Laugardagur 4.5.2019 - 10:24 - Rita ummæli

Piketty um borð í Titanic

f90b61e9-4fc4-4e6d-87b2-bb2df47bb57fTómas Piketty, helsti spekingur jafnaðarmanna um þessar mundir, hefur miklu meiri áhyggjur af auðmönnum en fátæklingum. Hann vill ekki aðeins dalina upp, heldur líka fjöllin niður, eins og Jón Trausti hefði orðað það. Í bók sinni, Fjármagni á 21. öld, víkur Piketty að feigðarför farþegaskipsins Titanic árið 1912 og segir, að stéttaskiptingin um borð hafi endurspeglað stéttaskiptinguna í Bandaríkjunum. Þótt hinn ógeðfelldi Hockley hafi verið hugsmíð James Camerons, hefði hann getað verið til.

Líking Pikettys er hæpin. Farþegar um borð í skipi hafa keypt miða hver á sitt farrými, svo að segja má, að þeir verðskuldi hver sinn stað. Líklega voru miðarnir á þriðja farrými á Titanic einmitt ódýrari, af því að gestirnir á fyrsta farrými greiddu hátt verð fyrir sína miða. Farþegar á skipi geta sjaldnast flust milli farrýma. En í Bandaríkjunum fyrir 1914 braust fjöldi manns með dugnaði og áræðni úr fátækt í bjargálnir, eins og dæmi margra örsnauðra innflytjenda sýndi.

Hinn ógeðfelldi Hockley var ekki til. Hann var hugsmíð. En margir raunverulegir auðmenn voru farþegar á Titanic. Tveir þeirra, Benjamin Guggenheim og John Jacob Astor IV, neituðu að fara um borð í björgunarbáta, fyrr en allar konur og börn hefðu komist þangað. Báðir fórust með skipinu. Ida og Isidor Strauss, sem áttu vöruhúsakeðjuna Macy’s, voru einnig farþegar. Ida neitaði að stíga niður í björgunarbát án manns síns. Hún vildi eins og Bergþóra forðum heldur deyja í faðmi manns síns.

Fátækur skipverji, George Symons, varð hins vegar alræmdur, þegar honum var falin umsjá björgunarbáts, sem tók fjörutíu manns. Hann hleypti þangað sex öðrum skipverjum og fimm farþegum af fyrsta farrými, en lagði síðan frá. Fátækir menn þurfa ekki að vera betri en ríkir. Manngæska skiptist eftir öðru lögmáli en andstæðurnar auður og ekla.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.5.2019 - 16:59 - Rita ummæli

Piketty: Tómlæti um fátækt

Munurinn á tveimur helstu spámönnum jafnaðarmanna á okkar dögum, John Rawls og Tómasi Piketty, er, að Rawls hefur áhyggjur af fátækt, en Piketty af auðlegð. Mér finnst skoðun Rawls heilbrigðari. Fátækt er böl, en auðlegð blessun. Ég get sofið á næturnar, þótt öðrum gangi vel.

Ef til vill var þess ekki að vænta, að Piketty gerði fátækt að neinu aðalatriði, því að mjög hefur dregið úr henni í heiminum síðustu áratugi. Samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðabankans bjó röskur þriðjungur mannkyns við sára fátækt eða örbirgð árið 1990. En aldarfjórðungi síðar, árið 2015, var þessi tala komin niður í einn tíunda hluta mannkyns.

Hundruð milljóna Kínverja hafa brotist úr fátækt til bjargálna vegna þess, að Kína ákvað upp úr 1980 að tengjast alþjóðakapítalismanum. En hagkerfið á meginlandi Kína er aðeins eitt af fjórum kínverskum hagkerfum. Lífskjarabætur hafa orðið miklu meiri í þeim þremur kínversku hagkerfum, sem reist eru á ómenguðum kapítalisma. Árið 2017 var landsframleiðsla á mann 57.700 Bandaríkjadalir í Singapúr, 46.200 í Hong Kong og 24.300 í Taívan, en aðeins 8.800 í Kína. Og frjálsu kínversku hagkerfin þrjú sluppu við ofsakommúnisma Maós, en í hungursneyðinni vegna „Stóra stökksins“ í Kína 1958–1962 týndu um 44 milljónir manna lífi.

Talnarunur um tekjur mega síðan ekki dylja þá staðreynd, að lífið er almennt orðið miklu þægilegra. Kjör fátæks fólks eru nú jafnvel um margt betri en kjör ríks fólks fyrir tveimur öldum vegna bíla, vatnslagna, húshitunar og húskælingar, ísskápa, síma, netsambands, ódýrra flugferða og ótal annarra lífsgæða. Venjulegur launþegi vann fyrir 186 ljósastundum (Lumen-stundum) um miðja þrettándu öld, en fyrir 8,4 milljónum árið 2018.

Lífið er ekki aðeins orðið betra, heldur lengra. Árið 1751 voru lífslíkur við fæðingu 38 ár í Svíþjóð, en árið 2016 82 ár. Árið 1838 voru lífslíkur við fæðingu 33 ár á Íslandi, en árið 2016 hinar sömu og í Svíþjóð, 82 ár. Heilsa hefur batnað og menntun aukist. Árið 1950 hafði um helmingur mannkyns aldrei gengið í skóla. Árið 2010 var þessi tala komin niður í einn sjöunda hluta mannkyns. Allt skiptir þetta máli í umræðum um auð og eklu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.5.2019 - 11:36 - Rita ummæli

Valin verk síðustu þriggja ára

Við kennarar í stjórnmálafræðideild vorum nýlega beðin að skila inn upplýsingum um áhugasvið, menntun, starfsferil og valin verk síðustu þriggja ára vegna sjálfsmats deildarinnar á ensku. Hér er framlag mitt, en mörgu varð að sleppa, því að það mátti aðeins vera ein blaðsíða:

Research Field: Political philosophy; political economy; contemporary history

Education

B.A. History and Philosophy, Faculty of Humanities, University of Iceland 1979.

cand.mag. History, Faculty of Humanities, University of Iceland 1982.

D.Phil. Politics, Faculty of Social Studies, University of Oxford 1985.

Employment

Director of Jon Thorlaksson Institute, 1983–93.

Professor of Politics, University of Iceland, 1988–

Member of the Board, Mont Pelerin Society, 1998–2004.

Member of the Board, Central Bank of Iceland, 2001–9.

Academic Director of RNH (Icelandic Research Centre for Innovation and Economic Growth), 2012–

Visiting Professor or Scholar, Stanford University, UCLA, George Mason University, LUISS (Rome).

Selected Publications (last three years)

Ólafur Björnsson [biography of a leading Icelandic economist]. Andvari, 141 (2016), 11–74.

The Nordic Models. Brussels: New Direction, 2016. 107 pp.

In Defence of Small States. Brussels: New Direction, 2016. 82 pp.

Saga stjórnmálakenninga [History of Political Thought]. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2016. 352 pp.

No Wrongdoing: The First Casualty of the Panama Papers. Cayman Financial Review, 43 (2016), 14–15.

The Saga of Egil [condensation of Egils saga]. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2016.

Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries. Econ Journal Watch, 14:3 (2017), 241–73.

Anti-Liberal Narratives about Iceland. Econ Journal Watch, 14:4 (2017), 362–92.

Marx in a Cold Climate. The Conservative, 3 (2017), 42–46.

Why Small Countries Are Richer and Happier. The Conservative, 4 (2017), 79–82.

Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature. Brussels: New Direction, 2017. 61 pp.

Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights. Brussels: New Direction, 2017. 69 pp.

Lessons for Europe from the Icelandic Bank Collapse. Brussels: New Direction, 2017. 93 pp.

The Saga of Gudrun [condensation of Laxdæla]. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2017. 58 pp.

The Saga of Burnt Njal [condensation of Brennu-Njáls saga]. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2017. 72 pp.

Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson. Econ Journal Watch, 15:3 (2018), 322–50.

Two Germans in Iceland: The Jewess who Became an Icelander and the Nazi who Became a Communist. Totalitarianism, Deportation and Emigration. Proceedings of an international conference in Viljandi, Estonia, 2016, 58–73. Prague: Platform of European Memory and Conscience, 2018.

Totalitarianism in Europe: Three Case Studies. Brussels: ACRE, 2018. 50 pp.

Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958 [Collection of speeches by prominent anti-communists]. Introduction (40 pp.) and Endnotes (70 pp.). Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2018.

Foreign Factors in the 2008 Icelandic Bank Collapse. Report to the Ministry of Finance and Economic Affairs. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, 2018. 211 pp.

Why Conservatives Should Support the Free Market. Brussels: New Direction, 2018. 65 pp.

Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists. Brussels: New Direction, 2018. 103 pp.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.4.2019 - 10:14 - Rita ummæli

Sósíalismi í einu landi

Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru sem kunnugt er John Rawls og Thomas Piketty. Ég hef bent hér á nokkra galla á kenningu Rawls og mun á næstunni snúa mér að boðskap Pikettys. En um báða gildir, að þeir verða að gera ráð fyrir lokuðu hagkerfi, „sósíalisma í einu landi“.

Rawls getur ekki látið þá stórfelldu endurdreifingu tekna, sem hann hugsar sér til hinna verst settu, ná til allra jarðarbúa. Slík endurdreifing yrði sérhverju vestrænu ríki um megn. Til dæmis bjó árið 2017 einn milljarður manna á fátækasta svæði heims, í sólarlöndum Afríku (sunnan Sahara). Meðaltekjur þar voru 1.574 dalir. Í Bandaríkjunum bjuggu hins vegar 325 milljónir manna, og námu meðaltekjur þeirra 59.531 dal. Þess vegna takmarkar Rawls endurdreifinguna við vel stætt vestrænt ríki. Hann lokar augunum, reynir að hugsa sér réttláta niðurstöðu án sérhagsmuna, en þegar hann opnar augun aftur blasir við skipulag, sem líkist helst Cambridge í Massachusetts, þar sem hann bjó sjálfur: frjálst markaðskerfi í bjargálna ríki með nokkurri endurdreifingu fjármuna. Örsnauðir íbúar Haítí og Kongó koma ekki til álita.

Piketty verður að hafa þá ofurskatta á miklar eignir og háar tekjur, sem hann leggur til, alþjóðlega eða banna fjármagnsflutninga milli landa. Annars flytjast eignafólk og hátekjumenn frá háskattalöndum til lágskattalanda. Það er þessi hópur, sem greiðir mestalla skatta og stendur undir endurdreifingu. Til dæmis greiddi tekjuhæsti fimmtungurinn í Bandaríkjunum að meðaltali 57.700 dölum meira í skatta árið 2013 en hann fékk til baka frá ríkinu, næsttekjuhæsti fimmtungurinn 2.600 dölum meira, en hinir þrír fimmtungarnir fengu meira frá ríkinu en þeir lögðu til þess.

Þetta er kjarninn í skáldsögu Ayns Rands, Undirstöðunni, sem komið hefur út á íslensku: Hvað gerist, ef þeir, sem skapa verðmæti, til dæmis frumkvöðlar og afburðamenn, þreytast á að deila afrakstrinum með öðrum, sem ekkert skapa, og ákveða að hafa sig þegjandi og hljóðalaust á brott? Gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, kunna að vera fleygar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2019. Myndin er af Rand.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.3.2019 - 10:50 - Rita ummæli

Tvær eyjar í hitabeltinu

Hvar er fátækt fólk best komið? spyr John Rawls. Berum saman Jamaíku og Singapúr. Bæði löndin eru eyjar í hitabeltinu og fyrrverandi nýlendur Breta.. Jamaíka öðlaðist sjálfstæði árið 1962, en Singapúr var nauðugt rekið úr Malasíu árið 1965. Þá voru þjóðartekjur á mann örlitlu hærri á Jamaíku en í Singapúr. En atvinnulíf óx hratt næstu áratugi í Singapúr og lítið sem ekkert á Jamaíku. Árið 2017 var svo komið, að þjóðartekjur á mann voru tíu sinnum hærri í Singapúr en á Jamaíka. Tífaldar!

singaporeSkýringin á velgengni Singapúr er einföld. Hagkerfið er eitt hið frjálsasta í heimi. Jafnframt stuðla siðir og venjur íbúanna, sem langflestir eru kínverskrar ættar, að veraldlegri velgengni. Lögð er áhersla á fjölskyldugildi, iðjusemi, sparsemi og hagnýta menntun. Það er eins og íbúarnir hafi allir tileinkað sér boðskapinn í frægri bók Samuels Smiles, Hjálpaðu þér sjálfur (sem kom út á íslensku 1892 og hafði holl áhrif á margt framgjarnt æskufólk). Að sama skapi eru til menningarlegar skýringar á gengisleysi Jamaíkubúa. Þar var stundað þrælahald fram á nítjándu öld, en við það hljóp óáran í mannfólkið. Þjóðskipulagið einkennist af sundurleitni og óróa, en ekki sömu samleitni, samheldni og sjálfsaga og í Singapúr.

Aðalatriðið er þó, að á Jamaíku er hagkerfið ófrjálst. Sósíalistar hrepptu völd á áttunda áratug og héldu þeim lengi. Þeir hnepptu íbúana í ósýnilega skriffinnskufjötra. Afar erfitt er að stofna og reka fyrirtæki á þessu eylandi. Fjármagn er illa skilgreint og lítt hreyfanlegt. Frumkvöðlar eru lítils metnir. Talið er, að rösklega helmingur af hugsanlegum arði þeirra hverfi í fyrirhöfn við að fylgja flóknum skattareglum. Kostnaður við að skrá fasteignir á Jamaíka er að meðaltali um 13,5% af virði þeirra, en í Bandaríkjunum er sambærileg tala 0,5%. Í Singapúr er fjármagn hins vegar kvikt og vex eðlilega. Þar er fátækt því orðin undantekning, ekki regla. Á Jamaíku er þessu öfugt farið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.3.2019 - 06:03 - Rita ummæli

Viðtal í Fréttablaðinu um nýleg verk mín

Viðtal var við mig í Fréttablaðinu í dag um fimm rit, sem hafa nýlega komið eða eru að koma út eftir mig: skýrslan um bankahrunið, Foreign Factors in the 2008 Icelandic Bank Collapse; safnrit um menningarbaráttuna í Kalda stríðinu, Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958 (með 40 bls. formála mínum og aftanmálsgreinum á 78 bls.); rit um sátt íhaldsemi og frjálslyndis, Why Conservatives Should Support the Free Market; gagnrýni á Rawls og Piketty, Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists; stutt Íslendinga saga á ensku, The Saga of Gudrid: The Icelandic Discovery of America (condensation and merger of The Saga of the Greenlanders and The Saga of Erik the Red). Þær eru allar á Netinu nema The Saga of Gudrid, sem er í prentun og verður tilvalin tækifærisgjöf til útlendra vina. Guðríður Þorbjarnardóttir, sem ól fyrsta hvíta barnið í Vesturheimi og gekk á gamals aldri suður til Rómar, er auðvitað formóðir mín: Ég er af henni í 27. legg.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.3.2019 - 11:34 - Rita ummæli

Ólík örlög tveggja þjóða

Hvar er fátækt fólk best komið? spyr John Rawls. Berum saman Argentínu og Ástralíu, sem ættu um margt að eiga samleið. Löndin eru stór, bæði á suðurhveli jarðar, með svipað loftslag og svipaðar auðlindir. Þau eru bæði að langmestu leyti byggð innflytjendum frá Evrópu. Árið 1900 öðlaðist Ástralía sjálfstæði innan breska samveldisins, en Argentína hafði þá lengi verið sjálfstætt ríki. Þá voru lífskjör svipuð í þessum tveimur löndum og þau þá á meðal ríkustu landa heims. Menn þurfa ekki að ganga lengi um götur Góðviðru, Buenos Aires, til að sjá, hversu auðug Argentína hefur verið í upphafi tuttugustu aldar.

Á tuttugustu öld hallaði undan fæti í Argentínu. Það er eina land heims, sem taldist þróað árið 1900 og þróunarland árið 2000. Árið 1950 voru þjóðartekjur á mann í Argentínu 84% af meðalþjóðartekjum í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Árið 1973 var hlutfallið komið niður í 65% og árið 1987 í 43%. Napur sannleikur virðist vera í þeirri sögu, að fyrst hafi Guð skapað Argentínu, en þegar hann sá, hversu örlátur hann hafði verið, ákvað hann til mótvægis að skapa Argentínumenn. Auðvitað varð landið illa úti í heimskreppunni á fjórða áratug, en svo var og um Ástralíu. Árið 2016 voru þjóðartekjur á mann í Ástralíu orðnar rösklega tvöfalt hærri en í Argentínu.

Hvað olli? Skýringarnar eru einfaldar. Órói var löngum í landinu, og lýðskrumarar og herforingjar skiptust á að stjórna, en velflestir fylgdu þeir tollverndarstefnu og reyndu líka að endurdreifa fjármunum. Hollir vindar frjálsrar samkeppni fengu ekki að leika um hagkerfið, og þegar endurdreifing fjármuna varð ríkissjóði um megn, voru prentaðir peningar, en það olli verðbólgu og enn meira ójafnvægi og óróa. Argentína er skólabókardæmi um afleiðingarnar af því að eyða orkunni í að skipta síminnkandi köku í stað þess að mynda skilyrði fyrir blómlegum bakaríum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. mars 2019.)

Línurit.Argentína.Ástralía

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.3.2019 - 14:33 - Rita ummæli

Styrkjasnillingur svarar samningaglóp

Fyrir mörgum árum fengum við Árni heitinn Vilhjálmsson, prófessor og útgerðarmaður, dr. Benjamín Eiríksson bankastjóra til að snæða með okkur og rabba við okkur um líf sitt og starf. Benjamín lék á als oddi og hafði frá mörgu að segja. Þegar liðið var á kvöld, rifjaði Árni upp gamansögu, sem Ólafur Jónsson, kenndur við Oddhól, hafði sett á bók. Benjamín hafði í bankastjóratíð sinni lánað Ólafi fyrir andabúi og vildi eitt sinn skoða framkvæmdirnar. Endur Ólafs voru talsvert færri en hann hafði gefið upp í áætlunum, og brá hann á það ráð að eigin sögn að láta þær trítla nokkra hringi í kringum hús búsins, svo að þær virtust miklu fleiri en raun var á, og blekkti með því bankastjórann. Árni spurði Benjamín, hvort eitthvað væri hæft í þessari sögu. Benjamín brást hinn versti við og sagði, að hún væri fáránlegur uppspuni.

Góð saga, en ekki sönn

Eftir að við höfðum ekið Benjamín heim til sín, kímdum við Árni yfir því, að hinn hálærði bankastjóri skyldi komast í uppnám yfir þessari meinlausu gamansögu. Auðvitað var hún ekki sönn, heldur alþjóðleg flökkusaga. Okkur fannst Benjamín óþarflega viðkvæmur fyrir henni. Líklega ætti líka að brosa að gamansögu frá Helga Magnússyni fjáraflamanni í nýútkominni ævisögu, sem Björn Jón Bragason skráði eftir honum: „Einum manni tókst þó að leika á okkur og sýndi með því „snilli“ sína. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, kom til fundar við okkur Orra Hauksson, framkvæmdastjóra SI, og kynnti fyrir okkur verkefni sem hann nefndi „Græna hagkerfið“. Það snerist um að gera stutta kvikmynd um umhverfisvæna atvinnustarfsemi á Íslandi. Í fljótu bragði virtist þetta hafa yfir sér jákvæðan svip fyrir atvinnulífið þannig að við Orri féllumst á að SI styddi þessa framkvæmd um eina milljón króna. Nokkrum dögum síðar sat ég fund í framkvæmdastjórn SA. Þá segir Vilhjálmur Egilsson okkur frá því að hann hafi fallist á að styðja verkefni Hannesar Hólmsteins um eina milljón króna. Ég hrökk þá við og sagði að hann hefði fengið eina milljón frá Samtökum iðnaðarins og ég hefði haldið að það væri nægilegt. Þá hrópaði Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ: „Andskotinn, hann kom líka við hjá okkur og náði milljón af LÍÚ með sleipri sölumennsku!“ Ég hef engar spurnir haft af þessari fyrirhuguðu kvikmynd.“

Sagan er skemmtileg, en eins og stundum gerist um góðar sögur, er hún ekki sönn. Í árslok 2009 sneri ég mér til Friðriks Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ (Landssambands íslenskra útvegsmanna), með hugmynd um samstarfsverkefni undir heitinu „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýtingu“. Var erindið, að LÍU aðstoðaði við verkefnið. Friðrik leist vel á, en taldi þurfa atbeina annarra atvinnurekendasamtaka, SI (Samtaka iðnaðarins) og SA (Samtaka atvinnulífsins). Átti ég þá fund um málið með Helga Magnússyni, formanni SI, og Jóni Steindóri Valdimarssyni, framkvæmdastjóra SI. Tóku þeir mér hið besta, og ákvað SI að taka þátt í verkefninu. SA varð einnig aðili að verkefninu, en reiddi af höndum talsvert minna fé, enda var þáverandi framkvæmdastjóri SA, minn góði vinur Vilhjálmur Egilsson, lítt útbær á fé. Er verkefninu rækilega lýst í skriflegum greinargerðum, sem ég sendi til þessara samstarfsaðila. Átti það að felast í ritgerðum mínum, málstofum, ráðstefnum, ekki síst alþjóðlegum, og bók eftir mig um „grænan kapítalisma“. Ég tók fram, að ég myndi reyna að taka upp erindi á ráðstefnum og vinna úr þeim og öðru efni heimildamynd, en auðvitað að því gefnu, að nægt fé fengist til framleiðslu og slík mynd yrði tekin til sýningar í sjónvarpi. SI lagði fram fé til verkefnisins árin 2010 og 2011. Eins og segir í verklýsingu rann ekkert af þessu fé í minn vasa, heldur var það notað í sérfræðiþjónustu, tölvuvinnslu, ferðakostnað og annað slíkt og þætti ekki mikið.

Væri sagan hins vegar sönn, þá hefði Helgi Magnússon heldur betur samið af sér fyrir hönd SI og látið mig leika á sig. Hefur hann þó ósjaldan gortað af því og það jafnvel allsgáður, að hann sé einhver snjallasti samningamaður Íslands fyrr og síðar og gæti ætíð hagsmuna sinna og umbjóðenda sinna út í ystu æsar. Nú stendur hann uppi að eigin sögn sem sannkallaður samningaglópur í viðskiptum við mig, bragðarefinn. Síðan held ég að vísu, að ég verðskuldi ekki að heita styrkjasnillingur, en við hinu vil ég fúslega gangast, að ég er styrkjamaður: Ég hef hátt í hálfa öld lagt mig fram um að styrkja þau verðmæti, sem Íslendingum hafa dugað best í harðri lífsbaráttu á hrjóstrugri eyju langt úti á Ballarhafi. Sögnin að styrkja er mín sögn. Til dæmis skrifaði ég heila bók til varnar kvótakerfinu, sem þá var að myndast, þegar Alþingi tók á dagskrá endurskoðun kerfisins vorið 1990, en þeirri endurskoðun lauk með heildstæðri löggjöf, sem reynst hefur farsæl. Ég barðist líka áratugum saman fyrir auknu atvinnufrelsi, sem gerði Helga Magnússyni og mörgum öðrum kleift að efnast, án þess að gróði þeirra yrði annarra tap. Best kom í ljós í því efnahagslega fárviðri, sem geisaði um allan heim árin 2007–2009 og kom illa niður á Íslendingum, hversu traustar undirstöður höfðu verið lagðar með umbótum í frjálsræðisátt 1991–2004, sem ég átti vonandi einhvern þátt í að móta. Við vorum þeirra vegna fljót að rétta okkur við.

Hvernig var verkefnið af hendi leyst?

Gamansaga Helga Magnússonar veitir mér þó tækifæri til að fara aðeins yfir, hvernig því verkefni var sinnt, sem SI, LÍÚ og SA áttu aðild að á sínum tíma og hófst árið 2011:

 • Í XI. bindi Rannsókna í félagsvísindum 2010 skrifaði ég um, hvort eigendur auðlindar sköpuðu ekki arð.
 • Í 1. hefti 7. árg. Þjóðmála 2011 skrifaði ég um þokkafull risadýr (charismatic megafauna) í ljósi frægrar smásögu Georges Orwells um, þegar hann skaut fílinn.
 • Í 2. hefti 7. árg. Þjóðmála 2011 skrifaði ég undir fyrirsögninni „Raddir vorsins fagna“ um hrakspár umhverfisöfgamanna og gagnstæðan dóm reynslunnar.
 • Í 9. hefti 29. árg. Vísbendingar 2011 skrifaði ég um hagfræði rányrkju og hvali.
 • Í 15. hefti 29. árg. Vísbendingar 2011 skrifaði ég um samnýtingarbölið og fíla.
 • Í júní 2012 var haldin málstofa í Rio de Janeiro í tengslum við alþjóðlega umhverfisráðstefnuna Rio+20, og þar töluðum við Julian Morris, sérfræðingur Reason Foundation um eignarrétt og umhverfisvernd.
 • Í ágúst 2012 flutti hinn heimskunni rithöfundur Matt Ridley fyrirlestur í Reykjavík um endurnýjunarmátt kapítalismans, en hann hafði samið metsölubókina Heimur batnandi fer (The Rational Optimist).
 • Í 2. hefti 8. árg. Þjóðmála 2012 skrifaði ég um „göfuga villimenn“, en sú goðsögn er ein uppistaðan í áróðri umhverfisöfgamanna.
 • Í október 2012 var haldin alþjóðleg ráðstefna í Reykjavík um „fiskveiðar: sjálfbærar og arðbærar“, og á meðal fyrirlesara voru forstöðumaður fiskveiðideildar FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sérfræðingur OECD, Efnahags- og samvinnustofnunarinnar, í fiskveiðum og sérfræðingur Alþjóðabankans um fiskveiðar og margir fræðimenn, þar á meðal prófessorarnir Rögnvaldur Hannesson, Þráinn Eggertsson og Ragnar Árnason. Skipulagði ég ásamt öðrum ráðstefnuna.
 • Í október 2012 flutti ég erindi á ráðstefnu Félagsvísindasviðs um peningalykt í íslenskum sjávarþorpum í ljósi kenninga Pigous og Coases. Kom kaflinn út í ráðstefnuriti sviðsins.
 • Í 3. hefti 9. árg. Þjóðmála 2013 sagði ég frá alþjóðlegri ráðstefnu um þróunarkenningu Darwins og umhverfismál, sem ég sótti á Galapagos-eyjum vorið 2013.
 • Í október 2013 var haldin alþjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands í minningu Árna Vilhjálmssonar, og á meðal fyrirlesara voru einn kunnasti fiskihagfræðingur heims, prófessor Ralph Townsend, og prófessor Ragnar Árnason. Skipulagði ég ráðstefnuna.
 • Í október 2014 gaf Almenna bókafélagið út bók Matts Ridleys, Heimur batnandi fer, og sá ég um útgáfuna. Gerði Ridley sér ferð til Íslands og kynnti bókina á málstofu 30. október 2014.
 • Í október 2014 var haldin málstofa um auðlindaskatt og auðlegðarskatt, þar sem við prófessorarnir Corbett Grainger og Ragnar Árnason fluttum erindi.
 • Í október 2015 var haldin alþjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands um fræðileg verk prófessors Rögnvalds Hannessonar, þar á meðal um bókina Ecofundamentalism. Rögnvaldur flutti inngangsfyrirlestur, en Julian Morris og prófessor Bengt Kriström brugðust við. Skipulagði ég ráðstefnuna.
 • Árið 2015 gaf Háskólaútgáfan út eftir mig bókina The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable. Þar er rætt almennt um skynsamlega og réttláta auðlindanýtingu, en síðan sérstaklega um skipan fiskveiða á Íslandsmiðum. Er hún aðgengileg á Netinu.
 • Í framhaldi af útkomu bókarinnar flutti ég þrjá fyrirlestra árið 2016 um umhverfisvernd og skipan fiskveiða: hjá Landssambandi perúvískra útvegsmanna í Lima 21. janúar, hjá atvinnumálaráðuneyti Perú í Lima 26. janúar og á málstofu IEA í Flórens 8. september.
 • Í ágúst 2016 var haldin alþjóðleg ráðstefna í Háskóla Íslands um sjónarmið við upphaflega úthlutun veiðiréttinda. Töluðu þar meðal annarra prófessorarnir Gary Libecap, Ragnar Árnason og Charles Plott. Við Ragnar Árnason skipulögðum ráðstefnuna.
 • Í október 2017 gaf Almenna bókafélagið út bókina Framfarir (Progress) eftir Johan Norberg, og gerði höfundur sér ferð til Íslands í því skyni að kynna bókina sama dag. Er þar rætt um mörg stef í rannsóknarverkefninu.
 • Þá er komið að því, sem mikilvægast er í þessu verkefni: Árið 2017 kom út hjá hugveitunni New Direction í Brüssel rit eftir mig um grænan kapítalisma, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights. Var það 69 bls. í stóru broti, væntanlega um 100 bls. í venjulegu bókarbroti. Þar eru meðal annars kaflar um hrakspár, mengun, regnskóga, laxveiðiár, beitarréttindi til fjalla, aflaheimildir á Íslandsmiðum og nýtingu fíla, nashyrninga og hvala. Kynnti ég ritið á alþjóðlegri ráðstefnu í Brüssel 24. maí 2018, en meðal annarra fyrirlesara var hinn heimskunni heimspekingur Roger Scruton. Hélt ég þar meðal annars uppi vörnum fyrir makrílveiðar og hvalveiðar Íslendinga. Jafnframt birti ég stuttar greinar í tímaritum í Brüssel til kynningar efninu. Ritið er aðgengilegt á Netinu.

Verkefnið teygði sig yfir lengra tímabil en ég hafði í upphafi gert ráð fyrir, og nægir styrkir fengust því miður ekki til að gera heimildamynd um það, eins og ég hafði vonast til. Ég tel þó, að allir hlutaðeigendur, SI, LÍÚ og SA, megi vel við una. Hefði skrásetjari Helga, Björn Jón Bragason, að ósekju mátt bera söguna góðu undir mig, en auðvitað hefði þá komið í ljós, að hún var ósönn. Ef menn vilja vera sagnamenn frekar en sagnaritarar, þá hafa þeir vitaskuld það, sem best hljómar, ekki hitt, sem sannara reynist.

Í annað sinn í uppsláttarfrétt

Netritið Visir.is birti uppsláttarfrétt um þessa sögu Helga Magnússonar án þess að leita til mín um sannleiksgildi hennar. Svo einkennilega vill til, að þetta er í annað skiptið, sem ég rata í fjölmiðla vegna Helga. Árið 1986 höfðu nokkrir forsvarsmenn Hafskips, sem orðið hafði gjaldþrota árið áður, um skeið setið í gæsluvarðhaldi, þar á meðal Helgi, sem verið hafði endurskoðandi félagsins. Ég hafði skrifað í tímarit: „Stjórnendur eða eigendur gjaldþrota fyrirtækja eru stundum fórnarlömb utanaðkomandi aðstæðna, sem þeir hafa ekki séð fyrir eða valdið neinu um. Ég hef til dæmis grun um það, án þess að ég þekki málavöxtu nákvæmlega, að stjórnendur Hafskips hafi verið óheppnir, þótt þeir hafi ugglaust líka verið ógætnir.“ Þessi varfærnislegu orð þóttu slík ósvinna, að Alþýðublaðið sló þeim upp á forsíðu blaðs, sem dreift var í hvert hús í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar þá um vorið. Ætlaði Alþýðuflokkurinn í kosningabaráttunni að gera sér mat úr Hafskipsmálinu, þótt hann hefði að vísu ekki erindi sem erfiði. En á sama hátt og ég mælti fyrir frelsi Helga og annarra athafnamanna til að græða, svo framarlega sem þeir gangi ekki á rétt annarra, barðist ég einmitt fyrir rétti hans til eðlilegrar málsmeðferðar. Ég tel, að forsvarsmenn Hafskips hafi ekki notið þessa réttar og fjölmiðlar og rannsóknaraðilar farið offari gegn þeim, enda voru þeir að lokum sýknaðir af öllum alvarlegustu ákærunum á hendur þeim. Ég var vorið 1986 hins vegar nánast einn um að verja þá opinberlega og kippti mér ekki upp við það, enda fer ég eftir orðum hinnar helgu bókar: „Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka.“ Eflaust hefur Helgi gegnt endurskoðandaskyldum sínum af samviskusemi í Hafskipsmálinu og verið þar hafður fyrir rangri rök, eins og ég gat mér þá til um. En í mínu máli virðist hann helst hafa skoðað endur eins og þær, sem áttu að hafa trítlað nokkra hringi í kringum hús Ólafs á Oddhóli og hvergi voru til nema í gamansögum.

(Þeir Friðrik Arngrímsson, Vilhjálmur Egilsson og Orri Hauksson hafa allir staðfest frásögn mína, að því er snýr að þeim, en Jón Steindór Valdimarsson svaraði ekki skilaboðum.)

[Grein í Morgunblaðinu 21. mars 2019, aðeins aukið. Myndin er úr útgáfuhófi Helga, og með honum á henni er annar fjáraflamaður, Jón Ólafsson.]

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.3.2019 - 21:18 - Rita ummæli

Frá Márusarlandi

Þegar ég skoðaði nýjustu alþjóðlegu mælinguna á atvinnufrelsi, sem er frá 2018, með tölum frá 2016, rak ég augun í þá óvæntu staðreynd að í Márusarlandi, eins og kalla mætti Mauritius, stendur eitt af tíu frjálsustu hagkerfum heims. Hin eru í Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjálandi, Sviss, Írlandi, Bandaríkjunum, Georgíu, Bretlandi, Ástralíu og Kanada (en tvö hin síðastnefndu standa jafnfætis). Márusarland er eyjaklasi langt undan austurströnd Afríku og heitir eftir Márusi af Nassau, ríkisstjóra Hollands á öndverðri sautjándu öld, en Hollendingar réðu um skeið klasanum. Seinna varð hann bresk nýlenda. Margir íbúanna eru afkomendur indverskra verkamanna, sem fluttir voru til landsins á nýlendutímanum.

Þegar íbúar eyjaklasans kröfðust sjálfstæðis eftir miðja tuttugustu öld, hafði Bretastjórn nokkrar áhyggjur af því að þeir gætu ekki staðið á eigin fótum. Breski hagfræðingurinn James E. Meade, sem var ákveðinn jafnaðarmaður og fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 1977, komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu til stjórnarinnar árið 1961 að framtíðarhorfur landsins væru dapurlegar. Márusarland gæti lokast inni í þeirri gildru fólksfjölgunar án hagvaxtar sem oft er kennd við breska prestinn Malthus.

VSNaipaulBresk-indverski rithöfundurinn V.S. Naipaul ferðaðist nokkrum árum síðar um Márusarland og skrifaði í nokkrum lítilsvirðingartón að það væri „yfirfull þrælakista“ þar sem allir vildu hverfa á brott. „Það var á Márusarlandi sem dodo-fuglinn týndi niður listinni að fljúga.“ Naipaul fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2001.

Eftir að Márusarland varð sjálfstætt árið 1968 var um skeið órói í landinu. Svo virtist sem hrakspár Nóbelsverðlaunahafanna tveggja gætu ræst. En þótt stjórnmálabaráttan væri hörð, náðist samkomulag um að auka atvinnufrelsi verulega og laða erlenda fjárfesta til landsins. Hagkerfið var hið 59. frjálsasta í heiminum árið 1980, en hið 8. árið 2016. Að vonum hefur hagur íbúanna vænkast síðustu áratugi, ólíkt flestum öðrum Afríkuþjóðum. Meðaltekjur í Márusarlandi árið 2017 voru samkvæmt tölum Alþjóðabankans $10.500, en það var nálægt meðaltekjum í heiminum öllum, $10.700. Meðaltekjur í Afríku voru hins vegar miklu lægri, ekki nema $1.800. Dodo-fuglinn dó út af því að hann kunni ekki að fljúga en Márusarland lifnaði við af því að það nýtti sér frelsið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.3.2019 - 10:05 - Rita ummæli

Rawls og Piketty (4)

Tveir kunnustu hugsuðir nútímajafnaðarstefnu eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Rawls heldur því fram, að á stofnþingi stjórnmálanna muni skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu og möguleika síðar meir, setja þá frumreglu, að tekjudreifingin skuli vera jöfn, nema tekjumunur stuðli að bættum kjörum hinna verst settu.

Ég hygg, að Rawls takist ekki það ætlunarverk sitt að réttlæta endurdreifingu tekna. Það breytir því ekki, að vissulega má spyrja: Við hvers konar skipulag er hagur hinna verst settu líklegur til að verða sem bestur?

Til að svara þeirri spurningu má skoða hina alþjóðlegu vísitölu atvinnufrelsis, sem Fraser-stofnunin í Kanada mælir á hverju ári með aðstoð valinkunnra sérfræðinga. Í mælingunni 2018 var stuðst við tölur frá 2016. Mælt var atvinnufrelsi í 123 löndum. Hagkerfi Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjálands, Sviss og Írlands reyndust hin frjálsustu í heimi, en ófrjálsust voru hagkerfi Venesúela, Líbíu, Argentínu, Alsírs og Sýrlands (en áreiðanlegar tölur eru ekki til um hagkerfi Kúbu og Norður-Kóreu). Ef hagkerfum heims var skipt í fjóra hluta, þá kom í ljós sterk fylgni milli góðra lífskjara og víðtæks atvinnufrelsis. Meðaltekjur á mann í frjálsasta fjórðungnum voru $40.376, en í hinum ófrjálsasta $5.649 (í Bandaríkjadölum ársins 2011). Í frjálsustu hagkerfunum voru lífslíkur enn fremur lengri, heilsa betri og fátækt minni en í hinum fjórðungunum.

Rawls hefur þó mestan áhuga á hinum verst settu. Þar eru tölurnar líka afdráttarlausar. Meðaltekjur á mann í 10% tekjulægsta hópnum í frjálsasta fjórðungnum voru $10.660, en $1.345 í ófrjálsasta fjórðungnum. Með öðrum orðum voru kjör hinna tekjulægstu í frjálsasta fjórðungnum ($10.660) nær tvöfalt betri en meðaltekjur í ófrjálsasta fjórðungnum ($5.649). Fátæklingur í frjálsu hagkerfi lifir miklu betra lífi en meðalmaður í ófrjálsu hagkerfi. Niðurstaðan er ótvíræð: Jafnvel þótt við myndum samþykkja þá reglu Rawls, að ójöfn tekjudreifing réttlættist af því einu, að hagur hinna verst settu yrði við hana betri en ella, krefst reynslan þess, að við myndum velja frjálst hagkerfi, samkeppni og séreign.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann hefur síðan gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir