Nú vinna leiðtogar þeirra þriggja flokka, sem juku mest fylgi sitt í þingkosningunum 30. nóvember 2024, að stjórnarmyndun, þær Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland. Samsteypustjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins undir forsæti Kristrúnar er vissulega annar af tveimur rökréttum möguleikum eftir kosningarnar. Hinn er samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Í rauninni ræður Viðreisn því, hvor möguleikinn verður að veruleika, en hún virðist afhuga samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk, þótt skammt sé milli flokkanna þriggja í efnahagsmálum.
Á Íslandi hafa stjórnarmyndanir þó iðulega verið eins og langdregin leikrit, sem stjórnmálaflokkar setja á svið til þess að þurfa ekki að efna gáleysisleg loforð. Stundum hafa þær tekið óvænta stefnu, þegar hefur komið að vali forsætisráðherra. Til dæmis gátu þeir Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, og Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvorugur unnt hinum þess að skipa öndvegi árið 1947, og varð því leiðtogi minnsta flokksins, Alþýðuflokksmaðurinn Stefán Jóhann Stefánsson, forsætisráðherra. Svipað gerðist árið 1978, þegar sigurvegarar kosninganna það ár, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, gátu hvorugur sætt sig við stjórnarforystu hins, svo að Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, myndaði stjórn með þeim, þótt flokkur hans hefði goldið afhroð.
Nú er hins vegar ljóst, að valið er milli Kristrúnar og Bjarna og langlíklegast, að Kristrún myndi stjórn. En um hvað?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2024.)
Rita ummæli