Laugardagur 15.12.2018 - 10:56 - Rita ummæli

Þingmönnum útskúfað 1939

Af sérstöku tilefni var rifjað upp á dögunum að eftir árás Rauða hersins á Finnland í árslok 1939 var þingmönnum Sósíalistaflokksins útskúfað því að þeir neituðu ólíkt öðrum þingmönnum að fordæma árásina og mæltu henni jafnvel bót. Virtu aðrir þingmenn þá ekki viðlits og gengu út þegar þeir héldu ræður. Þorri almennings og þingmanna hafði ríka samúð með smáþjóðinni sem átti hendur sínar að verja. Í leynilegum viðauka við griðasáttmála þeirra Stalíns og Hitlers í ágúst 1939 hafði verið kveðið á um skiptingu Mið- og Austur-Evrópu á milli þeirra og féll Finnland í hlut Stalíns. Í Sósíalistaflokknum höfðu kommúnistar hollir Stalín tögl og hagldir.

Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins og þingmaður hans, andmælti því í leiðara Þjóðviljans 6. febrúar 1940 að Finnar væru frændþjóð okkar Íslendinga. „Finnar eru eins fjarskyldir okkur og Kongo-negrar,“ skrifaði hann.

Brynjólfur Bjarnason, þingmaður Sósíalistaflokksins, smíðaði háðsyrðið „Finnagaldur“ um samúð þorra íslensku þjóðarinnar með Finnum og skrifaði grein í 1. hefti tímaritsins Réttar 1940 undir þeirri fyrirsögn. Þar sagði hann meðal annars: „Flestir munu nú hafa áttað til fulls á því, að þessi styrjöld var ekki stríð milli Finnlands og Rússlands út af fyrir sig, heldur var hér um að ræða styrjöld milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna, sem voru að búa sig undir árás á Rússland og notuðu finnsku hvítliðana sem verkfæri. Atburðirnir hafa síðan sannað, svo sem best verður á kosið, að Sovétlýðveldin áttu í varnarstríði, sem þeim bar skylda til að heyja fyrir land sitt og hinn alþjóðlega sósíalisma.“

Þrátt fyrir þessa frumlegu kenningu Brynjólfs börðust Finnar einir og óstuddir gegn hinu rússneska ofurefli, en urðu loks um miðjan mars 1940 að leita samninga. Eftir að þetta spurðist til Íslands fór Hermann Jónasson forsætisráðherra óvirðulegum orðum um þingmenn Sósíalistaflokksins í einum hliðarsal Alþingis. Vatt Brynjólfur Bjarnason sér þá að honum og kvað hann landsfrægan fyrir heimsku og ósannsögli. Hermann sneri sér hvatskeytlega að Brynjólfi og laust hann kinnhesti með flötum lófa. Þegar Brynjólfur kvartaði við þingforseta, svaraði Hermann því til að það væri íslenskur siður að löðrunga óprúttna orðastráka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. desember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.12.2018 - 10:52 - Rita ummæli

Vegurinn og þokan

Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera notar snjalla líkingu til að lýsa vegferð okkar. Á veginum sjáum við sæmilega það, sem er framundan og nálægt okkur, viðmælendur okkar og ef til vill eitt til tvö hundruð metrum lengra. Það, sem fjær er, sést að vísu ekki í myrkri, heldur þoku. En þegar við horfum um öxl, sjáum við allt miklu skýrar þar. Þar er engin þoka. Kundera notar þessa líkingu til að brýna það fyrir okkur að dæma menn liðinna ára ekki of hart, ef þeir hafa ekki séð umhverfi sitt eins skýrt og við sjáum það.

Mér finnst líking Kunderas eiga vel við um íslenska bankahrunið 2008. Menn voru ekki vissir um, hvort bankakerfið væri sjálfbært eða ekki. Sumir fræðimenn, til dæmis Richard Portes og Frederic Mishkin að ógleymdum sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, töldu, að svo væri. Aðrir, svo sem Robert Aliber og Willem Buiter, voru annarrar skoðunar. Allir sáu þeir umhverfið í þoku, þótt sumir þeirra römbuðu á rétta spá. Sigurinn á marga feður, en ósigurinn er munaðarlaus. En ein af ástæðunum til þess, að bankakerfið féll um koll, var auðvitað, að nógu margir fóru að trúa því, að það myndi gera það, og þá rættist spáin af sjálfri sér.

Ég er á hinn bóginn ekki viss um, að líking Kunderas eigi við, þar sem hann notar hana sjálfur: að ekki eigi að fordæma þá, sem veittu alræðisstjórn kommúnista lið. Þeir, sem það gerðu hér á Íslandi, vissu mæta vel, hvernig stjórnarfarið var í kommúnistaríkjunum. Frá upphafi birti Morgunblaðið nákvæmar fréttir af kúguninni og eymdinni þar eystra, meðal annars þegar árið 1924 í greinaflokki Antons Karlgrens, prófessors í slavneskum fræðum í Kaupmannahafnarháskóla.

Sagan af flökkubörnunum sýnir það best. Morgunblaðið flutti oft fréttir af því á öndverðum fjórða áratug, að hópar hungraðra flökkubarna færu um Rússland og betluðu eða stælu sér til matar. Í ferðabókinni Í austurvegi 1932 hélt Laxness því fram, að þau væru horfin. En í Skáldatíma 1963 játaði Laxness, að hann hefðu oft séð þau á ferðum sínum: „Ég sá þessa aumíngja bera fyrir oft og mörgum sinnum, einkum í úthverfum, fáförulum almenníngsgörðum eða meðfram járnbrautarteinum.“ Flökkubörnin voru ekki falin í neinni þoku. En þá héldu sumir, að kommúnisminn myndi sigra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.12.2018 - 10:46 - Rita ummæli

Hvað hugsuðu þeir 1. desember 1918?

Í dag gefur Almenna bókafélagið út ræðusafnið Til varnar vestrænni menningu í tilefni 100 ára fullveldis. Þrjú þeirra skálda, sem eiga þar ræður, sóttu Menntaskólann í Reykjavík veturinn 1918-1919, stóðu í Bakarabrekkunni 1. desember 1918 og horfðu á, þegar ríkisfáninn íslenski var í fyrsta sinn dreginn að hún, en um leið dundi við 21 fallbyssuskot frá dönsku varðskipi í ytri höfninni til heiðurs hinu nýja ríki.

Davíð Stefánsson minntist umræðna um sambandsmálið í baðstofunni heima í Fagraskógi nokkrum mánuðum áður: „Hver átti að ráða hér ríkjum? Íslendingar sjálfir. Þeir höfðu helgað sér landið með blóði og sveita og þúsund ára erfðum. Um það voru allir sammála, og aldrei heyrði ég rödd þjóðarinnar í þessu máli skýrari en hjá bændunum í Fagraskógarbaðstofunni.“

Tómas Guðmundsson sá roskið fólk vikna: „Enn finnst mér sem ég hafi þarna, í fyrsta og síðasta sinn á ævinni, staðið frammi fyrir þjóð, sem komin var um langan veg út úr nótt og dauða, hafði þolað ofurmannlegar raunir, en lifað af vegna þess, að hún hafði alla tíð varðveitt vonina um þennan dag í hjarta sínu.“

Guðmundur G. Hagalín hugsaði: „Hvort mundi ekki standa þarna á stjórnarráðsblettinum ósýnileg fylking – ekki aðeins frækinna foringja, heldur og hins óbreytta liðs, vaðmálsklæddra bænda og sjómanna í skinnstökkum, manna, sem þorað höfðu „Guði að treysta, hlekki hrista, hlýða réttu, góðs að bíða,“ þá er gæfa þessarar þjóðar virtist „lút og lítilsigld“, þegar danskir höndlarar voru hjér ærið dreissugir og dönsk stjórnarvöld eygðu ekki einu sinni í ljótum draumi þá stund, sem dönsk fallstykki dunuðu til heiðurs alíslenskum fána?“

Fullveldið markaði miklu frekar aldaskil en lýðveldisstofnunin 1944. Til varð nýtt ríki 1918 og öðlaðist viðurkenningu annarra ríkja, en líklega er ekki ofsagt, að 1944 væri aðeins skipt um embættisheiti þjóðhöfðingjans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.11.2018 - 08:12 - Rita ummæli

Prag 1948

Árið 2006 kom út kennslubók í sögu Íslands og umheimsins, Nýir tímar, ætluð framhaldsskólum. Höfundarnir voru sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson. Líklega eiga þeir vanmæli (understatement) allra tíma, þegar þeir segja á bls. 227, að Stalín hafi framkvæmt samyrkjustefnu sína „í óþökk mikils hluta bænda“. Sannleikurinn er sá, að Stalín knúði bændur til samyrkju með því að svelta til bana sex milljónir manns í Úkraínu og Suður-Rússlandi, og fjöldi bænda og skylduliðs þeirra var líka fluttur nauðugur til Síberíu.

Þeir Gunnar og Sigurður segja á bls. 267 frá valdaráni kommúnista í Tékkóslóvakíu fyrir sjötíu árum: „Snemma árs 1948 viku fulltrúar samstarfsflokka kommúnista úr ríkisstjórn og kommúnistar mynduðu stjórn með nánum samherjum sínum. Þessi umskipti komu illa við marga á Vesturlöndum því að þau þóttu staðfesta að landið væri nú á óskoruðu áhrifasvæði Sovétmanna.“ Þetta er annað vanmælið. Kommúnistar fengu í samsteypustjórn eftir stríð í sinn hlut innanríkis- og varnarmálaráðuneytin og með því yfirráð yfir lögreglu og her landsins. Hófu þeir miklar hreinsanir í lögreglunni. Þegar þeir neituðu að fara eftir samþykkt meiri hluta ríkisstjórnarinnar um að ráða aftur ýmsa lögregluforingja, sem þeir höfðu rekið, og hótuðu valdbeitingu, sögðu samráðherrar þeirra af sér í febrúar 1948.

Vopnaðar sveitir kommúnista lögðu þá í skyndingu undir sig ráðuneyti hinna fyrrverandi ráðherra og hröktu burt embættismenn, sem þeir töldu sér ekki hliðholla. Kommúnistar mynduðu stjórn og tóku allt vald í sínar hendur, héldu áfram hreinsunum í lögreglu og öðrum opinberum stofnunum og breyttu Tékkóslóvakíu á nokkrum mánuðum í einræðisríki. Fjöldi manns flýði land. Í ævisögu Halldórs Kiljans Laxness segi ég frá dapurlegum örlögum tveggja tékkneskra Íslandsvina, Zdeneks Nemeceks og Emils Walters.

Sagt er að sigurvegararnir skrifi jafnan söguna. Það á ekki við á Íslandi. Þótt kalda stríðinu lyki með sigri vestrænna lýðræðisríkja yfir kommúnismanum eru íslenskir kommúnistar látnir skrifa þá sögu sem framhaldsskólanemar læra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. nóvember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.11.2018 - 08:44 - Rita ummæli

Hvað sagði ég í Ljubljana?

Ég sótti ráðstefnu í Ljúbljana, höfuðborg Slóveníu, dagana 13.-15. nóvember. Hún hét „Skuggahlið tunglsins“ og var um minningar þeirra þjóða Mið- og Austur-Evrópu, sem lentu undir stjórn kommúnista eftir seinni heimsstyrjöld. Fyrirlestur minn var um, hvernig raddir fórnarlambanna fengju að heyrast. Eins og Elie Wiesel sagði, drepur böðullinn alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni. Ég benti á, að kommúnisminn væri ekki fordæmdur eins skilyrðislaust og nasisminn, þótt til þess væri full ástæða: hungursneyðir af mannavöldum, fjöldamorð, nauðungarflutningar þjóðflokka, rekstur þrælabúða, ógnarstjórn og eymd.

Ég reifaði sex ráð til að rjúfa þögnina. Háskólar, sérstaklega félags- og hugvísindadeildir, hefðu verið herteknir af vinstrimönnum. Þess vegna þyrfti að búa frjálslyndum fræðimönnum athvarf og aðstöðu í sjálfstæðum stofnunum. Í annan stað yrði að tryggja, að nemendur í skólum fengju fræðslu um ódæði allra alræðissinna, ekki síður kommúnista en nasista. Ekki mætti til dæmis þegja um það, að Stalín hefði verið bandamaður Hitlers fyrstu tvö styrjaldarárin. Í þriðja lagi þyrfti að reisa minnismerki og reka söfn eins og hið merkilega safn í Varsjá um uppreisnina 1944. Í fjórða lagi ætti að ógilda alla þá opinberu viðurkenningu, sem valdsmenn úr röðum kommúnista hefðu víða hlotið. Myndastyttur af Bería væru jafnóeðlilegar og af Himmler, svo að ekki sé minnst á götunöfn og heiðursmerki. Í fimmta lagi þyrfti að halda reglulega ráðstefnur til að kynna forvitnilegar rannsóknir. Til dæmis hefði prófessor Frank Dikötter varpað ljósi á ógnarstjórn Maós í Kína í þremur stórfróðlegum bókum, og Svartbók kommúnismans hefði markað tímamót árið 1997.

Í sjötta lagi þyrfti að gera vönduð rit um alræðisstefnuna aðgengileg að nýju, jafnt á prenti og á netinu, eins og Almenna bókafélagið á Íslandi beitti sér fyrir með Safni til sögu kommúnismans, en þegar hafa tíu rit birst í þeirri ritröð. Á þessu ári koma út þrjú rit, Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum 1946-1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir sex rithöfunda, þar á meðal Arthur Koestler, André Gide og Ignazio Silone, og Til varnar vestrænni menningu: Ræður sjö rithöfunda 1950-1958, en höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, séra Sigurður Pálsson í Hraungerði, Guðmundur G. Hagalín, séra Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. nóvember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.11.2018 - 16:13 - Rita ummæli

11. nóvember 1918

Á sunnudag eru hundrað ár liðin frá því að fulltrúar Þýskalands, Frakklands og Bretlands undirrituðu samning um vopnahlé í Compiègne-skógi í Norður-Frakklandi. Norðurálfuófriðnum mikla, sem staðið hafði frá hausti 1914, var lokið eftir óskaplegar mannfórnir. Áður en stríðið skall á, hafði verið friður í álfunni í heila öld. Menn gátu ferðast án vegabréfa um álfuna þvera og endilanga nema til Rússaveldis og Tyrkjaveldis. Ríkisvaldið virtist þá vera lítið annað en vingjarnlegur lögregluþjónn á næsta götuhorni. Allt þetta breyttist í ófriðnum. Mannkynið virtist heillum horfið. „Mér blæddi inn,“ sagði ungur, íslenskur rithöfundur, sem getið hafði sér orð í Danmörku, Gunnar Gunnarsson.

Segja má, að til séu tvær hugmyndir um söguna. Hún sé eins og drukkin könguló, sem flækist milli þráða í neti sínu, eða eins og járnbrautarlest, sem renni á teinum frá einum stað á annan. Fyrri hugmyndin virðist eiga vel við um Norðurálfuófriðinn mikla. Hann var stórslys, alls ekki óhjákvæmilegur. Kveikjan að honum var, að 28. júní 1914 myrtu serbneskir þjóðernissinnar ríkisarfa Austurríkis og konu hans í Sarajevo, sennilega að undirlagi serbnesku leyniþjónustunnar. Banatilræðið hefði ekki þurft að takast. Margt hefði getað komið í veg fyrir það.

Vissulega þráðu Frakkar hefnd eftir ósigur sinn fyrir Þjóðverjum 1871 og stukku á fyrsta tækifærið. Ef til vill voru Rússar líka svo skuldbundnir Serbum, að þeir urðu að liðsinna þeim, þegar Austurríki og bandamenn þess vildu hefna morðsins á ríkisarfanum. En hvers vegna í ósköpunum fór Stóra-Bretland í stríðið? Það voru reginmistök. Ef einhver svarar því til, að Bretar hafi verið skuldbundnir Belgíu (sem Þjóðverjar réðust á í sókn sinni til Frakklands), þá má benda á, að Bretar voru líka skuldbundnir Póllandi 1939 og sögðu Ráðstjórnarríkjunum þó ekki stríð á hendur, þegar Rauði herinn réðst inn í Pólland 17. september. Hefðu Bretar ekki farið í stríðið 1914, þá hefðu miðveldin, Austurríki og bandamenn þess, ekki verið lengi að sigra Frakka og Rússa. Stríðið hefði orðið stutt. Þess í stað var það ekki til lykta leitt, fyrr en Bandaríkjamenn gerðu sömu mistök og Bretar á undan þeim og fóru í stríðið. Afleiðingarnar urðu alræði kommúnista og nasista í Rússlandi og Þýskalandi. Vorið 1940 voru aðeins sex lýðræðisríki eftir í Norðurálfunni, Stóra-Bretland, Írland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss, og áttu undir högg að sækja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.11.2018 - 08:49 - Rita ummæli

Í köldu stríði

Árið 2014 sendi Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, frá sér bókina Í köldu stríði, þar sem hann sagði frá baráttu sinni og Morgunblaðsins í kalda stríðinu, sem hófst, þegar vestræn lýðræðisríki ákváðu að veita kommúnistaríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu viðnám. Íslendingar gengu þá til liðs við aðrar frjálsar þjóðir, sem mynduðu með sér varnarbandalag, Atlantshafsbandalagið. En hér starfaði líka Sósíalistaflokkur, sem þáði verulegt fé frá Moskvu og barðist fyrir hagsmunum Kremlverja. Hélt hann úti dagblaðinu Þjóðviljanum og átti talsverðar húseignir í Reykjavík.

Styrmir hafði njósnara í Sósíalistaflokknum, sem gaf honum skýrslur. Ein skýrslan hefur ekki vakið þá athygli sem skyldi (bls. 123). Hún er frá janúar 1962. Segir þar frá fundi í einni sellu Sósíalistaflokksins, þar sem ónafngreindur námsmaður í Austur-Þýskalandi talaði, og geri ég ráð fyrir, að hann hafi verið Guðmundur Ágústsson, sem seinna varð formaður Alþýðubandalagsfélags Reykjavíkur.

„Skýrði hann frá því að hann stundaði nám við skóla þar sem kennd væri pólitík og njósnir en hann mun hafa annað nám að yfirvarpi. Rétt er að geta þess að áður en [Guðmundur] byrjaði að tala spurði hann deildarformann, hvort ekki væri óhætt að tala opinskátt. Formaður hélt það nú vera. [Guðmundur] skýrði einnig frá því, að í fyrra hefði ekki verið nægilegt fé fyrir hendi til þess að standa straum af kostnaði við þá Íslendinga sem dveldust í Austur-Þýskalandi á vegum flokksins hér og þess vegna hefðu verið tekin inn á fjárlög austurþýska ríkisins (þó ekki þannig, að beinlínis hafi komið fram) 180 þúsund austurþýsk mörk til þess að standa straum af útgjöldum íslenska kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi.“ Enn segir í skýrslunni: „Þá sagði [Guðmundur], að meðal kommúnista í Austur-Evrópu ríki mikil ánægja með Þjóðviljann, sem talið væri eitt besta blað kommúnista á Vesturlöndum.“

Það er merkilegt, að sósíalistarnir á sellufundinum virðast hafa látið sér vel líka uppljóstranir námsmannsins unga. Ekki er síður fróðlegt, að kommúnistar í Austur-Evrópu skyldu hafa talið Þjóðviljann „besta blað kommúnista á Vesturlöndum“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. nóvember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.10.2018 - 22:24 - Rita ummæli

Forsetakjör í Brasilíu

Ríkisútvarpið sendi fréttamann til Rio de Janeiro vegna forsetakjörsins nú í dag. Það er undarlegt. Brasilía er höfuðborgin og São Paulo stærsta borgin. Rio de Janeiro er hins vegar auðvitað skemmtilegasta borgin, eins og ég get trútt um talað, því að ég hef undanfarin ár búið í nokkra mánuði á ári í Rio de Janeiro og tala portúgölsku. Ég hef því haft betri skilyrði en margur annar til að fylgjast með stjórnmálum í Brasilíu. Mér blöskrar, af hvílíkri vanþekkingu talað er um þau á Íslandi, ekki síst í Ríkisútvarpinu. Eru líkur á, að Jair Bolsonaro sigri í forsetakjörinu í dag, en Fernando Haddad tapi. Aðalskýringin á því er, að Verkamannaflokkur Haddads hefur orðið uppvís að ótrúlegri spillingu. Forsetinn 2002–2010, Lula, situr í fangelsi fyrir að hafa þegið mútur. Eftirmaður hans, Dilma Rousseff, var sett úr embætti fyrir að hafa gefið rangar upplýsingar um fjármál flokks síns. Haddad heimsækir reglulega Lula í fangelsið og þiggur hjá honum ráð! Þessir menn kunna ekki að skammast sín. Varaforsetaefni hans er úr brasilíska kommúnistaflokknum. Ef Bolsonaro verður forseti, þá er það aðallega vegna þess, að menn eru að kjósa á móti Verkamannaflokknum. En aðalráðgjafi hans í efnahagsmálum er mjög skynsamur maður, Paulo Guedes. Hér segir frá því, hvaða ráð ég gaf Brasilíumönnum aðspurður í São Paulo á fjölmennri stúdentaráðstefnu á dögunum:

Hannes var spurður, hvaða ráð hann gæti gefið Brasilíumönnum. Hann svaraði því til, að svo virtist sem þrjár nornir stæðu yfir höfuðsvörðum þessarar sundurleitu, suðrænu stórþjóðar, ofbeldi, spilling og fátækt. Brasilíumenn þyrftu að reka þessar nornir á brott, einbeita sér að koma á lögum og reglu, meðal annars með því að herða refsingar fyrir ofbeldisglæpi, og þá myndi tækifærum fátæks fólks til að brjótast í bjargálnir snarfjölga. Aðkomumönnum yrði starsýnt á hina ójöfnu tekjudreifingu í landinu. Ef til vill hefði auður sumra Brasilíumanna skapast í krafti sérréttinda og óeðlilegrar aðstöðu ólíkt því, sem gerðist í frjálsari hagkerfum, en reynslan sýndi, að hinir fátæku yrðu ekki ríkari við það, að hinir ríku yrðu fátækari. Happadrýgst væri að mynda skilyrði til þess, að hinir fátæku gætu orðið ríkari, en með aukinni samkeppni, sérstaklega á fjármagnsmarkaði, myndu hinir ríku þurfa að hafa sig alla við að halda auði sínum. Eitt lögmál hins frjálsa markaðar væri, að flónið og fjármagnið yrðu fljótt viðskila. Skriffinnska stæði líka brasilískum smáfyrirtækjum fyrir þrifum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.10.2018 - 12:00 - Rita ummæli

Hvað sagði ég á Stóru hundaeyju?

Spænska nafnið á eyjaklasanum, sem Spánn ræður skammt undan strönd Blálands hins mikla, er Canarias, en það merkir Hundaeyjar. Dagana 30. september til 5. október 2018 tók ég þátt í ráðstefnu alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pelerin-samtakanna, á Gran Canarias, Stóru hundaeyju. Ég tók tvisvar til máls, fyrst á morgunverðarfundi um stjórnmálaviðhorf í Rómönsku Ameríku. Sú skoðun er algeng þar syðra, að velgengni Norðurlanda sé að þakka jafnaðarstefnu. Ég vísaði því á bug. Þessa velgengni mætti aðallega skýra með traustu réttarríki, frjálsum alþjóðaviðskiptum, ríku gagnkvæmu trausti og samheldni í krafti samleitni, rótgróinna siða og langrar, sameiginlegrar sögu.

Á málstofu um aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði sagði ég, að vissulega væri til frjálslynd þjóðernisstefna, sem miðaði að því að færa valdið nær fólki og reist væri á sterkri þjóðernisvitund. Norðmenn hefðu sagt skilið við Svía 1905, af því að þeir væru Norðmenn, ekki Svíar. Íslendingar hefðu ekki verið og vildu ekki vera Danir með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu þjóð, og þess vegna hefðu þeir stofnað fullvalda ríki 1918. Hins vegar þyrfti þjóðernisvitundin að dómi frjálshyggjumanna að vera sjálfsprottin frekar en valdboðin. Þjóðin skilgreindist umfram allt af vilja hóps til að deila hlutskipti. Hún væri dagleg atkvæðagreiðsla, eins og franski rithöfundurinn Ernest Renan hefði sagt. Ég vitnaði í því sambandi líka í þá athugasemd breska stjórnmálahugsuðarins Edmunds Burkes, að land þyrfti að vera elskulegt, til þess að íbúar þess gætu elskað það.

Dæmi um eðlilega og æskilega þjóðernisvitund eru Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistlendingar, Lettar og Litháar. Þeir eru ekki og vilja ekki vera Rússar. Norðurálfan er full af þjóðarbrotum, sem hafa ekki unað sér vel innan um stærri heildir. Eins og fyrri daginn væri lausn frjálshyggjumanna að færa valdið nær fólkinu. Íbúar Álandseyja hefðu nú sjálfstjórn og væru hinir ánægðustu innan Finnlands, þótt þeir töluðu sænsku. Ítalir hefðu síðustu áratugi komið svo langt til móts við íbúa Suður-Týrols, sem slitið var af Austurríki 1918, að fáir hefðu þar lengur áhuga á aðskilnaði. Þessi fordæmi kynnu að vera gagnleg Skotum og Katalóníumönnum, ef þeir vildu ekki ganga alla leið eins og Norðmenn 1905, Íslendingar 1918 og Slóvakar 1993.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. október 2018. Á myndinni er ég með dr. Barböru Kolm frá Austurríki.)

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.10.2018 - 10:48 - Rita ummæli

Bankahrunið: Svartur svanur

Í dag eru tíu ár liðin frá bankahruninu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið „svartur svanur“, eins og líbanski rithöfundurinn Nassem Taleb kallar óvæntan, ófyrirsjáanlegan atburð, sem er engum að kenna, heldur orsakast af því, að margt smátt verður skyndilega eitt stórt.

Það fór saman, að sölu ríkisbankanna lauk í árslok 2002 og að þá fylltist allur heimurinn af ódýru lánsfé vegna sparnaðar í Kína og lágvaxtastefnu bandaríska seðlabankans. Jafnframt nutu íslenskir bankar hins góða orðspors, sem íslenska ríkið hafði aflað sér árin 1991-2004, svo að þeim buðust óvenjuhagstæð lánskjör erlendis. Þrennt annað lagðist á sömu sveif. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið höfðu bankarnir fengið aðgang að innri markaði Evrópu; nýir stjórnendur þeirra höfðu aldrei kynnst mótvindi og gerðu því ráð fyrir góðu veðri framvegis; og eigendur bankanna áttu langflesta fjölmiðla og bjuggu því ekki við aðhald. Afleiðingin af öllu þessu varð ör vöxtur bankanna við fagnaðarlæti þjóðarinnar. Þeir uxu langt umfram það, sem hið opinbera hafði tök á að styðja í hugsanlegum mótvindi.

En útþensla íslensku bankanna olli gremju keppinauta þeirra í Evrópu og tortryggni evrópskra seðlabankastjóra, sem töldu hana ógna innstæðutryggingum og litu óhýru auga, að íslensku bankarnir nýttu sér í útbúum á evrusvæðinu lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu eins og aðrir evrópskir bankar utan evrusvæðisins (til dæmis breskir) gerðu. Ákveðið var í fjármálakreppunni að veita Íslandi enga aðstoð. Við þetta bættist stjórnmálaþróunin í Bretlandi. Þar óttaðist Verkamannaflokkurinn uppgang skoskra þjóðernissinna, sem fjölyrtu um „velsældarboga“ frá Írlandi um Ísland til Noregs og sjálfstætt Skotland framtíðarinnar færi undir. Stjórn Verkamannaflokksins ákvað í fjármálakreppunni að loka tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, á meðan hún jós fé í alla aðra banka landsins. Þetta leiddi til falls Kaupþings. Stjórnin bætti síðan gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum að þarflausu gegn Íslendingum og siga á þá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Velsældarboginn breyttist í gjaldþrotaboga, eins og Alistair Darling orðaði það síðar.

Bandaríkjastjórn sat aðgerðalaus hjá, enda var Ísland nú ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í hennar augum. Íslands óhamingju varð allt að vopni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. október 2018.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir