Laugardagur 14.12.2024 - 06:06 - Rita ummæli

Stjórnarmyndun

Nú vinna leiðtogar þeirra þriggja flokka, sem juku mest fylgi sitt í þingkosningunum 30. nóvember 2024, að stjórnarmyndun, þær Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland. Samsteypustjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins undir forsæti Kristrúnar er vissulega annar af tveimur rökréttum möguleikum eftir kosningarnar. Hinn er samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Í rauninni ræður Viðreisn því, hvor möguleikinn verður að veruleika, en hún virðist afhuga samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk, þótt skammt sé milli flokkanna þriggja í efnahagsmálum.

Á Íslandi hafa stjórnarmyndanir þó iðulega verið eins og langdregin leikrit, sem stjórnmálaflokkar setja á svið til þess að þurfa ekki að efna gáleysisleg loforð. Stundum hafa þær tekið óvænta stefnu, þegar hefur komið að vali forsætisráðherra. Til dæmis gátu þeir Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, og Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvorugur unnt hinum þess að skipa öndvegi árið 1947, og varð því leiðtogi minnsta flokksins, Alþýðuflokksmaðurinn Stefán Jóhann Stefánsson, forsætisráðherra. Svipað gerðist árið 1978, þegar sigurvegarar kosninganna það ár, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, gátu hvorugur sætt sig við stjórnarforystu hins, svo að Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, myndaði stjórn með þeim, þótt flokkur hans hefði goldið afhroð.

Nú er hins vegar ljóst, að valið er milli Kristrúnar og Bjarna og langlíklegast, að Kristrún myndi stjórn. En um hvað?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.12.2024 - 05:42 - Rita ummæli

Tímamót í stjórnmálasögunni?

Lífið er, eins og Milan Kundera sagði, ganga inn í þoku, þar sem við sjáum allt skýrt, þegar við horfum um öxl, en óglöggt hitt, sem framundan er. En hugsanlega marka þingkosningarnar 30. nóvember tímamót í stjórnmálasögunni. Nú er aðeins einn yfirlýstur vinstri flokkur eftir á þingi með 21 af hundraði atkvæða, Samfylkingin, en undir nýrri forystu hefur hann hallast talsvert til hægri. Allt frá því í þingkosningunum 1931 hafa fjórir flokkar keppt um atkvæði kjósenda, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag (og forverar þess, kommúnistaflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn).

Það er álitamál, hvort þessum fjórum flokkum fækkaði í þrjá árið 1999, þegar Samfylkingin var stofnuð með samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og tveggja smáflokka, eða hvort það gerðist núna, þegar Vinstri grænir duttu af þingi. Var hinn rétti arftaki Alþýðubandalagsins Samfylkingin, eða var hann Vinstri grænir? Þótt Samfylkingin hefði erft digra sjóði Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, minntu Vinstri grænir óneitanlega meira á hið gamla Alþýðubandalag en Samfylkingin. Andspænis Samfylkingunni standa nú fimm flokkar, sem allir eru mið- eða mið-hægri flokkar.

Þegar litið er til skamms tíma, var ríkisstjórninni 2021–2024 afdráttarlaust hafnað. Vinstri grænir hurfu nánast, og Framsóknarflokkurinn missti meira en helming síns fylgis. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði um fimmtungi síns fylgis, og fór þó betur en á horfðist. En furðulegt var að heyra Þorstein Pálsson og fleiri spekinga halda því fram í kosningasjónvarpi Stöðvar tvö, að nú væri Sjálfstæðisflokkurinn í fyrsta sinn ekki stærsti flokkurinn. Þeir muna ekki, að hið sama gerðist í þingkosningunum 2009. Stjórnmálasagan sýnir okkur síðan, að flokkar, sem stofnaðir eru utan um menn frekar en málefni, endast illa, og gætu það orðið örlög Miðflokksins og Flokks fólksins, eins og varð um Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkinn og Þjóðvaka. Hver veit, hvað býr í þokunni?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. desember 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.11.2024 - 05:39 - Rita ummæli

Hugleiðingar á kjördag

Mér varð í kosningabaráttunni hugsað til orða Sigurðar Nordals í Íslenskri menningu árið 1942. „Háski sá, sem vofir yfir lýðræði nútímans og hefur víða gert það svo valt, er framar öllu fólginn í fláttskapnum, þegar almenningi er talin trú um, að hann sé kúgaður samkvæmt umboði frá honum sjálfum, eða hann er fyrst féflettur og síðan látinn þiggja sína eigin eign í mútur og náðargjafir,“ skrifaði Sigurður. „Allmargt má ganga á tréfótum um afkomu manna til þess að sá kostur sé betri að svipta þá dug og forsjá til frjálsrar sjálfbjargar og sambjargar.“

Það var ekki út í bláinn, þegar bandaríski blaðamaðurinn H. L. Mencken kvað kosningar vera uppboð á fyrirframstolnum munum. Frægur varð einn frambjóðandi Alþýðuflokksins, þegar hann var á framboði í Dalasýslu árið 1949. Fór hann á milli bæja með aðstoðarmanni sínum og spurði bændur, hvort þá vanhagaði ekki um eitthvað. Einhver þeirra dró seiminn og sagði, að flugvöll vantaði að vísu í sýsluna. Frambjóðandinn sneri sér að aðstoðarmanninum og sagði: „Skrifaðu flugvöll.“

Sigurður Nordal vék aftur að lýðræðinu í útvarpserindi 1957. „Ef fólki er innrætt, að ríkið eigi að leysa og geti leyst öll þess vandamál, fer það að lokum að kenna ríkinu um öll sín mein. Hvort tveggja er vitanlega jafnfjarstætt. Það verður bæði að grafa dýpra, skyggnast víðar um og seilast hærra en ríkisvaldið getur nokkurn tíma náð til þess að finna brýnustu þarfirnar, mestu verðmætin, alls konar mannlegt böl og bölvabætur.“

Í kosningabaráttu vilja oft gleymast takmarkanir lýðræðisins. Það er ekki allra meina bót, heldur friðsamleg aðferð til að skipta um valdhafa, sé þess talin þörf. Hitt er annað mál, að stundum verður í kosningum að velja skárri kost af tveimur. „Haldið fyrir nefið og kjósið Kristilega lýðræðisflokkinn,“ sagði ítalski blaðamaðurinn Indro Montanelli árið 1976, þegar hætta var á, að kommúnistaflokkurinn kæmist í stjórn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.11.2024 - 06:22 - Rita ummæli

Trump er ekki fasisti

Orðið „fasismi“ er nú lítið annað en skamm­ar­yrði. Það er þó ómaks­ins vert að leita sögu­legr­ar merk­ing­ar þess. Fasismi ein­kenn­ist að sögn banda­ríska sagn­fræðings­ins Stan­leys Paynes af þrennu: 1) and­stöðu við frjáls­lynd­is­stefnu, íhalds­stefnu og komm­ún­isma; 2) til­raun til að taka stjórn á öll­um sviðum þjóðlífs­ins og beina kröft­um að ágengri ut­an­rík­is­stefnu; 3) róm­an­tískri dýrk­un á of­beldi, karl­mennsku, æsku­fjöri og um­fram allt öfl­ug­um leiðtog­um, sem virkjað gætu fjöld­ann til sam­virkr­ar framn­ing­ar.

Sam­kvæmt þessu voru Mús­sólíní og Hitler vita­skuld fas­ist­ar. En er Don­ald Trump það? Því fer fjarri. Trump er að vísu and­stæðing­ur komm­ún­isma, en sæk­ir margt í frjáls­lynd­is­stefnu (lækk­un skatta) og íhalds­stefnu (stuðning við fjöl­skyld­una). Hann vill tak­marka hlut­verk rík­is­ins og hafn­ar ágengri ut­an­rík­is­stefnu, en tel­ur, að Evr­ópu­rík­in eigi að kosta sjálf varn­ir sín­ar, eins og eðli­legt er. Hann dreg­ur að vísu upp þá mynd af sér, að hann sé öfl­ug­ur leiðtogi, en hann vill einkum virkja einkafram­takið, ekki fjöld­ann.

Hvað er Trump þá? Hann er po­púlisti, fylg­ismaður lýðstefnu, þótt spurn­ing­in sé, hvort hann meti meira lýðhylli en lýðskrum, að finna og fram­kvæma vilja kjós­enda frek­ar en egna þá upp og æsa. Jafn­framt jaðrar Trump við að vera for­ræðissinni, aut­ho­rit­ari­an.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.11.2024 - 06:01 - Rita ummæli

Fiskur, fé og farsæld

Í dag, fimmtudaginn 7. nóvember 2024, gefur Almenna bókafélagið út bókina Fish, Wealth, and Welfare (Fiskur, fé og farsæld) eftir Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands. Hefur hún að geyma tíu merkustu ritgerðir Ragnars á ensku í fiskihagfræði, en eins og prófessor Gary Libecap sagði í viðtali við Morgunblaðið haustið 2023, er Ragnar einn virtasti fiskihagfræðingur heims. Jafnframt starfi sínu í Háskólanum hefur hann verið sérfræðingur Alþjóðabankans í grein sinni og gefið út um 200 fræðilegar ritgerðir, skýrslur og bækur. Ritstjóri hinnar nýju bókar er dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Á morgun, föstudaginn 8. nóvember, halda hagfræðideildin og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, alþjóðlega ráðstefnu um fiskihagfræði í hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 16 til 18, og verða bornar fram veitingar í anddyrinu að ráðstefnunni lokinni. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Frummælendur eru auk Ragnars prófessorarnir Rögnvaldur Hannesson og Trond Bjorndal, en í pallborði verða prófessor Peder Andersen, Kaupmannahafnarháskóla, Árni M. Mathiesen, fyrrverandi aðstoðarforstjóri FAO, og Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður. Verður tækifærið á morgun notað til að afhenda bók Ragnars áskrifendum.

Hver var ofveiðivandinn?

Ekki þarf að hafa mörg orð um, hversu mikilvæg hagkvæm nýting fiskistofna er á Íslandi, sem Ketill flatnefur kallaði þegar á níundu öld veiðistöð. Sjálfur fór ég ekki að hugsa um þetta mál af neinni alvöru fyrr en á ráðstefnu Stjórnunarfélagsins um „Ísland árið 2000“, sem haldin var á Þingvöllum haustið 1980. Þá sagði Haraldur Ólafsson mannfræðingur þann vanda óleystan, hvernig koma ætti í veg fyrir ofveiði á Íslandsmiðum. Hefðu Íslendingar þurrausið fiskistofnana, þegar komið væri fram á árið 2000? Yrði ríkið ekki að taka nú þegar í taumana? Ég varpaði því fram, hvort ekki mætti leysa ofveiðivandann á sama hátt og annan ofnýtingarvanda auðlinda, með því að skilgreina einkanýtingarrétt einstaklinga og þá væntanlega útgerðarmanna sjálfra á hinum ofnýttu gæðum, fiskimiðum eða fiskistofnum. Sótti ég þetta ráð í smiðju austurrísku hagfræðinganna Ludwigs von Mises og Friedrichs A. Hayeks, en ég hafði sökkt mér niður í rit þeirra.

Óspart var gert gys að þessu á ráðstefnunni og síðan í Þjóðviljanum, en ritstjóri hans, Árni Bergmann, var einn ráðstefnugesta. Það er hins vegar fróðlegt, að á sama tíma fór Ragnar Árnason aðra leið, en að sama marki, með strangvísindalegum rannsóknum í fiskihagfræði, studdum stærðfræði. Hann lauk doktorsprófi í auðlindahagfræði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu árið 1984, og þegar sérstakt prófessorsembætti var stofnað í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, var Ragnar skipaður í það, gegndi því til sjötugs og er enn að, sjötíu og fimm ára.

Breski hagfræðingurinn Arthur C. Pigou lýsti hinum almenna ofnýtingarvanda með frægu dæmi í bók sinni Farsældarfræði (The Economics of Welfare) árið 1920. Tveir misgóðir vegir liggja milli tveggja staða. Betri vegurinn er þröngur, verri vegurinn víður. Pigou benti á, að umferðin myndi ekki skiptast á hagkvæman hátt milli veganna tveggja. Þröngi vegurinn yrði ofnýttur, víði vegurinn vannýttur. Ástæðan var, að hver og einn ökumaður tók ekki með í reikninginn kostnaðinn af öðrum ökumönnum. Þeir þyrptust því allir á betri veginn og eyddi ábatanum af því að fara um hann. Það gerðu þeir með umferðartöfum og öðrum kostnaði af ofnýtingu. Lausn Pigous var, að ríkið innheimti vegartoll af betri veginum, sem endurspeglaði ábatann af honum.

Yfirsjón um auðlindaskatt

Þeir íslensku hagfræðingar, sem fyrstir skrifuðu um ofveiðivandann, þeir Bjarni Bragi Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason, færðu þessa greiningu Pigous óbreytta yfir á fiskveiðar. Ef útgerðarmenn sæktu tvö misgóð fiskimið, þá myndu þeir ofnýta betri miðin og vannýta hin verri. Þeir tækju ekki með í reikninginn kostnaðinn af sókn annarra. Lausn þeirra Bjarna Braga og Gylfa var auðlindaskattur, sem ríkið myndi innheimta af útgerðarmönnum og ætti að endurspegla ólík gæði ólíkra fiskimiða í samanburði við önnur knöpp gæði, sem menn nýttu sér til ávinnings. Auðlindaskatturinn var þannig sama eðlis og vegartollur Pigous.

Bandaríski hagfræðingurinn Frank H. Knight benti hins vegar árið 1924 á yfirsjón í greiningu Pigous. Honum hafði sést yfir þann möguleika, að vegirnir misgóðu væru í einkaeigu. Þá myndi eigandi betri vegarins innheimta hærri vegartoll af honum en eigandi verri vegarins og umferðin skiptast sjálfkrafa á hagkvæman hátt milli veganna tveggja. (Pigou fjarlægði þegjandi og hljóðalaust þetta dæmi úr næstu útgáfu bókar sinnar.) Árið 1990 birti Ragnar Árnason tímamótaritgerð í Canadian Journal of Economics, sem er fyrsta greinin í hinni nýju bók hans, og þar tekur hann upp þráðinn frá Knight. Hann bendir á, að auðlindaskattur í anda Pigous krefjist miklu meiri upplýsinga en embættismenn í opinberri fiskistofu ráði yfir. Hins vegar sé til einföld aðferð til að takmarka aðgang að fiskimiðum, svo að nýting þeirra verði hagkvæm. Hún sé að úthluta framseljanlegum og ótímabundnum nýtingarréttindum á fiskistofni til útgerðarmanna og setja leyfilegan hámarksafla úr stofninum á hverri vertíð á þann hátt, að þessi réttindi verði í heild sem verðmætust. Þannig spari fiskistofumenn sér að afla margvíslegra upplýsinga, sem sé hvort sem er erfitt eða ókleift að tína saman. Í stað þess að ríkið stjórni veiðunum geti það látið sér nægja að setja um þær almennar reglur.

Á Íslandi höfðu útgerðarmenn og embættismenn raunar smám saman verið að þreifa sig áfram í átt að svipaðri lausn árin á undan, og hún var lögfest með heildarlögum um fiskveiðar vorið 1990. Þetta var ekkert annað en hið margrædda og umdeilda kvótakerfi í sjávarútvegi, sem síðan hefur skilað stórkostlegum árangri. Þótt þetta kerfi hafi því frekar verið niðurstaða aðferðar happa og glappa en alsköpuð gyðja, sem sprottið hafi úr höfði vitringa eins og Aþena úr höfði Seifs forðum, munaði mjög um, að þeir Ragnar Árnason og Rögnvaldur Hannesson lögðu sitt lóð á vogarskálina, veittu góð ráð, útskýrðu kerfið.

Einkaeignarréttur á auðlindum

Þegar litið er yfir greinarnar í hinni nýju bók Ragnars Árnasonar, sést, að hann hefur með árunum lagt sífellt meiri áherslu á einkaeignarrétt á auðlindum til tryggingar hagkvæmri nýtingu þeirra. Hann bendir á, að slíkur réttur sé forsenda frjálsra viðskipta og því upphaflegri en þau. Menn færðu sig af hirðingjastiginu, þegar eignarréttur myndaðist á landi og kvikfénaði með girðingum og merkingum (fencing and branding), en eftir það gátu þeir skipst á frjálsum markaði á þeim varningi, sem þessi gæði gáfu af sér. Því traustari og betur varinn sem einkaeignarréttur á auðlindum sé, því hagkvæmari verði nýting þeirra til langs tíma litið. Það, sem stundum sé kallað „markaðsbrestur“ (market failure), þegar erfitt virðist eða ókleift að stunda frjáls viðskipti með gæði, stafi iðulega af því, að ekki hafi myndast einkaeignarréttur á slíkum gæðum. Dæmi Pigous um vegina tvo var eins og Knight benti á um, að vegirnir voru ekki í einkaeigu, svo að aðgangur að þeim var ekki verðlagður í samræmi við misjafna kosti þeirra. Annað dæmi er mengun í ám eða vötnum. Ástæðan er sú, að enginn á og gætir þessara gæða. Þriðja dæmið eru dýr í útrýmingarhættu, svo sem fílar og nashyrningar í Afríku. Enn er ástæðan, að enginn á þessa stofna og gætir þeirra. Umhverfisvernd krefst umhverfisverndara.

Mikilvægt er einnig að horfa ekki aðeins á gæðin af sjónarhóli samtímans, miðað við núverandi nýtingarkosti og tiltæka tækni. Þegar einkaeignarréttur er á slíkum gæðum, geta eigendurnir látið reyna á nýja nýtingarmöguleika, þróað nýja tækni. Sköpunarmáttur hins frjálsa markaðar er aðallega vegna þess, að hann er eins og risastór tilraunastofa, þar sem menn prófa sig áfram, bera sig saman við aðra, keppa við aðra með því að keppast við sjálfir, öðlast nýja þekkingu og taka í notkun nýja tækni. Til þess þarf einkaeignarrétt, fjárfesta, frumkvöðla.

Uppboðsleiðin óraunhæf

Þetta skiptir allt máli, þegar skoðaðar eru nýrri tillögur um aðra tilhögun veiða á Íslandsmiðum en þá, sem varð fyrir valinu. Sumir viðurkenna, að kvótakerfið sé að vísu hagkvæmt, en hin upphaflega úthlutun hafi verið ranglát. Eðlilegast hefði verið, segja þeir, að ríkið hefði boðið upp nýtingarréttindin, veiðileyfin, aflakvótana. En uppboðssinnum yfirsést úrlausnarefnið. Það var, hvernig ætti að takmarka aðgang að takmörkuðum gæðum, sem höfðu lengi verið nýtt og voru nú greinilega ofnýtt. Talið var, þegar kvótakerfið var sett á í áföngum árin 1975–1990, að fiskiskipaflotinn væri nær tvöfalt stærri en hann þyrfti að vera. Breyta þurfti þó fyrirkomulagi fiskveiða á þann hátt, að sem minnst röskun yrði á högum þeirra, sem nýttu höfðu fiskimiðin. Hefði miðunum skyndilega verið lokað, eftir að þau höfðu öldum saman verið opin, en aðgangur síðan verið boðinn upp og verð haft nógu hátt til þess, að helmingur fiskiskiptaflotans hefði strax orðið að hætta veiðum (eins og lagt var til), þá hefði helmingur útgerðarfyrirtækjanna þurft að horfa upp á, að fjárfestingar þeirra í skipum, veiðitækjum og mannauði hefðu skyndilega orðið verðlausar. Það gefur augaleið, að ekkert samkomulag hefði orðið um slíka breytingu.

Eðlilegasta úthlutunaraðferðin var auðvitað svokölluð afaregla (grandfathering), sem var úthlutun eftir aflareynslu. Þeir, sem veitt höfðu til dæmis fimm af hundraði heildarafla í fiskistofni síðustu árin á undan, fengu heimild til að veiða fimm af hundraði leyfilegs hámarksafla á vertíðinni. Ólíkt uppboðsleiðinni var afareglan Pareto-hagkvæm, en með því er átt við, að við breytinguna, hagræðinguna, var hagur einskis manns skertur, en hagur að minnsta kosti sumra mjög bættur, eins og kom á daginn á Íslandi.

Hlunnindi í almenningi

Nú segja sumir að vísu, að hagur þjóðarinnar hafi verið skertur með kvótakerfinu, því að fámennum hópi útgerðarmanna hafi verið afhent öll nýtingarréttindi á Íslandsmiðum, sem séu lögum samkvæmt í þjóðareign. En þá er þess að gæta, að í raun og veru var enginn réttur tekinn af öðrum, þegar fiskimiðunum var lokað, því að eini rétturinn, sem hvarf úr sögu, var rétturinn til að gera út á núlli, eins og fiskihagfræðingar höfðu sýnt fram á: Við ótakmarkaðan aðgang að fiskimiðum jókst sóknin upp að því marki, að allur ábati af veiðunum hvarf í óþörfum kostnaði. Það var vitanlega enginn bættari við það, að þessi réttur til að gera út á núlli hyrfi. Spurningin er síðan, hvað orðið „þjóðareign“ merki og til hvers það vísi. Hugmyndin um þjóðareign auðlinda ætti að minnsta kosti ekki að merkja, að ríkið eigi auðlindirnar og nýti. Bolsévíkar komu með fádæma hörku á samyrkju í Rússlandi og Úkraínu, og það kostaði hungursneyðir á víðáttumikilli sléttu, sem var eins og sköpuð til akuryrkju. Olíulindir eru í eigu ríkisins í Mexíkó, en einstaklinga í Texas, og þó flykkist fólk ekki frá Texas til Mexíkó, heldur öfugt.

Eðlilegast er að leggja aðra merkingu í hugmyndina um þjóðareign auðlinda: Fara skuli svo með auðlindir, að þær skili hámarksarði til langs tíma í þjóðarbúið. Það á svo sannarlega við um kvótakerfið íslenska í sjávarútvegi. Það eru hvorki fiskimiðin eða fiskistofnarnir, sem er undirorpið eignarrétti einstaklinga, heldur nýtingarréttindin, sem líta má á sem hlunnindi í almenningi, sem ekki verði tekin bótalaust af handhöfum þeirra, enda hafi þau myndast í langri þróun og hlotið sögulega helgun, eins og lögfræðingar (þar á meðal prófessor Sigurður Líndal) myndu segja. Ragnar Árnason hefur síðan spurt, við hvaða skipulag þjóðin græði mest á fiskveiðum, og svarað henni svo, að það sé við sem traustust og föstust nýtingarréttindi í höndum einkafyrirtækja. Fiskveiðiarðurinn rennur ekki til þjóðarinnar, ef ríkið reynir að gera hann upptækan, heldur gerist þá hvort tveggja, að hann minnkar og verður enn einn tekjustofn atvinnustjórnmálamanna í samkeppni þeirra um atkvæði. Það er engin tilviljun, að á Íslandi skilar sjávarútvegur beint og óbeint feikilegu fé í þjóðarbúið, en í mörgum og jafnvel flestum öðrum löndum er hann rekinn með tapi og er þess vegna þung byrði á skattgreiðendum. Ragnar hefur líka bent á, að sjávarútvegur er á Íslandi útflutningsatvinnuvegur í harðri samkeppni við sömu grein í öðrum löndum, og þess vegna þurfi að fara varlega í að skattleggja hann umfram aðra atvinnuvegi.

Salka Valka sagði sem frægt varð: „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er lífið þó umfram allt saltfiskur, en ekki draumaringl.“ Í bók sinni um fisk, fé og farsæld fer Ragnar Árnason ekki með neitt draumaringl, heldur rökstyður, hvernig hagkvæmast sé að nýta auðlindir og þá sérstaklega þær, sem Íslendingar eiga. Þar heldur hann sér fast við hina fræðilegu hlið málsins. Þótt hann noti iðulega stærðfræði til að skýra og skerpa boðskap sinn, endursegir hann um leið á auðskiljanlegan hátt röksemdir sínar. Það auðveldar lesturinn, að Birgir Þór Runólfsson skrifar fróðlegan inngang. Og þótt lífið sé auðvitað ekki aðeins saltfiskur, skipta góð almenn lífskjör miklu máli. Saltfiskurinn er til að selja og féð fyrir hann til að velja. Salka Valka sagði líka, að það væru „þunnar trakteringar að láta menn þræla nótt og dag alla sína ævi, hafa hvorki í sig né á“. Þetta var þó í þúsund ár hlutskipti fámennrar þjóðar í harðbýlu landi, áður en sjávarútvegur varð höfuðatvinnuvegur Íslendinga. Það er engin tilviljun, að nú eru Íslendingar með einhverjar hæstu meðaltekjur í heimi, auk þess sem fátækt er hverfandi og tekjudreifing tiltölulega jöfn.

Vegurinn til fjár og farsældar

Fiskur var ekki aðeins tákn Íslands öldum saman í skjaldarmerki Danakonungs, heldur vegur til fjár og farsældar, eins og þeir Thor Jensen í Kveldúlfi, Jón Ólafsson í Alliance, Ingvar Vilhjálmsson, Tryggvi Ófeigsson og fjölmargir aðrir dugmiklir athafnamenn sýndu á öndverðri tuttugustu öld, þegar þjóðin skeiðaði á sjömílnaskóm úr fátækt til bjargálna. Og nú hafa þeir Kristján Loftsson í Hval, Guðmundur Kristjánsson í Brimi, Guðbjörg Matthíasdóttir í Ísfélaginu, Sigurgeir Brynjar Kristjánsson í Vinnslustöðinni, Guðrún Lárusdóttir í Stálskipum, Þorsteinn Már Baldvinsson í Samherja, Þórólfur Gíslason í Kaupfélagi Skagfirðinga og margir aðrir framkvæmdasamir og forsjálir athafnamenn lyft upp þeirra merki, landi og þjóð til heilla.

(Grein í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.10.2024 - 05:45 - Rita ummæli

Rangfærslur um Ísrael og Arabaríkin

Mánudaginn 14. október 2024 hafði ungur bresk-ísraelskur hagfræðingur, Ely Lassman, framsögu á fundi, sem ég efndi til í Þjóðminjasafninu. Var Lassman staddur hér af öðrum ástæðum, og bað ég hann að eiga við okkur orð um „Ísrael, Arabaríkin og Vesturveldin“. Lassman fæddist í Bretlandi, en fluttist ungur með foreldrum sínum til Ísraels og gegndi þar herþjónustu. Því miður og gegn vilja mínum urðum við að hafa fundinn lokaðan, því að fullvíst var, hefðum við auglýst hann, að hinir háværu og herskáu stuðningsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas og Hesbollah á Íslandi hefðu þá reynt að ryðjast inn og hleypa fundinum upp. Morgunblaðið birti síðan viðtal við Lassman 17. október. Þetta varð tilefni til þess, að Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður, formaður félagsins Ísland-Palestína, skrifaði hér andmæli 19. október, sem mér er ljúft og skylt að svara.

Hver er Hjálmtýr Heiðdal?

Hjálmtýr Heiðdal hefur ekki alltaf borið sérstaka umhyggju fyrir undirokuðum þjóðum eða þjóðarbrotum. Eitt dæmi er Tíbet. Það var sjálfstætt ríki öldum saman, en Kínverjar hernámu það árið 1950. Útlagastjórn Dalai Lama hefur nefnt ótrúlegar tölur um morðölduna, sem þá skall á (1,2 milljónir manna), en franski fræðimaðurinn Jean-Louis Margolin giskar á, að um 800 þúsund manns hafi týnt lífi af völdum kommúnista. Tíbetar risu upp gegn hernáminu árið 1959 og tóku um skeið höfuðborgina Lhasa, en uppreisnin var barin niður af hörku. Um það tímabil, sem í hönd fór, sagði Hjálmtýr Heiðdal í Stéttabaráttunni, 1. tbl. 1976: „Það, sem síðan hefur gerst í Tíbet, er það, að fyrrverandi þrælar og ánauðugir bændur hafa tekið við stjórn landsins. Uppbyggingin er geysileg, og ástandið hefur gjörbreyst frá því, sem áður var. Menning tíbeta hefur blómgast við hagstæð skilyrði.“ Því fer fjarri, eins og menn geta lesið sér til um í alfræðiritum og sögubókum. Þótt líklega hafi Kínverjar ekki framið þjóðarmorð í venjulegum skilningi orðsins í Tíbet (reynt að útrýma Tíbetum), hafa þeir leitast við að uppræta hefðbundna menningu landsmanna. Gefa þarf öllum börnum kínversk nöfn, öll kennsla í skólum fór fram á kínversku fram til 1979, aðeins standa örfá búddaklaustur eftir (þrettán af rösklega sex þúsund), og fjöldi Kínverja hafa flust til landsins. Tíbetar eru að hverfa sem þjóð.

Ástandið í Kambódíu undir stjórn kommúnista, rauðu kmeranna, var enn verra. Þeir tóku völd árið 1975, og fyrsta verk þeirra var að reka alla íbúa út úr borgum landsins og upp í sveitir, þar sem þeir áttu að þræla á ökrum, en voru umsvifalaust teknir af lífi, ef þeir óhlýðnuðust. Rauðu kmerarnir ætluðu að þurrka út fortíðina, eyða öllum ummerkjum fyrri tíma, skapa nýjan mann, hlýðinn og óspilltan af fornri menningu. Þeir gengu enn lengra í grimmdarverkum en Hitler, Stalín og Maó. Kambódía varð „land hinna ólýsanlegu glæpa“. Fræðimenn hafa reynt að meta, hversu margir týndu lífi af völdum rauðu kmeranna, og voru þeir samkvæmt einni rækilegustu rannsókninni um tvær milljónir, fjórðungur íbúa. Þetta er hlutfallslega miklu meira en aðrir fjöldamorðingjar alræðisstefnunnar komust yfir. Þess má geta, að hin áhrifamikla kvikmynd Blóðakrar (The Killing Fields) gerist við valdatöku rauðu kmeranna. Þegar Víetnamar réðust inn í Kambódíu árið 1979, var þeim víða tekið eins og frelsurum. En Hjálmtýr Heiðdal lét engan bilbug á sér finna, heldur varði rauðu kmerana á málfundi á Hótel Esju (nú Nordica) fimmtudaginn 18. janúar 1979 og fylgdi ræðu sinni eftir í greinum í DV 3. febrúar og Þjóðviljanum 6. febrúar. Í Þjóðviljanum hafði hann það eftir gestum í Kambódíu í valdatíð rauðu kmeranna, að þeir hefðu „dáðst að eldmóði, staðfestu og athafnagleði alþýðunnar í Kampútseu [heiti rauðu kmeranna á Kambódíu] við að endurreisa land, sem orðið hefur fyrir slíkum búsifjum af völdum stríða“.

Stofnun Ísraelsríkis

Það var því ekki von á góðu, þegar Hjálmtýr Heiðdal sneri sér frá Tíbet og Kambódíu og að Gaza-svæðinu. Hann rifjar eins og Lassman upp, að Sameinuðu þjóðirnar gerðu tillögu um það árið 1947, að umboðssvæði Breta, sem þeir kölluðu Palestínu, yrði skipt í tvö ríki, gyðinga og araba. Telur Hjálmtýr, að gyðingar hafi átt að fá í sinn hlut meira land, þótt þeir væru færri en arabar. Geri ég enga athugasemd við þá staðhæfingu hans. En síðan segir hann: „Síonistar sáu að þetta gat ekki gengið svo þeir hröktu 750,000 Palestínumenn af heimilum sínum.“ Hér er horft fram hjá aðalatriðum málsins. Gyðingar samþykktu tillögu SÞ, en arabar höfnuðu henni, og Arabaríkin gerðu árás á hið nýstofnaða Ísraelsríki í maí 1948. Samkvæmt opinberum tölum flýðu síðan 856.000 gyðingar frá Arabaríkjum til Ísraels og 726.000 arabar frá Ísrael til Arabaríkjanna. Sumir þeirra voru eflaust hraktir með valdi frá landinu, og sagði Lassman einmitt aðspurður á fundinum með okkur, að hann teldi þá hafa verið beitta ranglæti. En margir flýðu af sjálfsdáðum, ekki síst vegna þess að þeir héldu, að Arabaríkin myndu leggja Ísrael að velli, svo að útlegð þeirra yrði aðeins tímabundin. Ísrael sigraðist hins vegar á ofureflinu, og eftir vopnahlé hernam Jórdanía vesturbakka Jórdan-ár og Egyptaland Gaza-svæðið, og héldu þessi ríki þeim til 1967.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á tuttugustu öld, að fjölmennir hópar hafa flúið undan nýjum valdhöfum í heimahögum sínum. Árið 1923 var 1,2 milljón grískumælandi manna rekin frá Tyrklandi til Grikklands og 400 þúsund múslimar frá Grikklandi til Tyrklands. Árið 1940 flýðu 400 þúsund Finnar frá finnsku Karelíu til Finnlands, eftir að Stalín hafði lagt undir sig land þeirra. Árið 1945 voru nær tíu milljónir þýskumælandi manna reknar frá Póllandi og Tékkóslóvakíu til Þýskalands. Árið 1962 flýðu um 800 þúsund frönskumælandi manna frá Alsír til Frakklands, enda hafði þeim verið sagt, að þeir gætu valið um að yfirgefa landið í líkkistu eða með ferðatösku. Allt var þetta hörmulegt, eins og flótti arabanna frá Ísrael og gyðinganna frá Arabaríkjunum. En sá mikli munur var á, að Arabaríkin tóku ekki við flóttamönnunum frá Ísrael (þrátt fyrir allt sitt tal um bræðralag araba), heldur geymdu þá í sérstökum búðum, kynslóð fram af kynslóð. Sárin fengu ekki að gróa, heldur var þeim haldið opnum og í þau stráð salti. Fólkið í flóttamannabúðunum hafði fátt annað fyrir stafni en hata Ísrael.

Forn heimkynni gyðinga

Hjálmtýr Heiðdal segir einnig, að gyðingar hafi tekið land af aröbum (þótt hann hefði ekki sömu áhyggjur af Kínverjum í Tíbet á sínum tíma). Það er bæði rétt og rangt. Fyrir stofnun Ísraelsríkis urðu gyðingar að kaupa sér jarðnæði, fyrst í Tyrkjaveldi, síðan á umboðssvæði Breta, þótt raunar hefðu alltaf einhverjir gyðingar búið í landinu, sem var auðvitað hið forna heimkynni gyðingaþjóðarinnar. Gyðingar hafa búið í Ísrael í 3.500 ár, en arabar komu ekki þangað fyrr en 637 e. Kr. (þótt ég telji þá staðreynd ekki mikilvæga hér og nú). Því má ekki heldur gleyma, að fyrir seinni heimsstyrjöld skiptust ríki heims í þau, sem vildu losna við gyðinga sína, og hin, sem vildu ekki taka við þeim. Því síður má gleyma Helförinni, þegar nasistar reyndu að útrýma gyðingum með dyggilegri aðstoð arabaleiðtoga eins og stórmúftans af Jerúsalem (eða Jórsölum, eins og fornmenn kölluðu borgina). En eins og Lassman viðurkenndi á fundinum með okkur, hafa eflaust margir arabar verið flæmdir af landi sínu í stríðinu árið 1948, sem Arabaríkin hófu.

Hjálmtýr fer þó rangt með, þegar hann vitnar í ísraelsk lög frá árinu 2018 eins og þau séu stjórnarskrá ríkisins. Þau eru það ekki, heldur viðbót við hana, og voru þau samþykkt á Ísraelsþingi með 62 atkvæðum gegn 55, en tveir skiluðu auðu. Þessi lög kveða á um það, að Ísrael sé heimkynni gyðinga. Hæstiréttur Ísraels komst að þeirri niðurstöðu árið 2021, að lögin stönguðust ekki á við stjórnarskrána, enda má segja, að þau feli í sér hið augljósa, að Ísrael sé heimkynni gyðingaþjóðarinnar. Réttindi annarra ríkisborgara eru þó vel tryggð í Ísrael, og njóta arabar og aðrir minnihlutahópar þar fullra stjórnmálaréttinda. Stafar gyðingum ekki ógn af þeim, og margir þeirra eru í her landsins. Hatursmenn Ísraelsríkis eru aðallega afkomendur flóttamanna í Arabaríkjum, sem hafa aldrei fengið að njóta sín þar, heldur þurft að hírast í búðum. Það er sorglegt. En það breytir engu um, að Ísrael er eina lýðræðisríkið í Miðausturlöndum.

Enn fremur fer Hjálmtýr rangt með um viðskilnað Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu árið 2005. Það er rétt, að þeir jöfnuðu við jörðu öll heimkynni gyðinganna, sem neyddir voru til að flytja frá Gaza. En Hjálmtýr getur þess ekki, að þeir létu alla innviði, svo sem vegi og brýr, hafnir, flugvöll, sólarvirkjanir og gróðurhús, standa óbreytta. Þegar Hamas-liðar náðu völdum, vildu þeir ekki nota þessa innviði, af því að þeir hefðu verið gerðir af gyðingum, og eyðilögðu þá ýmist eða létu grotna niður. Hamas-liðar notuðu síðan hina miklu fjárhagslegu aðstoð, sem þeir hafa fengið áratugum saman, til að kaupa vopn og grafa göng til undirbúnings því stefnuskráratriði sínu að tortíma Ísraelsríki.

Um hvað þegir Hjálmtýr?

Ef til vill er athyglisverðast í máli Hjálmtýs Heiðdals, um hvað hann ræðir ekki. Hann þegir um gyðingana frá Arabaríkjunum, sem urðu að flýja til Ísraels árið 1948. Hann getur ekki um Arabaríkin, sem neituðu að taka á móti aröbum frá Ísrael árið 1948 og geymdu þá þess í stað í flóttamannabúðum. Hann minnist ekki á hina villimannslegu árás Hamas-liða á Ísrael 7. október 2023, sem var upphaf núverandi átaka, en þá voru 1.200 gyðingar drepnir, konum nauðgað, börn myrt, gíslar teknir. Hann lætur ósagt, að Hamas jafnt og Hesbollah hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að tortíma Ísraelsríki og útrýma öllum gyðingum. Þessu má öllu fletta upp á Netinu. Barátta Ísraelsmanna við þessi hryðjuverkasamtök er barátta milli menningar og villimennsku. Af þeim 965 einstaklingum, sem hafa fengið Nóbelsverðlaun, hafa 216 verið gyðingar, en ég veit aðeins um einn araba, sem fengið hefur verðlaun í raunvísindum, og einn friðarverðlaun (Jasser Arafat) og þá fyrir að lofa að hætta að drepa gyðinga (aðrir múslimar, sem hafa fengið verðlaunin, hafa verið Egyptar, Tyrkir eða Íranir, ekki arabar). Það veitir gyðingum auðvitað ekki nein réttindi umfram araba (eða Íslendinga), en ætti að kenna okkur að meta menningu þeirra.

Þessar staðreyndir kunna hins vegar að skýra gyðingahatrið, sem blossað hefur upp á Vesturlöndum, eins og Lassman benti á. Öfgavinstrimenn eins og Hjálmtýr Heiðdal hata vestræna menningu með einstaklingseðli sínu, fjölbreytni, umburðarlyndi, réttarríki, viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti, lífsgleði og lífsnautnum. Þeir sóttu á sínum tíma hvatningu til kínverskra kommúnista og rauðra kmera, og nú sækja þeir hana til hryðjuverkasamtakanna Hamas og Hesbollah og til klerkastjórnarinnar í Íran, en allir vilja þessir aðilar vestræna menningu feiga. Því hljóta þeir að hata eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum. Jafnframt hata þeir alla þá, sem skara fram úr, eins og gyðingar gera óneitanlega. Öfgavinstrimenn vilja jafna allt niður á við, gera alla að sömu minnipokamönnum og þeir eru sjálfir. Þeir láta sig engu skipta, að Hamas-liðar kúga konur og samkynhneigða og nota óbreytta borgara sem lifandi skildi, svo að þeir bera miklu fremur ábyrgð á mannfallinu í Gaza en Ísraelsher.

Sótt að málfrelsi og fundafrelsi

Að lokum hlýt ég að víkja aftur að því, sem Hjálmtýr Heiðdal bendir réttilega á, að fundur okkar var lokaður. Sannleikurinn er sá, að vinstriöfgamenn, sem styðja hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah, eru á Íslandi sem annars staðar orðnir hættulegir stjórnarskrárbundnum réttindum okkar, málfrelsi og fundafrelsi. Þeir veitast að utanríkisráðherra á fundi í Háskóla Íslands, reyna að stökkva fram af svölum áhorfendapalls í Alþingishúsinu, tjalda vikum og mánuðum saman í leyfisleysi á Austurvelli, jafnframt því sem þeir hóta öllu illu þeim fyrirtækjum, sem eiga viðskipti við Ísrael. Fyrir skömmu varð að hætta við fund með Ísraelsmanni í verkfræðideild Háskóla Íslands, vegna þess að vinstriöfgamenn ætluðu að hleypa honum upp. Menningarfélag gyðinga á Íslandi hélt samkomu 7. október síðast liðinn til að minnast fórnarlamba árásarinnar á Ísrael ári áður, og varð hann að vera lokaður, svo að óspektarmenn kæmust ekki að. Hið sama var að segja um þennan fund með Ely Lassman. Við þetta verður ekki unað til lengdar. Við hljótum að reyna að endurheimta málfrelsi okkar og fundafrelsi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.10.2024 - 05:56 - Rita ummæli

Markaðir og frumkvöðlar

Er auður Vesturlanda sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi? Spillir kapítalisminn umhverfinu og sóar auðlindum? Er kapítalisminn andlaust kapphlaup um efnisleg gæði, þar sem menn týna sálu sinni? Þessum spurningum svara nokkrir ræðumenn á ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Europe, RSE, Rannsóknarmiðstöðvar í samfélags- og efnahagsmálum, og fleiri aðila í Reykjavík laugardaginn 12. október kl. 14–18. Ber ráðstefnan yfirskriftina „Markaðir og frumkvöðlar“.

Þrælahald og nýlendustefna

Einn ræðumaðurinn er dr. Kristian Niemietz, aðalhagfræðingur hinnar áhrifamiklu stofnunar Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Hann gaf fyrr á þessu ári út fróðlega bók, Imperial Measurement: A cost-benefit analysis of Western colonialism, Mælingar á nýlenduveldum: kostnaðar- og nytjagreining á vestrænni nýlendustefnu. Tilefnið var, að í afturköllunarfári (cancel culture) síðustu ára er því iðulega haldið fram, að auður Vesturlanda sé sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi. Niemietz minnir hins vegar á, að Adam Smith taldi nýlendur leiða af sér meira tap en gróða. En ef Smith hafði rétt fyrir sér, hvernig stóð þá á nýlendukapphlaupinu á nítjándu öld? Skýringin er, að tapið dreifðist á alla, en gróðann hirti tiltölulega fámennur hópur valdamanna. Jafnframt varð það metnaðarmál stærstu ríkjanna í Evrópu að eignast nýlendur.

Niemietz bendir á, að í Bretaveldi var utanríkisverslun aðeins lítill hluti heildarverslunar og aðallega við aðrar vestrænar þjóðir, ekki við nýlendurnar, auk þess sem þorri fjárfestinga var fjármagnaður með innlendum sparnaði og arði af verslun við aðrar vestrænar þjóðir. Það kostaði Breta líka stórfé að halda úti sínum volduga flota. Svipað var að segja um önnur nýlenduveldi. Þegar millifærslur frá Frakklandi til nýlendna þess og frá nýlendunum til Frakklands voru virtar saman, námu útgjöld umfram tekjur um 0,3 af hundraði ríkisútgjalda. Þýska ríkið hélt nákvæmt bókhald um útgjöld og tekjur af nýlendunum, og reyndist vera verulegt tap af þeim, en verslun við þær var hverfandi hluti af heildarverslun Þýskalands. Eina skýra dæmið um, að gróði af nýlendu hafi líklega verið meiri en tap, er líklega belgíska Kongó, en stjórn þess verður seint talin til fyrirmyndar. Þar var um arðrán að ræða. Þetta er undantekningin, sem sannar regluna.

Niemietz vekur athygli á, að nokkrar auðugustu þjóðir Evrópu áttu aldrei nýlendur, svo sem Noregur og Sviss. Hann hafnar því einnig, að þrælahald hafi borgað sig. Líklega voru einu jákvæðu áhrifin af því að þurfa ekki að greiða vinnulaun á plantekrum í Karíbahafi, að verð á sykri, tóbaki, kryddvöru, bómull og kaffi var lægra en ella. Verslun með þræla var ekki heldur mikilvægur þáttur í heildarverslun Breta og annarra þjóða. Niemietz gerir í bók sinni aðeins kostnaðar- og nytjagreiningu á þrælahaldi, svo að hann minnist ekki á þær þrjár umhugsunarverðu staðreyndir um það, að Arabar hófu það fyrr og hættu því síðar en vestrænar þjóðir, að Bretar beittu flota sínum hart á öndverðri nítjándu öld til að stöðva þrælaflutninga yfir Atlantshaf og að það voru aðallega afrískir héraðshöfðingjar, sem eltu uppi aðra Afríkumenn og seldu í þrældóm. Það ættu því aðrir að vera með meira samviskubit sökum þrælahalds en venjulegir Vesturlandabúar.

Umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis

Annar ræðumaður er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, en óhætt er að segja, að hann njóti alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur um auðlindanýtingu. Er í næsta mánuði væntanlegt greinasafn eftir hann, Fish, Wealth, and Welfare, Fiskur, fé og farsæld, sem Almenna bókafélagið gefur út. Ragnar ætlar að segja frá tiltölulega nýjum skóla innan hagfræðinnar, _free market environmentalism,“ umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis. Frumforsenda þessa skóla er, að vernd krefjist verndara. Ef við viljum vernda gæði náttúrunnar, þá verðum við að finna þeim verndara. Hver er til dæmis skýringin á því, að fílar og nashyrningar í Afríku eru í útrýmingarhættu, en ekki sauðfé á Íslandi? Hún er, að sauðféð er í einkaeign, merkt og girt af. Eigendur þess gæta þess. Aristóteles benti einmitt á það forðum í gagnrýni sinni á sameignarboðskap Platóns, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Einkaeignarréttur stuðlar að hagkvæmri nýtingu auðlinda og raunar líka mannlegra hæfileika. Fái menn ekki að uppskera sjálfir, þá hætta þeir að sá. Þessi hugsun birtist í þeirri íslensku alþýðuspeki, að sjaldan grói gras á almenningsgötu.

Tiltölulega einfalt er að mynda einkaeignarrétt á landi og kvikfénaði. Land er girt af og kvikfé merkt eigendum. En málið vandast, þegar margir nýta saman gæði. Eitt dæmi um það voru afréttirnar íslensku, sem sauðfé var beitt á að sumarlagi, en ekki borgaði sig að mynda á þeim einkaeignarrétt. Bændur í hverjum hrepp nýttu saman hverja afrétt. En þá varð til freistnivandi eða það, sem kallað hefur verið _samnýtingarbölið“ (tragedy of the commons). Hver bóndi freistaðist til að reka of margt fé á fjall á sumrin, því að hann naut einn gróðans, en allir báru í sameiningu tapið. Þetta leystu fornmenn með hinni svokölluðu ítölu. Hver bóndi mátti aðeins _telja í“ afréttina tiltekinn fjölda sauðfjár. Og heildartala fjár í hverri afrétt var miðuð við það, að féð kæmi sem feitast af fjalli á haustin, eins og segir í Grágás.

Hliðstætt dæmi eru íslensku fiskimiðin. Á meðan aðgangur var ótakmarkaður að þessum takmörkuðu gæðum, freistaðist hver útgerðarmaður til að auka sóknina, því að hann hirti ávinninginn af aukningunni, en allir báru í sameiningu tapið, sem fólst í sífellt stærri fiskiskipaflota að eltast við sífellt minnkandi fiskistofna. Í rauninni varð sama lausn fyrir valinu á Íslandi og um grasnytjar að fornu, nema hvað í stað ítölu, sem fylgdi jörðum, kom kvóti, sem fylgdi skipum. Hver útgerðarmaður mátti aðeins veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum heildarafla. Hann (eða hún) fékk aflaheimildir, kvóta, sem gekk kaupum og sölum, svo að þeir, sem veiddu með lægstum tilkostnaði og því mestum arði, gátu keypt út þá, sem síður voru fallnir til veiða. Þetta kerfi myndaðist fyrst í veiðum á uppsjávarfiski á áttunda áratug, en var síðan tekið upp í veiðum á botnfiski og varð heildstætt árið 1990. Er óhætt að segja, að vel hafi tekist til. Ólíkt öðrum þjóðum stunda Íslendingar sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar.

Við upphaflega úthlutun aflaheimilda eða kvóta var fylgt svokallaðri afareglu (grandfathering), þar sem miðað var við aflareynslu. Ef útgerðarmaður hafði veitt fimm af hundraði heildarafla í fiskistofni árin áður en kvóti var settur á, þá fékk hann (eða hún) fimm af hundraði aflaheimildanna í þeim fiskistofni. Þannig varð lágmarksröskun á hag útgerðarmanna, eftir að óhjákvæmilegt varð að takmarka aðgang að fiskimiðunum.

Frumkvöðlar í öndvegi

Þriðji ræðumaðurinn er Ely Lassman, sem er aðeins 27 ára að aldri. Hann brautskráðist fyrir einu ári í hagfræði frá Bristol-háskóla á Englandi. Hann er formaður Prometheus on Campus, en þau samtök leitast við að kynna boðskap skáldkonunnar Ayns Rands í háskólum. Hafa bækur hennar selst í þrjátíu milljónum eintaka og skírskota ekki síst til ungs fólks. Almenna bókafélagið hefur gefið út þrjár skáldsögur Rands, Kíru ArgúnovuUppsprettuna og Undirstöðuna. Var Kíra Argúnova raunar framhaldssaga í Morgunblaðinu árið 1949. Rand flýði frá Rússlandi um miðjan þriðja áratug síðustu aldar, settist að í Bandaríkjunum og haslaði sér þar völl. Hún aðhylltist eindregna einstaklingshyggju og taldi skýjakljúfinn eitt af merkilegustu afrekum mannsandans.

Ayn Rand setti fram tvær frumlegar hugmyndir í skáldsögum sínum. Hin fyrri var, að kapítalisminn væri ekki andlaust kapphlaup um efnisleg gæði. Hetjur kapítalismans eða viðskiptaskipulagsins væru hins vegar ekki herforingjar á hvítum fákum eða mælskugarpar á torgum úti, heldur frumkvöðlar, iðnjöfrar, brautryðjendur, athafnamenn. Þeir lifa ekki sníkjulífi á náungum sínum, heldur skapa eitthvað nýtt, og aðrir njóta þess með þeim í frjálsum viðskiptum. Á meðan rithöfundarnir Halldór Guðjónsson frá Laxnesi og Þórbergur Þórðarson sátu á kaffihúsum við Aðalstræti og skröfuðu um, hvernig bæta mætti kjör íslenskrar alþýðu, sat Jón Þorláksson verkfræðingur á skrifstofu sinni í Bankastræti og lagði á ráðin um vegi og brýr, svo að fólk gæti komist leiðar sinnar fyrirhafnarlítið, teiknaði vatnsveitur, svo að það ætti aðgang að hreinu vatni, rafmagnsveitur, svo að það gæti kveikt ljós í vetrarmyrkrinu, og hitaveitur, svo að það gæti bægt frá sér vetrarkuldanum.

Seinni hugmyndin er í beinu framhaldi af hinni fyrri. Hún er sú spurning, hvað gerist, ef dugmesta fólkið gefst upp á að vinna fyrir aðra og finnur sér samastað, þar sem það getur notið eigin verka. Svarið er auðvitað, að þá hleypur óáran í þá, sem eftir sitja. Sífellt harðari átök verða um sífellt minni feng. Öll orkan fer í að skipta, engin í að skapa. Rand lýsir þessu eftirminnilega í Undirstöðunni, en mörg dæmi eru til um þetta í mannkynssögunni. Þau Ferdínand og Ísabella ráku gyðinga frá Spáni í lok fimmtándu aldar, en þeir höfðu staðið framarlega í vísindum, listum og atvinnulífi. Á Kúbu flýði allt dugmesta fólkið eftir valdatöku kommúnista, tíu af hundraði landsmanna, og afleiðingin varð almenn fátækt. Ef til vill er Svíþjóð besta dæmið. Um miðja nítjándu öld náðu eindregnir frjálshyggjumenn þar völdum og juku stórlega atvinnufrelsi. Fjöldi frumkvöðla spratt upp. Næstu hundrað árin var hagvöxtur í Svíþjóð ör, og þjóðin varð ein hin ríkasta í heimi. En upp úr 1970 náðu róttæklingar völdum í sænska jafnaðarmannaflokknum, sem áður hafði verið tiltölulega hófsamur, skattbyrði þyngdist stórlega, vöxtur einkageirans stöðvaðist, og athafnamenn hrökkluðust úr landi, ekki síst til Sviss. En upp úr 1990 sáu Svíar að sér og hafa verið að feta varlega aftur brautina í átt til öflugra einkaframtaks.

Raddir ungs fólks

Fjórir aðrir ræðumenn eru á ráðstefnunni. Tahmineh Dehbozorgi er 26 ára laganemi, fædd í Íran, en flýði ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna árið 2015 og hefur síðan verið virk í ýmsum frelsissamtökum. Hún ætlar að minna fundarmenn á gildi frelsisins. Ida Johansson er 22 ára sænskur frumkvöðull, sem hætti í skóla 18 ára og stofnaði fyrirtæki, sem hún seldi nýlega. Hún ætlar að ræða um kynslóðir og kaupmátt. Lovro og Marin Lesic eru tvítugir Króatar, stunda nám í fjármálafræði í Zagreb, hafa stofnað fjárfestinga- og nýsköpunarfélag og fengið verðlaun fyrir ýmsar hugmyndir sínar. Ætla þeir að segja frá reynslu sinni og vonum. Verður fróðlegt að hlusta á þetta unga fólk segja frá reynslu sinni og áhugamálum. Anton Sveinn McKee, sem hefur fjórum sinnum keppt fyrir Ísland á Olympíuleikum, stjórnar ráðstefnunni, en henni er skipt í þrjár stuttar lotur, og stjórna þeim Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður, Frosti Logason hlaðvarpsstjóri og Haukur Ingi Jónsson, nemi í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýsköpunarráðherra setur ráðstefnuna, en dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, mælir nokkur lokaorð.

(Grein í Morgunblaðinu 11. október 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:57 - Rita ummæli

Aix, júlí 2024

Á sumarskóla hagfræðideildar Aix-Marseille-háskóla, eins stærsta háskóla Frakklands, í Aix-en-Provence 12. júlí 2024 var mér boðið að tala um norræna frjálshyggju. Í útúrdúr í upphafi kvaðst ég hafa komist að því í rannsókn minni á frjálslyndri íhaldsstefnu, að hin franska frjálshyggjuhefð hefði verið vanmetin, ekki síst af Frökkum sjálfum. Þeir Benjamin Constant, Frédéric Bastiat, Alexis de Tocqueville og Bertrand de Jouvenel hefðu seilst víðar og dýpra en breskir nytjastefnumenn.

Hin norræna frjálshyggjuhefð væri líka vanmetin, þótt Montesquieu hefði raunar viðurkennt, að vestrænt frelsi hefði orðið til með germönskum þjóðum. Snorri Sturluson hefði talið vald bundið samþykki þegnanna, en þeir mættu afhrópa konunga, sem færu ekki að lögum. Anders Chydenius hefði á undan breskum hugsuðum lýst gróða án taps og samstillingu án valdboðs. Nikolaj F. S. Grundtvig hefði beitt sér fyrir alþýðumenntun í þágu lýðræðis og lýst samtakamætti frjálsra þjóða.

Velgengni Norðurlanda væri þrátt fyrir jafnaðarstefnu, ekki vegna hennar. Þær hefðu brotist til bjargálna og tekjudreifing orðið tiltölulega jöfn, áður en jafnaðarmenn fengu völd á fjórða áratug tuttugustu aldar. Þessi velgengni hvíldi á traustu réttarríki með langa hefð að baki, frjálsum alþjóðaviðskiptum og ríkri samkennd, sem hefði haft í för með sér verulegt traust manna í milli, en það auðveldaði lífsbaráttuna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:56 - Rita ummæli

Kunnur vísindarithöfundur sækir Ísland heim

Einn kunnasti vísindarithöfundur heims, Matt Ridley, er staddur á Íslandi og ætlar að rabba við áhugamenn um stjórnmál, heimspeki og vísindi miðvikudaginn 17. júlí kl. 16.30 í stofu 101 á Háskólatorgi, HT-101. Er fundurinn á vegum RSE, Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál. Ridley hefur skrifað fjölda bóka, og kom ein þeirra út á íslensku árið 2014, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Hann er einn frjóasti hugsuður, sem nú er uppi, fjörugur fyrirlesari og lipur rithöfundur.

Þróunarkenning um kynlíf

Matthew White Ridley fæddist árið 1958, og var langalangafi hans hinn kunni húsameistari Sir Edwin L. Lutyens. Ridley lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla  árið 1983. Hann var vísindaritstjóri vikublaðsins Economist 1984–1987 og fréttaritari og síðan bandarískur ritstjóri blaðsins í Washington-borg 1987–1992. Eftir það hefur hann starfað sem sjálfstæður rithöfundur, en einnig haldið úti föstum dálki um vísindi í Wall Street Journal og The Times. Kona hans, Anya Hurlbert, er prófessor í taugalíffræði, og eiga þau tvö börn.

Árið 1993 gaf Ridley út bókina Rauðu drottninguna: kynlíf og þróun manneðlisins (The Red Queen: Sex and the Evolution of Human Nature). Nafnið vísar til rauðu drottningarinnar, sem kemur fyrir í bók Lewis Carrolls, Í gegnum spegilinn: og það sem Lísa fann þar(Through the Looking-Glass, and What Alice Found There), en sú bók er framhald Lísu í Undralandi og hefur komið út á íslensku. Rauða drottningin verður að hlaupa til þess að standa í stað. Í bókinni ræðir Ridley þá gátu, hvers vegna æxlun manna er tvíkynja, en ekki einkynja eins og margra annarra lífvera. Telur hann kynlíf með tveimur þátttakendum leiða til tiltölulega hagkvæmrar samsetningar erfðavísa. Jafnframt setur hann fram þá tilgátu, að í samkeppni einstaklinga um hylli hins kynsins hafi tilteknir hæfileikar valist úr, mannleg greind orðið til. Er bókin bráðskemmtileg aflestrar og full af hugvitsamlegum dæmum.

Þróunarkenning um dygðir

Árið 1996 gaf Ridley út bókina Uppsprettur dygðanna: Eðlisávísun mannsins og þróun samvinnu (The Origins of Virtue: Human Instincts and the Evolution of Cooperation). Þar heldur hann því fram, að maðurinn hafi í langri þróun öðlast sérstakan hæfileika til samskipta umfram önnur dýr, og þessi hæfileiki geri honum kleift að njóta ávaxta sjálfsprottinnar samvinnu. Maðurinn sé því ekki fæddur góður og spillist af því að búa með öðrum, eins og Rousseau og Marx kenndu, eða fæddur vondur og verði þess vegna að sæta hörðum aga, eins og Hobbes og Machiavelli trúðu, heldur verði hann smám saman góður á því að temja sér réttar reglur um samskipti, ekki síst frjáls viðskipti.

Næstu þrjár bækur Ridleys voru allar um mannlegar erfðir. Árið 1999 kom út Erfðamengi: Sjálfsævisaga tegundar í 23 köflum(Genome: The Autobiography of a Species in 23 Chapters), þar sem lýst er þeim litningum (chromosomes), sem ákveða erfðir mannsins. Árið 2003 kom út Eðli í krafti umhverfis: Erfðavísar: reynsla og það, sem gerir okkur mennsk(Nature via Nurture: Genes, Experience What Makes Us Human), þar sem lýst er samleik erfðavísa og umhverfis í þróun mannsins. Árið 2006 kom út Francis Crick: Maðurinn, sem réði táknmál erfðanna (Francis Crick: Discoverer of the Genetic Code), ævisaga hins heimskunna erfðafræðings. Hlaut Ridley verðlaun Vísindasögufélags Bandaríkjanna fyrir verkið. Í öllum þessum bókum naut sín hæfileiki Ridleys til að skrifa einfaldan texta um flókin mál.

Ritdeila við Bill Gates

Árið 2010 gaf Ridley út þá bók sína, sem til er á íslensku, Heimur batnandi fer. Ritdeila var háð um hana í Wall Street Journal í nóvember 2010. Í ritdómi sagðist auðjöfurinn Bill Gates sammála Ridley um, að auðlegð þjóða væri vegna viðskipta og verkaskiptingar. Þetta væri auðvitað ekkert nýtt, en Ridley tækist vegna þekkingar sinnar á dýrafræði að nefna mörg fróðleg dæmi. Gates kvaðst líka sammála Ridley um, að full ástæða væri til bjartsýni um framtíð mannkyns, væri rétt á málum haldið. Hins vegar væri hann ekki sami efasemdarmaður um þróunaraðstoð við Afríku og Ridley. Hann teldi einnig, að takmarka ætti mjög losun gróðurhúsalofttegunda. Í svari sínu kvaðst Ridley frekar treysta á tækniframfarir í krafti frelsis en framlög úr opinberum sjóðum, sem embættismenn ættu að ráðstafa. Frá 2010 hefur raunar orðið verulegur hagvöxtur í Afríku sunnan Sahara, en engum dettur í hug, að hann sé vegna þróunaraðstoðar. Erfiðlega hefur einnig gengið að ná samkomulagi um mikla takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda, enda með öllu óvíst, að neikvæðar afleiðingar hlýnunar séu meiri en hinar jákvæðu.

Árið 2015 gaf Ridley út bókina Þróun á öllum sviðum: Uppsprettur hugmynda (The Evolution of Everything: How Ideas Emerge). Þar útfærir hann þróunarkenningu Darwins: Sú regla, sem við sjáum í mannheimi og í dýraríkinu, er ekki sköpuð af neinum, heldur afleiðing náttúruvals, þar sem hæfustu tegundirnar, aðferðirnar og hugmyndirnar hafa haldið velli. Í mannheimi er þessi regla afleiðing víxlverkunar vitunda. Árið 2020 gaf Ridley út bókina Leið nýsköpunar og hvers vegna hún blómgast við frelsi (How Innovation Works: And Why It Flourishes in Freedom). Þar heldur hann því fram, að eitt helsta einkenni nútímans sé nýsköpun, en af henni hafi leitt stórkostlegar lífskjarabætur og margvíslegar róttækar breytingar mannlegs samlífs. En fáir skilji nýsköpun. Hún myndist aðallega að neðan og upp eftir í krafti frjálsra viðskipta, en ekki að ofan og niður eftir samkvæmt einhverjum áætlunum. Hún sé alltaf fólgin í mannlegum samskiptum, aðferð happa og glappa, tilrauna og mistaka. Hins vegar sé nýsköpun nú að minnka vegna opinberra afskipta og þunglamalegrar skriffinnsku.

Á slóð Leðurblökukonunnar

Ein nýjasta bók Ridleys hefur vakið mikla athygli, Faraldur: Leitin að upphafi kórónuveirunnar (Viral: The Search for the Origin of COVID-19) . Hann skrifar hana með dr. Alina Chan, sérfræðingi í Broad rannsóknarstofnuninni, sem Harvard-háskóli og Tækniháskólinn í Massachusetts, MIT, reka sameiginlega. Heimsfaraldurinn, sem kórónuveiran frá Kína olli, kostaði líklega um tuttugu milljónir mannslífa og var fimmti mannskæðasti faraldur mannkynssögunnar, á eftir Spánsku veikinni 1918–1920, Svartadauða hinum fyrri 541–549, eyðnifaraldrinum frá 1981, og Svartadauða hinum síðari 1346–1353. Jafnframt hafði faraldurinn margvísleg áhrif á líf flestra jarðarbúa, samgöngur stöðvuðust, skólum var lokað, fyrirtæki hættu rekstri, að kreppti í atvinnulífi. Það skiptir því miklu máli að finna upphaf kórónuveirunnar, sem olli þessum ósköpum, svo að sagan endurtaki sig ekki, og er tómlætið um það furðulegt.

Í upphafi töldu flestir, að kórónuveiran hefði stokkið yfir í menn úr dýrum á útimarkaði í Wuhan-borg. Mörg dæmi voru kunn um áþekkan feril smitsjúkdóma, og veiran er náskyld ýmsum öðrum veirum, sem hleypt hafa af stað farsóttum, en fyrstu hýslarnir eru oftast leðurblökur. En gallinn var sá, að ekki fannst neitt dýr, sem átti að hafa borið þessa veiru í menn. Kínverski kommúnistaflokkurinn neitaði líka allri samvinnu við erlenda vísindamenn um rækilega rannsókn á upphafi veirunnar. Í Wuhan starfar mikil rannsóknarstofnun í veirufræði. Vefur hennar um veirugreiningar var skyndilega tekinn niður. Skráning dauðsfalla var í upphafi ekki eðlileg (þeir einir voru skráðir dánir af völdum veirunnar, sem sannanlega höfðu verið á útimarkaðnum). Margt annað furðulegt gerðist. Til dæmis var fréttamönnum meinaður aðgangur að koparnámu í Yunnan, þar sem nokkrir starfsmenn höfðu greinst með svipaðan veirusjúkdóm árið 2012. Þar var allt fullt af leðurblökum, sem báru í sér veirur sömu ættar og kórónuveiran skæða, og hafði forstöðumaður rannsóknarstofnunarinnar í Wuhan, dr. Shi Zhengli, iðulega kölluð Leðurblökukonan, margoft gert sér ferð þangað til að safna sýnum. Kórónuveiran er óvenjusmitnæm, vegna þess að hún er með sérstakt grip, sem auðveldar henni leið inn í mannslíkamann. Annaðhvort myndaðist þetta grip náttúrlega eða var sett utan á hana. Leðurblökukonan og bandarískur samstarfsmaður hennar, dr. Peter Daszak, höfðu einmitt sótt árangurslaust um styrk árið 2018 til að rannsaka, hvernig setja mætti slíkt grip inn í veirur sömu ættar. Daszak samdi ávarp, sem birtist í hinu virta læknatímariti Lancet 19. febrúar 2020 og 27 vísindamenn skrifuðu undir, þar sem þeir vísuðu algerlega á bug tilgátunni um leka frá rannsóknarstofu. Daszak leyndi því eins lengi og hann gat, að hann var einn höfundur ávarpsins og að hann hafði margvísleg tengsl við rannsóknarstofuna í Wuhan.

Bresk stjórnmál

Sjálfur telur Matt Ridley sennilegt, en þó ósannað, að kórónuveiran hafi lekið út af rannsóknarstofunni í Wuhan. En hann hefur haft margt fleira fyrir stafni en bókaskrif. Hann var stjórnarformaður Northern Rock bankans 2004–2007, en sá banki var eitt fyrsta fórnarlamb lausafjárskortsins, sem myndaðist skyndilega á fjármálamörkuðum árið 2007 og kom hart niður á bönkum með innlán til skamms tíma og útlán til langs tíma. Ridley, sem er fimmti vísigreifi Ridley og býr á sveitasetri í Norður-Englandi, sat í lávarðadeildinni bresku fyrir Íhaldsflokkinn 2013–2021. Þar var hann eindreginn stuðningsmaður útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hann hefur því frá nógu að segja og ekki aðeins almæltum tíðindum.

(Grein í Morgunblaðinu 16. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2024 - 16:52 - Rita ummæli

Danmörk til fyrirmyndar, um margt

Bandaríkjamönnum hefur orðið tíðrætt um Danmörku hin síðari ár. Öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders bendir á landið sem sérstaka fyrirmynd. Hagfræðingurinn Jeffrey Sachs telur, að dæmi Danmerkur og annarra Norðurlanda afsanni þá skoðun Friedrichs A. von Hayeks, að aukin ríkisafskipti skerði frelsi og leiði að lokum til lögregluríkis. Heimspekingurinn Francis Fukuyama heldur því á hinn bóginn fram, að í Danmörku hafi tekist að efla þá samkennd og almennu lýðmenntun, sem lýðræðinu sé nauðsynleg.

Eitt frjálsasta hagkerfi í heimi

Þegar að er gáð, sést, að Sanders og Sachs hafa rangt fyrir sér. Danmörk er síður en svo draumríki sósíalista. Samkvæmt alþjóðlegum mælingum Fraser stofnunarinnar í Kanada á atvinnufrelsi var danska hagkerfið árið 2021 hið 7. frjálsasta af 165 hagkerfum í heimi, á eftir hagkerfum Singapúr, Hong Kong, Sviss, Nýja Sjálands, Bandaríkjanna og Írlands. (Ófrjálsustu hagkerfin eru hins vegar í Venesúela, Simbabve, Sýrlandi, Súdan, Jemen, Íran og Líbíu. Hagkerfi Norður-Kóreu og Kúbu eru ekki mæld vegna skorts á áreiðanlegum upplýsingum. Íslenska hagkerfið var hið 22. frjálsasta árið 1990, hið 7. frjálsasta 2004 og hið 14. frjálsasta 2021.)
Fukuyama hefur hins vegar rétt fyrir sér. Danmörk er um margt til fyrirmyndar. Hann bendir líka á, að ein skýringin á því sé, hversu áhrifamikill hinn merki hugsuður, skáld, félagsmálafrömuður, prestur og stjórnmálamaður Nikolaj F. S. Grundtvig var. Hann er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar úr íslensku á dönsku og setti fyrstur fram þá tilgátu, að Snorri hefði líka ritað Egils sögu. Grundtvig var fylgismaður þjóðlegrar frjálshyggju, sem hann sótti ekki síst í hinn auðuga norræna menningararf. Eitt meginstefið í ritum Snorra er til dæmis munurinn á góðum konungum og vondum: Góðu konungarnir virtu lög, héldu uppi friði og lögðu á hóflega skatta. Vondu konungarnir butu lög, háðu stríð og þyngdu skattbyrðina. Snorri lýsir því, hvernig þeir voru settir af, gengju þeir of langt að góðra manna yfirsýn.

Þjóðleg frjálshyggja

Jafnvel á einveldistímanum danska frá 1660 til 1849 virti Danakonungur í aðalatriðum meginreglur réttarríkisins, sem birtust í upphafi Jyske lov, Jótalaga, frá 1241: Með lögum skal land byggja. Undir lok átjándu aldar hafði Adam Smith líka veruleg áhrif í Danmörku, en vinir hans og lærisveinar beittu sér fyrir því, að Auðlegð þjóðanna var þýdd á dönsku fyrst erlendra mála. Einokunarverslunin við Ísland og Finnmörku var afnumin, vistarband fellt úr gildi, konungsjarðir seldar og jörðum gósseigenda skipt upp, svo að dönskum sjálfseignarbændum fjölgaði úr tíu af hundraði í tvo þriðju bænda. Árið 1797 voru tollar lækkaðir verulega. Árið 1848 krafðist danskur almenningur þess síðan, að einveldið viki. Konungur lét undan, og 5. júní 1849 tók ný og frjálsleg stjórnarskrá gildi. Grundtvig sat á stjórnlagaþinginu, en helsta áhyggjuefni hans var, þegar valdið færðist úr höndum konungs, að það lenti ekki í höndum lýðskrumara og upphlaupsmanna.

Lýðurinn varð að fara gætilega með það vald, sem konungurinn hafði áður. Grundtvig beitti sér þess vegna fyrir alþýðumenntun í lýðskólum. Hann taldi málfrelsið einhverja helstu stoð upplýsts lýðræðis og orti frægt kvæði (Nordisk mytologi) um, að þetta frelsi væri norræn hugsjón, sem næði ekki síður til Loka en Þórs. Jafnframt var Grundtvig þjóðernissinni, sem taldi Dani eiga að rækta sögulega arfleifð sína og tungu, vakna til vitundar um sjálfa sig sem eina þjóð. En hann var frábitinn allri ágengni. Til dæmis lagði hann það til í deilum um Slésvík, þar sem norðurhlutinn var dönskumælandi og suðurhlutinn þýskumælandi, að héraðinu yrði skipt samkvæmt vilja íbúanna sjálfra. Varð það úr löngu eftir daga hans, þegar íbúarnir fengu að greiða um þetta atkvæði. Í öðru frægu kvæði (Folkeligt skal alt nu være) sagði hann, að þjóð mynduðu þeir, sem vildu vera þjóð, tala eigið móðurmál og eiga eigið föðurland.

Hinn danski þjóðarandi

Danir töldu sig bíða mikinn hnekki, er þeir misstu fyrst Noreg í hendur Svía 1814 og síðan Slésvík og Holtsetaland í hendur Þjóðverja 1864. En það var ekki síst fyrir áhrif Grundtvigs, sem þeir sneru ósigri í sigur, virkjuðu jafnt einkaframtak og samtakamátt og gerðust ein helsta menningarþjóð Norðurálfunnar. Einkunnarorð þeirra urðu þau, sem annað skáld, Hans Peter Holst, orti: Hvað udad tabes, skal indad vindes, úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Matthías Jochumsson orti í orðastað iðnjöfursins C. F. Tietgens, þegar hann gaf ungum íslenskum athafnamanni ráð:

Ég býð ekki Íslandi ölmusunáð;

ég ætla að gefa ykkur heillaráð:

Sá blessaðist aldrei í heimi hér,

sem hafði’ekki trú á sjálfum sér.

Þið eigið sjálfir að leysa landið,

losa’ykkur sjálfir við okurbandið.

Tietgen var einmitt einn af lærisveinum Grundtvigs og kostaði af honum styttuna, sem stendur fyrir framan Marmarakirkjuna í miðborg Kaupmannahafnar og óteljandi Íslendingar hafa gengið fram hjá.

Hinn frjálslyndi danski þjóðarandi sýnir sig ekki aðeins í orði, heldur líka í verki, eins og nefna má um tvö dæmi. Nasistar höfðu hernumið Danmörku vorið 1940, og eftir að danska stjórnin hafði í ágúst 1943 lagt niður völd í mótmælaskyni við yfirgang þeirra, hugðust þeir handsama alla danska gyðinga. Þetta spurðist út, og tóku þá Danir, háir og lágir, þegjandi og hljóðalaust, saman höndum um að koma þúsundum danskra gyðinga yfir Eyrarsund til Svíþjóðar. Þegar nasistar brunuðu á hervögnum sínum um Danmörku í októberbyrjun 1943 í leit að gyðingum, gripu þeir víðast í tómt. Af 7.800 dönskum gyðingum sluppu 7.220 yfir sundið, en aðeins 464 gyðingar náðust og voru sendir í fangabúðir. Hitt dæmið þekkja Íslendingar. Þótt Danir hefðu ólíkt ýmsum öðrum þjóðum komist löglega yfir íslensk handrit, ákváðu þeir að skila þeim til Íslands. Bretar og Frakkar taka hins vegar ekki í mál að skila til heimalandanna dýrgripum, sem þeir rændu í Grikklandi, Egyptalandi og víðar.

Umbætur síðustu áratuga

Danski flokkurinn Venstre hefur einkum haldið minningu Grundtvigs á lofti, og margir forsvarsmenn hans hafa verið eindregnir frjálshyggjumenn í anda hans. Má sérstaklega nefna hinn sjálfmenntaða bónda Thomas Madsen-Mygdal, forsætisráðherra 1926–1929, og hagfræðinginn Anders Fogh-Rasmussen, forsætisráðherra 2001–2009 og síðar framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Fogh-Rasmussen birti árið 1993 fróðlega bók, Fra socialstat til minimalstat (Úr félagshyggjuríki í lágmarksríki), þar sem hann benti á ýmsar leiðir til auka atvinnufrelsi og hagsæld í Danmörku. Eftir að hann varð forsætisráðherra, fór hann þó varlegar en margir samherjar hans vildu, og varð frægt í sjónvarpskappræðum, þegar leiðtogi jafnaðarmanna reif úr bók hans margar blaðsíður, sem hann taldi úreltar. Að vísu tókst Fogh-Rasmussen að stöðva skattahækkanir og auka atvinnufrelsi nokkuð, og árið 2009 voru skattar lækkaðir talsvert í Danmörku. Danska hagkerfið fór úr því að vera hið 17. frjálsasta í heimi árið 1985 í að vera hið 7. frjálsasta árið 2021.

Nú er hagfræðingurinn Otto Brøns-Petersen, sem aðstoðaði Fogh-Rasmussen við að skrifa bókina, staddur á Íslandi og ætlar að tala um „Reforming the Welfare State: The Case of Denmark“ þriðjudaginn 25. júní kl. 16.30 í Sjálfstæðishúsinu gamla við Austurvöll (Nasa). Brøns-Petersen var deildarstjóri í efnahagsráðuneytinu 1993–1999 og skrifstofustjóri skattaráðuneytisins 1999–2013, svo að hann gjörþekkir innviði danska hagkerfisins. Hann er nú sérfræðingur og ráðgjafi rannsóknarstofnunarinnar CEPOS í Kaupmannahöfn. Hann hefur kennt við Kaupmannahafnarháskóla og Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, er höfundur nokkurra bóka og er félagi í Mont Pelerin samtökunum, alþjóðasamtökum frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði vorið 1947. Verður fróðlegt að heyra mat hans á því, hvað Dönum hefur tekist — og mistekist — í fjármálum og atvinnumálum síðustu áratugi.

(Grein í Morgunblaðinu 24. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir