Mánudagur 20.10.2025 - 08:14 - Rita ummæli

Sex erindi árið 2025

Ég hef víða flutt erindi árið 2025, og eru stuttar frásagnir um þau á heimasíðu RNH og oft myndir.

BB9BEDD8-2EDA-405E-8454-84DFC2653C77_1_105_cÁ þingi Mont Pelerin samtakanna í Mexíkóborg 16.–19. mars kynnti ég bók mína um frjálslynda íhaldsstefnu, Conservative Liberalism, North and South, og lagði þá megináherslu á þá Snorra Surluson, Anders Chydenius og N.F.S. Grundtvig. Reifaði ég líka utanríkisstefnu í anda Grundtvigs, norrænu leiðina.

Á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík 26. mars kynnti ég bók mína um frjálslynda íhaldsstefnu, Conservative Liberalism, North and South, og ræddi líka um íslensk stjórnmál. Ég kvað utanríkisstefnuna eiga að felast í að selja fisk, en ekki frelsa heiminn.

Á ráðstefnu í Vínarborg 12. maí gerði ég greinarmun á mörgum litlum draumum og einum stórum draumi. Margir litlu draumarnir væru venjulegs fólks, sem vildi koma upp fjölskyldu og reka fyrirtæki. Þeir draumar gætu ræst við atvinnufrelsi. Stóri draumurinn væri menntamannanna, sem vildu umskapa heiminn eftir forskriftum úr bókum, en það endaði alltaf með ósköpum, breyttist í martröð.

Á ráðstefnu í Búdapest 13. maí kvað ég alþjóðaviðskipti vera í senn leið til hagsældar og friðsældar. Hagsældin sprytti af verkaskiptingunni, en friðsældin af því að sjá frekar viðskiptavini en óvini í öðrum þjóðum.

Í sumarskóla New Direction í Chateau de Thorens í Suður-Frakklandi 30. júní til 4. júlí sagði ég frá rannsóknum mínum á norrænni frjálshyggju, meðal annars Snorra Sturlusyni, og lögmálum hennar, ekkert vald án samþykkis og mótstöðuréttinn.

Í Vínarborg 2. október kvað ég vinstrið og hægrið vera að ummyndast. Vinstrið hefði tapað valdabaráttunni í stjórnmálum, en náð yfirráðum yfir háskólum, fjölmiðlum og ýmsum stofnunum. Hægrið hefði klofnað, því að fjórfrelsið mætti ekki verða frelsi glæpalýðs, öfgamúslmia og betlibótara til að áreita okkur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.10.2025 - 08:47 - Rita ummæli

Bréf mitt til samkennara í Háskólanum

Fundargerð Háskólaráðs frá 2. október 2025 hefur nú verið birt á netinu. Fyrir fundinum lá erindi frá prófessor Gylfa Zoëga vegna þess, að nokkrir starfsmenn Háskólans höfðu ásamt öðrum ruðst inn á málstofu um lífeyrismál, sem hann hugðist halda í Þjóðminjasafninu 6. ágúst á vegum stofnunar innan Háskólans. Þegar Gylfi og fyrirlesarinn á málstofunni reyndu að tala, gerðu þessir menn hróp að þeim, svo að ekki heyrðist mannsins mál, og neyddist Gylfi eftir nokkurt þóf til að slíta fundi. Í umræðum á þessum fundi Háskólaráðs var samkvæmt fundargerð lögð á það áhersla, að Háskólinn yrði vettvangur opinnar umræðu, þar sem ólík sjónarmið fengju að heyrast. Rektor bar fram tillögu um, að nefnd yrði skipuð til að setja skýrar reglur um viðbrögð við tilraunum til að raska fundafriði, og var hún samþykkt.

Bókun Ragnýjar Þóru

Ragný Þóra Guðjohnsen, dósent á menntavísindasviði, lagði hins vegar fram eftirfarandi bókun:

„Rannsóknastofnunin PRICE er starfrækt á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, https://english.hi.is/regulation-pension-research-institute-iceland-university-iceland/no-1832024. Á vegum PRICE var sl. sumar auglýstur fyrirlestur Gil Epstein, prófessors við ísraelska Bar-Ilan háskólann sem halda skyldi þann 6. ágúst 2025 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Merki Háskóla Íslands var ekki á auglýsingunni.

Í erindi Gylfa Zoega til háskólaráðs er óskað eftir að ráðið leggi línurnar „svo að yfirvöld skólans leggi ekki blessun sína yfir lögbrot með þögn sinni“. Ekki hefur verið skorið úr um að lög hafi verið brotin í tengslum við viðburð PRICE sem vitnað er til. Af þeim ástæðum liggur fyrir að háskólaráð getur ekki tekið málið til umfjöllunar á þeim forsendum.

Í 5. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 kemur fram að háskólaráð marki heildarstefnu í kennslu og rannsóknum, móti skipulag háskóla […], hafi eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra skóla og háskólastofnana og beri ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Þann 10. mars 2022 fordæmdi Háskóli Íslands innrás Rússa í Úkraínu og lýsti yfir samstöðu með nemendum og starfsfólki úkraínskra háskóla sem og öllum íbúum landsins. Í yfirlýsingu háskólans kom fram „Allt samstarf við háskóla og stofnanir í Rússlandi hefur verið sett á ís. Almennt skulu aðgerðir ekki beinast að einstaklingum, og viðurkennt er að samstarf í menntun og rannsóknum er oft byggt á persónulegum tengslum. Margir akademískir starfsmenn og nemendur í Rússlandi hafa opinberlega mótmælt innrásinni. Það verður því að meta hvort framhald verði á samstarfi í hverju tilfelli fyrir sig [leturbreyting RÞG], en taka viðmið af stefnu stjórnvalda hverju sinni (sjá eftirfarandi slóð: https://hi.is/frettir/haskoli_islands_fordaemir_innras_russa_i_ukrainu ).

Í september sl. komst sjálfstæð alþjóðleg rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna (skipuð af Mannréttindaráði SÞ) að þeirri niðurstöðu að „Ísrael sé að fremja þjóðarmorð“ á Gasa.

Þann 7. maí sl. gáfu utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir hafna öllum hugmyndum um brottflutning Palestínumanna frá Gaza enda væru þær brot á alþjóðalögum (sjá: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/05/07/Sameiginleg-yfirlysing-um-Gaza/)

Þann 12. ágúst sl. fór utanríkisráðherra Íslands, tuttugu og átta samstarfsráðherrar hennar og utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, fram á við ísraelsk stjórnvöld að þau heimili nú þegar flæði neyðaraðstoðar inn á Gaza og að alþjóðastofnunum og alþjóðlegum mannúðarsamtökum verði gert kleift að koma þeirri aðstoð til skila til að koma í veg fyrir frekari hungursneyð á Gaza. Nú er talið að meira en 63 þúsund manns hafa látið lífið á Gaza, þar á meðal er stór hluti almennir borgarar og börn.

Þegar metið er í ljósi þessa hvort réttlætanlegt sé að fordæma innrás Ísraels í Gaza eins og gert var með innrás Rússa í Úkraínu – verður að teljast yfir allan vafa hafið – að rétt sé að fara sömu leið.

Varðandi fyrirlestur Gil Epstein þá hefði verið rétt við ákvarðanatöku um viðburðinn að hafa í huga að fyrirlesari er prófessor við Bar-Ilan háskóla og situr í stjórn BESA stofnunarinnar sem tilheyrir háskólanum. Stofnunin leggur áherslu á rannsóknir á málefnum sem tengjast öryggi, varnarmálum og alþjóðasamskiptum, einkum áskoranir tengdar þjóðaröryggi Ísraels. Stofnunin gegnir því veigamiklu hlutverki þegar kemur að utanríkisstefnu Ísraels.

Það er von undirritaðrar sem fulltrúa í háskólaráði og sem starfsmanns Háskóla Íslands að í allri starfsemi skólans séu sjónarmið um mannúð og mannréttindi höfð í heiðri ofar öðrum sjónarmiðum.“

Margt í þessari löngu bókun kemur málinu ekki við. Sagt er, að slitið hafi verið samstarfi við rússneska háskóla, og eðlilegt sé að slíta einnig samstarfi við háskóla í Ísrael. En Háskólinn hefur ekkert samstarf við háskóla í Ísrael, svo að engu er að slíta. Þótt fyrirhugaður fyrirlesari sé prófessor í Ísrael og raunar kunnur og virtur fræðimaður, var hann hér á eigin vegum og þáði boð Gylfa Zoëga um að halda fyrirlestur á sérsviði sínu. Í samþykkt Háskólaráðs frá 10. mars 2022 sagði einmitt: „Almennt skulu aðgerðir ekki beinast að einstaklingum, og viðurkennt er að samstarf í menntun og rannsóknum er oft byggt á persónulegum tengslum.“

Skýlaust lögbrot

Í bókun Ragnýjar Þóru eru alvarlegar missagnir og jafnvel falsanir. Í fyrsta lagi er vitnað í þau orð Gylfa Zoëga í bréfi hans til Háskólaráðs, að það þurfi að leggja línur, „svo að yfirvöld skólans leggi ekki blessun sína yfir lögbrot með þögn sinni“. Segir Ragný Þóra: „Ekki hefur verið skorið úr um að lög hafi verið brotin í tengslum við viðburð PRICE sem vitnað er til. Af þeim ástæðum liggur fyrir að háskólaráð getur ekki tekið málið til umfjöllunar á þeim forsendum.“

Þetta er alrangt. Um var að ræða skýlaust lögbrot. Ekki er um það deilt, að nokkrir starfsmenn Háskólans ruddust inn á fundinn og höfðu í frammi slíka háreysti, að ekki var fundarfært. Í 122. grein almennra hegningarlaga segir:

  1. Hver, sem hindrar það, að löglegur mannfundur sé haldinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru, einkum ef ofríki eða ógnun í framferði hefur verið viðhaft.
  2. Raski nokkur fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Um var að ræða löglegan mannfund, og þeir starfsmenn Háskólans, sem ruddust inn á hann og komu í veg fyrir, að fundarstjóri og fyrirlesari gætu talað, voru að hindra hann. Þeir röskuðu ekki aðeins fundarfriði, sem vægari refsing er lögð við skv. 2. málsgrein 122. gr. laganna, heldur hindruðu það beinlínis, að löglegur mannfundur yrði haldinn. Og jafnvel þótt reynt væri að fella framferði þeirra undir 2. málsgrein 122. gr. laganna, frekar en 1. málsgrein, er það lögbrot og varðar sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

Frekleg fölsun 

Í öðru lagi er í bókun Ragnýjar Þóru hvergi minnst einu orði á tilefnið til átakanna á Gasa. Það er frekleg fölsun og ekkert annað. Tilefnið var, að hryðjuverkasamtökin Hamas, sem höfðu öll yfirráð á Gasa, eftir að þau sigruðu í kosningum árið 2006 (en hafa ekki haldið kosningar síðan), réðust á Ísrael 7. október 2023 á svo fólskulegan og villimannslegan hátt, að þess er varla hliðstæða á okkar dögum. Myrtu Hamas-liðar um 1.200 manns, nauðguðu konum og svívirtu þær á annan hátt, drápu börn fyrir framan foreldra sína og tóku 251 gísl, sem þeir höfðu með sér inn í jarðgöng, sem þeir hafa grafið undir öllu Gasa fyrir fjárhagsaðstoð frá Vesturlöndum og Arabaríkjum. Tóku þeir sjálfir kvikmyndir af ódæðum sínum og birtu á netinu. Síðan hafa þeir öðru hvoru sent eldflaugar inn í Ísrael, sem ætlað er að granda óbreyttum borgurum. Þess vegna er eðlismunur á framferði Rússa í Úkraínu og aðgerðum Ísraelshers á Gasa. Rússar réðust á Úkraínu, en Gasa-búar (eða Hamas-liðar í umboði þeirra) réðust á Ísrael. Ísrael er í sömu stöðu og Úkraína: á það var ráðist. Auðvitað hafði Ísrael fullan rétt á að verja sig alveg eins og Úkraína hefur fullan rétt á að verja sig. Á sama hátt og hætt er við, að ýmsir óbreyttir borgarar í Rússlandi falli því miður eða særist í gagnárásum Úkraínuhers, er hætt við, að ýmsir óbreyttir borgarar á Gasa falli því miður eða særist í gagnárásum Ísraelshers. Það gerist í öllum stríðum.

Misnotkun hugtaksins þjóðarmorð

Ragný Þóra heldur því enn fremur fram í bókun sinni, að Ísraelsmenn fremji þjóðarmorð á Gasa, þótt erfitt sé að sjá, hvernig það á að réttlæta innrásina í Þjóðminjasafnið 6. ágúst 2025. Hér misnotar hún hugtakið (eins og fleiri gera, sem hún vitnar til, en í svokölluðu mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sitja 47 fulltrúar og margir þeirra frá einræðisríkjum, sem fremja kerfisbundin mannréttindabrot). En hugtakið þjóðarmorð hefur skýra merkingu. Það mótaðist í lok seinni heimsstyrjaldar til að lýsa framferði þýskra nasista, sem reyndu að útrýma gyðingum, en raunar líka vangefnu fólki, sígaunum og samkynhneigðum körlum. Jafnframt stunduðu nasistar stórfelldar ófrjósemisaðgerðir. Í framhaldi af réttarhöldum yfir forystumönnum nasista í Nürnberg 1946, sem sakfelldir voru fyrir „glæpi gegn mannkyni“, samþykkti sérstök ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málið 9. desember 1948: „Með þjóðarmorði er átt við eitthvert eftirtalinna verka, sem framin eru í því skyni að tortíma í heild eða að hluta hópi, sem markast af þjóðerni, uppruna, kynþætti eða trú: a) að drepa fólk í hópnum, b) að valda fólki í hópnum alvarlegum áverkum, líkamlegum eða andlegum, c) að haga svo til, að aðstæður hópsins valdi tortímingu hans að hluta eða í heild, d) að gera ráðstafanir til þess, að hópurinn geti ekki fjölgað sér, e) að flytja með valdi börn úr hópnum í aðra hópa.“

Ef miðað er við þessa skilgreiningu, þá var helförin í seinni heimsstyrjöld tvímælalaust þjóðarmorð. Deilt er um, hvort Tyrkir hafi framið þjóðarmorð á Armenum árið 1915, en Tyrkjaher gekk þá fram af mikilli grimmd, hvort sem markmið hans var beinlínis að útrýma Armenum eða berja harkalega niður uppreisn þeirra. Mér sýnist, að undir þessa skilgreiningu á þjóðarmorði falli framferði Rússa í Úkraínu, en þeir hafa sem kunnugt er flutt með valdi fjölda barna til Rússlands. Einnig falli framferði Kínastjórnar undir þessa skilgreiningu á þjóðarmorði: Í Tíbet hefur fjöldi Tíbeta fallið í uppreisnum, og markvisst er reynt að útrýma siðum þeirra og venjum (valda þeim andlegum áverkum). Í vesturhluta Kína, Xinjiang, sæta Uyghur-múslimar ofsóknum sökum trúar sinnar, og er talið, að um ein milljón þeirra sé geymd í þrælabúðum, þar sem reynt er að fá fanga til að kasta trú sinni, þeir pyndaðir, konum nauðgað og framkvæmdar ófrjósemisaðgerðir. Enn fremur er talið, að að árin 2000 til 2008 hafi 65 þúsund fangar úr Falun Gong samtökunum verið teknir af lífi í Kína og líffærin úr þeim seld (nánast sami fjöldi og Ragný Þóra telur hafa fallið á Gasa, jafnt hermenn sem óbreyttir borgarar). Í því sambandi er umhugsunarefni, að Háskóli Íslands er í sérstöku samstarfi við kínversk stjórnvöld, sem reka svokallaðar Konfúsíusarstofnanir í mörgum löndum, þar á meðal á Íslandi, og eru þær mjög umdeildar, því að þær þykja ganga erinda kínverskra stjórnvalda eða að minnsta kosti halda uppi hinu algera banni þeirra við að ræða hugsanlegt þjóðarmorð í Tíbet og í vesturhluta Kína, blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar árið 1989, sjálfsákvörðunarrétt íbúa Taívans og brot Kínverja á samningum við Breta um Hong Kong. Ragný Þóra sagði í bókun sinni: „Það er von undirritaðrar sem fulltrúa í háskólaráði og sem starfsmanns Háskóla Íslands að í allri starfsemi skólans séu sjónarmið um mannúð og mannréttindi höfð í heiðri ofar öðrum sjónarmiðum.“ Á þetta ekki við um Kína?

Aðgerðir Ísraelshers á Gasa falla hins vegar ekki undir skilgreininguna á þjóðarmorði. Það er ekki markmið Ísraelsmanna að útrýma Palestínu-Aröbum, enda hefur fjöldi þeirra tífaldast, frá því að Ísraelsríki var stofnað vorið 1948, og eru þeir nú 5,5 milljónir talsins, 3,4 milljónir á vesturbakkanum og 2,1 milljón á Gasa. Það voru Jórdanir, sem hernámu Vesturbakkann árið 1948, og Egyptar, sem hernámu Gasa sama ár, en Ísraelsmenn hernámu bæði svæðin í sex daga stríðinu 1967, en hurfu á brott frá Gasa árið 2005. Ísraelsher varar jafnan óbreytta borgara við, þegar hann gerir loftárásir. Hann reynir einnig að beina árásum að hernaðarlegum skotmörkum. Markmið hans var og er að útrýma Hamas-samtökunum, ekki Palestínu-Aröbum. Það voru síðan Hamas-liðar, sem komu í veg fyrir, að matvæli og hjálpargögn bærust á Gasa. Ragný Þóra nefnir í bókun sinni, að 63 þúsund manns hafi fallið á Gasa í stríðinu, sem hófst 7. október 2023. Erfitt er að meta, hversu áreiðanleg sú tala er, en því er líka haldið fram, að um 80% fallinna hafi verið óbreyttir borgarar. Það er nokkru hærra hlutfall en í seinni heimsstyrjöld, þar sem talið er, að 60–67% fallinna hafi verið óbreyttir borgarar, en það skýrist auðvitað af framferði Hamas-liða. Þeir ganga ekki í einkennisbúningum eins og venjulegir hermenn, svo að erfitt er að gera greinarmun á þeim og óbreyttum borgurum, og þeir fela sig inni í skólum og sjúkrahúsum og nota þannig óbreytta borgara sem skildi. En séu þessar tvær tölur teknar trúanlegar, þótt líklega séu þær í hærra lagi, þá hafa um 50.400 óbreyttir borgarar fallið í þessu stríði, um 2,4% íbúanna á Gasa. Það er auðvitað sorglegt, mjög sorglegt, en það er ekki þjóðarmorð. Hamas-liðar beina hernaðaraðgerðum sínum hins vegar að óbreyttum borgurum í Ísrael, og samtökin hafa beinlínis á stefnuskrá sinni að útrýma Ísraelsríki, eins og raunar forystumaður innrásarinnar í Þjóðminjasafnið, Ingólfur Gíslason, aðjúnkt á menntavísindasviði, sem skrifaði færslu á Facebook eftir innrásina: „Fari Ísraelsríki til helvítis.“ Ekki verður betur séð en þessi forystumaður innrásarinnar og starfsmaður Háskólans hafi hér verið að hvetja til þjóðarmorðs.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:55 - Rita ummæli

Á aldarafmæli Margrétar Thatchers

Reagan.Thatcher.PaintingChurchillEinn merkasti stjórnmálamaður tuttugustu aldar, Margrét Thatcher, hefði orðið hundrað ára í dag. Hún fæddist í Grantham í Lincoln-skíri 13. október 2025, dóttir kaupmanns þar í bæ, Alfreds Roberts, og konu hans, Beatrice. Margrét gat sér snemma orð fyrir vinnusemi, einbeitni og gáfur og hlaut styrk til náms í Oxford-háskóla. Þar var hún formaður Félags íhaldsstúdenta í eitt misseri, og þaðan lauk hún prófi í efnafræði árið 1947. Á námsárum hennar í Oxford kom út hin kunna bók ensk-austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks, Leiðin til ánauðar (The Road to Serfdom), þar sem því var haldið fram, að nasismi og kommúnismi væru tvær greinar af sama meiði, en hætt væri við, að miðstýrður áætlunarbúskapur leiddi til alræðis. Hafði bókin mikil áhrif á Margréti, sem varð snemma virk í Íhaldsflokknum. Eftir að hún var valin frambjóðandi flokksins í Dartford, kynntist hún efnuðum kaupsýslumanni, Denis Thatcher, sem var nokkru eldri, og gengu þau í hjónaband árið 1951. Hún náði ekki kjöri í Dartford í tvennum kosningum, en lauk lagaprófi árið 1953, og þau hjón eignuðust sama árið tvíbura.

Árið 1959 var Thatcher kjörin á þing fyrir Finchley norðan af Lundúnum og vakti þegar athygli fyrir skörungsskap, dugnað og kjark. Hún var í senn íhaldssöm og frjálslynd, greiddi atkvæði með því að halda í dauðarefsingu, en líka með því að afnema bann við samkynhneigð, þá ein fárra íhaldsþingmanna. Hún var kennslumálaráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins 1970–1974. En þegar hinn óvinsæli formaður flokksins, Edward Heath, vildi ekki víkja eftir ósigur í tvennum þingkosningum og aðrir forystumenn flokksins þorðu ekki að fara gegn honum, ákvað hún að bjóða sig fram, og flestum að óvörum var hún árið 1975 kjörin leiðtogi Íhaldsflokksins og þá um leið stjórnarandstöðunnar.

„Hér er það, sem við viljum!“

Þegar Thatcher tók við formennsku í Íhaldsflokknum, var Bretland í djúpri lægð. Verkalýðsfélög réðu lögum og lofum og stöðvuðu með ofbeldi allar umbætur í atvinnumálum. Hagstjórn í anda Johns Maynards Keynes lávarðar, þar sem ríkið skyldi halda uppi fullri atvinnu, jafnvel þótt það kostaði verðbólgu, hafði ekki náð tilætluðum árangri. Risastór ríkisfyrirtæki voru rekin með stórfelldu tapi. Thatcher sannfærðist um, að leita þyrfti nýrra leiða. Kynnti hún sér gaumgæfilega rit hagfræðinganna Hayeks og Miltons Friedmans, sem töldu verðlagningu á markaði oftast farsælli en skipulagningu að ofan. Ríkið ætti að einbeita sér að því að auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að leysa mál í frjálsum samningum. Skömmu eftir leiðtogakjörið sótti Thatcher fund í rannsóknarsetri Íhaldsflokksins, þar sem einum sérfræðingnum varð tíðrætt um miðjuleið í stjórnmálum. Hún fór þá í skjalatösku sína, dró upp bók Hayeks, Frelsisskrána (Constitution of Liberty), hélt henni uppi, svo að allir sæju, og sagði: „Hér er það, sem við viljum!“ Skellti hún bókinni síðan á borðið fyrir framan sig, svo að undir tók.

Í þingkosningum í maí 1979 sigraði Íhaldsflokkurinn undir forystu Thatchers, og myndaði hún stjórn. Hún afnam strax innflutnings- og gjaldeyrishöft, jók aðhald í ríkisfjármálum og peningamálum og hóf undirbúning að sölu ríkisfyrirtækja. Þegar hún frétti í september 1979, að Hayek, sem bjó þá í Þýskalandi, væri staddur í Lundúnum, bauð hún honum í hádegisverð í forsætisráðherrabústaðnum, Downing-stræti 10. Hún tók á móti honum í anddyrinu og sagði brosandi: „Prófessor Hayek! Ég veit, hvað þér ætlið að segja. Ég hafi ekki gert nóg. Og auðvitað er það alveg rétt!“ Með þessu afvopnaði hún Hayek, sem sagði mér sjálfur þessa sögu og hló við. Leyndu þau því hvergi, að þau dáðust hvort að öðru.

Sigrar innan lands og utan

Nokkru áður en Thatcher varð forsætisráðherra, hafði hún varað við yfirgangi Kremlverja, sem brugðust við með því að kalla hana „járnfrúna“. Hún lét sér það heiti vel líka. Og svo sannarlega þurfti járnfrú til að leysa þau verkefni, sem blöstu við vorið 1979. Við aukið aðhald í ríkisfjármálum og peningamálum kom í ljós það atvinnuleysi, sem áður hafði verið falið í ofmönnun og taprekstri, og voru tölur um atvinnuleysi um skeið ískyggilegar. Sjónvarpið íslenska flutti áróðursþátt 22. september 1980 um „Hrun Bretaveldis“, sem ég andmælti í Morgunblaðinu 25. september. Næstu ár kyrjaði kór vinstri sinnaðra menntamanna, að Thatcher væri að leggja Bretland í rústir. Birtu 364 breskir hagfræðingar meira að segja yfirlýsingu um það vorið 1981, að stefna hennar væri dæmd til að mistakast. Ég hóf nám í Oxford þá um haustið, og sótti ég þar fyrirlestra hins kunna réttarheimspekings Ronalds Dworkins. Hann deildi eitt sinn á Thatcher fyrir aukið atvinnuleysi. Ég rétti upp hönd. Hann glotti við, þagnaði og leyfði mér að bera fram spurningu: „En mun atvinnuleysi ekki minnka við aðlögun atvinnulífsins að nýjum aðstæðum? Við hagvöxt og sveigjanlegri verðlagningu á vinnumarkaði?“ Glottið hvarf ekki af Dworkin, en hann svaraði að bragði: „Jú, en það tekur bara svo langan tíma.“

Skömmu seinna tók atvinnuleysi í Bretlandi þó að minnka. Bresk fyrirtæki urðu arðsamari við umbætur Thatchers, og ný störf sköpuðust, eftir að hin óarðbæru hurfu. Jafnframt tókst Thatcher að knýja verkalýðsfélög til að fara að lögum, en um skeið sló iðulega í bardaga með lögreglunni og prenturum, sem börðust gegn nýrri prenttækni, og námumönnum, sem reyndu að hindra, að óarðbærum kolanámum yrði lokað. Seinna komst upp, að nokkrir foringjar verkalýðshreyfingarinnar höfðu þegið fúlgur fjár frá Moskvu. Thatcher hélt ótrauð áfram umbótum, lækkaði jaðarskatt á tekjur úr 83 í 40 af hundraði og hækkaði um leið virðisaukaskatt, seldi ríkisfyrirtæki og íbúðarhúsnæði í eigu hins opinbera. Í janúar 1981 hafði vinur Thatchers og sálufélagi, Ronald Reagan, orðið forseti Bandaríkjanna, og saman fengu þau því framgengt, að Vesturveldin svöruðu yfirgangi Kremlverja með auknum varnarviðbúnaði, þótt það kostaði harða baráttu við svokallaðar friðarhreyfingar, sem nutu leynilegs fjárstuðnings frá Moskvu. En nú höfðu miðstýrð hagkerfi kommúnistaríkjanna dregist langt aftur úr hinum frjálsu hagkerfum, og Kremlverjar misstu sjálfstraustið og fjárhagslega getu til stórfellds vígbúnaðar. Berlínarmúrinn hrundi í nóvember 1989, og Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur í desember 1991. Thatcher og Reagan höfðu sigrað í Kalda stríðinu, sem háð hafði verið frá árinu 1948.

Hin breska stjórnmálahefð

Sjálfur tel ég sigra Thatchers í baráttunni innan lands um frjálst hagkerfi og í Kalda stríðinu á alþjóðavettvangi miklu mikilvægari en sigurinn í Falklandseyjastríðinu 1983, sem var eins og tveir sköllóttir menn að fljúgast á um hárgreiðu. Líklega hefði Thatcher sigrað í þingkosningunum 1983, þótt ekkert Falklandseyjastríð hefði verið háð, því að breska hagkerfið var þá greinilega að taka við sér. Vann hún einnig góðan sigur í þingkosningum 1987, enda hafði aukið atvinnufrelsi þá borið enn sýnilegri ávöxt. En í lok níunda áratugar missti Thatcher smám saman tök á Íhaldsflokknum, ekki síst vegna ágreinings um Evrópumál. Hún vildi ekki stofna evrópskt risaveldi, sem stjórnað væri frá Brüssel. Evrópuríki ættu að mynda frjálsan markað, ekki lokað ríki. Sumir aðrir breskir íhaldsmenn kunnu hins vegar betur við sig í speglasölum í Brüssel en með vinnandi fólki heima fyrir. Einnig gætti þreytu í Íhaldsflokknum eftir rúmlega ellefu ára samfellda forsætisráðherratíð Thatchers. Í formannskjöri í nóvember 1990 hlaut hún ekki tilskilinn aukinn meiri hluta og sagði þá af sér. Árið 2003 tók heilsu hennar að hraka, og féll hún frá 8. apríl 2013.

Ég hitti Thatcher nokkrum sinnum, eftir að hún vék sem forsætisráðherra, og nær Meryl Streep málrómi hennar og hreyfingum vel í kvikmyndinni Járnfrúnni árið 2011, þótt þar væri henni ekki lýst af fullri sanngirni. Thatcher var fríð kona sýnum, í meðallagi há, hvasseyg, með ljósjarpt hár og mikið, alltaf óaðfinnanlega klædd, röskleg í framgöngu og bar mikinn svip. (François Mitterand Frakklandsforseti sagði, að hún hefði varirnar frá Marilyn Monroe og augun frá Caligula.) Ég hafði þó aðeins einu sinni tækifæri til að ræða við hana af einhverri alvöru, og var það í kvöldverði í Lundúnum 5. október 2002. Hafði hún þá mörg orð um muninn á hinni engilsaxnesku stjórnmálahefð, sem fælist í frelsi innan marka laganna, og hefðinni á meginlandinu, sem birtist í afskiptasemi skriffinnanna í Brüssel. Óskaði hún mér til hamingju með, að Ísland hefði ekki gengið í Evrópusambandið. Hún minnti oft á, að Bretland hefði vorið 1941 ásamt samveldislöndunum staðið eitt uppi í baráttunni við alræðisstefnuna. Ekki er úr vegi að geta þess, að á átjándu og nítjándu öld litu frjálslyndir menntamenn á meginlandinu, til dæmis þeir Montesquieu og Voltaire, með aðdáun til Breta, og hér uppi á Íslandi ritaði Jón Sigurðsson í Ný félagsrit 1844 af sömu aðdáun um þá.

Hef ég síðustu árin komist að því í rannsóknum mínum, að hin breska stjórnmálahefð á sömu rætur í forngermönskum stjórnarháttum og sú hin norræna, sem Snorri Sturluson lýsti í Heimskringlu og birtist skýrast í tveimur meginreglum, valdi með samþykki borgaranna (government by consent) og réttinum til mótstöðu (right of rebellion), ef og þegar valdhafinn brýtur lög og venjur. Margrét Thatcher er ásamt Winston Churchill tilkomumesti fulltrúi þessarar hefðar í Bretlandi, sem varð á ný fyrir hennar tilverknað Stóra Bretland.

(Grein í Morgunblaðinu 13. október 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:53 - Rita ummæli

Lydda, nirfill? Eða friðsamur, hagsýnn?

Þegar ég kenndi stjórnmálaheimspeki í Háskóla Íslands, bað ég nemendur stundum að skýra muninn á nautn og fíkn, til dæmis á sælkera og átvagli eða gleðimanni og fyllirafti. Svarið var oftast, að munurinn lægi í því, hvort menn hefðu stjórn á sér. Ég benti þá á, að þetta væri ekkert svar, því að aðeins væri verið að umorða það, sem skýra þyrfti. Munurinn fælist eflaust í huglægri afstöðu okkar. Átvaglið væri sá, sem okkur fyndist háma í sig mat.
Svipað er að segja um ýmsar aðrar einkunnir. Þær segja meira um gerandann en þolandann. Danska skáldið N. F. S. Grundtvig var allra manna skarpskyggnastur. Hann þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar á dönsku og setti í formálanum árið 1818 fyrstur fram þá tilgátu, að Snorri hefði líka samið Egils sögu. Hann sagði líka í formálanum, að Snorra hefði að ósekju verið lýst eins og ófreskju, „uhyre“. Með því átti hann við, að í Sturlungu er iðulega látið að því liggja, að hann hafi verið í senn lydda og nirfill. En Snorri var ekki lydda, heldur maður friðsamur, sem sneiddi hjá átökum ólíkt flestum öðrum höfðingjum á Sturlungaöld. Og Snorri var ekki nirfill, heldur maður hagsýnn, veitull þegar við átti, en ella fastheldinn á fé. Þegar til þess var til dæmis ætlast af honum, að hann legði við hjónaband Órækju, sonar síns, jarðir til hans, tregðaðist hann við, vegna þess að hann vissi, að Órækja myndi fara illa með þessar eignir, hann væri vandræðamaður.
Falsmyndin af Snorra í Sturlungu er ættuð frá frænda hans, Sturlu Þórðarsyni, sem gat ekki af ýmsum ástæðum unnt honum sannmælis.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. október 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:53 - Rita ummæli

Snorri Fólgsnarjarl

Tvær staðreyndir skera úr um það, að Snorri Sturluson reyndi ekki að koma Íslandi undir konung. Hin fyrri er, að Heimskringla er samfelld viðvörun við því, að Íslendingar gangi á hönd Noregskonungi, þótt hóflega sé víða tekið til orða. Hin síðari er, að Snorri var tekinn af lífi með leyfi Noregskonungs. Ég hef síðan bent á, að Snorri lofaði engu um að koma Íslandi undir konung í fyrri utanför sinni 1218–1220, heldur aðeins því að vernda norska kaupmenn, og það loforð efndi hann, svo að konungur sendi aftur til Íslands son hans, sem hann hafði tekið gísl til að tryggja efndir.
Hvað um seinni utanför Snorra, 1237–1239? Sturla Þórðarson lætur að því liggja, að hann hafi árið 1239 þegið jarlsnafn úr hendi Skúla hertoga, sem hugðist hrifsa konungdóminn af tengdasyni sínum, Hákoni Hákonarsyni. Nú var Snorri góður vinur Skúla, sem eflaust hefur trúað honum fyrir þeirri ætlun sinni að hefja borgarastríð. En viðbrögð Snorra voru að flýta sér heim til Íslands. Svo mikilvægt taldi hann að forða sér, að hann hafði að engu farbann Hákonar konungs, heldur mælti: „Út vil ek.“ Snorri var maður friðsamur og gætinn og vissi ekki, hvernig stríðið myndi fara.
Eins og Guðbrandur Vigfússon benti á þegar á nítjándu öld, hefur nafnbótin Fólgsnarjarl átt við um eyna Fólgsn í Þrándheimsfirði, og hefur Skúli heitið vini sínum að gera hann að jarli yfir henni, eftir að hann yrði konungur Noregs. Nafnbótin merkti engan leynijarl, enda gat aðeins konungur gert menn að jörlum. Uppreisn Skúla mistókst, en Hákon konungur taldi, að hann gæti ekki lagt Ísland undir sig, á meðan Snorri sæti þar með öll sín ítök, goðorð, jarðir og fylgismenn, og skipaði því einum þjóni sínum, Gissuri Þorvaldssyni, að senda hann utan eða drepa ella. Gissur valdi seinni kostinn 23. september 1241.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. október 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:51 - Rita ummæli

Hverju lofaði Snorri?

Grein mín í Morgunblaðinu 22. september um stjórnspeki Snorra Sturlusonar, þar sem ég styðst við greiningu Sigurðar Líndals prófessors, hefur vakið nokkra athygli. Menn eru almennt sammála okkur Sigurði um, að í Heimskringlu gæti mikillar tortryggni í garð konunga, til dæmis í ræðu Einars Þveræings. Sumir halda því þó fram, að Snorri hafi í utanför sinni 1218–1220 lofað Noregskonungi að koma landinu undir hann. „Og sé það rétt varpar það ansi miklum skugga á hugmyndir um hann sem andstæðing erlends konungsvalds, eða sjálfstæðishetju,“ segir Einar Kárason í athugasemd við grein mína. En ekkert er til marks um slíkt loforð. Sturla Þórðarson, sem ber frænda sínum misjafnlega söguna, segir aðeins, að Snorri hafi lofað að leita til við Íslendinga að snúast til „hlýðni við Noregshöfðingja“, en skilið son sinn eftir sem gísl til að tryggja efndir.
Augljóst er, við hvað er átt. Norskir kaupmenn og íslenskir goðar höfðu árin á undan átt í mannskæðum átökum, og höfðu þeir Hákon konungur og Skúli jarl reiðst svo, að þeir íhuguðu vorið 1220 að senda her til Íslands. Til þess að afstýra slíkri herför lofaði Snorri að tryggja frið við kaupmenn samkvæmt samningnum, sem Íslendingar gerðu árið 1022 við Ólaf digra um rétt konungs á Íslandi og gagnkvæm réttindi Íslendinga og Norðmanna, „hlýðni við Noregshöfðingja“. Þetta gerði hann heimkominn haustið 1220. Var eftir það friður við kaupmenn. Létu þeir Hákon og Skúli sér það vel líka og sendu son Snorra heim til Íslands. Tekur sú gerð af öll tvímæli um, að Snorri hafði aðeins lofað Norðmönnum hlýðni við settar reglur, gerða samninga, en ekki að koma landinu undir konung. Hvergi er á það minnst, að þeir Hákon eða Skúli hafi talið Snorra rjúfa einhver loforð við sig. Ótalin er þó aðalröksemdin: Snorri var andvígur því að ganga á hönd Noregskonungs, eins og öll Heimskringla er til vitnis um.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. september 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:50 - Rita ummæli

Evrópusambandið: Vinur eða óvinur frelsisins?

Evrópusambandið var stofnað árið 1957 til að verja og auka frelsi Evrópuþjóðanna. Þær voru orðnar fullsaddar á þeim látlausu stríðum, sem háð höfðu verið á meginlandinu, þegar harðskeyttir einræðisherrar reyndu að verða þar alvaldar, síðast þeir Napóleon og Hitler. Sérstaklega átti þetta við um Frakka og Þjóðverja. Forystumenn þeirra vildu nú smíða plóga úr sverðum. Þeir vissu, að tilhneiging manna til að skjóta á náungann minnkar, sjái þeir í honum væntanlegan viðskiptavin. Evrópusambandið, sem upphaflega hét Efnahagsbandalag Evrópu, var stofnað til þess, að þjóðir Evrópu gætu skapað verðmæti í krafti verkaskiptingar og viðskiptafrelsis, eins og Adam Smith hafði lýst í Auðlegð þjóðanna. Ef hagkvæmast er að rækta hveiti í Póllandi og vín í Portúgal, þá eiga þjóðir þessara landa að einbeita sér að því og skiptast síðan á hveiti og víni. Ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, einn frumkvöðull Evrópusambandsins (og forseti Ítalíu 1948–1955), kvað fávíslegt að tengja saman tvær byggðir með vegum, brúm eða höfnum, ætti síðan að torvelda umferð á milli byggðanna tveggja með girðingum eða tollmúrum. Tilgangur Efnahagsbandalags Evrópu var einmitt að tengja saman aðildarþjóðirnar og tryggja fjórfrelsið, frjálsan flutnings fjármagns, vöru, þjónustu og fólks milli landa. Hér hyggst ég ræða þá spurningu, hvort Evrópusambandið sé enn vinur frelsisins eins og í upphafi, en um hana verður ráðstefna Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, í Safnahúsinu við Hverfisgötu kl. tvö til hálffimm laugardaginn 4. október.

Úr Efnahagsbandalagi í Ríkjasamband

Sú tilraun, sem gerð var með stofnun Efnahagsbandalags Evrópu, tókst með ágætum. Árin 1957–1993 runnu markaðir aðildarþjóðanna saman í einn markað, en það herti samkeppni, auðveldaði verkaskiptingu og jók hagkvæmni. Almenn lífskjör bötnuðu í Evrópu, og tækifærum fólks fjölgaði. Efnahagsbandalagið hafði í upphafi verið myndað af sex ríkjum á meginlandinu, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Benelúx-löndunum þremur. Árið 1973 gengu Stóra Bretland, Írland og Danmörk í það, en Norðmenn höfnuðu aðild. Grikkland gekk í bandalagið 1981 og Spánn og Portúgal 1986, en Grænland gekk úr því 1982. Frá upphafi höfðu margir fylgismenn Efnahagsbandalagsins, þar á meðal Einaudi, verið þeirrar skoðunar, að efnahagssamruninn nægði ekki einn sér til að tryggja frið og frelsi í Evrópu. Bentu þeir á, að Þjóðabandalagið, sem stofnað hafði verið eftir fyrri heimsstyrjöld, hafði reynst gagnslítið. Sumir, aðallega Frakkar, voru líka lítt hrifnir af því, að Evrópuríkin þyrftu að treysta á Bandaríki Norður-Ameríku um öryggi sitt. Smám saman óx þeirri skoðun fylgi, að breyta skyldi Efnahagsbandalaginu í raunverulegt ríkjasamband, sambærilegt við Bandaríkin. Evrópusamruninn ætti að ná til stjórnmála ekki síður en atvinnulífs. Árið 1989 urðu síðan þau óvæntu tíðindi, að Berlínarmúrinn hrundi, og Þjóðverjar vildu þá ólmir sameina þýsku ríkin tvö. Frakkar samþykktu það með því skilyrði, að Þýskaland styddi frekari samruna Evrópuríkja, þar á meðal sameiginlegan gjaldmiðil.
Árið 1993 tók Maastricht-sáttmálinn gildi. Efnahagsbandalag Evrópu (sem hafði einnig um skeið verið nefnt Evrópubandalagið) breyttist í Evrópusambandið. Stofnanir Evrópusambandsins voru festar í sessi. Framkvæmdastjórn ESB í Brüssel, sem skipuð er embættismönnum undir stjórn framkvæmdastjóra, eins frá hverju aðildarríki, fer í raun með löggjafarvald og framkvæmdarvald. Evrópuþingið hefur lítil völd, og þarf mikið til þess, að það geti fellt úr gildi tilskipanir Framkvæmdastjórnarinnar. Að kröfu Frakka flyst þingið einu sinni í mánuði og með ærnum tilkostnaði frá Brüssel til Strassborgar, og kalla gárungar það því farandleikhúsið. Evrópudómstóllinn í Lúxemborg hefur reynst fylgispakur Framkvæmdastjórninni, enda veljast dómarar hans oftast úr röðum samrunasinna. Seðlabanki Evrópu í Frankfurt á að vera sameiginlegur seðlabanki þeirra ríkja, sem nota evru (en hún var tekin upp árið 1999), en samt sem áður voru seðlabankar þessara ríkja ekki lagðir niður. Auk þess starfa í Evrópusambandinu ráðherraráð og leiðtogaráð. Eftir að Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur árið 1991, gengu mörg ríki í Evrópusambandið, Svíþjóð, Austurríki og Finnland árið 1995, Kýpur, Tékkland, Ungverjaland, Eystrasaltsríkin þrjú, Malta, Pólland, Slóvakía og Slóvenía árið 2004, Búlgaría og Rúmenía árið 2007 og Króatía árið 2013. Norðmenn höfnuðu aftur aðild, og Svisslendingar hafa jafnvel hafnað aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, en gera tvíhliða samninga við ESB. Bretar gengu úr sambandinu árið 2020.

Öfugþróun í Evrópusambandinu

Milton Friedman sagði eitt sinn við mig, að Evrópusambandið væri ólýðræðislegt: „Í Brüssel heyrast almannahagsmunir eins og hvísl, en sérhagsmunir eins og öskur.“ Með almannahagsmunum átti Friedman aðallega við neytendur og skattgreiðendur. Hann var svo sannarlega ekki einn um þessa gagnrýni. Bent er á, að Framkvæmdastjórnin hafi ekkert lýðræðislegt umboð, þótt hún fari í senn með löggjafarvald og framkvæmdavald. Enn fremur sé Evrópuþingið í reynd lítið annað en málfundafélag. Einnig er minnt á, að Seðlabanki Evrópu hafi þverbrotið stofnskrá sína, en þar er lagt blátt bann við því, að hann veiti ríkjum evrusvæðisins lán. Hann á aðeins að halda uppi traustum gjaldmiðli og auðvelda greiðslumiðlun. Þegar látið var á þetta reyna fyrir Evrópudómstólnum eftir hina alþjóðlegu lausafjárkreppu 2007–2009, var kveðinn upp úrskurður, sem gekk þvert á stofnskrána. Ein meginregla Evrópusambandsins er nálægðarreglan svokallaða (subsidiarity principle), en samkvæmt henni á að taka ákvarðanir sem næst þeim, sem þær varða. Má rekja hana jafnt til Rómarréttar og venjuréttar germanskra þjóða. En nálægðarreglan hefur verið þverbrotin hvað eftir annað, eftir því sem miðstýring í Brüssel hefur aukist. Eitt dæmi er, að Evrópusambandið reynir eftir megni að torvelda Írum að bjóða fyrirtækjum lága skatta í því skyni að laða þau til sín. Annað dæmi er, að Evrópusambandið vill ekki leyfa aðildarríkjum að taka eigin ákvarðanir um ýmis siðferðileg ágreiningsmál, til dæmis fóstureyðingar. Allir eiga samkvæmt Brüssel-mönnum að hírast í jafnstóru rúmi, eins og hjá hinum illræmda gestgjafa Prókrústesi forðum, en hann hjó útlimi af þeim, sem þóttu of langir, og teygði á hinum, sem töldust of stuttir.
Evrópusambandið hefur einnig verið gagnrýnt fyrir ógagnsæi og spillingu. Marta Andreasen, sem var um skeið yfirbókari Framkvæmdastjórnarinnar, sagði í fyrirlestri á Íslandi árið 2013 frá því, þegar hún var rekin fyrir að gagnrýna spillingu innan sambandsins og neita að staðfesta reikninga þess. Endurskoðendur höfðu þá ekki staðfest reikninga sambandsins árum saman. Það hefur að vísu breyst, en endurskoðendurnir benda þó á, að aðildarríkin sjálf fari með um 80 af hundraði fjárveitinga ESB. Í sumum þessara ríkja er ekki jafnsterk hefð fyrir gætilegri meðferð almannafjár og á Norðurlöndum. Raunar er það umhugsunarefni, hvers vegna ESB er að endurdreifa fjármunum milli aðildarríkja, en lætur sér ekki nægja að smíða og halda uppi lagaramma utan um samskipti þeirra. Í því ljósi er það engin tilviljun, að þrjú auðugustu Evrópuríkin, Noregur, Sviss og Ísland, standa utan sambandsins. Þau myndu öll þrjú greiða miklu meira í sjóði sambandsins en þau fengju greitt úr þeim. Annað umhugsunarefni hlýtur að vakna, þegar landamæri eru opin. Það er, hvort rausnarlegt bótakerfi geti farið saman við óheftan innflutning fólks frá fátækum löndum utan Evrópu. „Eigi leið þú oss í freistni,“ segir í helgri bók. Vekja má í þriðja lagi athygli á þeirri algengu fullyrðingu, að Evrópusambandið hafi tryggt frið í Evrópu (en ESB fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2012!). Þetta er ekki rétt. Það voru Bandaríkin með fjölmennu herliði í Evrópu og miklar birgðir af kjarnorkusprengjum heima fyrir, sem tryggðu eftir lok seinni heimsstyrjaldar, að Kremlverjar réðust ekki inn í Vestur-Evrópu, eins og þeir hefðu ella gert.

Tillögur til úrbóta

Evrópusambandið er komið til að vera. Þess vegna þarf að snúa við öfugþróun síðustu áratuga í stað þess að bölsótast. Í ræðum mínum og greinum víðs vegar um Evrópu síðustu ár hef ég tekið undir hugmyndir, sem stuðlað gætu að valddreifingu í stað miðstýringar. Ein er, að vald Framkvæmdastjórnarinnar sé takmarkað. Það sjái aðeins um stjórnsýslu innan ESB, en hafi ekki löggjafarvald. Önnur tillaga er, að löggjafarvaldið sé að nokkru leyti fært til Evrópuþingsins, en að langmestu leyti aftur til þjóðþinganna. Þriðja tillagan er, að Evrópuþinginu sé skipt í tvær deildir. Núverandi ráðherraráð ESB myndi aðra deildina, en núverandi Evrópuþing hina. Fjórða tillagan er, að Seðlabanka Evrópu sé gert að fara eftir stofnskrá sinni og viðurlög sett við brotum á henni. Fimmta tillagan er, að Evrópudómstólnum sé skipt í tvo dómstóla. Annar skeri aðeins úr málum, þar sem nálægðarreglan kunni að vera brotin, og mætti kalla hann Nálægðardómstólinn. Hinn dómstóllinn skeri úr öðrum þeim málum, sem falla nú undir Evrópudómstólinn. Sjötta tillagan er, að dómarar Evrópudómstólsins séu valdir úr röðum reyndra dómara í aðildarlöndunum, en ekki svokallaðra Evrópufræðinga, sem oftast eru ákafnir samrunasinnar. Þróun Evrópusambandsins í miðstýringarátt hefur verið knúin áfram af Framkvæmdastjórninni annars vegar og Evrópudómstólnum hins vegar.

Að baki þessum sex hugmyndum býr að snúa aftur til þess bandalags, sem stofnað var árið 1957 til varnar fjórfrelsinu, en fór á ranga braut upp úr 1990. Það var ótrúlegt, en um leið fróðlegt, að hlusta á Guy Verhofstadt, leiðtoga Evrópusamtakanna, ávarpa landsfund Viðreisnar 21. september síðast liðinn. Hann leyndi því ekki, hver væri hugsjón sín og annarra samrunasinna. Hún væri að geta af sér nýtt tröll, sem hann nefndi „risaveldi góðmennanna“, Bandaríki Evrópu, sem ættu að keppa við önnur risaveldi, aðallega þó Bandaríki Norður-Ameríku og Kínaveldi. Verhofstadt virtist hafa gleymt því, hversu litlu mátti muna á tuttugustu öld, að Evrópa yrði alræðisöflum að bráð. Vorið 1941 voru aðeins sex lýðræðisríki í Evrópu, Írland, Stóra Bretland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss, og þá börðust Bretar einir við nasista (ásamt samveldislöndunum). Þeir og Bandaríkjamenn björguðu saman Evrópu. Og enn hafa Bandaríkin miklu meiri hernaðarmátt en nokkurt annað ríki. Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára hlýtur því að vera að treysta varnarsamstarfið við Bandaríkin og Bretland innan Atlantshafsbandalagsins. Raunar er önnur fyrirmynd um samstarf þjóða okkur mun nærtækari en Evrópusambandið. Það er Norðurlandasamstarfið. Vegabréf höfðu verið afnumin, vinnumarkaður var orðinn sameiginlegur og gagnkvæm réttindi voru tryggð öllum norrænum borgurum, áður en Evrópusambandið varð til í núverandi mynd. Þetta var sjálfsprottin þróun án valdboðs og með lágmarksafsali fullveldis.

Á Ísland erindi í ESB?

Auðvitað var stofnun Evrópusambandsins árið 1957 fagnaðarefni, sérstaklega að Frakkar og Þjóðverjar skyldu ná sáttum. Mörg smáríki Evrópu eiga fullt erindi í Evrópusambandið, til dæmis Eystrasaltsríkin og Finnland. Þau þurftu ekki aðeins aðgang að mörkuðum, heldur líka bandamenn, eins og þau komust áþreifanlega að raun um í seinni heimsstyrjöld. En Ísland var aldrei aðili að þeim átökum á meginlandinu, sem Evrópusambandinu var ætlað að stöðva. Það hefur frá upphafi haft sérstöðu í Evrópu, eins og lesa má úr tveimur frægustu þingræðum Íslandssögunnar. Þorgeir Ljósvetningagoði bar árið 1000 saman Ísland og önnur ríki. „Hann sagði frá því, að konungar úr Norvegi og úr Danmörku höfðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi.“ Aldarfjórðungi seinna minnti Einar Þveræingur enn á sérstöðu Íslands: „En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir.“ Ólíkt ríkjum á meginlandinu er Ísland (ásamt Grænlandi) áreiðanlega innan varnarlínu Bandaríkjanna, hvað sem á dynur. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fékk Ísland síðan nauðsynlegan aðgang að mörkuðum í Evrópu án þess að stofna til víðtækra stjórnmálaskuldbindinga, sem hefðu til dæmis takmarkað kostinn á viðskiptum við lönd utan Evrópusambandsins.
Í ræðu sinni á landsfundi Viðreisnar tók Verhofstadt sérstaklega fram, að Ísland yrði í einu og öllu að lúta reglum Evrópusambandsins, fengi það aðild að því. Annað væri ekki í boði. Evrópusambandið væri eins og hann orðaði það ekki matseðill, þar sem menn gætu valið og hafnað. En fróðlegt verður að vita, hvað fyrirlesararnir sex á ráðstefnu frjálslyndra stúdenta segja á laugardaginn um Evrópusambandið. Dr. Eamonn Butler er höfundur fjölmargra bóka, meðal annars um Friedrich von Hayek og Ludwig von Mises. Hann ræðir um Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Butler er einlægur Íslandsvinur og skrifaði blaðagreinar til varnar Íslendingum, þegar ríkisstjórn Verkamannaflokksins beitti hryðjuverkalögum gegn þeim árið 2008. John Fund er einn af ritstjórum tímaritsins National Review og innanbúðar í bandarískum stjórnmálum, þar sem hann er kunnugur öllum helstu forystumönnum. Hann fræðir áheyrendur á því, hvað sé að gerast í Bandaríkjunum, jafnt fyrir opnum tjöldum og að tjaldabaki. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir framlag sitt til auðlindahagfræði, en hann mun greina rökin fyrir og gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Dr. Daniel Mitchell, sérfræðingur í skattamálum, skýrir, hvers vegna Evrópusambandið hefur staðnað í samanburði við Bandaríkin síðustu áratugi. Gale Pooley, hagfræðiprófessor í Utah Tech háskólanum, rökstyður bjartsýni um framtíðina, sé sköpunarmáttur kapítalismans virkjaður, en hann hefur nýlega gefið út bók um það efni. Siri Terjesen, hagfræðiprófessor í Florida Atlantic University og Viðskiptaháskólanum í Björgvin, ræðir um frumkvöðla og hagvöxt. Tveir ungir menn tala: Júlíus Viggó Ólafsson hagfræðinemi segir nokkur orð í byrjun, og Snorri Másson alþingismaður flytur lokaorð. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur ókeypis, en vegna takmarkaðs rýmis í Safnahúsinu verða menn að skrá sig á vef RSE, sem styður ráðstefnuna, www.rse.is. Að ráðstefnunni lokinni verður móttaka í Safnahúsinu kl. 16.30 í boði RSE. Ungt fólk á öllum aldri er velkomið, hvort sem það stundar nám í framhaldsskóla, háskóla eða skóla lífsins.

(Grein í Morgunblaðinu 2. október 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:48 - Rita ummæli

Valkvæð forvitni

Oftar en einu sinni hef ég tekið eftir því, að forvitni fréttamanna er valkvæð. Þeir hafa aðeins áhuga á sumu. Séu fréttir fyrsta uppkastið að sögunni, þá er ekki von á góðu. Ég nefni tvö dæmi.
Í skýrslu árið 2018 fyrir fjármálaráðuneytið um bankahrunið (aðgengileg á netinu) gat ég þess, að breska leyniþjónustan MI6 hafði mann á sínum snærum hér á landi til að afla upplýsinga um Icesave-málið. Þetta kom fyrst fram í bók árið 2009 eftir Roger Boyes, en þar er tekið fram, að sá maður hafi ekki starfað í sendiráði Breta í Reykjavík, enda var breski sendiherrann einn af þeim, sem veittu Boyes upplýsingar, og las hann handritið yfir. Ég komst að því, hver þessi njósnari Breta var, eins og fram kemur í skýrslu minni, en enginn hefur spurt mig, hver hann var. Hann reyndist vera einn samkennari minn í félagsvísindadeild. Ég hefði haldið, að einhver hefði orðið forvitinn um, hver njósnarinn var. Svo var ekki.
Í bók árið 2022 um landsdómsmálið benti ég á, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sat fámennan fund með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra 26. september 2007, þar sem hann lét í ljós þá skoðun eftir erfiðleika Paribas banka í Frakklandi og fall Northern Rock í Bretlandi, að bankakerfið íslenska kynni að falla. Þorgerður Katrín átti þá með manni sínum milljarða hlut í Kaupþingi. Röskum mánuði seinna báðu þau hjón um, að skuldbindingar þeirra yrðu fluttar í einkahlutafélag, en það var andstætt reglum Kaupþings. Það var þó látið eftir þeim í febrúar 2008 með þeim afleiðingum, að þau sluppu við gjaldþrot eftir bankahrunið í október. Þorgerður Katrín sat síðan að morgni 30. september 2008 ráðherrafund, þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði, að bankarnir væru að falla. Sama dag seldu þau hjón afganginn af hlutabréfum sínum í Kaupþingi fyrir 68,9 milljónir króna. Ég hefði haldið, að einhver hefði orðið forvitinn um þessa tvo gerninga ráðherrans. Svo var ekki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. september 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:48 - Rita ummæli

Danmörk nú, Ísland næst?

Í dönskum héraðsdómi var lögreglumaður að nafni Elvir Abaz sakfelldur í ágústlok 2025 fyrir alvarleg brot í starfi og dæmdur í fangelsi. Hann er múslimi frá Bosníu, sem leitaði 15 ára að aldri hælis í Danmörku, og var fyrsti danski lögreglumaðurinn úr röðum hælisleitenda. Hann varð kunnur fyrir að vera opinskár og harðorður á netmiðlum um gagnrýnendur íslams, þar á meðal leiðtoga borgaralegu flokkanna, sem hann sakaði um kynþáttaandúð og hleypidóma.
Í ljós kom, að Elvir Abraz lét ekki staðar numið við orðin, heldur nýtti sér aðstöðuna innan lögreglunnar til að afrita í síma sinn viðkvæm gögn og koma þeim áleiðis til trúbræðra sinna. Hann laumaði upplýsingum á netið um skáldkonuna og mannréttindafrömuðinn Söru Omar, en svo langt gekk hatursherferð öfgamúslima gegn Söru, að hún hugleiddi að stytta sér aldur. Elvir Abraz samdi líka falskæru gegn einum helsta gagnrýnanda öfgaíslams í Danmörku, stjórnmálamanninum Naser Khader.
Ein skýringin á velgengni Norðurlanda síðustu aldir er samheldni og samhugur borgaranna. En öfgamúslimar koma úr allt öðrum menningarheimi, þar sem ofbeldi, kvenfyrirlitning og vinnufælni er ekki fordæmt, heldur nýtur viðurkenningar. Hvenær ná öfgamúslimar ítökum í íslenska réttarríkinu? Hver er skýringin á því, að lögreglustjórinn í Reykjavík, Halla Bergþóra Björnsdóttir, hefur tvívegis reynt að fella niður rannsókn á fjárreiðum Solaris, sem safnaði 60 milljónum króna á Íslandi og fór með féð til Egyptalands í því skyni að múta þar opinberum starfsmönnum til að hleypa Palestínu-Aröbum út af Gasa? Hvernig stendur á því, að þeir Ibaa Ben Hosheyeh, sem sagðist á netinu vilja drepa gyðinga og míga á leiði þeirra, enda væru þeir blanda af svínum og öpum, og Naji Asar, sem réðst á mótmælafundi á ljósmyndara Morgunblaðsins og skvetti yfir hann rauðu litarefni, skuli enn vera á landinu?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. september 2025.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:46 - Rita ummæli

Sex hlaðvörp með mér árið 2025

Ég hef verið í sex hlaðvörpum þetta árið og farið um víðan völl. Eru frásagnir af boðskap mínum á heimasíðu RNH og hlekkir í viðtölin, sem flest eru í opinni dagskrá.

Ég var gestur Kristjáns Guðjónssonar og Lóu Bjarkar Björnsdóttur í Lestinni á RÚV 3. apríl 2025, þar sem ég ræddi aðallega um bandaríska hægrið, Donald Trump, Milton Friedman og Peter Thiel, en einnig um Margréti Thatcher.

Ég var gestur Birgis Liljars Soltani í Sláin inn 3. maí 2025. Ræddi ég þar meðal annars um Trump forseta, en ég er ekki haldinn Trump-heilkenninu, sem blindaði marga, þótt ég gerði ágreining við Trump um fríverslun, sem ég væri hlynntur, en hann ekki. Einnig ræddi ég um veiðigjöld á sjávarútveginn og vanda Sjálfstæðisflokksins.

Ég var gestur Bergþórs Mássonar í Skoðanabræðrum 9. maí 2025. Þar reifaði ég þá kenningu, að vinstri menn væru meiri vinstri menn en hægri menn hægri menn. Þeir væru knúðir áfram af ástríðu og óánægju með veruleikann.

Ég var gestur Hermanns Nökkva Gunnarssonar í Dagmálum Morgunblaðsins 22. ágúst 2025. Þar gagnrýndi ég árás öfgamanna á fund í Þjóðminjasafninu og hræsni íslenskra gyðingahatara og ræddi um íslenska vinstrið, þar sem öfgafyllsti hópurinn hefði dottið af þingi í fyrsta sinn frá 1937, og íslenska hægrið, sem gengi nú fram í fjórum flokkum.

Ég var gestur Gísla Freys Valdórssonar í Þjóðmálum 27. ágúst 2025. Vildi Gísli Freyr fá mig til að skilgreina frjálshyggju. Ég rifjaði upp sögu Eiríks af Pommern, sem gerðist sjóræningi, eftir að hann hafði verið settur af sem konungur Norðurlanda, þar á meðal Íslands. Spurningin væri, hvort hann hefði sem konungur verið skárri en sem sjóræningi.

Ég var gestur Þórarins Hjartarsonar í Einni pælingu 25. september 2025. Þórarinn gekk mjög á mig um starfslok mín í Háskólanum, og leiddi ég hann í allan sannleik um það. Ég ræddi líka um innflytjendamál, dugleysi lögreglustjórans í Reykjavík og kost manna á að komast undan vinnu með því að skilgreina sig sem öryrkja og kost karla á að sigra í kvennaíþróttum með því að skilgreina sig sem konur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir