Laugardagur 15.03.2025 - 21:53 - Rita ummæli

Ný forysta Sjálfstæðisflokksins

Full ástæða er til að óska nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins til hamingju, formanninum, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, og varaformanni, Jens Garðari Helgasyni. Við þau eru miklar vonir bundnar. Eflaust hafa þau bæði notið þess hjá landsfundarfulltrúum að koma úr atvinnulífinu, en einn munurinn á Sjálfstæðisflokknum og hinum stjórnmálaflokkunum er, að hann styður öflugt atvinnulíf öllum í hag. Skapa þarf verðmætin, áður en þeirra er notið.

Ég gef þeim Guðrúnu og Jens Garðari tvö ráð. Annað er, að þau láti sig varða skoðanamyndun í landinu, en um hana hafa sjálfstæðismenn verið undarlega áhugalitlir. Í háskólum landsins og á ríkisfjölmiðlum er rekinn skefjalaus áróður fyrir vinstri stefnu. Auðvitað eiga vinstri menn að hafa fullt frelsi til að boða hugmyndir sínar. En það á ekki að vera á kostnað skattgreiðenda. Því miður nýtti Sjálfstæðisflokkurinn ekki það færi, sem hann hafði árið 2013, eftir að vinstri flokkarnir höfðu beðið greipilegan ósigur, til að tryggja eðlilegt jafnvægi í miðlun upplýsinga, sérstaklega í Ríkisútvarpinu, sem er þó skylt að lögum að gæta sanngirni. Þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fóðra þá, sem bíta hann?

Hitt ráðið er, að þau Guðrún og Jens Garðar geri sér grein fyrir, að hin raunverulega stéttabarátta á Íslandi er ekki háð á milli auðmagns og verkalýðs, eins og marxistar halda fram, heldur á milli hinna vinnandi og hinna talandi stétta. Þau koma sem betur fer bæði úr röðum hinna vinnandi stétta. En hinar talandi stéttir, sem hittast iðulega á fjölmennum og löngum fundum til að masa um, hvernig skipta megi þeim verðmætum, sem aðrir hafa skapað, hallast auðvitað til vinstri. Það ber dauðann í sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fjölga opinberum starfsmönnum og styrkþegum. Með því er hann aðeins að fjölga kjósendum vinstri flokka. Þá er hann enn að fóðra þá, sem bíta hann.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. mars 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir