Laugardagur 02.02.2019 - 11:44 - Rita ummæli

Ragnar Árnason

Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 verður Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, sjötugur. Hann er í röð fremstu fræðimanna Háskóla Íslands og ráðgjafi ríkisstjórna um heim allan á sérsviði sínu.

Af mörgu er að taka, en ég staldra einkum við tvö verk Ragnars. Annað er fræg ritgerð í Canadian Journal of Economics árið 1990, Minimum Information Management in Fisheries. Þar leiðir höfundur rök að því, að ýmsar þær aðferðir, sem stungið hafi verið upp á til að leysa samnýtingarvandann í fiskveiðum, krefjist meiri þekkingar en völ sé á. Hins vegar sé kerfi framseljanlegra aflakvóta tiltölulega einfalt í framkvæmd.

Hitt verkið er tvær rækilegar skýrslur, sem Ragnar átti aðalþáttinn í að semja fyrir Alþjóðabankann og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna árin 2009 og 2017, kenndar við Sunken Billions. Þar er bent á, að stórkostlegum verðmætum er kastað á sæ, af því að úthafsveiðar eru víðast stundaðar með of miklum tilkostnaði. Er mat Ragnars, að árleg sóun í sjávarútvegi heims sé á bilinu 51 til 105 milljarðar Bandaríkjadala.

Það er ekki síst ráðgjöf Ragnars að þakka, að í íslenskum sjávarútvegi hefur þróun komið í stað sóunar. En afmælisbarnið hefur skrifað um ýmis önnur efni, þar á meðal snjalla greiningu á jöfnunaráhrifum tekjuskatts, jafnvel þótt flatur sé. Ragnar er líka afburðafyrirlesari, skýr og rökvís. Á næstu dögum verður vinum hans og velunnurum boðið að rita nöfn sín á heillaóskalista í afmælisriti með helstu fræðigreinum hans, sem koma á út næsta vor, og þá heldur Félagsvísindasvið Háskóla Íslands einnig alþjóðlega ráðstefnu honum til heiðurs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. febrúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.

Verk hans, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, 992 bls. tilvitnanasafn, var gefið út af Bókafélaginu í nóvemberbyrjun 2010. Árið 2009 komu út eftir hann 828 blaðsíðna þýðing á Svartbók kommúnismans (Livre noir du communisme) á vegum Háskólaútgáfunnar og 160 bls. bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem Bókafélagið gaf út.Nýjustu verk hans eru Íslenskir kommúnistar 1918–1998, 624 bls. myndskreytt ágrip af sögu íslensku kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar allt til endaloka Alþýðubandalagsins, sem Almenna bókafélagið gaf út 2011, og The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út 2015. Hann vinnur nú að skýrslu á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir