Laugardagur 30.9.2023 - 04:54 - Rita ummæli

Dráp Kambans

Á dögunum birti Guðmundur Magnússon sagnfræðingur fróðlega grein í Morgunblaðinu um dráp íslenska skáldsins Guðmundar Kambans í Kaupmannahöfn vorið 1945. Er þar í fyrsta skipti upplýst um drápsmanninn. Hann var Egon Alfred Højland, sem hafði ungur gerst róttækur og barist með lýðveldishernum í spænska borgarastríðinu (sjá Aktuelt 18. júlí 1986). Síðan var Højland virkur í samtökum jafnaðarmanna, þar á meðal andspyrnuhópnum Hringnum, Ringen. Þegar þýski herinn í Danmörku gafst upp aðfaranótt 5. maí 1945, skálmuðu Højland og aðrir andspyrnuliðar um vopnaðir og handtóku þá, sem þeir töldu hafa aðstoðað nasista á hernámsárunum. Voru um 25 manns skotnir til bana þann dag. Kamban var drepinn, af því að hann neitaði að fara með andspyrnuliðunum. Højland var skiltamálari að atvinnu, og þegar Erhard Jakobsen klauf Jafnaðarmannaflokkinn árið 1973 og stofnaði eigin flokk, fylgdi Højlund honum og sat á danska þinginu í tvö ár.

Á stríðsárunum drap andspyrnuhreyfingin um 400 manns, sem áttu að hafa verið flugumenn nasista (stikkers). Hefðu þeir sagt til andspyrnuliða og verið drepnir í sjálfsvörn (notað var feluorðið „likvideret“ eða eytt). Í ljós hefur hins vegar komið, að fæstir voru raunverulegir uppljóstrarar, heldur áttu einstakir andspyrnuliðar eitthvað sökótt við hina drepnu (sjá bækurnar Stikkerdrab eftir Steffan Elmkjær og Efter drabet eftir Peter Øvig Knudsen). Það var rangt, sem forystumenn andspyrnuhreyfingarinnar sögðu síðar, að það hefði aðeins verið að vandlega athuguðu máli, sem drápin hefðu verið ákveðin. Tilviljun réð iðulega. Eftir stríð sömdu forystumenn andspyrnuhreyfingarinnar við dönsk stjórnvöld um, að drápsmenn úr hreyfingunni yrðu ekki sóttir til saka, og rannsakaði andspyrnuhreyfingin sjálf sum mál, lögreglan önnur, en önnur voru aldrei rannsökuð. Í skjölum dönsku lögreglunnar kemur ekkert fram um, að Kamban hafi verið nasisti eða flugumaður þeirra. Hann var drepinn saklaus, myrtur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.9.2023 - 05:22 - Rita ummæli

Tvenn örlagarík mistök

Mistök stjórnmálamanna eru sjaldnast mælanleg: allt orkar tvímælis, þá er gert er. Ég hef þó rifjað upp tvenn mistök íslenskra stjórnmálamanna, þegar Valtýr Guðmundsson hélt árið 1901 til streitu úreltri hugmynd um ráðgjafa í Kaupmannahöfn, þótt ný stjórn í Danmörku vildi samþykkja ráðgjafa í Reykjavík, og þegar Svavar Gestsson samdi árið 2009 af sér um lánakjör í Icesave-deilunni við Breta, en hagstæðari samningar reyndust í boði. En tvenn mistök norrænna stjórnmálamanna voru miklu örlagaríkari.

Ditlev Gothard Monrad var danskur þjóðfrelsissinni, annálaður fyrir mælsku. Hann varð forsætisráðherra árið 1863 og þurfti að ráða fram úr deilu um Slésvík. Danakonungur var um leið hertogi Slésvíkur, en íbúar norðurhluta hertogadæmisins mæltu á dönsku og töldu sig Dani, en íbúar suðurhlutans mæltu á þýsku og töldu sig Þjóðverja. Monrad ákvað að innlima Slésvík alla í Danmörku, þótt hann vissi, að Prússar undir forystu Ottos von Bismarcks myndu ekki sætta sig við það. Hann treysti því, að Svíar kæmu Dönum til hjálpar og að Evrópuveldin myndu stöðva Prússa. Hvorugt varð, og Danir biðu herfilegan ósigur vorið 1864. Monrad hafnaði sáttaboðum, sem hefðu falið í sér, að Danir gætu haldið norðurhluta Slésvíkur. Virtist hann vera veill á geði, og eftir ósigurinn fluttist hann í þunglyndiskasti til Nýja Sjálands.

Eljas Erkko var utanríkisráðherra Finnlands árið 1939, þegar Stalín krafðist þess, að Finnar létu af hendi landsvæði, sem voru Rússum mikilvæg vegna nálægðar við Lenínsgarð, gegn því að fá önnur landsvæði fjær borginni. Frá hernaðarlegu sjónarmiði voru þessar kröfur skiljanlegar. En Erkko hafnaði samningum um landaskipti, þótt gætnir menn eins og Carl Gustav von Mannerheim marskálkur hvettu til þeirra, og þá fyrirskipaði Stalín árás á Finnland. Erkko treysti á aðstoð frá Svíum, Bretum og Frökkum, en þær vonir brustu. Finnar stóðu einir uppi, eins og Danir vorið 1864 (og Íslendingar haustið 2008). Hitt er annað mál, að Finnar vörðust svo hraustlega undir stjórn Mannerheims, að Stalín ákvað að semja frið vorið 1940.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.9.2023 - 05:59 - Rita ummæli

Mælanleg mistök

Stjórnmálamenn geri sjaldan mælanleg mistök, því að venjulega má þræta um, hvað átt hefði að gera við einhverjar aðstæður. Þeir geta oftast bjargað sér með hliðarsögum eða eftiráskýringum. Ég hef þó í grúski mínu rekist á margvísleg mistök eða alvarlega dómgreindarbresti. Hér ætla ég að rifja upp tvö íslensk dæmi.

Fyrsti dómgreindarbresturinn var strax eftir aldamótin 1900, þegar hinn hæfileikaríki stjórnmálamaður dr. Valtýr Guðmundsson var á góðri leið með að sigra í valdabaráttunni á Íslandi. Hann hafði barist fyrir íslenskum ráðgjafa með búsetu í Kaupmannahöfn og taldi Dani ekki vilja ganga lengra til móts við sjálfstæðiskröfur Íslendinga. Á meðan Alþingi var að afgreiða frumvarp þess efnis árið 1901, barst frétt um stjórnarskipti í Kaupmannahöfn, og væri hin nýja stjórn líkleg til að samþykkja ráðgjafa í Reykjavík, heimastjórn. Valtýr breytti hins vegar ekki um stefnu, heldur hélt frumvarpi sínu til streitu. Í næstu kosningum sigruðu Heimastjórnarmenn undir forystu Hannesar Hafsteins, sem varð fyrsti íslenski ráðherrann með búsetu í Reykjavík.

Annar dómgreindarbresturinn var í Icesave-málinu árið 2009. Íslendingar sendu tungulipran uppgjafamarxista, Svavar Gestsson, til að semja við Breta um málið, en þeir töldu hafa stofnast til greiðsluskyldu íslenska ríkisins vegna viðskipta Landsbankans við breska sparifjáreigendur. Svavar samdi illilega af sér, ekki síst um veð og vexti lánsins, sem veita átti Íslendingum, svo að þeir gætu sinnt þeirri greiðsluskyldu, sem Bretar töldu vera. Hann sagðist í blaðaviðtölum ekki hafa nennt að hafa þetta mál hangandi yfir sér! Strax eftir að forsetinn neitaði að skrifa undir samninginn, svo að leggja varð hann í þjóðaratkvæði, buðu Bretar miklu betri kjör. Þeir sönnuðu með því handvömm Svavars. Nokkru síðar gerði hinn þaulreyndi lögfræðingur Lee Buchheit miklu hagstæðari samning, þótt þjóðin hafnaði honum líka. Buchheit-samningurinn sýndi enn skýrar handvömm Svavars. EFTA-dómstóllinn komst síðan að þeirri augljósu niðurstöðu árið 2013, að íslenska ríkið hefði enga greiðsluskyldu vegna viðskipta einkaaðila sín í milli.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.9.2023 - 09:51 - Rita ummæli

Norrænar lausnir

Fæstir vita, að Norðurlandabúar hafa leyst ýmis mál friðsamlega, sem vafist hafa fyrir öðrum:

1. Friðsamlegur aðskilnaður. Grundtvig gamli orti, að þjóðin væri þeir, sem vildu vera þjóð. En hvað gerist, þegar einhver hópur vill ekki deila ríki með öðrum? Norðurlönd eiga svarið. Norðmenn og Svíar skildust að 1905, Finnar og Rússar 1917 og Íslendingar og Danir 1918.

2. Atkvæðagreiðslur um landamærabreytingar. Þjóðverjar höfðu lagt undir sig Slésvík 1864. Í norðurhlutanum töluðu menn dönsku og litu á sig sem Dani. Eftir fyrri heimsstyrjöld fengu íbúar Slésvíkur að greiða atkvæði um það í kjördæmum, hvort kjördæmi þeirra ætti að vera í Danmörku eða Þýskalandi. Vildi nyrsta kjördæmið vera í Danmörku, en hin í Þýskalandi, og var farið eftir því.

3. Sjálfstjórnarsvæði. Sænskumælandi Finnar búa á Álandseyjum og vildu 1919 sameinast Svíþjóð. En þeir fengu víðtæka sjálfstjórn og eru nú ánægðir með sitt hlutskipti. Hið sama má segja um Færeyjar og Grænland.

4. Deilur lagðar í gerð. Þegar Svíar og Finnar deildu um Álandseyjar, var deilunni skotið til Þjóðabandalagsins, sem úrskurðaði 1921, að eyjarnar væru hluti Finnlands. Þegar Danir og Norðmenn deildu um Austur-Grænland, var deilunni skotið til Alþjóðadómstólsins í Haag, sem úrskurðaði 1933, að Danir hefðu þar forræði.

5. Sjálfbærni smáþjóða. Ef smáþjóðir nýta sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar og frjálsra viðskipta, þá geta þær verið sjálfbærar. Því stærri sem markaðurinn er, því minna geta ríkið verið.

6. Samstarf án fullveldisafsals. Norðurlandaráð hefur unnið að samræmingu löggjafar á Norðurlöndum og auknum samskiptum án fullveldisafsals og blekiðjubáknsins í Brüssel. Menn hafa lengi getað ferðast án vegabréfs um öll Norðurlönd.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.9.2023 - 12:42 - Rita ummæli

Upprifjun um alræmdan sjónvarpsþátt

Sjónvarpið sendi 31. ágúst 1984 út umræðuþátt með hinum heimskunna hagfræðingi Milton Friedman og þremur íslenskum vinstri mönnum, og er hann aðgengilegur á Youtube. Vinstri mennirnir gerðu sitt besta, en höfðu þó lítt roð við Friedman. Einn þeirra, Stefán Ólafsson félagsfræðingur, bryddaði upp á máli, sem ekki var síðan rætt í þaula, því að umræðurnar færðust strax annað. Kvað hann Noreg dæmi um land, sem vegnaði vel þrátt fyrir víðtæk ríkisafskipti og háa skatta, líka áður en olía fannst þar undan ströndum.

Ég rakst nýlega í grúski mínu á tölur um þetta mál. Eðlilegast er að miða aðeins við tímabilið frá um 1950, þegar landið hafði náð sér eftir stríð, og fram á áttunda áratug, þegar olían fannst. Árin 1950–1960 var árlegur hagvöxtur í Noregi að jafnaði 2,6 af hundraði, nokkru minni en meðaltalið í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem var 3,3 af hundraði, en svipaður og á öðrum Norðurlöndum. Árin 1960–1973 var hagvöxtur í Noregi 3,7 af hundraði, aftur svipaður og á öðrum Norðurlöndum, en meðaltal OECD ríkja var þá 4,0 af hundraði.

Hagvöxtur í Noregi var því á þessu tímabili nokkru minni en almennt gerðist í aðildarríkjum OECD. Aðalatriðið er þó, að þessi hagvöxtur var knúinn afram af valdboðinni fjárfestingu, miklu meiri en í grannríkjunum, og þá á kostnað neyslu. Árin 1950–1959 var fjárfestingarhlutfallið í Noregi að jafnaði 32 af hundraði, en 17 af hundraði í Danmörku og 21 af hundraði í Svíþjóð. Árin 1960–1969 var fjárfestingarhlutfallið í Noregi að jafnaði 29 af hundraði, en 21 af hundraði í Danmörku og 23 af hundraði í Svíþjóð. Það skilaði þannig engum árangri að fela norskum embættismönnum og atvinnustjórnmálamönnum fjárfestingarákvarðanir. Norðmenn sáðu án þess að uppskera. Þeir voru sviptir þeim lífsgæðum, sem eðlileg neysla hefði fært þeim og grannar þeirra nutu. Stefán hafði eins og fyrri daginn rangt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.8.2023 - 14:55 - Rita ummæli

Gamansemi Grundtvigs um Íslendinga

Einn merkasti Dani allra tíma var Nikolaj F. S. Grundtvig, prestur, sálmaskáld, fornfræðingur, þýðandi, skólamaður, stjórnmálakappi og þjóðmálafrömuður. Hann lagði líklega mest allra af mörkum við að skilgreina og jafnvel skapa danska þjóðarsál, en tvær göfugustu birtingarmyndir hennar voru, þegar öll danska þjóðin tók höndum saman árið 1943 um að bjarga dönskum Gyðingum undan hrammi nasista og þegar Danir skiluðu árið 1971 og lengi eftir það Íslendingum fornum handritum, sem þeir höfðu þó fengið löglega.

Á dögum Grundtvigs var Slésvíkurmálið eitt erfiðasta úrlausnarefni Dana. Konungur Dana var jafnframt hertogi Slésvíkur og Holtsetalands. Holtsetaland var í þýska ríkjasambandinu, en Slésvík ekki. Holtsetaland var alþýskt, en um helmingur Slésvíkurbúa talaði dönsku og hinn helmingurinn þýsku. Palmerston lávarður, forsætisráðherra Breta, andvarpaði, þegar minnst var á Slésvíkurmálið: „Það eru ekki nema þrír menn, sem hafa skilið það, Albert drottningarmaður, sem er látinn, þýskur prófessor, sem gekk síðan af vitinu, og ég, og ég hef gleymt öllu um hana.“ Grundtvig vildi leysa málið með því að skipta Slésvík eftir vilja íbúanna, en fékk dræmar undirtektir landa sinna, sem vildu óðfúsir innlima Slésvík alla, líka svæði þýskumælandi manna. Eitt sinn sagði Grundtvig þó í gamni við prófessor Carsten Hauch: „Væri ekki ráð að flytja Slésvíkinga til Íslands og Íslendinga til Slésvíkur? Þá yrði langt í það, að Íslendingarnir yrðu fyrir þýskum áhrifum, og þeir gætu orðið traustir landamæraverðir.“

Auðvitað sagði Grundtvig þetta í gamni. Slésvíkurmálinu lauk í bili árið 1864 með því, að Prússar og bandamenn þeirra lögðu undir sig Slésvík og Holtsetaland eftir blóðuga bardaga við Dani. (Um þetta hafa verið gerðir áhrifamiklir sjónvarpsþættir undir nafninu 1864.) En raunar leystist málið að lokum eins og Grundtvig vildi, þegar íbúar Norður-Slésvíkur greiddu atkvæði um það árið 1920, hvort þeir yrðu í Danmörku eða Þýskalandi, og völdu hinir dönskumælandi Slésvíkingar Danmörku, svo að landamærin færðust friðsamlega suður á bóginn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.8.2023 - 06:52 - Rita ummæli

Þrír norrænir spekingar

Norðurlandaþjóðir þurftu ekki að sækja frjálshyggju til annarra. Margar hugmyndir hennar voru rótgrónar á Norðurlöndum. Íslenski sagnritarinn Snorri Sturluson (1179–1241) lýsti því í Heimskringlu, hvernig Norðurlandaþjóðir leiddu eins og aðrar germanskar þjóðir mál til lykta á samkomum, og urðu konungar að beygja sig fyrir lögunum og samþykktum alþýðu. Ella voru þeir settir af. Snorri var höfundur einnar fyrstu Íslendinga sögunnar, Egils sögu, en tvö meginstef Íslendingasagna voru, að konungar væru varasamir og menn gætu leyst flest mál sín sjálfir án afskipta þeirra. Íslendingasögur voru um sérstöðu okkar, leitina að jafnvægi í ríkisvaldslausu landi.

Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius (1729–1803) sat á sænska stéttaþinginu og fékk Svía til að setja lög til tryggingar málfrelsi, jafnframt því sem hann mælti með viðskiptafrelsi, því að það væri öllum í hag. Hann hafði greint hinar slæmu afleiðingar, sem einokun hafði á verslun yfir Eystrasalt. Bók hans með þessum boðskap, Þjóðarhagur, kom út ellefu árum á undan Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith.

Danski presturinn, sálmaskáldið og rithöfundurinn N. F. S. Grundtvig (1783–1872) hugleiddi, hvernig valdið gæti flust frá konungi til almennings, án þess að frelsinu væri fórnað, eins og hafði gerst í frönsku stjórnarbyltingunni. Þessu marki mætti ná með því að auka menntun almennings, sérstaklega í lýðháskólum, og með því að nýta samtakamátt einstaklinga í frjálsum félögum, þar sem þeir lærðu að semja sig hver að öðrum og finna sér tilgang. Grundtvig lagði líka mikla áherslu á hina norrænu arfleifð og sneri á dönsku Heimskringlu Snorra og Danmerkursögu Saxos. Hann efldi þjóðarvitund Dana, kenndi þeim að reyna ekki að vinna önnur lönd, heldur afla nýrra markaða.

Velgengni Norðurlandaþjóða er þrátt fyrir jafnaðarstefnu, ekki vegna hennar. Skýringin á því, að þeim hefur vegnað tiltölulega vel, er, að þær búa við öflugt réttarríki, frjáls alþjóðaviðskipti og mikla samleitni, sem leiðir til ríks gagnkvæms trausts og auðveldar öll frjáls samskipti. Þeir Snorri, Chydenius og Grundtvig sköpuðu ekki hina norrænu arfleifð, því að hún skapaðist á löngum tíma. En þeir lýstu henni vel. Þeir eru merkustu frjálshyggjuhugsuðir Norðurlanda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. ágúst 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.8.2023 - 08:00 - Rita ummæli

Undrunarefni Sigurðar

Englendingar eru stoltir af því, að með þeim mynduðust snemma venjur, sem stuðluðu að frjálslyndu lýðræði: allir væru jafnir fyrir lögum, en fulltrúasamkomur veittu konungum aðhald. Í merkri ritgerð í ritinu Nordic Democracy árið 1981 bendir prófessor Sigurður Líndal þó á, að Norðurlandaþjóðir bjuggu við svipaðar venjur. Þegar í fornöld lýsti rómverski sagnritarinn Tacitus því, hvernig Germanir komu saman á þingum og leiddu mál til lykta. Þá er heilagur Ansgar fór í kristniboðsferð til Svíþjóðar árið 852, sagði sænskur konungur honum: „Við höfum þá venju, að fólkið sjálft ráði fram úr almennum málum og ekki konungurinn.“

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð leiddu menn fram eftir öldum mál til lykta á svæðisþingum. Fóru þingin með dómsvald og raunar einnig með löggjafarvald, sem takmarkaðist þó af fornum venjum. Misnotuðu konungar vald sitt, mátti setja þá af, eins og víða getur í Heimskringlu. Til að konungar næðu kjöri, urðu þeir að lofa að virða lög og venjur. Stéttaþing voru síðan stofnuð í Svíþjóð 1435 og í Danmörku 1468. Enn fremur urðu konungar að samþykkja margvíslegar réttindaskrár, til dæmis Eiríkur klippingur Danakonungur árið 1282 og Magnús smek Svíakonungur árið 1319. Voru þær ekki síðri ensku réttindaskránni frægu Magna Carta frá 1215.

Ólíkt því sem varð á Englandi, gátu konungar í Svíþjóð og Danmörku þó aukið völd sín um skeið á sextándu og sautjándu öld. Þegar þegnar þeirra kröfðust síðan aukinna stjórnmálaréttinda á átjándu og nítjándu öld, voru kröfurnar oftast studdar enskum hugmyndum. Sigurður Líndal undrast að vonum, að ekki skyldi líka vísað til hins norræna stjórnmálaarfs, sem skýri, hversu djúpum rótum frjálslynt lýðræði gat skotið á Norðurlöndum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. ágúst 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.7.2023 - 14:39 - Rita ummæli

Norræna leiðin: Molesworth

Á dögunum rifjaði ég upp, að franski stjórnmálaheimspekingurinn Montesquieu hefði rakið hina vestrænu frjálshyggjuhefð til Norðurlanda, til hins norræna anda. Hann var ekki einn um það. Robert Molesworth var breskur aðalsmaður og Viggi, en svo nefndust stuðningsmenn byltingarinnar blóðlausu 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Englendinga og venjum, ekki til að endurskapa skipulagið eftir forskrift misviturra spekinga. Molesworth var góðvinur Johns Lockes og Frances Hutchesons, kennara Adams Smiths, og hafði mikil áhrif á bandarísku byltingarmennina.

Molesworth var sendiherra Breta í Danmörku árin 1689–1692, og þegar heim kom, gaf hann út bókina Lýsingu Danmerkur árið 1692 (sem bandaríski frelsissjóðurinn, Liberty Fund, endurútgaf árið 2011). Þar kvað hann Dani hafa búið við verulegt frelsi fyrir 1660, þegar Danakonungur gerðist einvaldur með stuðningi borgaranna í Kaupmannahöfn. Þeir hefðu valið konunga sína og neytt þá til að samþykkja frelsisskrár. Konungarnir hefðu orðið að stjórna með samþykki þegna sinna, sem hefðu getað sett þá af, ef þeir brutu lögin. Þessar fornu hugmyndir hefðu síðan styrkst í Bretlandi, en veikst í Danmörku.

Þegar Molesworth var sendiherra í Danmörku, var byltingin blóðlausa nýlega um garð gengin í Bretlandi og enn hætta á því, að hinn burtrekni Jakob II. konungur sneri aftur og kæmi á einveldi svipuðu og í Frakklandi og Danmörku. En þótt Molesworth fyndi danskri þjóðmenningu flest til foráttu, hældi hann Dönum fyrir réttarkerfi þeirra. Lögin væru skráð á einföldu og auðskiljanlegu máli, og dómstólar væru tiltölulega óháðir. Það er lóðið. Danir bjuggu eins og aðrir Norðurlandabúar við réttarríki, sem þróast hafði á þúsund árum, og þess vegna gat frelsið skotið djúpum rótum í þessum heimshluta, þegar leið fram á nítjándu öld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.7.2023 - 09:55 - Rita ummæli

Norræna leiðin: Montesquieu

Eftir að ég sótti málstofu um Montesquieu og aðra upplýsingarmenn átjándu aldar í Jórvík á Englandi í júní 2023, varð mér ljóst, að því hefur ekki verið veitt athygli á Íslandi, hvað heimspekingurinn franski hefur fram að færa um norrænar þjóðir. Því ber mjög saman við það, sem ég hef sagt um hinn norræna og forngermanska frjálshyggjuarf.

Í 6. kafla 11. bókar Anda laganna skrifar Montesquieu, að nóg sé að lesa rit rómverska sagnritarans Tacitusar til að sjá, hvaðan Englendingar fengu stjórnmálahugmyndir sínar. Hið haglega skipulag þeirra hafi orðið til í skógum Germaníu. Sem kunnugt er hafði Tacitus lýst því í ritinu Germaníu, hvernig germanskir ættbálkar leiddu mál til lykta á almennum samkomum. Yrðu konungar og höfðingjar að lúta lögum eins og aðrir. Þótt Germanía hafi komið út í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags (2001), er hvergi í inngangi eða skýringum á þetta minnst.

Í 5. kafla 17. bókar Anda laganna segir Montesquieu, að Norðurlönd geti með sönnu hreykt sér af því að vera uppspretta frelsis Evrópuþjóðanna. Í 6. kafla sömu bókar bætir Montesquieu því að vísu við, að staðhættir í Evrópu hafi leitt til skiptingar hennar í mörg ríki, sem ekki séu hvert um sig of stórt. Sæmilegt jafnvægi hafi myndast milli þeirra, svo að erfitt hafi verið fyrir eitthvert eitt þeirra að leggja önnur undir sig og þau því farið að lögum og nýtt sér kosti frjálsra viðskipta.

Eftir daga Montesquieus komust þrír harðstjórar þó nálægt því að leggja mestallt meginland Evrópu undir sig, fyrst Napóleon á öndverðri nítjándu öld, síðan þeir Hitler og Stalín í sameiningu með griðasáttmálanum sumarið 1939. Í bæði skiptin stöðvuðu Bretar þá eða eins og Montesquieu kynni að segja: Hinn norræni andi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir