyrir allra augum.“
Þessar röksemdir Finns eru í meira lagi hæpnar. Auðvitað voru mótmælendurnir í Þjóðminjasafninu að stöðva fyrirlestur Epsteins, af því að hann var Ísraelsmaður, ekki af því að hann tengdist „líklega“ stríðsrekstri Ísraels beint eða óbeint. Þeir voru að stöðva fyrirlesturinn vegna þess, hver fyrirlesarinn var, en ekki vegna þess hvað hann hafði að segja. Raunar hefur seinna, eftir upphlaupið, fundist færsla á Netinu frá Epstein frá 23. nóvember 2023, þar sem hann bauð sem þáverandi deildarforseti félagsvísindasviðs háskóla síns þeim nemendum sínum, sem kvaddir höfðu verið í skyndingu í herinn vegna nýlegrar árásar Hamas á Ísrael, aðstoð vegna skólagjalda og annars kostnaðar. Ekkert var eðlilegra. Ráðist hafði verið á Ísrael, sem hafði fullan rétt á að verja sig, og deildarforsetinn bar umhyggju fyrir nemendum sínum.
Finnur fer síðan rangt með það, sem gerðist í Þjóðminjasafninu, þegar hann kveður regluna um kurteisi stundum víkja fyrir gildari sjónarmiðum. Það, sem gerðist, var ekki, að menn væru að mótmæla því, sem fyrirlesarinn sagði, heldur að þeir vörnuðu honum að taka til máls. Hann fékk ekki að segja neitt. Auðvitað eiga háskólakennarar ekki ófrávíkjanlegan rétt á því, að þagað sé við boðskap þeirra. En fylgja verður eðlilegum reglum. Þegar ég stundaði nám í Oxford, mótmælti ég stundum í fyrirlestrum boðskap vinstri sinnaðra kennara minna, þeirra Ronalds Dworkins og Amartya Sens, sérstaklega þegar þeir voru að hallmæla Margréti Thatcher og Ronald Reagan. En ég gerði það með því að rétta upp hönd, og þeir gerðu hlé á máli sínu, leyfðu mér að gera athugasemdir, brostu í kampinn og svöruðu síðan. Það er allt annað en að koma beinlínis í veg fyrir, að fundarstjórinn eða fyrirlesarinn fái að segja eitthvað. Í hvert sinn sem Gylfi Zoëga fundarstjóri reyndi að tala, var öskrað svo hátt, að ekki heyrðist mannsins mál. Á þessu gekk í tuttugu mínútur.

Hugtakið þjóðarmorð

Finnur Dellsén heldur því fram, að rétturinn til að „mótmæla hroðaverkum á borð við þjóðarmorðið sem nú er verið að fremja á Gaza fyrir allra augum“ sé mikilvægari en rétturinn til þess, að kurteislega sé hlustað á fyrirlesara frá Ísrael. Enn fer hann rangt með. Menn hafa auðvitað fullan rétt á að mótmæla hernaðaraðgerðum Ísraels á Gasa-svæðinu. En þeir voru ekki að gera það í Þjóðminjasafninu. Þeir voru að svipta mann, sem hvergi kemur nærri þeim hernaðaraðgerðum, svo að vitað sé, málfrelsi, og þeir voru að takmarka rannsóknafrelsi áheyrenda hans, sem ætluðu að rökræða við hann um gervigreind og lífeyrisskuldbindingar. Það vekur hins vegar athygli, að þeir Finnur Dellsén og óeirðaseggirnir í Þjóðminjasafninu hafa hvergi mótmælt kveikjunni að stríðsátökunum, sem var hin villimannslega árás Hamas á Ísrael 7. október 2023, þar sem þeir myrtu börn, nauðguðu konum, drápu 1.200 manns og tóku gísla. Leyndu þeir ekki ódæðum sínum, heldur birtu hróðugir myndskeið af þeim á netinu.
Finnur nefnir orðið „þjóðarmorð“. Það hugtak varð til eftir seinni heimsstyrjöld. Það hefur ákveðna merkingu, sem er skipulögð útrýming þjóða eða þjóðabrota, þar sem ráðist er á menn fyrir það, hvað þeir eru, en ekki fyrir það, hvað þeir hafa gert. Skýrasta dæmið var tilraun nasista til að útrýma gyðingum. Hamas hefur á stefnuskrá sinni þjóðarmorð, því að þeir vilja útrýma Ísraelsríki. Raunar má segja svipað um yfirráðasvæði Palestínu-Araba á vesturbakkanum, þar sem menn fá sérstök verðlaun, drepi þeir gyðinga, og ef þeir falla sjálfir, þá fá fjölskyldur þeirra eftirlaun. Ísrael verður hins vegar ekki sakað með réttu um þjóðarmorð. Raunar hefur Palestínu-Aröbum fjölgað úr tveimur í fimm milljónir síðustu þrjátíu árin. Átökin á Gasa eru vissulega átakanleg, og margir saklausir óbreyttir borgarar, þar á meðal konur og börn, hafa fallið þar eins og í öllum stríðsátökum, en fleiri en ella hafa fallið á Gasa, af því að Hamas notar óbreytta borgara sem lifandi skildi. Vígamenn þeirra leynast á meðal þeirra.

Aðdragandi stríðsátakanna

Hinn mikli „glæpur” fyrirlesarans í Þjóðminjasafninu er, að hann er Ísraelsmaður og telur ríki sitt hafa átt rétt á að verja sig gegn hinni hroðalegu árás Hamas 7. október 2023. En auðvitað eiga átökin sér miklu lengri aðdraganda. Í Ísrael eru hin fornu heimkynni gyðinga, en þeir voru hraktir burt í nokkrum lotum, meðal annars eftir ósigur gegn Rómverjum árið 73 e. Kr. og eftir að Arabar hertóku landið árið 638 e. Kr. Gyðingar urðu líka illa úti í krossferðunum, og þegar Tyrkjasoldán lagði landið undir sig árið 1517, bjuggu aðeins nokkur þúsund þeirra þar. Gyðingar dreifðust um allan heim, en sættu víða ofsóknum. Með Upplýsingunni á átjándu öld linnti slíkum ofsóknum nokkuð, en þær hófust aftur seint á nítjándu öld, ekki síst vegna þess að háskólar tóku upp inntökupróf, þar sem gyðingar stóðu sig vel og vöktu öfund annarra. Jafnframt vegnaði þeim víða vel fjárhagslega, eftir að þeir fengu full borgaraleg réttindi, sem enn varð til að auka á öfund annarra. Loks komust sumir forystumenn þeirra að þeirri niðurstöðu, að aðlögun að siðum annarra þjóða væri ætíð dæmd til að mistakast, svo að þeir yrðu að stofna eigið ríki. Fyrstu gyðingarnir til að snúa aftur til Ísraels komu upp úr 1880. Þá var landið strjálbyggt, Arabar hírðust flestir í hreysum í þorpum, og Bedúínar flökkuðu um á úlföldum. Keyptu gyðingarnir sér land og græddu upp eyðimerkur. Smám saman fjölgaði gyðingum í landinu, en það varð umboðssvæði Breta eftir fyrri heimsstyrjöld. Ríki heims skiptust þá í tvennt, þau, sem vildu losna við gyðinga, og hina, sem vildu ekki taka á móti þeim. Voru gyðingar orðnir um þriðjungur landsmanna í lok Seinni heimsstyrjaldar.
Þá lögðu Sameinuðu þjóðirnar til, að landinu yrði skipt í tvö ríki, gyðinga og Araba. Gyðingar samþykktu það, en Arabaríkin ekki, og þegar Ísraelsríki var stofnað árið 1948, réðust fimm Arabaríki á það. Ísrael vann sigur á ofureflinu, en Jórdanía hernam vesturbakka Jórdanár og Egyptaland Gasa-svæðið. 800 þúsund gyðingar flýðu frá Arabaríkjunum til Ísraels og 700 þúsund Arabar frá Ísrael til Arabaríkjanna, sem veittu þeim ekki ríkisborgararétt, heldur geymdu þá í flóttamannabúðum. Margir Arabar urðu þó eftir í Ísrael, og eru þeir nú um tvær milljónir og njóta fullra réttinda. Í sex daga stríðinu árið 1967 hernam Ísrael Gasa-svæðið og vesturbakkann, en veitti síðar báðum svæðunum sjálfstjórn. Árið 2005 hvarf Ísraelsher burt frá Gasa-svæðinu, en íbúarnir kusu ári síðar yfir sig Hamas hryðjuverkasamtökin, sem hafa ekki haldið kosningar eftir það, heldur hafa stjórnað af hörku og meðal annars myrt marga arabíska keppinauta sína um völd. Ísraelsríki hefur hins vegar blómgast og dafnað, meðal annars vegna háþróaðs hugbúnaðargeira.

Hver er undirrótin?

Undirrót vandans er auðvitað, að eftir stríðið 1948 var flóttamönnum frá Ísrael ekki leyft að setjast að í Arabaríkjunum og hefja nýtt líf, heldur voru þeir geymdir í sérstökum búðum, þar sem eina iðja þeirra var að taka á móti matargjöfum og hata Ísrael. Á tuttugustu öld eru því miður mörg dæmi um, að tvær þjóðir hafi ekki unað því að búa saman í einu landi. Tyrkir ráku eina milljón grískumælandi manna burt árið 1922. Eftir Vetrarstríðið 1939–1940 flúðu 400 þúsund Finnar til Finnlands af þeim svæðum, sem Rússar lögðu undir sig. Tíu milljónir þýskumælandi manna voru reknar frá löndum Mið- og Austur-Evrópu árið 1945. Ein milljón frönskumælandi manna var rekin frá Alsír árið 1962. Allt var þetta sorglegt. En það er aðeins, þegar gyðingar eiga í hlut, að tíminn fær ekki að græða sárin. Hamas hryðjuverkasamtökin nærast á því hatri, sem til varð í flóttamannabúðunum. Þau vilja útrýma Ísrael. Árið 1945 var talið nauðsynlegt að ganga milli bols og höfuðs á nasistum, jafnvel þótt það hlyti að bitna á óbreyttum borgurum í Þýskalandi (en talið er, að allt að þrjár milljónir þeirra hafi fallið í Seinni heimsstyrjöld). Hamas eru engu betri en nasistar, og Ísraelsmenn eru ráðnir í að ganga milli bols og höfuðs á þeim, jafnvel þótt það hljóti að bitna á óbreyttum borgurum, en margir reyna að koma í veg fyrir, að þeir fái að sigra í þessu stríði.
Mannskæð átök eru um allan heim. Um þessar mundir er háð hrottalegt borgarastríð í Súdan, þar sem rösklega ellefu milljónir manna eru innan landsins á flótta undan stríðandi fylkingum, en fjórum milljónum hefur tekist að flýja til grannríkjanna. Uppreisnarherinn reynir skipulega að útrýma Masalítum, sem er minnihlutahópur á Vestur-Darfur svæðinu, og virðist þar vera um tilraun til þjóðarmorðs að ræða. Hvers vegna er sjaldan á þetta minnst, þótt Tómas hafi ort, að hjörtunum svipi saman í Súdan og Grímsnesinu? Ég held, að skýringin sé einföld. Hatrið á Ísrael er trúarlegs eðlis og snýst ekki um neinar staðreyndir eða lögmál. Ísrael er eina vestræna ríkið á þessum slóðum, og þeir Vesturlandabúar, sem hafna heimi sínum, líður illa í eigin landi, telja sig hafa orðið undir í lífinu, hata það þess vegna. Þeirra gömlu draumríki eru horfin. Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur, Kína hafnaði kommúnismanum, og á Kúbu og í Norður-Kóreu stjórnar erfðaaðall, ættirnar Castro og Kim. Palestína er hið nýja draumríki, og barátta Palestínu-Araba gegn Ísrael verður um leið barátta róttækra vinstri manna á Vesturlöndum gegn öllu því, sem þeir hata. Hún verður barátta gegn frjálsum viðskiptum, einkaeignarrétti, takmörkuðu ríkisvaldi, vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda, hagvexti, fólki, sem vegnar vel.

(Grein í Morgunblaðinu 20. ágúst 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.6.2025 - 15:20 - Rita ummæli

Tveir útverðir

Ísland og Finnland eru útverðir Norðurlanda. Þjóðhetja Íslendinga, Jón Sigurðsson, barðist fyrir sjálfstæði með orðum. Annað átti hin litla þjóð hans ekki. Jón þekkti sögu þjóðar sinnar út í hörgul. Hann setti fram þá kenningu, að Íslendingar hefðu samið við Noregskonung árið 1262. Sá samningur hefði fallið úr gildi við einveldishyllingjuna árið 1662, en öðlast aftur gildi, er Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848. Jón benti enn fremur á, að Íslendingar ættu sér eigin tungu, bókmenntir og sögu. Þeir þekktu í þriðja lagi aðstæður betur en skriffinnar í Kaupmannahöfn.

Þjóðhetja Finna, Carl Gustaf Mannerheim, varði hins vegar sjálfstæði lands síns í fjórum stríðum. Fyrst barði hann niður valdaránstilraun kommúnista árið 1918. Síðan varði hann Finnland frækilega gegn herliði Stalíns í Vetrarstríðinu 1939–1940. Þá stjórnaði hann Finnlandsher í Framhaldsstríðinu svonefnda við Ráðstjórnarríkin 1941–1944. Loks stjórnaði hann hernum í stríði við Þjóðverja árið 1944. Í síðustu dagskipun sinni í Vetrarstríðinu sagði hann, að Finnar kynnu að hafa staðið í þakkarskuld við aðra Vesturlandabúa, en nú hefðu þeir greitt þá skuld að fullu.

Íslendingar varðveittu menningararf Norðurlanda, en Finnar stöðvuðu villimennina austrænu. Finnska skáldið Uuno Kailas orti árið 1931:

Á landamærunum opnast gjá.

Framundan Asía, austrið.

Að baki mér Evrópa, vestrið,

sem ég gæti sem útvörður.

 Svíar, Danir og Norðmenn búa að því, sem tveir útverðir þeirra lögðu fram.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júní 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.6.2025 - 23:02 - Rita ummæli

Mannerheim

Fáir Norðurlandabúar hafa átt ævintýralegri ævi en Carl Gustaf Mannerheim, en nýlega kom út á ensku ágæt ævisaga hans eftir Henrik Meinander. Hann fæddist árið 1867 og var sonur sænskumælandi greifa í Finnlandi, sem þá laut Rússakeisara. Mannerheim gekk í þjónustu keisarans og varð lífvörður ekkjudrottningarinnar, sem var dönsk konungsdóttir og bar þá nafnið Dagmar. Töluðu þau saman á sænsku. Mannerheim gat sér orð fyrir hugprýði í stríði Rússa og Japana árin 1904-1905. Eftir það sendi keisarinn hann í tveggja ára njósnarferð um Kína, dulbúinn sem þjóðháttafræðingur, og þar hitti hann meðal annars 13. Dalaí Lama (forvera 14. Dalaí Lama, sem enn er á lífi). Samdi Mannerheim yfirgripsmikla skýrslu um förina. Hann gegndi herþjónustu eftir það í Póllandi og víðar.

Eftir valdarán bolsévíka í Rússlandi í nóvember 1917 slapp Mannerheim við illan leik til Finnlands, sem lýsti yfir sjálfstæði í desember það ár. Þegar finnskir rauðliðar reyndu líka að ræna völdum, fól ríkisstjórnin honum að stjórna her landsins. Hinum reynda herforingja tókst að berja uppreisnina niður, og var Mannerheim ríkisstjóri í sex mánuði 1918-1919, en dró sig síðan í hlé. Hann var skipaður aftur yfir herinn árið 1933, og þegar Stalín réðst á Finnland í nóvemberlok 1939, þótti vörn hans frækileg. Finnum tókst nú ólíkt öðrum smáþjóðum í Evrópu að varðveita sjálfstæði sitt. Mannerheim átti eftir að stjórna finnska hernum í tveimur stríðum eftir það, við Stalín 1941-1944 og Hitler í árslok 1944. Hann var kjörinn forseti Finnlands seint á árinu 1944, sagði af sér vegna heilsubrests árið 1946 og lést árið 1951 og var þá orðinn þjóðhetja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júní 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.6.2025 - 23:01 - Rita ummæli

Ógildar undirskriftir?

Síðustu daga sína á bandarískum forsetastól náðaði Joe Biden fjölda manns, þar á meðal son sinn Hunter og embættismenn, sem stjórnað höfðu viðbrögðum við heimsfaraldrinum 2020-2021. En margar undirskriftir Bidens þessa daga voru gerðar með sjálfvirkum penna (autopen), svo að hann kom hvergi nærri. Jafnframt var forsetinn orðinn elliær og vissi sjaldnast sjálfur, hvað hann var að gera, þótt stundum bráði af honum. Þá vaknar sú spurning, hvort sumar náðanir Bidens hafi lagagildi, þótt sönnunarbyrðin sé þeirra, sem um það efast, og sé eflaust erfið.

Oygaard.StoltenbergÞetta leiðir hugann að öðru. Í febrúar 2009 réði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra norskan mann í embætti seðlabankastjóra þrátt fyrir ákvæði í 20. gr. stjórnarskrárinnar: „Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.“ Klækjarefir héldu því fram, að þetta ákvæði gilti ekki um Norðmanninn, því að hann hefði verið settur, ekki skipaður. En setning er tímabundin ráðning af allt öðrum ástæðum en þeim, að vanhæfur maður geti verið settur, ekki skipaður. Sigurður Líndal lagaprófessor benti líka á, að mörkin milli setningar og skipunar hefðu með tímanum orðið ógleggri. Hann rifjaði upp það skilyrði, sem Íslendingar settu Noregskonungi í Gamla sáttmála árið 1262, að embættismenn skyldu vera íslenskir. Þetta skilyrði var margítrekað næstu aldir, meðal annars í Áshildarmýrarsamþykkt 1496.

En höfðu þá peningaseðlar, sem báru undirskrift Norðmannsins, lagagildi? Hefðu borgararnir getað neitað að taka við þeim og látið á það reyna fyrir dómstólum? Hvernig hefði slíkt mál farið?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júní 2025. Myndin er af Norðmanninum (Øygaard) og norska forsætisráðherranum brosa gleitt í Seðlabankanum með skjaldarmerki Íslands í baksýn. Meira að segja í Gamla sáttmála 1262 áttu embættismenn að vera íslenskir.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.6.2025 - 23:00 - Rita ummæli

Tvö skólabókardæmi í fjölmiðlun

Ef fjölmiðlun er kennd af metnaði hér á landi hafa síðustu misseri bæst við tvö skólabókardæmi um óeðlileg vinnubrögð. Annað er hvernig bandarískir fjölmiðlamenn reyndu að leyna því eftir megni að Joe Biden Bandaríkjaforseti væri orðinn elliær. Hann kom ekki einu sinni leikaranum heimsfræga George Clooney fyrir sig. Nú upplýsa fjölmiðlamenn í þremur nýjum bókum að hann hafi aldrei stjórnað neinu í Hvíta húsinu. Sjálfvirkur penni hafi verið notaður til að skrifa undir lög, tilskipanir og náðanir. Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort til dæmis náðanir hans hafi eitthvert lagagildi.

Hin fámenna klíka sem stjórnaði í raun svarar af þjósti að engin dæmi séu til um rangar stórákvarðanir Bidens. En brottflutningur herliðs frá Afganistan fór afar klaufalega fram, og með því voru send skilaboð til Pútíns um svo mikla ringulreið á æðstu stöðum í Bandaríkjunum að hann gæti ráðist á Úkraínu. Það gerðist líka, um leið og Biden varð forseti, að straumur flóttamanna stórjókst yfir suðurlandamæri Bandaríkjanna.

Seinna dæmið er að Ríkisútvarpið reynir að fela að aðalheimild þess og jafnvel hin eina um átökin á Gasasvæðinu er hryðjuverkasamtökin Hamas. Ríkisútvarpið ber ýmsa aðila fyrir fréttum sínum en í ljós kemur við nánari athugun að þeim er öllum stýrt af Hamas. Margar þessar fréttir eru mjög ósennilegar. Talsmenn Palestínuaraba á Íslandi eru heldur aldrei spurðir hvers vegna þeir skori ekki á Hamas að láta lausa gíslana sem teknir voru 7. október 2023, en þá myndi þegar verið gert vopnahlé, og hvers vegna þeir áfellist ekki Hamas fyrir að skýla vígamönnum sínum í sjúkrahúsum (og geyma þar gísla). Það er raunar í alþjóðalögum að sjúkrahús hætta að vera griðastaðir sé stundaður frá þeim hernaður.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.6.2025 - 22:59 - Rita ummæli

Búdapest, maí 2025

Á ráðstefnu í Búdapest 13. maí 2025 rifjaði ég upp að ég hefði í æsku háð margar kappræður við íslenska ungkommúnista. Lauk ég þá ræðum mínum jafnan á vísuorðum eftir ungverska skáldið Sàndor Petöfi, sem hljóða svo í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar:

Upp nú lýður, land þitt verðu,

loks þér tvíkost boðinn sérðu,

þjóðar frelsi, þrældóms helsi,

þú sérð muninn: kjóstu frelsi.

Allir Ungverjar þekkja strax þessi vísuorð, sem ort voru árið 1848 og eru í þjóðsöng þeirra.

Á þessari ráðstefnu var mér falið að tala um alþjóðaviðskipti og tolla. Ég kvað frjáls alþjóðaviðskipti í senn stuðla að auðsæld og friðsæld. Þau stuðluðu að auðsæld vegna þess að skaparinn hefur dreift gæðum svo misjafnlega á löndin og mennina að einstaklingar og þjóðir verða að skiptast á slíkum gæðum. Og þau stuðluðu að friðsæld vegna þess að tilhneiging okkar til að skjóta á náungann minnkar ef við sjáum í honum væntanlegan viðskiptavin. Hitt væri vafamál að hin raunsanna kenning um frjáls alþjóðaviðskipti næði til Kínaveldis, sem lagt hefði undir sig lönd með vopnavaldi (Tíbet), færi þjösnalega fram í Suður-Kínahafi, hótaði árás á Taívan, skráði rangt gengi á gjaldmiðli sínum, nýtti þrælavinnu í vesturhéruðum sínum og beitti ýmsum brögðum í viðskiptum. Ég lét þó í ljós þá von að Norður-Ameríka og Evrópa gætu orðið eitt stórt fríverslunarsvæði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.5.2025 - 09:14 - Rita ummæli

Vínarborg, maí 2025

Á ráðstefnu í Vínarborg 12. maí 2025 sagði ég frá því, þegar við nokkrir námsmenn og félagar í Hayek Society í Oxford snæddum vorið 1985 kvöldverð með Friedrich A. von Hayek á Ritz gistihúsinu í Lundúnum. Hljómlistarmenn hússins komu til mín og hvísluðu þeirri spurningu að mér, hvaða lag þeir ættu að taka við borðið. Ég svaraði í hálfum hljóðum: „Vín, borg minna drauma“, en það er frægt lag (og ljóð) eftir Rudolf Sieczynski. Þegar Hayek heyrði lagið, færðist breitt bros yfir varir hans og hann hóf að syngja ljóðið á þýsku, enda þá ekki nema 86 ára.
Ég sagði síðan á ráðstefnunni, að gera mætti greinarmun á frjálshyggju og sósíalisma eftir draumum. Frjálshyggjumenn teldu, að hver maður ætti að fá að eiga sinn hógværa og óáleitna draum, um að finna vinnu við sitt hæfi, reka fyrirtæki, stofna fjölskyldu, smíða í tómstundum, en verkefnið væri að búa svo um hnúta, að slíkir draumar gætu ræst. Sósíalistar ættu sér hins vegar aðeins einn stóran og áleitinn draum fyrir alla, um fyrirmyndarríki, staðleysu, útópíu, sem neyða yrði alla með góðu eða illu til að lifa við og laga sig að, en þessi stóri draumur yrði jafnan að martröð vegna eðlislægrar vanþekkingar mannnanna.
Ég benti á, að Hayek gerði hina óumflýjanlegu vanþekkingu okkar hvers og eins að aðalatriði kenningar sinnar. En hann gerði líka grein fyrir því, hvernig ætti að ráða við þessa vanþekkingu: í tíma með því að nýta reynsluvit kynslóðanna, hefðir og venjur, og í rúmi með frjálsri verðmyndun á markaði, sem segði mönnum til um, hvar hæfileikar þeirra nýttust best.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.5.2025 - 15:24 - Rita ummæli

Reykjavík, maí 2025

Alþjóðleg ráðstefna var haldin í Reykjavík 8. maí 2025 vegna bókar minnar, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today, þar sem ég ber saman norrænu leiðina í alþjóðasamskiptum (sjálfsprottið samstarf við lágmarksafsal fullveldis) og hina evrópsku (aukna miðstýringu frá Brüssel).
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, setti ráðstefnuna og kvað fróðlegt að sjá Snorra Sturluson og Nikolaj F. S. Grundtvig talda á meðal hugmyndasmiða frjálshyggjunnar, eins og gert væri í bók minni.
Danski sagnfræðingurinn dr. David Gress benti á, að á nítjándu öld hefðu þjóðernishyggja og frjálshyggja átt samleið í Evrópu. En nú ynni hin umboðslausa framkvæmdastjórn Evrópusambandsins markvisst gegn þjóðríkjum, og væri almenningur óðum að komast á þá skoðun, að ekkert tillit væri tekið til hans í Brüssel.
Prófessor Alberto Mingardi frá Ítalíu ræddi um hugmyndir Luigis Einaudis, forseta Ítalíu 1948–1955, um frjálslynt bandalag Evrópuríkja, en því miður hefði Evrópusambandið stefnt í þveröfuga átt frá öndverðum tíunda áratug síðustu aldar, þegar þróun hófst úr ríkjasambandi í sambandsríki.
Borwick lávarður, sem situr í bresku lávarðadeildinni, lýsti hreyfingunni fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, en tilgangur hennar hefði umfram allt verið, að Bretland endurheimti sjálfstæði sitt, en þyrfti ekki að lúta erlendu miðstjórnarvaldi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, mælti lokaorð og sagðist ætla að berjast með oddi og egg gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.5.2025 - 15:24 - Rita ummæli

Hvert stefnir Evrópa?

Sjaldan hefur verið meiri óvissa í alþjóðamálum en um þessar mundir. Bandaríkin réðu úrslitum um, að Bandamenn sigruðu Öxulveldin í seinni heimsstyrjöld, og eftir það gátu Evrópuríkin löngum treyst því, að hinn öflugi her Bandaríkjanna, með vopnabúr fullt af kjarnorku- og vetnissprengjum, verði þau gegn ásælni rússneskra kommúnista. Smám saman óx þeirri skoðun þó fylgi í Bandaríkjunum, að þau ættu ekki að kosta varnir Evrópu, heldur Evrópuríkin sjálf, þótt það væri ekki fyrr en Donald Trump var kjörinn forseti, fyrst 2016 og síðan 2024, að bandarísk stjórnvöld hættu að sitja við orðin tóm. Nú verða Evrópuríkin að standa á eigin fótum, kosta sjálf sínar varnir. Jafnframt hefur Evrópusambandið breyst og ekki til batnaðar. Það var upphaflega stofnað til að sameina þjóðir Evrópu um að velja frekar verð en sverð, frekar viðskipti en hernað. Það vann stórvirki á fyrstu þrjátíu og fimm starfsárum sínum, frá 1957 til 1992, þegar innri markaður Evrópu varð til og samkeppni framleiðenda um hylli neytenda harðnaði öllum í hag. En á öndverðum tíunda áratug síðustu aldar skipti Evrópusambandið um ham. Það hætti að einbeita sér að frjálsum viðskiptum og tók þess í stað að setja atvinnulífi rammar skorður með þeim afleiðingum, að ríki sambandsins drógust stórlega aftur úr Bandaríkjunum í efnahagsmálum. Sambandið hlóð tollmúra í kringum Evrópu. Það olli gremju í Bandaríkjunum og varð Trump Bandaríkjaforseta hvatning til að hefja hið óheppilega tollastríð sitt. Enn fremur virðist svo um þessar mundir sem Vesturveldin standi ekki einhuga saman gegn hinum nýju öxulveldum, Rússlandi, Kína, Íran og Norður-Kóreu. Því má spyrja: Hvert stefnir Evrópa? Þetta verður rætt á fundi RSE, Rannsóknamiðstöðvar í samfélags- og efnahagsmálum, og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (Nasa) fimmtudaginn 8. maí kl. 16.30. Tilefni fundarins er nýútkomin bók mín, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today, sem íhaldsflokkarnir í Evrópu gáfu út í Brüssel og hlaða má upp af netinu.

David Gress: Til varnar þjóðríkinu

DavidGressEinn frummælandi er danski sagnfræðingurinn dr. David Gress. Hann hefur verið fræðimaður á Hoover-stofnuninni í Kaliforníu (þar sem ég kynntist honum fyrst) og víðar og gefið út fjölda bóka, en hér nefni ég aðeins tvær. Í bókinni From Plato to Nato: The Idea of the West and its Opponents (Frá Plató til Nató. Hugmyndin um vestrið og óvinir þess) gagnrýnir Gress þá söguritun, sem dregur beina línu frá ritum grísk-rómverskra höfunda til bandarísku byltingarmannanna 1776 og eftirmanna þeirra. Þessi söguritun kom meðal annars fram í byrjendanámskeiðum í bandarískum háskólum um vestræna menningu og í ritröðum um mestu bækur Vesturlanda. Gress telur, að í þessa söguritun vanti hinar germönsku og kristnu rætur vestrænnar menningar. Frelsið sé ekki óhlutbundið hugtak, sem svifið hafi yfir vötnum í aldanna rás, heldur hafi það smám saman myndast í germönskum ættbálkum, þar sem allir voru jafnir og lögin voru sammæli, ekki fyrirmæli að ofan. Vestræn menning sé samþætting þriggja meginstrauma, hins grísk-rómverska, kristna og germanska. Ég er sammála honum um, að hinar germönsku rætur frjálshyggjunnar hafi verið vanmetnar, til dæmis hugmyndir Snorra Sturlusonar um, að valdhafar þurfi umboð þegna sinna og séu réttrækir, brjóti þeir alvarlega lög og venjur í ríkjum sínum.

Í bókinni EU Europas fjende (Evrópusambandið: Óvinur Evrópu) gagnrýnir Gress harðlega þróun Evrópusambandsins frá 1992, þegar það hefur verið að reyna að breytast úr ríkjasambandi í sambandsríki, úr opnum markaði í lokað ríki. Gress telur, að Evrópusambandið hafi villst af leið. Það íþyngi atvinnulífinu með sífellt fleiri og lengri reglugerðum. Það sé undir áhrifum umhverfisöfgafólks, sem vilji stöðva hagvöxt, og svokallaða fjölmenningarsinna, sem fjandskapist við kristna trú, þjóðmenningu og þjóðríki. Ef svo fer sem horfir, muni múslimar taka stjórn í voldugustu Evrópulöndunum, en margt í menningu þeirra sé andstætt menningu okkar, til dæmis kvenfyrirlitning og andúð á sparsemi, vinnusemi og hagvexti. Að þessu stuðlar holskefla innflytjenda frá múslimaríkjum, segir Gress. Í hinni nýútkomnu bók minni er kafli um einn landa Gress, Nikolai F. S. Grundtvig, sem var frjálslyndur stuðningsmaður þjóðríkisins. Fróðlegt verður að vita, hvað Gress segir um framtíð þjóðríkisins í Evrópu.

Alberto Mingardi: Frjálslynt Evrópusamband

AlbertoMingardiAnnar frummælandi er ítalski heimspekingurinn dr. Alberto Mingardi, sem er sérfræðingur í ritum Herberts Spencers, en hefur líka skrifað um margt annað. Mingardi er forstöðumaður Bruno Leoni stofnunarinnar í Mílanó (sem fornmenn kölluðu Melansborg) og prófessor í háskóla upplýsingatækni og tungumála, UILM, í sömu borg. Hann er jafnframt gistifræðimaður í Cato stofnuninni í Washington-borg og ritari Mont Pelerin samtakanna, sem Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman og Karl R. Popper stofnuðu í Sviss árið 1947, en þau eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem hittast reglulega. Í hinni nýútkomnu bók minni er einmitt kafli um einn stofnanda samtakanna, vin Hayeks, Luigi Einaudi, sem þá var seðlabankastjóri Ítalíu, en var forseti landsins 1948–1955. Einaudi var frjálslyndur hagfræðingur og er almennt talinn einn af „feðrum Evrópusambandsins“.

Einaudi var alþjóðahyggjumaður, heimsborgari. Hann vildi sem von var, að Evrópuríkin hættu að fórna ótal lífum ungra og efnilegra manna í stríðum. Þess í stað ættu þau að stofna ríkjasamband, þótt þjóðríkin skyldu standa áfram. En hann taldi, að lauslegt bandalag eins og Þjóðabandalagið milli stríða væri allt of veikt til að geta tryggt frið og frjáls viðskipti. Sjálfur hef ég þó varpað fram þeirri hugmynd, að Evrópusambandið hefði frekar átt að leita fyrirmyndar um framtíðarþróun  í Norðurlandaráði en Bandaríkjunum. Norðurlandaráð hefur verið vettvangur sjálfsprottinnar samhæfingar aðildarlandanna í hægum skrefum með lágmarksafsali fullveldis. Í bók minni reifa ég einmitt „norræna leið“ í alþjóðamálum, sem gæti átt erindi til alls heims. 1) Réttur til aðskilnaðar: Noregur 1905, Finnland 1917, Ísland 1918. 2) Landamærabreytingar við atkvæðagreiðslur: Slésvík 1920. 3) Sjálfstjórn þjóðabrota: Álandseyingar, Samar, Færeyingar, Grænlendingar. 4) Dómstólar skera úr deilumálum: Um Álandseyjar 1921 og Austur-Grænland 1933.

Borwick lávarður: Útganga Breta úr ESB

BorwickÞriðji frummælandinn er gamall vinur minn úr Mont Pelerin samtökunum, Jamie Borwick lávarður, fimmti barón af Borwick. Hann er einn af þeim níutíu aðalsmönnum, sem kjörnir eru til setu í deildinni, og skipar sér þar í röð íhaldsmanna. Eiginkona hans, Victoria, hefur raunar setið á þingi líka fyrir Íhaldsflokkinn. Borwick hefur stundað ýmis störf og setið í mörgum stjórnum, en um skeið rak hann fyrirtækið, sem framleiðir svörtu leigubílana í Lundúnaborg. Hann var eindreginn stuðningsmaður útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit.

Borwick hefur áreiðanlega margt að segja. Þótt Evrópusambandið hafi í orði kveðnu virt réttinn til aðskilnaðar, hefur það reynt eftir megni að torvelda útgöngu Breta úr sambandinu, og við það bætist, að áhrifamikill hópur úr bresku valdastéttinni hefur unnið markvisst gegn öllum tilraunum til að nýta þau tækifæri, sem útgangan veitti. Þeim aðilum í Bandaríkjunum, sem vilja sem minnst af öðrum löndum vita, hefur einnig vaxið ásmegin. Bretland stendur því að sumu leyti eitt í Evrópu, svipað og Ísland og Noregur, þótt öll séu löndin raunar í Atlantshafsbandalaginu. Samherji Borwicks í lávarðadeildinni, Daniel Hannan lávarður, hefur því varpað fram þeirri hugmynd, að þau bresku samveldislönd, sem líkust eru að menningu, Ástralía, Nýja Sjáland, Kanada og Stóra Bretland, stofni bandalag, sem stundi fríverslun og komi sér upp sameiginlegum vörnum, efli meðal annars kjarnorkuvopnabirgðir Breta, þótt það yrði að vísu mjög kostnaðarsamt. Það væri forvitnileg spurning, hvort Ísland ætti þar heima, jafnframt því sem það myndi treysta varnarsamstarfið við Bandaríkin og innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta gæti allt farið saman. Auðkýfingurinn Elon Musk hefur síðan varpað fram annarri athyglisverðri hugmynd, að Norður-Ameríka og Evrópa (vestan Rússlands og Hvíta-Rússlands) stofni eitt risastórt fríverslunarsvæði án tolla og annarra takmarkana á verslun.

Umbætur á Evrópusambandinu

Í hinni nýútkomnu bók minni ver ég þjóðríkið með sömu rökum og Grundtvig, sem einingarafl og vettvang til að rækta það, sem okkur er eiginlegt og okkur þykir æskilegt. Þar reifa ég einnig hina norrænu leið í alþjóðamálum og geri tillögur um umbætur á Evrópusambandinu, sem gætu hleypt nýju lífi í það. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, mælir nokkur orð í byrjun fundarins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í lok fundarins, en jafnframt bregðast tveir ungir menn við orðum ræðumanna, þeir Haakon Teig, leiðtogi norskra íhaldsstúdenta, og Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, en fundinum stýrir Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður. Í móttökunni eftir fundinn mun ég flytja minni Hayeks, sem á afmæli 8. maí.

(Grein í Morgunblaðinu 7. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.5.2025 - 15:23 - Rita ummæli

Þegar sósíalisminn var stöðvaður

Þegar ég var í háskóla fyrir fimmtíu árum, var oft bent á Svíþjóð sem dæmi um vel heppnaðan sósíalisma, en öllum var ljóst, að sósíalisminn hefði misheppnast í Rússlandi, Kína og fylgiríkjum þeirra. Því fór þó fjarri, að Svíar hefðu hrundið í framkvæmd sósíalisma. Laust eftir miðja nítjándu öld höfðu frjálshyggjumenn eins og Johan August Gripenstedt og Louis De Geer völd, og þeir gerbreyttu Svíþjóð, snarjuku þar atvinnufrelsi með þeim afleiðingum, að hagvöxtur varð þar næstu hundrað ár einn hinn örasti í heimi.
Jafnaðarmenn komust að vísu til valda í Svíþjóð 1932, en fóru varlega og höfnuðu stéttabaráttu. Eftir heimskreppuna og heimsstyrjöldina seinni vildu þó sumir þeirra undir forystu hagfræðingsins Gunnars Myrdals taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap. En þá var þýdd á sænsku bók, þar sem ensk-austurríski hagfræðingurinn Friedrich A. von Hayek færði rök fyrir því, að slíkur áætlunarbúskapur væri „leiðin til ánauðar“. Bókin olli hörðum deilum (planhushållningsdebatten). Einn þeirra, sem snerist á sveif með Hayek, var mælskugarpurinn og stjórnmálafræðiprófessorinn Herbert Tingsten.
Vorið 1945 hlustaði ungur íslenskur sósíalisti í Svíþjóð, Jónas H. Haralz, á Tingsten deila í útvarpi við einn kennara sinn, jafnaðarmanninn Karin Kock. „Féll mér þungt hversu grátt Tingsten tókst að leika Karinu Kock með beittum málflutningi sínum, en ég var að sjálfsögðu hliðhollur sjónarmiðum hennar,“ skrifaði Jónas síðar. Sænskir jafnaðarmenn hurfu næstu ár frá hugmyndum um miðstýrðan áætlunarbúskap og féllu í sitt fyrra far. Myrdal hraktist frá Svíþjóð. Sósíalisminn var stöðvaður. Það var síðan kaldhæðni örlaganna, að þeir Hayek og Myrdal deildu saman Nóbelsverðlaunum í hagfræði árið 1974.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir